28.12.04

Gleðilegt ár og takk fyrir það liðna


Kæru vinir og aðrir bloggarar ég ætla að nota tækifærið og þakka ykkur fyrir innlitið á árinu. Og óska ykkur velfarnaðar á nýju ári. Tölvan mín er að fara í exstreame makeover svo nú verður stutt hlé á blogginu fram yfir áramót. Held svo áfram á nýju ári með nýjum ævintýrum. Allt stefnir í að það verði rólega áramót hjá mér þetta árið.

27.12.04

Húrra fyrir Lovísu Lilju

Frábært eins og þið vitið sem hafið fylgst með hér á blogginu skoraði ég á fjölskylduna að bætast í blogghópinn, ýmsir eru að hugsa sinn gang eftir því sem mér heyrist. Lovísa Lilja dóttir Villa bróðir er búin að taka áskoruninni og set ég linkinn hennar inn. Til hamingju Lovísa.

Palli segist ekki mega vera að þessu en hann heldur úti heimasíðu Íslenska fjallahjólaklúbbsins. Frosti heldur úti heimasíðunni Gayice. Þannig að fjölskyldan er nú ansi mikið á netinu greinilega. Vonandi koma þó fleiri bloggsíður fjótlega.

Nú eru hátíðisdagarnir á enda og hversdagurinn tekinn við. Jólin voru mjög góð hjá mér liðu alveg átakalaus í hömlulausu áti og fjölskylduboðum. Á aðfangadagskvöld var allt mjög hefðbundið og notalegt. Borðuðum góðan mat tókum upp pakka og borðuðum aðeins meira. Ég fékk nokkrar góðar gjafir og er afskaplega þakklát fyrir að hafa fjölskylduna hjá mér. Seinna um kvöldið fórum við svo öll til Sigrúnar Ósk og fjölskyldu og þar ver tekið upp enn meira af pökkum. Það voru mikil pakkajól hjá Heklu og Bryndísi.

Á jóladag var svo jólaboð hjá Ödda fjölskyldu við sáum um aðalréttinn það voru um 20 manns, allir mættir í ættleggnum nema einn en aðrir bættust bara við í staðinn gott mál. Eftir matinn var svo spilað fram eftir kvöldi eins og siður er hjá þeirri fjölskyldu.

Þegar heim var komið þurfti ég svo að lúta í lægra haldi fyrir grindarpúkanum hann er ekki tilbúinn að standa yfir pottum tvo daga í röð og elda stórmáltíð. Jæja en ég náði aftur völdum á annan dag jóla og hef tekið það rólega síðan gerði mest lítið nema narta í mat og konfekt.

Framundan er svo enn meiri afslöppun og að hlaða batteríin fyrir næstu törn sem hefst 3. jan en þá fer Halaleikhópurinn að æfa Kirsuberjagarðinn, svo byrjar skólinn þá viku líka og fljótlega upp úr því fer Leikfélagið Gunnar líka af stað svo nú verður að velja og hafna. Einnig er í þeirri viku fundur í félagsmálanefnd Sjálfsbjargar þar sem sennilega fer allt á fullt skrið, svo byrjar líka Boocia liðið mitt að æfa aftur ofl. ofl. svo ekki veitir af að slaka á nú meðan tækifæri gefst.

24.12.04

Gleðileg jól



Kæru vinir og aðrir bloggarar ég óska ykkur Gleðilegra jóla og blessunar yfir hátíðinar set hér inn slóð á Jólaguðspjallið
Megi friður vera með ykkur

Hugleiðing um jólahefðirnar

Nú eru jólin alveg að sigla inn allt er tilbúið eða þannig. Desember hefur verið góður þetta árið hjá mér. Ekkert stress og bara tóm gleði við jólaundirbúninginn þó heilsan hafi verið að stríða mér ferlega þá var það bara eitthvað sem ég mátti búast við eftir annasaman nóvember.

Ég hef ekki alltaf getað sagt þetta þar sem ég kem úr alkóhólískri fjölskyldu þá var þetta oft á árum áður einn mesti kvíðamánuðurinn, maður var að lesa í allskyns hegðun og munstur sí og æ og naut sín engan veginn. Alltaf komu jólin þó ýmislegt gengi á og þau voru misgóð stundum slæm. Merkilegt hvað maður heldur lengi í slæmu minningarnar en gleymir hinu góða.

Fyrir nokkrum árum fór ég í fimm ára geðmeðferð þar sem ég tókst á við mikið þunglindi og kvíðaröskun sem hafði plagað mig lengi. Þar lærði ég að sleppa tökunum á slæmu minningunum og taka gleðina inn í hjarta mitt á ný. Frábær meðferð sem aðeins útvaldir sjúklingar fengu á þessum tíma og er eftir því sem ég veit best aflögð í dag. Nú þarf víst að lækna fólk í einum hvelli og skila arði. Hef aldrei skilið hvernig það gengur með sálarleg veikindi. Enda er ástandi í geðheilbrigðismálum eftir því.

Jæja en ég var heppinn fékk þessa meðferð og hún heldur enn tveimur og hálfu ári eftir að ég útskrifaðist. Ég lærði hvernig ég á að haga lífi mínu með tilliti til minna veikinda og gengur það bara nokkuð vel, þó ýmislegt mætti ég enn bæta í mínu fari en engin áramótaheit hér og nú. En af hverju fer ég að tala um þetta núna jú það eru að koma jól og mig hlakkar svo til í stað þess að vera full kvíða. Ég hef lært að þó ýmislegt breytist milli ára og þó vandi sé hér og þar þá er alveg hægt að njóta augnabliksins.

Jólahefðirnar eru með ýmsu móti en þegar um börn alkóhólista er að ræða þá eru þær oft haldreipið sem maður heldur fast í þó svo alkóhólisminn sé farin úr lífi manns þá halda þær áfram að vera mikilvægur öryggisventill. En svo breytist nútímafjölskyldan frá ári til árs og við þurfum að sýna aðlögunarhæfileika líka með jólahefðirnar.

Í ár hefur mín nánasta fjölskylda aðeins breyst. Dóttir mín Sigrún Ósk fór aftur að búa með barnsföður sínum honum Bjarna og er það bara frábært óska ég þeim bara gæfu og gengis í lífinu. Þau ætla að halda sín jól á sínu heimili með dætrum sínum og er það bara gott mál þó ég sakni þess ansi mikið að hafa þau ekki hjá mér, þetta er spurningin um að sleppa tökunum á börnunum sínum. Ég kíki bara í kaffi til þeirra seinna um kvöldið og fæ að knúsa þau.

Villi bróðir og Guðmundur mágur eru fluttir alfarnir til Suður-Afríku en með þeim hef ég átt ansi miklar jólahefðir og áramótahefðir síðustu árin en þá er bara að búa til nýjar hefðir. Til dæmis fór ég alltaf með þeim og áttum góða stund í kirkjugarðinum við hin ýmsu leiði. Palli bróðir fór með mér í það í gær ásamt Ödda og Ingimar Atla. Svo var nú vaninn að stinga sér á kaffihús í jólaösinni í 101 en það varð ekkert af því í ár. Átti í staðinn góða stund á kaffihúsi í Smáranum með fjölskyldunni og líka vinum nokkrum sinnum í desember.

Svo bættist einn fjölskyldumeðlimur við hann Frosti vinur hans Palla og bíð ég hann hér formlega opinberlega velkominn í fjölskylduna og hlakka mikið til að eyða góðum stundum með honum áfram eins og ég er búin að gera mest allt þetta ár. Hann ætlar að borða með okkur í kvöld og er meira en velkominn.

Það er sem ég segi bara að búa til nýjar hefðir þegar þær gömlu ganga ekki upp lengur. Og njóta jólahátíðarinnar í botn hvað svo sem hún hefur upp á að bjóða. Halda í góðu tilfinningarnar og sleppa tökunum á því sem hryggir mann og dregur niður. Það er hægt að stjórna eigin líðan mjög mikið með því að beina hugarfarinu inn á jákvæðar og uppbyggjandi slóðir.

Vá ég hef fengið skrifkast en eigi þið öll Gleðileg jól og takk fyrir að heimsækja síðuna mína. Gaman væri að fá comment öðru hverju, leiðbeiningar eru í bloggi frá 2. des sl.

22.12.04

Bloggæðið er ansi smitandi

Í dag var ég að stússast með dóttir minni og stjúpdóttur hennar henni Bryndísi, kíktum í nokkrar búðir meðan Hekla var geymd hjá afa sínum. Fór svo í sjúkraþjálfun og var pínd ansi hressilega átti það víst skilið eftir vinnulotuna.

Annars gengur jólaundirbúningurinn bara mjög vel hjá okkur í Húsinu á Sléttunni. Allt að verða tilbúið og komnir hellingur af pökkum undir tréð og kortum í jólapokann. Bara eftir að fylla á ískápinn og stilla útvarpið á jólamessuna.

