4.6.07

Vistaskipti

Ég hef tekið ákvörðun um að flytja bloggið mitt yfir á moggabloggið. Loks tel ég mig hafa fundið bloggkerfi á íslensku sem mér líkar við. Þetta gamla góða fær þó að vera uppi eitthvað áfram en verður líklega ekki uppfært á næstunni.

Nýja slóðin er http://ormurormur.blog.is/ svo endilega kíkið þangað. Þar er ég líka komin með myndaalbúm með skartgripunum sem ég er að dúlla mér við.

31.5.07

Perluæði

Á morgun föstudag ætlum við vinkonurnar að vera með bás í Mjódd og selja handunna skartgripi. Vorum um daginn með litlum árangri en lítum björtum augum til mánaðarmótanna. Vantar ykkur ekki skartgripi? Gott til gjafa og bara að skreyta sig með. Allir að kíkja við og kíkja á perluvinkonurnar :-)

Það fór sem mér datt í hug. Ég fékk grænan miða á bílinn. Pústið var ekki nógu þétt til að hægt væri að mengunarmæla hann. Mátti svo sem vel vita það. Mig vantar að vinna í lottó á morgun svo ég geti keypt draumabílinn með lyftu fyrir hjólastólinn.......

Annars fór dagurinn meira og minna í stærðfræði með Heklunni minni. Verð að finna annan tíma fyrir Gambíusöfnunina. Smá félagamálastúss en aðallega heilabrot. Það er erfitt að hjálpa krökkum í dag í stærðfræði þar sem ekki má nota gömlu aðferðirnar sem hafa dugað síðustu kynslóðum. En vonandi gengur henni vel á morgun hef svo sem ekki trú á öðru enda vel gerð stúlka og samviskusöm.

Er enn að prófa mig áfram með moggabloggið, bætti við nokkrum tenglum

bloggspekuleríngar

Ég var í einu enn bloggleiðangrinum áðan og fór þá að hugsa hvers vegna svona margir eru farnir að flytja sig yfir á moggabloggið? Ég prófaði það fyrir rúmu ári og leist alls ekkert á það. En ætla að kíkja aðeins á það betur. Er ekkert farin héðan langt í frá bara vildi heyra hvað ykkur finndist. Hvaða blogg kerfi er best ? skrifa nú í kommentin

moggabloggið mitt er www.ormurormur.blog.is

Fann meira að segja stórvin minn Grétar Pétur sem er farinn að blogga þar.

29.5.07

Vorferðalag

Hátúnshópurinn minn skellti sér með rútu í vorferðalag austur í Fljótshlíð og Emstur. Við fengum einmana veðurblíðu og nutum dagsins og útsýnisins. Að sjálfsögðu fengum við okkur súpu eins og alla aðra þriðjudaga. Stoppuðum í Kaffi Langbrók þar sem sannur víkingur og hans frú tóku á móti okkur með þessarri dásamlegu kjötsúpu.


Hann flutti okkur svo rímur og ýmsan kveðskap meðan við snæddum. Fórum svo og skoðuðum með honum hof sem hann er að byggja að gömlum sið. Þrír fallegir minkahundar heilluðu okkur alveg og ekki síst Stefaníu.

Góður dagur í góðum félagsskap :-)

28.5.07

Ferming

Fór í gær norður á Hvammstanga í fermingu hjá honum Helga Jóhannssyni. Syni Jóhanns Indriða Kristjánssonar sem er sonur hennar Auðar Jónsdóttir sem er dóttir Iðunnar heitinnar Bjarkar sem var systir hans Ödda míns.

Já eitthvað er ættfræðin nú flókin en hann Jói er nú einn af okkar nánustu fjölskyldumeðlimum þó blóðið segi nú kannski eitthvað fjarlægara. Þetta var stórglæsileg fermingarveilsla í safnaðarheimilinu. Og ekki skánaði nú ættartengslin þegar maður fór að spá í hver væri skyldur hverjum. Hann Helgi minn er ríkur strákur á 7 systkini og tvenn pör af foreldrum, fóstursystkini og ættingja úr öllum áttum. Sem sagt íslensk stórfjölskylda eins og hún gerist best. Og allir í sátt og samlyndi eins og það á að vera.