Mér finnst allataf yndisleg stund þegar útvarpsmessan byrjar kl 6 á aðfangadagskvöld. Þó ég hlusti nú ekki af ákefð þá finnst mér fínt að hafa hana í bakgrunninum. Maður er svo fastur í gömlum hefðum, svona var þetta á mínu bernskuheimili og svona hef ég þetta alltaf ef ég mögulega get. Mig hlakkar mikið til jólanna Palli bróðir og Frosti ætla að borða hjá okkur hjónunum og Ingimar við ætlum að hafa innbakaða nautalundir eins og við gerðum í fyrra og tókst mjög vel. Namm namm fæ munnvatn í munninn af tilhugsuninni.

Jæja en dóttir okkar var að uppgötva að við hjónin erum bæði með bloggsíður og dreif í að gera eina slíka líka og svo heimtaði Hekla líka síðu nú bíðum við bara eftir að Ingimar setji líka upp bloggsíðu.

Þau ásaka okkur börnin okkar um að hafa ekki verið látin vita af þessu fyrr. Bull og vitleysa segi ég nú þau hlusta bara ekki nógu vel á gömlu hjónin. Skildi það stafa af of miklu nöldri gegnum árin eða eru þau með elliglöp? Hvað haldið þið?

Set hér inn linkana á fjölskyldublogginu hér til hliðar. Linkarnir hjá Hölunum eru orðnir ansi margir og er það bara flott en VARÚÐ ný regla no. 1 Ef einhver sem ég er með link inná bloggar ekki í mánuð verður hann settur út þar til hann endurnýjar bloggið. Tekur gildi frá og með 15. janúar 2005.

Annars hlakka ég mikið til að fylgjast með fjölskyldublogginu og skora hér á Stebba, Sigrúnu Jónu, Steen, Ingimar Atla, Lovísu, Abraham, Guðmund, Palla og Frosta að byrja að blogga sem og aðra fjölskyldumeðlimi vítt og breytt um heiminn. Ef þið eruð þegar að blogga endilega sendið mér þá slóðir.

19.12.04

Góð helgi

Hekla jólastelpa og hrekkjótti afinn hennar við jólatréð og aðventukransinn



Jibbý jei ég fékk mandarínu í skóinn og var svo glöð :-) Skyrgámur er nú uppáhaldssveinkinn minn. Trixið er að setja hægri skóinn í gluggann það þrælvirkar eða svo segir Hekla og ekki lýgur hún. Sem er annað en má segja um afa hennar eins og sjá má á nýju bloggsíðunni hans Arnarhreiðrinu.

Þetta hefur verið hin ljúfasta helgi hjá mér. Fór í gær í Smáralindina með Ödda og Heklu hitti þar fullt af vinum sem við eyddum nokkru klst. með. Rápuðum milli verslana, keyptum ýmislegt og skoðuðum annað. Fórum á jólaball og út að borða allt undir sama þakinu.

Þegar heim var komið var svo jólatréð sett upp og skreytt með diggri að stoð Ingimars og Heklu. Jón vinur minn kíkti í heimsókn með jólagjafir gott að fá hann yfir en hann býr í næsta húsi við mig en hefur aldrei komið áður. Villi bróðir hringdi svo frá Afríku það var gott að heyra í honum. Skora á ykkur að kíkja á bloggið hans.

Í dag var svo föndrað aðeins meira Hekla var að klára að gera jólagjafir til foreldra sinna. Fórum í heimsókn á neðri hæðina til Hjalla og Guggu og Halla fengum heimalagað bakkelsi að vestfirskum sið. Eftir að við skiluðum svo prinsessunni seinnipartinn var skundað í Bónus og ískápurinn fylltur og ýmislegt annað fer nú að sofa sæl í sinni og með hægri skóinn út í glugga og vona að Bjúgnakrækir kíki við.

17.12.04

Óvænt prik

Það kom að því sem ég hélt aldrei ætti eftir að gerast, Davíð Oddson fær prik hjá mér fyrir framgöngu sína í máli Bobby Fishers. Batnandi mönnum er best að lifa en honum tókst nú að klúðra viðtalinu við blaðamenn þegar hann fór að tala um alla vitleysingjana á Íslandi. Jæja en eitt prik.

Í dag fór ég á Litlu Jólin í Vin og átti þar góða stund með vinum mínum Jóna Hrönn kom og las upp fyrir okkur jólavísur undir borðhaldi og svo kom hljómsveit og spilaði jólamúsík. Hátíðlega og notaleg stund ekki síst fyrir þær sakir að ein fyrrverandi fastagestur Vinjar bauð upp á matinn komplett Hangikjet með öllu hugsanlegu meðlæti og eftirrétt rausnarlegt það. Sá vinur vill ekki láta nafns síns getið en hefur náð sér vel af þunglyndi sem hrjáði hann í mörg ár og er kominn í góðar álnir. Vildi tjá þakklæti sitt með þessum hætti. Frábært takk fyrir mig.

Í kvöld fór ég svo með mínum heittelskaða á skólaslit í Fjölmennt. Þar var mikil músík og fínerí að hætti hússins, mikil uppskeruhátíð. Það sem bar aftur á móti skugga á var að stjórnvöld hafa enn ekki gefið svar við áframhaldandi fjárveitingu fyrir þennan mikilvæga skóla. Öllum þingmönnum og ráðherrum var boðið í kvöld en ekki einn einasti mætti. Fussum svei segi ég bara við þá herra og frúr sem eru ekki að standa sig í stykkinu..............

Ég var næstum búin að skrifa hér mikla skammarræðu og nöldur en ákvað að hemja skassið og muna jólaskapið. Skrifa örugglega um þetta og fleira neikvætt sem ég hef verið að pæla í eftir jól. Bannað að draga eitthvað neikvætt upp ef hægt er að komast hjá því. Það er vika til jóla og tvær vikur til áramóta og 17 dagar í að Halaleikhópurinn fer á fullt í Kirsuberjagarðinn <:-)

16.12.04

8 dagar til jóla

Ég er í sjöunda himni var að sækja einkunnirnar og púlið hefur skilað sér fékk eina sjöu fjórar níur og tvær tíur. Betra getur það varla orðið hjá ellismellnum með unglingaveikina.

Er annars bara í jóladúlli þessa dagana, fór í gær eftir sundleikfimina og hlustaði að nokkra rithöfunda lesa upp úr bókum sínum niðrí Vin. Hátíðleg og notaleg stund í frábærum félagsskap.

Fór svo í heimsókn til Sigrúnar og Heklu. Kippti einni tönn úr henni tími til kominn þar sem fullorðinstönnin var komin fyrir þó nokkru síðan á bakvið. Vorum að pæla í jólafötum og duttum niður á hagkvæma lausn fyrir budduna.

Ingimar sonur minn var líka að fá einkunnirnar sínar sem voru mjög fínar og gladdi það okkur hjónakornin mjög.

Ef ekki er tilefni til hátíðarhalda í kvöld þá veit ég ekki hvað.

14.12.04

Hver er við stjórnvölinn?

Síðustu daga hef ég verið að taka afleyðingum af vinnutörninni í lok skólans. Er búin að vera full af vöðvabólgu, vefjagigtin á hástigi og Mígreniköstin fleiri en ég get talið. Auðvitað vissi ég alveg að þessu mætti búast við en var að vona að ég fengi frið.

Fyrir nokkrum árum tók ég þá ákvörðun að láta ekki verki og vanheilsu stjórna lífi mínu og hefur það gengið nokkuð vel á köflum svo koma slæmu kaflarnir á milli og eru hreint helvíti en þá er bara að muna hver stjórnar. Ég er búin að vera að reyna að vera skynsöm og slaka á og hafa það notalegt enda ekkert stress í gangi á mínum bæ fyrir þessi jól.

En ég er einu sinni þannig gerð að ég er með ofvirkan heila og er alltaf að fá einhverjar hugdettur um að gera þetta og hitt. Skil ekki af hverju ég er ekki sköpuð með heila í stíl við líkamlega færni. Jú jú ég gæti verið duglegri við að hugsa um skrokkinn en jæja nú er ég komin í tóm leiðindi. Ég hef sem sagt verið önnum kafin undanfarna daga við að gera ekki neitt. Búin að skreyta hátt og lágt og þó ekki búin að setja upp jólatré enn. Sit og sauma út, föndra og ýmislegt smálegt.

Keypti fyrstu jólagjöfina í dag fyrir hann Jón vin minn sem bíður spenntur eftir að fá pakka frá mér en þar sem hann á enga fjölskyldu sem hann er í tengslum við þá ákváðum við í sumar að ég yrði bara fjölskyldan hans. Hann er yndislegur og mig hlakkar mikið til að fá pakka frá honum.

Ég hef enn ekki þorað að eiga við bakaraofninn eftir síðust uppákomu en hver veit hvað gerist næstu daga.

Jólasveinarnir hafa enn ekki sett neitt í skóinn minn en ég fer snemma að sofa og held í vonina. Í nótt er von á Þvörusleiki, kannski ég laumi einhverju gómsætu á sleif út í glugga.

12.12.04

Heiðursmerki og jólasveinar

Í gærkveldi varð ég orðlaus af undrun en stolt og hissa. Svona metur maður sjálfan sig stundum öðru vísi en aðrir. Ég var sem sagt sæmd heiðursmerki Íþróttasambands Íslands ásamt fleiri félögum mínum í Trimmklúbb Eddu á Litlu jólunum okkar. Sigurður Magnússon sem er forvígismaður að íþróttum fatlaðra heiðraði okkur með þessu þar sem við erum svo frábærar og gott fordæmi fyrir aðra. Takk fyrir Sigurður og Edda Bergmann. Ég sem kem úr þessari miklu antisportista fjölskyldu en hef svo sem verið að dunda mér við ýmislegt íþróttastúss undanfarin ár, þó ekki sjáist það nú á vextinum, sem er svo allt önnur Ella.

Stekkjastaur kom ekki til mín í nótt svo nú treysti ég bara á Giljagaur sem kemur til byggða í nótt.
Hér eru slóðir á nokkrar jólasveinasíður:
http://julli.is/jol/jolasveinarnir.htm
Allt um jólasveinana á jólavef Júlla þar á meðal uppáhalds jólakvæðið mitt eftir Jóhannes úr Kötlum Jólasveinakvæði sem segir manni allt um sveinana 13 og foreldra þeirra.

http://jol.ismennt.is/jolasveinakvaedi-ragnar2002.htm
Nútímajólasveinninn hans Ragnars Eyþórssonar af jólavef Salvarar: Gekk-á-staur, Gemsagaur, Lagstúfur, Fjarstýringafelir, Veggjaníður, Reykjablæsir, Hurðadældir, Græjuglamur, Tyggjóklínir, Símaníðir, Svitaþefur, Vírus-sendir og Snúruflækir.

http://jol.ismennt.is/jol96/menu.htm
Fræðileg úttekt á jólasveinunum ofl.

Á þessu vefjum eru svo krækjur í allar áttir þannig að allir jólastrákar og stelpur ættu að geta drekkt sér í jólafróðleik, vísum og öðrum skemmtilegheitum.

11.12.04

Undarlegt þetta með jólakortin

Í dag hef ég meira og minna verið að föndra jólakort og fílað mig í tætlur. Er komin með nokkrar gerðir og slysaðist á eina ansi góða hugmynd sem sumir fá í póstinum.....

Þetta er merkilegt með jólakortin. Ég hef alltaf verið frekar dugleg að senda jólakort þegar heilsan hefur leift það enda fæ ég mikið af kortum. Nokkrir sem ég sendi alltaf kort og fæ frá eru fólk sem ég hef ekki séð árum saman eða heyrt frá en allaf sendir maður kort og fær. Mér finnst þetta yndislegt og góður siður samt merkilegt að aldrei hringir maður í þetta fólk eða skreppur í heimsókn þegar maður á leið hjá eða það til mín. Ekki það að maður þekki þetta fólk ekki lengur heldur hefur lífið bara tekið margar beygjur á leiðinni og sumir hlykkir verið erfiðari en aðrir.....

En það er víst kominn laugardagurinn 11. des. sem er einn af mínum uppáhaldsdögum af tveimur ástæðum.

Sigrún systir á afmæli í dag verður 58 ára skil ekkert hvað hún eldist miklu hraðar en ég :-) Það hlýtur að hafa eitthvað með landafræði að gera. Hún býr í Danmörku. Til hamingju með afmælið elsku systir

Hin ástæðan er að í kvöld kemur Stekkjastaur, ég hreint og beint elska jólasveinana um held að ég sé alveg að verða fimm ára ætla sko að setja skóinn út í glugga í kvöld.

Hekla mín blessunin var svo eftir sig eftir daginn og nóttina með ömmu sinni í gær að hún var komin með hita upp úr hádegi og kvef. Fór svo að gubba í kvöld og komin með niðurgang og hausverk. Mikið er stundum gott að geta skilað krílunum. Er samt í stöðugu símasambandi við dömuna sem ber sig vel við ömmu. Hekla mín láttu þér batna fljótt.

10.12.04

Ása Jólastelpa

Í gær fór ég í síðasta prófið á þessari önn og gekk held ég bara þokkalega.

Mikil kæti greip mig eftir það, fór og náði í Heklu í skólann og við föndruðum allan daginn og langt fram á kvöld. Þetta finnst mér yndislegt. Við gerðum fullt af jólakortum, engil ofl. sem ekki má segja frá þar sem það fer í afmælispakka til Palla bróðir sem á afmæli 15 des.

Hekla svaf svo hjá mér í nótt og kúrðum við okkur og spáðum í jólasveinana, sem eru að fara að nálgast byggð, fyrir svefninn.

Hvílík heppni að eiga svona prinsessu hún er svo frábær og pælingarnar sem hún er með alveg frábærar. Við trúum sem sagt báðar heitt á jólasveinana 13 frá Íslandi. Stekkjastaur kemur aðfaranótt sunnudags og við verðum sko með skó út í glugga.

Verst að hann er eiginlega alveg hættur að gefa mér bara henni. Ég er víst orðin stór og svo mikið af börnum á Íslandi en það má nú alltaf vona að hann eigi einhvern afgang ekki satt.

8.12.04

Næturævintýri og GULA hættan

Jæja það aldeilis svínvirkaði að setja inn leiðbeininga um commentin. Takk öll fyrir að skrifa.

Maggi rifjaði upp gamlar minningar þegar ég var á Reykjaskóla og Villi bróðir og félagar sáu um að senda okkur skvísunum á heimavistinni spritt....Jú til að hreinsa eyrun en við gerðum allar göt í eyrun þennan vetur með nálum. Hreinsuðum svo með spritti sem við gerðum víst eitthvað annað við líka. Upp rifjast minningar um óblandaðan djús sem var stolið í næturheimsókn í búrið blandað við spritt og innbyrgt í miðstöðvarkompu við sígarettureyk. Einn af hápunktum vetrarins. Uss var maður svona ...já svona hvað..........

Síðan eru liðin 30 ár og ég enn í skóla. Eitthvað gerðist þó í millitíðinni.

Er annars að reyna að einbeita mér að próflestri en finnst einhvernvegin að ég eigi að vera komin í jólafrí.

Mér var gefin GUL úlpa í morgun sem er svo hlý og góð að ef þið sjáið GULA manneskju á ferðinni á morgun þá rekið mig heim að læra. Takk fyrir úlpuna.

ps. valdi ekki litinn sjálf

2.12.04

Uppfærsla linka og comment leiðbeiningar

Jæja loksins gafst tími til að uppfæra linkana hér til hægri. Halabloggurunum fjölgar svo ört að maður hefur varla við.

En ég fékk líka nokkrar fyrir spurnir varðandi commetið á síðunni hjá mér. Þar sem ég er dálítið fyrir að vera með allskonar sérvisku vill ég ekki vera á blog.central.is eins og aðrir Halar eru allir dottnir inná nema við systkinin.

Jæja en ég fór í aðra tölvu og prófaði þetta sjálf. Þetta er ekkert mál og ekki þarf að vera með blogg á Blogspot til að geta commentað.

Bara ýta á comment, þá opnast gluggi ýta þar á post a comment sem er fyrir neðan sign in takkann. Þá í Or Post Anonymously og endilega skrifa eins og listir Ef þessi aðferð er notuð kemur ekkert nafn fram svo endilega bætið við frá hverjum commentið er nema þið viljið vera nafnlaus. Ýta eftir það á Publish your comment og það birtist.

Gaman væri heyra öðru hverju hvað ykkur finnst um bloggið og það sem ég er að skrifa um nú eða bara vekja athygli mína á einhverju sem brennur á ykkur

Hvað er það versta sem getur gerst ..........

Í gærkvöldi fór ég að sjá Memento mori hjá Leikfélagi Kópavogs og Hugleiks og varð fyrir ansi skrítinni upplifun. Memento mori er latína og þýðir mundu dauðann sem varð allt í einu eins og talað til mín.

Í miðri sýningu verður mér svona svaka óglatt allt í einu. Og þá voru nú góð ráð dýr. Hvað átti ég að gera, mér leið ferlega illa gat varla hreyft mig og var stödd á ansi slæmum stað til að verða óglatt á. Ég fór að leita að flóttaleið en hún var ansi strembin sá ég þar sem ég sat, sat manneskja í gangveginum og til að komast út þurfti ég að fara framhjá öllum bekkjunum og yfir sviðið þar sem full aksjón var í gangi. Vá hvað gerir maður í svona aðstöðu.

Gubbar í veskið sitt? Ég var með ansi stórt veski það hefði dugað en þá fyrst hefði ég nú stolið athyglinni frá þessum frábæru leikurum sem voru að sýna þetta kvöld.

Ég hraðspólaði í huganum yfir öll húsráð sem ég hafði heyrt og fann ekkert var að tapa mér og alveg að fara að gubba.

Mundi þá að slökunaræfingar eiga að vera góðar við flestu og reyndi að einbeita mér eins og ég gat að því að slaka á og anda rétt. Svitinn rann af mér og mér var kalt en hugurinn náði loksins yfirhöndinni og ógleðin hjaðnaði.