Það var æðislegt að fá loks að hitta norðurlegg fjölskyldunnar, hittumst alltof sjaldan hin seinni ár. Ekki spillti veðrið deginum og ánægujulegt ferðalag. Fleiri myndir úr fermingunni má sjá hér.


26.5.07

Kleppur er víða

Ó já er soldið hugsi eftir 100 ára afmæli Kleppsspítala þeirrar merku stofnunar, þar sem haldið var upp á afmælið með glæsibrag en með miklum fordómum að mínu mati.

Þeir héldu m.a. tveggja daga ráðstefnu stórglæsilega á Grand Hóteli með mikið af merkum fyrirlesurum. En árið er 2007 og það er eins og þeir sem eru í þessari afmælisnefnd hafi ekki verið með í þjóðfélaginu síðustu kvartöldina eða svo. Jú kíkið á auglýsinguna fyrir ráðstefnuna http://www4.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/htmlpages/index2.html#frettir_3863 og lesið neðst. "Starfsfólk geðsviðs og fagfólk utan LSH velkomið" !!!

Hvað með notendur og aðstandendur. Þeir eru ekki velkomnir eftir þessari auglýsingu að dæma, reyndar sé ég í mogganum í dag að eitthvað eru þau farin að skammast sín og þar segir á öðrum degi ráðstefnunnar að allir séu velkomnir.

Ef þetta eru ekki fordómar þá veit ég ekki hvað og verð að segja að ég er mjög móðguð fyrir hönd okkar notenda og okkar sem hafa staðið í baráttunni síðasta áratuginn.

Ég var samt á Kleppi (ekki Grand) í dag í glæsilegri afmælisveislu sem öllum var boðið velkomið að koma. Ég var með kynningarbás að kynna Vin. Fór svo á málþing um fordóma. Flott málþing en einhvernveginn ekki í takt við það sem aðrir á spítalanum eru að gera.

Ég segi bara Kleppur er víða og það fyndna við þetta er að yfirskrift Grandráðstefnunnar er Kleppur er víða.

25.5.07

Cusco

Hef verið hálf slöpp í dag eins og næstum bensínlaus. Afreka lítið og heilinn í mauki þó ekki eins og í House. Nema það sé kannski smitandi..................

Palli og Frosti biðja að heilsa frá Cusco í Perú. Þeir eru búnir að fá háfjallaveiki og drullu :-) En eru orðnir góðir og skemmta sér vel. Iss held þeim hefði verið nær að vera bara á Fróni

Æ nei meinti það ekki.

Allir að mæta í 100 ára afmæli Klepps á morgun

24.5.07

Kveðja frá s. Afríku

Villi bróðir hringdi kátur og hress frá S. Afríku í dag og biður kærlega að heilsa öllum. Þar er kominn vetur og snjór í fjöll eins og hér þó hér eigi að heita sumar.

Palli er í Perú, Stebbi í Noregi og Sigrún í Danmörk. Meiri heimshornaflakkararnir þessi systkini mín. Ég fór þó út úr bænum í kvöld alla leið í Kópavog á fína tónleika hjá Samkór Kópavogs þar sem Olla mágkona var að syngja. Þar frétti ég að hún hefði verið að kaupa hús í Mosó í dag tilbúið undir tréverk. Næg verkefni framundan á þeim bæ.

Hannes og Prisella eru búin að koma sér fyrir í Hátúninu og hlakka ég til að kíkja til þeirra.

Allt stefnir í að ég fari í fermingu á Hvammstanga um helgina :-) Hann Helgi hans Jóa á að fermast.

Svo ætla ég að stefna á vinagrill um helgina líka og kannski mikla spilamennsku líka. hver veit hvernig það endar.