Sem sannar enn einu sinni fyrir mér því sem ég komst að fyrir nokkrum árum að við getum stjórnað líkamlegri líðan ansi mikið með hugsunum okkar.

Ég fékk tvö svona köst meðan á sýningunni stóð og missti þar af leiðandi af ansi miklu úr henni en það sem ég náði þó að fylgjast með var mjög gott og mæli ég hiklaust með þessari sýningu. Búningarnir voru alveg sérstakt augnakonfekt. Takk fyrir boðið Hugleikur og Leikfélag Kópavogs



30.11.04

Hláturskast og stolt amma í jólastuði



Leiklistarnámskeiði Halaleikhópsins lauk svo á fimmtudagskvöldið. Við lékum búta úr leikritinu Ég er hættur farinn. Ég lék á móti Jón Frey við töpuðum heilli bls. Í textanum en.

Þetta var mjög skemmtilegt kvöld. Guðný Alda stal algerlega senunni í hlutverki sínu og með sinni sjarmerandi persónu sem var í skýjunum þetta kvöld. Við enduðum öll í hverju hláturkastinu á fætur öðru og enn hlæ ég. Yndisleg minning.

Ég hlerað svo í hornúm að næsta verk verði að öllum líkindum Kirsuberjagarðurinn. Svo nú er bara að athuga hvort leikfélagið hentar mér betur eftir áramót. Eins og sést af þessum skrifum er ég heltekin af leiklistarbakteríunni og er það bara vel. Hef fengið verri bakteríur.


Prinsessan mín söng á aðventukvöldi í Fella og Hólakirkju á sunnudagskvöldið og sat á milli atriða í fangi ömmu sinnar . Ég var að rifna af stolti yfir henni. Til hamingju Hekla mín. Ég ætla svo að eyða þessum degi og mörgum fleiri með henni í desember. Nú fara mínar á fullt í uppbyggjandi jólastúss. Í dag er aðventukransinn og eldhúsglugginn efst á dagskrá. Það eru hlutir sem okkur finnast mikilvægir og skemmtilegir. Hlakka til dagsins


GUNNAR ER FÆDDUR




Á miðvikudagskvöldið var síðast tíminn í leiklistaráfanganum sem ég er í FÁ. Það var svo sannarlega uppskeruhátíð sem bar sinn ávöxt. Við fórum í ýmsa leiki og spuna allt á léttari nótunum og allt notað sem við höfum lært í vetur. Mikið gaman mikið fjör. Hressir og skemmtilegir krakkar, bara 30 ár á milli þess yngsta í hópnum og þess elsta, getið þið giskað á hver það er?

En ávöxtur púlsins í vetur var sá að það fæddist Leikfélagið GUNNAR. Bráðskýr og fjörugur. Sett voru upp háleit markmið svo sem að iðka leiklist af líf og sál, setja upp amk. eina sýningu á ári og hafa æfa leiklist þess á milli, veita GUNNARINN einu sinni á ári þeim sem okkur þykir skara framúr á leiklistarsviðinu það árið, ofl. ofl.

Við kusum að sjálfsögðu sem formann sem heitir Gunnar Ingi Gunnarsson, enginn annar kom til greina. Nú er verið að vinna að ýmsum málum sem þarf að ganga frá fyrir fyrsta að aðalfund félagsins og verður gaman að fylgjast með uppvexti GUNNARS.

Hér fyrir ofan er mynd af stofnfélögum GUNNARS einn vantar þó á myndina eða Tedda en hann þurfti að bregða sér á hljómsveitaræfingu áður en tókst að festa hópinn á mynd.
Helga Vala Helgadóttir leikari fær sérstakar þakkir fyrir að sjá um okkur í vetur.


29.11.04

Gular rósir

Núna er hausinn á mér stútfullur af ýmsu úr öllum áttum og er að melta hvað á að skrifa, kannski verður bara framhalds - blogg þar til ég tæmi mig ....



En annars ég ætla að setja hér inn mynd af gulum rósum til minningar um Gunnu Lúllu frænku mína sem lést í síðustu viku. Hún gaf mér fyrsta blómvöndinn sem ég fékk gular rósir sem eru tákn vináttu. Í Gunnu átti ég svo sannarlega vin. Þegar ég var lítil og mikið gekk á, skaust ég stundum í heimsókn til hennar og Árna bróðir hennar á Dunhagann. Þar var ég ávallt kysst á vangann og gert eitthvað gott. Gunna var mjög merkileg kona og mikill sjónarsviptir af henni. Hún hafði ákaflega mjúkar hendur sem voru duglegar að strjúka manni um vangann við hvert tækifæri. Hún sendi manni alltaf hughreystandi orð sem örugglega hafa fleytt mörgum yfir erfiða hjall. Hún var alltaf afskaplega vel til höfð og notaði íslenska upphlutinn óspart á hátíðarstundum. Hún var iðin við að hugsa um alla stórfjölskylduna sem ekki var svo lítil. Ég man lyktina af henni svo mild ljúf og góð. Eins og af gulum rósum og vináttunni. Blessuð sé minning hennar

Er enn á lífi og búin með lokaverkefnið :-

Jæja loksins er ég búin að skila af mér lokaverkefninu í VMM. Vef fyrir Halaleikhópinn. Þetta er búin að vera geðveik vinna ég tók að mér allt of stórt verkefni miðað við getu. En þetta hafðist að mestu þó ég næði nú ekki að gera allt sem mig langar að hafa á síðunni en það bara kemur ég vinn áfram með þetta á endanum verður það örugglega glæsilegt.

Ég týndi mér svolítið í sagnfræði. Það er svo lítið efni til og er í hornum hér og þar. Ég vil helst setja á stofn fót í Halaleikhópnum hóp sem tæki að sér að leita uppi allar heimildir sem til eru um Halann, gamlar ljósmyndir greinar ofl. þannig að það sé hægt að leita í þegar þarf að halda ræður, skrifa greinar, ofl. einnig til að hafa gott efni á sterkan vef sem er miðill framtíðarinnar. Er einhver tilbúinn að vea með í svoleiðis hóp? Í dag er ekkert mál að skanna inn gamlar myndir ofl. Jæja en ef þið viljið kíkja á frumburðinn þá er slóðin hér

19.11.04

Púla fram á rauða nótt

Í kvöld mætti ég snemma á leiklistarnámskeiðið í Halanum þar sem tímasetningar okkar hjónanna fóru illa saman. Jæja en ég nýtti tímann til að róta í hirslum Halans þar sem kennir ýmissa grasa. Ég var á höttum eftir myndum til að nota á vefinn sem ég er að smíða í VMM og á að klára eftir rúma viku !!!

Ég fann nokkrar myndir og eitt albúm og sit nú sveitt við að skanna inn myndirnar sem eins og þeir vita sem reynt hafa að er afar seinlegt.

Það eru blendnar tilfinningar sem koma upp. Gaman að sjá hvað hefur verið í gangi, gamlar myndir af vinunum síðan áður en maður kynntist þeim :-)

Já og svo það sorglega sumum hefur hrakað mikið líkamlega skrítið að sjá fólk sem maður þekkir bara í rafmagnshjólastólum vera hlaupandi um allt nú og nokkrir fallnir frá. Svona er nú gangur lífsins.

Helst vantar mér myndir úr Rómeo og Ingibjörg, Á furðuslóðum, Búktalaranum, Trúðaskólanum og Jónatan ef einhver á myndir sem hann vill lána mér væri það vel þegið netfangið er asahildur@internet.is

18.11.04

Og aftur Húrra og Apotek svei mér þá

Húrra Anonymous skrifaði aftur. Takk fyrir en nú fer að hefjast leitin mikla hver er Anonymous skildi það vera karl eð kona ein vísbending er komin. Örn er nokkuð sætur.... skrifaði hann eða hún. Það þýðir að viðkomandi þekkir eitthvað til eða hvað hvernig annars ætti hann að þekkja hvor er Örn og hvor Villi? Spennan vex.......
Hvað gerist næst...............?

Vegna þumalputta ævintýris mín þurfti ég að endurnýja birgðirnar í sjúkrakassa heimilisins sem voru farnar að þynnast í meira lagi og margt runnið út af dagsetningu. Skil nú samt ekki hvers vegna það er dagsetning á sáragrisju. Skildi hún fúna í lokuðum umbúðum á 2 árum?

Jæja en fór í Lyf og heilsu í Kringlunni stóru fínu búðina sem er búið að vera að auglýsa svo mikið gott og mikið vöruval. Hugsaði gott til glóðarinnar. En missti alveg andlitið. Stór er búðin það er ekki málið en vöruúrvalið það líkist snyrtivörubúð eða tískubúð hélt á tímabili að ég hefði farið inn í vitlausa búð.

Eftir mikla leit fann ég loks plástur í búðinni. Einn litill endi á hillum var með örfáum gerðum af algengum heimilisplástri. Enginn heftiplástur grisjur eða þumalputtadót. Ég átti ekki orð. Þetta er apótek og engar hjúkrunarvörur. Nældi loks í eina snyrtipíuna sem var á þeytingi í ilmvötnunum og spurði hvort ekki væri til meira úrval af plástri. En nei bara þetta sem er þarna, kannski eiga þær eitthvað bakvið líka, ef þetta er mjög sérhæft.

Það var röð á litla afgreiðsluborðið sem afgreiddi lyfin nennti ekki í hana og bölvaði apótekinu. Fer ekki þarna aftur, það er miklu meira úrval í Hagkaup eða hvaða matvöruverslun sem er. Þessi apótekarakeðja er svo sannarlega ekki að standa sig sem apótek.

Veit að það er miklu betra úrval í Lyfju Lágmúla og skunda þangað í kvöld

17.11.04

Húrra einn þorði að skrifa í commentið

Hey hó jibbý jey og jibbý jó það skrifaði einhver í comment hjá mér til hamingju Anonymous þú ert no. 1 og átt mikinn heiður skilinn. Stundum er maður að hugsa hvort nokkur lesi þetta blogg manns. En nú kom staðfesting einhver las ;-)

Ekki það að það skipti neinu máli þetta byrjaði sem skólaverkefni en hefur fengið nýja vídd og ég orðin bloggfíkill !!!

Ég er ekki enn búin að læra að setja inn gestabók og annað sem til þarf til að gera bloggið eins og ég vil en það kemur fyrir vorið ef guð lofar.

Ég veit þó að ýmsir hafa kíkt á bloggið einn kvartaði í gær um að ég væri hætt að setja inn myndir. Hér kemur ein af mínum ástkæra eiginmanni og Villa bróður í áhorfendapöllunum í Halanum. Þar sem ég held meira og minna til ef ég er ekki í skólanum eða í tölvunni.

15 nóvember !!!

Ég er ekki hjátrúafull en eitthvað er það við 15 nóvember sem fer illa í mig. Já ég hef illa bifur á þessum mánaðardegi. Mér finnst einhvern veginn að það mætti afmá hann úr dagatalinu.

Í ár hamaðist ég við að læra á þessum degi átti extra tíma og hvaðeina en kom engu í verk þó ég sæti við mestallann daginn og kvöldið líka. Ekkert gekk upp alger ritstífla eins og ég ætlaði að vera dugleg.

Þetta hófst allt 15. nóv. 1991 en þá lenti ég í slysi sem umturnaði lífi mínu öllu. Hvort það var til góðs eða ills má deila um en allavega var það afdrifaríkt fyrir mig.

Fyrir nokkrum árum lést svo faðir minn á þessum degi.

Þetta eru nú dramatískustu atburðirnir en eitt og annað neikvætt hefur hent þennan dag ársins í mínu lífi.

Kannski þarf ég að fara að Snúa jákvæðri orku að þessarri dagsetningu.

12.11.04

Lenti á slysó

Í ýmsu er nú hægt að lenda. Í dag fékk ég langþráða iðnaðarmenn í heimsókn. Búið að laga lekann á baðinu, festa hurðar sem voru á leið að flýja að heiman og fleira.

Þar sem aðalkallinn var svo vingjarnlegur og duglegur fór ég að tala um bakaraofninn sem hefur ávallt verið ónothæfur til baksturs vegna þess hversu óþéttur hann er. Valur kíkti á hann og tók af honum hurðina m.a. til að skoða hann. Komst að þeirri niðurstöðu að líklega þyrfti bara að skipta um þéttikant á honum.

Ég svaka kát lofa að vera búin að þrífa ofninn næst þegar hann kemur og hóf þá vinnu strax af miklum fídonskrafti. En þegar ég ætlaði að smella hurðin af til að komast betur inn í hann small eitthvað járn úr klemmunni og á hægri þumalinn á mér. Þarna var ég svo föst með puttann inn í löminni á ofninum, blóðið fossaði og ég með hurðina í hinni hendinni. :-( Þetta var sko ekkert fyndið þá.

Sem betur fer voru aðrir heimilismeðlimir nærstaddir og tókst að losa puttann úr klemmunni en þá tók ekki betra við, stykki úr þumlinum lá laust. Ekki var um annað að ræða en skella sér á slysó. Þar sat ég svo á annan tíma á biðstofunni áður en ég komst að. Þakkaði mínum sæla fyrir að vera ekki stórslösuð en verð alltaf fúl á slysó yfir að yfirvöld skuli ekki manna deildina betur til að stytta biðtíma.

Jæja læknirinn hló að sögunni og saumaði stykkið á 5 spor. En sagðist ekki vera bjartsýnn á að þetta greri, bjóst við að drep kæmi jafnvel í þetta þar sem lítið blóðflæði væri þarna. Fékk svo plástur og boð um að koma aftur eftir 12 daga. Já Bakaraofnar eru stórhættulegir það er hægt að slasa sig á fleiri máta en brenna sig á þeim.

11.11.04

Villi er líka með Bloggsíðu

Vildi bara koma á framfæri bloggsíðunni hans Villa bróðir svo hann verði ekki settur á skilorð líka eða eitthvað þaðan af verra.
En án gríns Villi bróir sem er orðinn hóteleigandi í suður-Afríku í Greyton er aðeins að þreifa sig áfram á blogginu Slóðin er hér

Hvað er ein gæsalöpp milli vina

Ég var að komast að því að það vantaði eina litla gæsalöpp svo linkurinn sem ég var að bagsa við um daginn virkaði. Nú er hann sem betur fer kominn inn.

En boða jafnframt einhverjar breytingar á linkunum á næstunni. Sumir er ónotaðir og svo hef ég fengið spurnir af einum mjög spennandi sem ég bíð bara eftir leyfi til að setja inn. Viðkomandi er eitthvað feiminn enn eins og ég var líka fyrst.

Framundan er leiklistarnámskeið í kvöld þar sem ég verð að mæta með bland í poka svo Halabloggararnir veiti mér náðun :-)

9.11.04

Grímsvatnagosin eru bölvun trölladóttur

Eftirfarandi saga var hluti af frétt í Fréttablaðinu í gær. Mér fannst hún svo skemmtileg að ég ákvað að deila henni með ykkur. Hún sameinar tvö áhugamál mín þ.e. eldgos og þjóðsögur og þessa hafði ég ekki rekist á áður og les þó mikið af þjóðsögum. Það er Júlíana Magnúsdóttir þjóðfræðingur sem er sögumaður.

Það var maður að nafni Vestfjarða-Grímur sem vötnin heita eftir. Hann var skógargangsmaður eftir að hafa lent í vígaferlum á Vestfjörðum. Samkvæmt þjóðsögunni á þetta að hafa verið á þjóðveldisöld. Grímur fór þess vegna upp á hálendið og gerði sér skála við vötn sem núna eru kennd við hann. Þá var veiði í vötnunum og skógur í kringum þau. Eitt sinn þegar Grímur var við veiðar kom risi til hans og gerði sig líklegan til að stela aflanum. Grímur brást ókvæða við, enda skapmaður mikill, og lagði risann í gegn með spjóti sem særði hann til ólífis.

Dóttir risans gróf hann síðan en það gekk brösuglega hjá henni svo Grímur tók sig til og jarðaði risann fyrir hana. Þá vildi svo til að risinn gekk aftur eina nóttinar og ásótti Grím. Hann sá sitt óvænna og gróf risann upp daginn eftir og brenndi hann. Þetta harmaði dóttir risans svo mjög að hún lagði bölvun á Grímsvötn. Hún mældi svo fyrir að eldur brenndi skóginn öðru hvoru.

Þessi bölvun á að vera ástæðan fyrir Grímsvatnagosum. Þessi sami Grímur fór eftir þetta til Grímseyjar og á eyjan að vera nefnd eftir honum.

Að eldri manna sögn var Vatnajökull líka kallaður Klofajökull og það átti að hafa verið skarð í gegnum hann, í raun gönguleið frá Norð-austur landi og yfir á sandana kringum Kirkjubæjarklaustur.

Skömm í hattinn

Jæja í dag fékk ég skömm í hattinn á bloggsíðu Halaleikhópsins. Þar sem ég hafði haldið þessari skólabloggsíðu fyrir mig til þessa. En vonandi jafnar það sig nú kannski fæ ég reynslulausn hver veit. Nú eða afhausuð. Tek örlögum mínum eins og þau koma fyrir.
En Kæru Halafélagar velkomin á Bloggsíðuna mína. Og fyrst þið eruð að sniglast hér þá væri gaman að fá hjá ykkur hugmyndir að heimasíðu fyrir Halaleikhópinn sem ég ætla að taka fyrir í öðrum áfanga sem ég er líka í í skólanum. Ég þarf að gera að minnsta kosti 10 síðna vef. Og vantar allt efni. Allar hugmyndir vel þegnar. Netfangið er asahildur@internet.is

7.11.04

Reykjavík - Breiðdalsvík

Mikið er landið okkar nú að minnka mikið með bættum samgöngum. Ég fór í dag á Breiðdalsvík á fund og til baka á 12 tímum. Kannski er ég orðin gömul en ég man alveg þegar þetta ferðalag tók minnst einn dag aðra leiðina.

Ok ég flaug á Egilstaði og keyrði á Breiðdalsvík ásamt fleira af góðu fólki. Við vorum að kynna geðheilbrigðismál fyrir svæðisstjórnum RKÍ á austurlandi. Ég sagði frá reynslu minni sem geðsjúklingur og aðstandi geðsjúkra. Fór svolítið djúpt í söguna enda hlustendur allt fólk með þol fyrir erfiðum málum. Þetta gekk mjög vel var svolítið stressuð þar sem ég gekk ansi nærri minni persónu í sögunni. En fékk mjög góð viðbrögð og tókst ætlunarverkið að hreifa við fólkinu.

Fórum Skriðdalinn og Breiðadalsheiðina. Sem skörtuðu sínu fegursta í dag. Haustlitirnir og græni mosinn voru æði, einnig hafði aðeins snjóað í fjöllin þannig að allar línur í landslaginu teiknuðu sig vel. Þetta var fögur sjón og mikill kraftur í náttúrunni sem ég sogaði í mig af fullum krafti.

Ekki veitir af þar sem nú er komið að síðustu vikunum í skólanum og öll lokaverkefnin að skella á í einu. Ma. þarf ég að smíða vef með minnst 10 síðum.

Verst að ég hafði ekki rænu á að stoppa og taka myndir var þó með kameruna í veskinu.

Held ég hafi séð smá strók frá gosinu!!!

Allt gott að frétta frá Afríku. Þar var í dag haldið brúðkaup á Greyton Lodge eða GL eins og það á að heita í framtíðinni. Allt gekk vel og Villi afar stoltur og ég að sjálfsögðu lika.

2.11.04

Eldgos í Grímsvötnum

Já það er hafið gos í Öröfajökli nánar tiltekið í Grímsvötnm. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á að fylgjast með fréttum af eldgosum á Íslandi og í dag er gaman hjá mér. Ég reyni að ná öllum fréttatímum á öllum stöðum. Fer þess á milli á netið og athuga hvort ég er að missa af nokkru Hér eru nokkrar slóðir sem ég rataði inn á í dag í fróðleiksfíkn minni, svona fyrir hina sem eru ekki búnir að fatta að það er eldgos á Íslandi og að það er stór merkilegt.

Mbl.is fréttir

Visir.is fréttir
Ef farið er inn á vefTv þar er hægt að sjá sjónvarpsfréttina stöð 2

Hér má svo sjá fréttatíma stöðvar 1 ef farið er inn á vefupptökur. Já og einnig fréttirnar á rás 1 og 2
Ruv.is

Hér er svo frá veðurstofunni þar sem má skjálftavirkni sl. sólahring og ýmislegat annað fróðlegt.
Vedur.is


Já já ég veit að þetta er bilun en af hverju ekki ef maður hefur áhuga.

Og fyrst ég er orðin svona flink að setja inn linka í bloggið set ég hér slóðina á Greyton þorpið í Suður-Afríku sem Villi bróðir hefur tekið ástfóstri við.
Slóðin er: www.greyton.net

Siðblinda

Dagblaðið stóð sig vel sem ómerkilegt sorprit í dag. Ég er stórhneyksluð á forsíðunni. Þar er fjallað um skelfilegan fjölskylduharmleik. Það er ekki eins og það sé einhver gúrkutíð í fréttum í dag, daginn sem kosið er til forseta í USA. Það er Skeiðarárhlaup í gangi og eldgos hófst í nótt í Öræfajökli. Í gangi er mikið hneykslismál vegna Olíufélaganna sem borgarstjórinn er flæktur í. Ásamt fullt af öðrum merkilegum fréttum og ómerkilegum ef á það er að litið. En þeir kjósa að draga upp mynd á forsíðunni af fjölskylduharmleiknum.

Ekki það að það sé ekki frétt að mínu mati heldur það að þarna á fjöldi manns um sárt að binda og tvö ung börn eru orðin móðurlaus og stefna í að verða föðurlaus að hluta líka.

Hvar er virðingin fyrir tilfinningum manna og friðhelgi einkalífsins Uss en sú svívirða sem þetta blað sýnir enn einu sinni. Alger siðblinda

Bensín

Ég rakst á efirfarandi klausu á bloggflakki og ákvað að birta hana hér:

Olíufélögin stálu af okkur peningum í mörg ár. Það liggur skýrt fyrir í niðurstöðum Samkeppnisstofnunar.

Þeir viðurkenna það - en segja að málið sé fyrnt. Þeir vilja ekki borga sektir eða skaðabætur- vegna þess að það er svo langt síðan þeir stálu frá okkur.

Við getum svarað fyrir okkur.
Það þýðir ekkert að hafa bensínlausan dag. Það er bara rugl því þá verslum við bara meira á morgun.
Við refsum þeim með buddunni og kaupum BARA BENSÍN!

Alveg þangað til þeir hætta að röfla og borga sínar sektir og skammast sín - þá kaupum við BARA BENSÍN.

Ekki sígarettur, ekki pylsur, ekki hreinsiefni, leikföng, nammi, mat, hanska, grill né neitt annað, Við kaupum allt slíkt annars staðar.

Hjá olíufélögunum kaupum við
BARA BENSÍN!
EKKERT ANNAÐ!
Þeir finna fyrir því.

Dreifðu þessu á þína vini - og stattu við það að kaupa BARA BENSÍN.

Næst þegar þú freistast til þess að kaupa eitthvað annað á bensínstöð en BARA BENSÍN þá sannar þú orð markaðsstjóra OLÍS sem sagði í samráðinu "Fólk er fífl".

Vilt þú láta hafa þig af fífli? Ef ekki þá kaupir þú BARA BENSÍN.

28.10.04

Ömurlegur dagur

Í dag var einn af þessum leiðinlegu dögum í lífi mínu. Þegar ég vaknaði í morgun sá ég að rósirnar sem ég fékk á þriðjudagskvöldið eru dauðar hver og ein einasta. Dreif mig fúl í skólann, kominn hálka ömurlegt.

Fyrsti tíminn var VMM vefsíðugerð, þar sem við fengum loksins úthlutað þemunum sem við eigum að hafa í lokaverkefninu sem megineinkunn áfangans byggist á. Mér finnst þeir allir ömurlegir. Sé ekki fram á að smíða draumavefsíðuna mína.

Eyddi öllum hléum til að reyna að hitta á umsjónarkennarann til að staðfesta val mitt fyrir næstu önn. Tókst ekki :-(

Fór heim í einu gatinu, kallinn liggur í flensu.

Þegar ég kem aftur í skólann og legg bílnum mínum á þetta ömurlega bílastæði nemenda í FÁ opna hurðina og ætla út. PANG!!! Kemur ekki annar bíll brunandi inn í stæðið við hliðina og ekur beint á hurðina á mínum bíl. ARG!!!

Tjónaskýrslur tryggingafélaganna eru svo sér kapítuli út af fyrir sig :-(

Fór í LLF ljós og litafræði þar voru fáir ef nokkur annar en ég búinn að vinna heimaverkefnið sem við fengum fyrir viku svo tíminn fór í það ég mátti fara heim. Ömurleg sóun á mínum tíma, hefði vilja hafa kennslu þetta er virkilega spennandi námsefni.

Fór að baksa við tölvuna mín þegar heim kom hún vildi ekki gefa frá sér hljóð skreið bakvið hana undir borð til að athuga hátalarasnúruna sem auðvita hafði losnað þegar skúrað var í morgun. Fékk svona herfilegt tak í bakið og er nú skíthrædd um að það sé bara byrjunin á löngu bakverkjaferli, er nefnilega með spengt bak og vefjagigt og má auðvita ekki skríða undir borð ofl. ofl. sem ég kýs að hundsa meðan ég kemst upp með það. Það minnti mig líka á að ég væri búin í sumarfríi sem hófst í ágúst frá sjúkraþjálfanum mínum þar sem ég á að vera að minnsta kosti tvisvar í viku allt árið. ;-(

Hef ekki fengið neitt skeyti frá Afríku í dag og gær.

Nú er mér kalt, komin með beinverki og hausverk. Best að skríða undir sæng og vona að dagurinn á morgun verði betri.

27.10.04

SOS Heimsins mesti klúðrari

Ég er stundum heimsins mesti klúðrari. Ég var að reyna að bæta einum link inn á tenglana mína í gærkveldi og gerði eitthvað sem ég veit ekki hvað er. Allavega kemur síðan þá prófíllinn og boxin þar fyrir neðan bara stundum upp eða ekki þegar síðan er keyrð. Búin að liggja yfir þessu klúðri mínu en finn ekkert út úr því. Ef einhver kann á þetta þigg ég góð ráð. Ein sveitt

26.10.04

Smá mont og afríkusögur

.
Jæja nú er tími til að monta sig svolítið ég kláraði sem sagt í gær Ponsjóið sem ég var að hekla á Heklu og hún vígði það í kvöld í matarboði sem Palli hélt mér til heiðurs. Vakti mikla lukku. Annars var Guðmundur að segja okkur sögur frá afríku og því sem þeir hafa verið að lenda í síðasta mánuðinn. En Guðmundur er sem sagt kominn "heim" til að ganga frá síðustu endunum á Íslandi búinn að selja Tower Guesthouse og á fullu að pakka. Ættarsilfrið komið á ættaróðalið á Sléttó og allt að ganga upp. Margar skemmtilegar sögur af afríkumessinu sem ég ætla ekki að rekja hér en vísa forvitnum á slóðina hjá Jóhönnu sem er að vinna hjá þeim í Greyton Lodge eða GL eins og það heitir víst núna, þar eru ansi margar skemmtilegar sögur. http://blog.central.is/maggymin/

Stórt framfaraskref

Jæja það kom að því ég hef verið með 100% mætingu fram að þessu í skólanum.
En í dag skrópa ég í tveimur tímum!!!
Hræðilegt og erfiður þröskuldur að fara yfir en tókst :-) Þannig er mál með vexti að ég bý í stóru húsi þar sem búa margir fatlaðir og hingað til hefur verið hér húsvörður eða þessi 8 ár sem ég hef búið hér sem tryggir öryggi okkar ef eitthvað kemur uppá ásamt að sinna húsvörslu og þrifum kalla til iðnaðarmenn ef þarf. Nú er hann hættur og ÖBÍ ætlar ekki að ráða annan í hann stað og boðar til húsfundar, hins fyrsta í sögu hússins. Mér finnst ég verða að mæta og mótmæla þessu finnst illa brotið á okkur íbúum hússins. Auðvitað er 100% mæting í skóla tómt rugl en svona er ég bara mæti þar sem á að mæta ef ég hef tekið þessar skildur á hendur mér. Sem sagt þó ég sé með bullandi samviskubit vegna fjarveru minnar úr skólanum er ég samt stolt af þessu framfaraskrefi mínu.

Stuttverkahátið og fundarstjórn i partýi

Helgin var góð hjá mér Stuttverkahátíðin var mjög góð og margt spennandi að sjá. Gaman að sjá hversu breið flóra er af góðum leikurum í áhugaleikhúsunum. Okkar fólki gekk vel en fékk slæma gagnrýni. Reyndar fengu flestir slæma gagnrýni held þau hafi nú bara verið í óstuði þau Silja og Jón Víðis gagnrýndi eiginlega bara bókmenntalegt gildi verkanna. Lítið sem ekkert leik og fl. Jæja en það var gaman á eftir átti að skunda á Kringlukrána fyrst við vorum stödd þarna en þegar til kom var ekki pláss fyrir alla hjólastólana þar inn. Fórum að hlustu á ræðumaraþon kvenna í Kringlunni og enduðum svo heima hjá mér í partý. Þar var svo mikið sem þurfti að tala um eftir hátíðina að Grétar Pétur tók upp á því að hafa fundarstjórn í partýinu. Stórskrítið en þrælvirkaði á öll málglöðu félgsmálafríkin.

22.10.04

Amma hefði dottið niður dauð

Það held ég hún amma mín heitin hefði dottið niður dauð hefði hún komið með mér í leikhúsin þessa vikuna. Varð hugsað sterkt til hennar í kvöld þegar ég var að fara á Svarta mjólk í Þjóðleikhúsinu og var að spá í klæðaburðinn á fólki tók líka eftir þessu í Borgarleikhúsinu um síðustu helgi þegar ég sá Héra Hérason. En sem sagt þegar ég var lítil stúlka þá var ég ætíð látin fara í upphlut eða einhvern svaka prinsessukjól ef farið var í leikhús. Allir fóru í sitt allra fínasta, sem fólk fer í dag á Galakvöld. En sem sagt nú fer fólk allavega klætt í leikhús ansi margir karlmenn í gallabuxum af nýjustu tísku með götum það held ég hefði farið um hana ömmu mín sálugu. Kvenfólkið var heldur betur til fara en alls ekki "fínt". Það er nú eins og ég sé alltaf í leikhúsinu en svo er nú ekki hittir bara svona á nú þessa vikuna búin að sjá tvær sýningar mæli með Svartri mjólk sem ég fór á með leiklistarnemum úr FÁ. Á morgun er svo Stuttverkahátíðin Margt Smátt þar sem við í Halaleikhópnum erum með eitt verk. Portrett. Hlakka mikið til ætla líka að gera úttekt á klæðaburði og vera smá fín sjálf enda tilefni til.

19.10.04

Fann eina skemmtilega mynd

Ég var að uppfæra prófilinn minn áðan og fór að leita að mynd til að setja þar, merkilegt hvað maður er alltaf óánægður með myndir af sjálfum sér. Fann í leiðinn aðra eina af uppáhalds fjölskyldumyndunum mínum tekna í afmæli hjá Helgu Thorberg í sumar á Jóni forseta.

.

17.10.04

Eitt og annað hefur drifið á dagana síðustu vikuna

Jæja tími til kominn að halda áfram að blogga hef verið löt við það undanfarið. Ekki það að það sé ekki nóg að skrifa um. Um síðust helgi fórum við hjónakornin til Akureyrar í helgarreisu. Fórum þar á haustfund Bandalags Íslenskra leikfélaga fyrir hönd Halaleikhópsins. Aðalmálefni fundarins í ár var undirbúningur vegna leiklistarhátíðar sem fyrirhuguð er næsta sumar. Við í Halaleikhópnum stefnum að því að taka þátt´. Við skoðuðum ma. ýmsa staði sem notaðir verða til sýningahalds. Í Samkomuhúsinu hefur aðgengi fyrir sýningargesti verið betrumbætt með lyftu en aðgengi fyrir hreyfihamlaða leikara er glatað eins og sjá má á þessari mynd sem var tekin baksviðs .
Einnig skoðuðum við Húsið sem var með öllu óaðgengilegt en þar verða bæði sýningar og upplýsingamiðstöð. Hér sést Örn við dyrnar ansi hár þröskuldur þar
. En góðu fréttirnar eru þær að búið er að laga aðgengi að Ketilhúsi þar sem þriðja sýningaraðstaðan verður komin lyfta inni þannig að nú á að vera aðgengilegt fyrir leikara í hjólastólum sem og áhorfendur. Því miður engar myndir þaðan þar sem það var eitthvað í gangi þar þegar við vorum í úttektinni. Annars var helgin fín mikið fundað og hátíðarkvöldverður með tilheyrandi skemmtiatriðum að hætti bandalagsmanna Þar stóð þó Sirkus Atlanta uppúr eins og ávallt þeir eru klárir snillingar ef einhvern vantar skemmtiatrið þá mæli ég eindregið með þeim.

En þessa sömu helgi var alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn haldinn hátíðlegur í Reykjavík skrítið að vera ekki með þar en ég hef undanfarin ár verið þar í eldlínunni, tekið fullan þátt í alls kyns undirbúningi skrifað greinar ofl. ofl. þennan dag. Á mánudagskvöldið fór ég þó ásamt Heklu með 29 vinum mínum úr Vin út að borða í tilefni dagsins eins og sl. 6. ár. Fórum á Sahanghai þar sem var dekrað við okkur í bak og fyrir.

Hópverkefnið í fjölmiðlafræðinni var frumflutt á mánudaginn eftir erfiða fæðingu. Allt fór úrskeiðis sem gat klikkað það er að segja tæknilega en held við höfum komist alveg skammlaust frá þessu töluðum okkur út úr þessu þegar hljóð og annað klikkaði. Lærðum mikið á þessu verkefni og spennandi verður að sjá einkunnina fyrir það.

Hekla hefur verið hjá mér mest alla síðustu viku og snúið ömmu sinni í bak og fyrir vorum allar í handavinnudeildinni kláraði að prjóna á hana húfu sem hún hannaði sjálf og er langt komin með að hekla Ponsjó en er að kenna henni að hekla sem er svolítið flókið fyrir litla putta en áhuginn er mikill og hún náttúrulega snillingur og finnur alltaf sína eigin aðferð við að framkvæma hlutina. Set inn mynd þegar ponsjóið er tilbúið.

Fékk miðannarmat fjögur A og eitt B eina einkunn vantar er að sjálfsögðu afar stolt af þessu.

Krassaði tölvunni minni einu sinni enn og að sjálfsögðu kom Palli og reddaði stóru systir Ómetanlegt að eiga svona bróðir. Takk Palli.

Í gærkveldi var svo haustfagnaður hjá Sjálfsbjörg og Íþróttafélagi fatlaðra sem við hjónin skelltum okkur á og var mikið stuð og haldið áfram svo í Halanum fram undir morgun............


7.10.04

Heiður

Hvatningarbikar Trimmklúbbs Eddu Posted by Hello


Í gær varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera sæmd hvatningarbikar Trimmklúbbs Eddu. Þetta er mér mikill heiður. Ég hef verið í klúbbnum í rúmt ár á sumrin göngum við tvisvar í viku í Grasagarðinum sem var bara æðislegt í sumar í góða veðrinu og ekki spillti félagsskapurinn. Á veturna er svo sundleikfimi í Grensásslaug. Yndislegir tímar þar sem maður getur spriklað í lauginni án verkja. Edda Bergmann stjórnar þessu með bros á vör eins og henni er einni lagið. Þetta kom svona mátulega vel tímasett hjá Eddu eins og hún hafi verið að lesa hugsanir mínar. Ég hef verið að hugsa um að sleppa sundleikfiminni fram að jólum þar sem miðvikudagarnir eru svo langir í skólanum og leiklistin um kvöldi en ætli ég þrauki ekki þorrann og vona að stundataflan raðist betur eftir jól. Ég hef haft mjög gott af leikfiminni og göngunni en þar var ég einmitt að skila inn hvatningabikar sem ég var sæmd í haust.
Báðir þessir bikarar eru þannig að hver hefur hann í einn mánuð og fylgir bók með þar sem fólk skrifar eitthvað og er gaman að lesa það.

6.10.04

UPPLIFUN

Í kvöld varð ég fyrir einstaklega skemmtilegri upplifun í leiklistartímanum. Við lágum saman 14 nemendur á gólfinu í hring og fórum í slökun og þaðan í raddæfingar. Þetta var mjög sérkennileg tilfinning liggjandi slakur á köldu gólfinu með lokuð augun fullkomlega afslappaður og gefa frá sér sitt eigið hljóð sem svo rann saman við hljóð annarra og varð sérstakt fyrirbæri. Hljóðið hækkaði og lækkaði breytti um tón og dó út eins og bylgjuhreyfing án nokkurrar stjórnar. Flæðið var frábært eftir smá stund og allir að gefa sig á fullu í þetta. SVO áttum við að opna augun og rísa upp en halda áfram með hljóðin það bara virkaði ekki þegar augun opnuðust komu einhverjar ósýnilegar varnir til skjalanna og ekki skánaði það þegar við stóðum upp og sáum hvort annað þá fór allur samhljómur raddanna. Þá áttum við að snúa okkur upp að vegg of frussa hljóðinu þangað þá kom flæði aftur. Stórmerkilegt hvernig varnir okkar hefta okkur þó við séum nú farin að þekkjast nokkuð og ættum ekki að vera feimin hvort við annað.

28.9.04

Lukkunnar pamfíll

Ég átti góðan dag í dag og tel mig vera lukkunnar pamfíl.

Var að vinna verkefni í TEX í gærkvöldi sem ég vissi að átti að klára í tíma í dag svaka dugleg og ánægð með verkefnið, sendi mér það svo í tölvupósti á skólapóstinn. Þegar ég opna það svo í tímanum í dag þá sá ég að ég hafði sent mér vitlaust skjal þannig að sú vinna var fyrir bý. En skrifað nýja grein í tíma og allt gekk upp.

Ekki gengur eins vel í hópverkefninu í Fjölmiðlafræðinni ekkert gert í dag ég sem vonaði að við hæfum tökur í dag en erfiðlega gengur að finna tíma sem hentar okkur öllum.

Var að reyna að gera heimaverkefni í Java áðan en það gekk ekki upp einhver tölvuvandamál sem ég held að hafi ekkert að gera með kóðann sem ég skrifaði.

Seinnipartinn í dag fylgdist ég svo með upptöku á tveim stuttverkum sem við í Halaleikhópnum ætlum að senda í Stuttverkahátíðina í Borgarleikhúsinu það er að segja ef upptökurnar fá náð fyrir augum valnefndar sem skipuð hefur verið af BÍL.

Annað verkið var frumsamið af einum félaga okkar Kolbrúnu Dögg og heitir Streymi ef ég man rétt. Ég spái því góðu gengi hitt Innihaldið þarf að æfa betur en gæti orðið gott.

Skrítin tilfinning að vera bara áhorfandi núna þar sem ég hef verið á kafi í þeim verkum sem sýnd hafa verið sl. ár. Ýmist sem hvíslari, sýningastjóri eða eitthvað annað. Á morgun á að taka upp eitt verk enn sem ég næ ekki að sjá þar sem ég verð í leiklistatíma í skólanum sem stendur frá 18 - 22. Svo er enn eitt verk í æfingu sem ég veit ekki hvenær eða hvort verður tekið upp.

Valnefndin kynnir svo úrslit sín á haustfundi BÍL á Akureyri 9 okt. nk. þar sem ég og minn heittelskaði verða fulltrúar Halaleikhópsins. Hlakka mikið til þeirrar ferðar fæ að gista á KEA hvað er hægt að hafa það betra.

26.9.04

Loksins mynd og kjötsúpa

Hér ætla ég að hafa mynd
Við systkinin í tröppu.
Jæja eins og sjá má er loks komin mynd hér inn. Palli bróðir kom sem sagt í heimsókn og kíkti á þetta með mér og vola........

Eldaði kjötsúpu í kvöld nammi namm og bauð Palla, Frosta, Sigrúnu og familý en hún var of upptekin þannig að við vorum bara fjögur Ingimar var að vinna. En súpan tókst vel og allir mettir og sælir. Palli kíkti á eitt og annað sem var í ólagi í tölvunni hjá mér og reddaði sumu Takk Palli.

Ég fékk e-mail frá Stebba sem kom mjög á óvart örugglega tvö ár síðan síðast kom skeyti en kannski fer þetta í gang eftir umræðurnar um samskipti í systkinahópnum þegar við hittumst um daginn. Ég fékk lika skeyti frá Villa og Guðmundi þar sem segir að þeir séu að drukkna í vinnu en sælir. Uppi er sú hugmynd að við systkinin komum okkur öll upp WEBcameru og getum haft samskipti þannig á heimsvísu. Kannski verður af þessu vandamálið er netsambandið í Suður-Afríku. Það hefði orðið mjög í anda föður okkar heitins sem var mjög tæknivæddur og hver veit hvað verður.

Framundan er ströng vika í skólanum forritunin er soldið erfið og svo er hópverkefnið að komast í fulla vinnslu.
Svo hlakkar mig mikið til miðvikudaganna þá er leiklist í skólanum mikil áskorun og tóm hamingja þó ég hafi nú verið ansi þreytt eftir þá daga.

21.9.04

Hversdagurinn tekinn við

Jæja þá er hversdagsleikurinn tekinn við eftir ótal mörg kveðjupartý og góðar stundir með Villa og Guðmundi og Stebba. Þeir eru nú allir farnir Stebbi heim til Noregs og Villi og Guðmundur til Greyton, Suður Afríku. Ég er ansi tætt eftir þetta mér finnst mjög erfitt að hafa systkinin flest í útlöndum og Afríka er eitthvað svo hroðalega langt í burtu. Ég fékk SMS frá strákunum þegar þeir komu heilu og höldnu út 26 tímum eftir að þeir fóru héðan þetta finnst mér ferlega langt og dáist að þeim að geta þetta og vona að allt fari eins og þeir óska sér. En helvíti er hversdagurinn eitthvað grár núna þennan sólahringinn.

Verkjaþröskuldurinn er allur í molum og fullvíst er að það er alveg rétt að beint samband er milli verkja og andlegs ástands eins og ég reifst mikið um það við geðlækninn minn um árið mánuðum saman. En jæja þessa dagana er þetta mjög raunverulegt fyrir mér. En ég veit að öll él styttir upp um síðir.

Ég var heilt kvöld að reyna að láta hér inn á síðuna mynd af okkur systkinunum sem var tekin í matarboðinu hjá Palla sem var frábært góð fjölskyldustund. Við höfum það fyrir sið að þá sjaldan við hittumst fögur þá tökum við mynd eins og pabbi okkar tók af okkur um öll jól. Stöndum í röð sá stærsti og elsti aftast og svo koll af kolli Palli litla barnið fremst. Þetta er að verða hin skemmtilegasta uppstilling því nú stærðarröðin hefur raskast all verulega með árunum og þarf ýmsar tilfæringar til að ná tröppuganginum. En það tókst, vonandi tekst mér einhvern daginn að setja myndina inn og kannski fleiri.

Ýmislegt skemmtilegt hendir í skólanum og nú er ég að vinna að stóru hópverkefni með þrem strákhvolpum sem reynir á ýmislegt annað en námsefnið. Spennandi verður að sjá hvar það endar.

16.9.04

Systurnar sorg og gleði

Jæja þá er að reyna að halda þessu bloggi gangandi. Ýmislegt hefur á dagana drifið síðan síðast einu sinn enn var maður minntur á hversu stutt er á milli lífs og dauða. Þrjú dauðsföll urðu í kringum mig síðustu vikur og í öllum tilfellum var ekkert sem benti til þess að viðkomandi væri að fara að yfirgefa þessa jarðvist. En svona er þetta ekkert er öruggt í þessari veröld og aldur skiptir víst ekki máli.

Jæja en þetta hefur líka aðrar hliðar td. að nú er Stebbi bróðir kominn heim reyndar vegna jarðarfara besta vinar síns sem verður jarðaður á afmælisdegi Stebba svona getur þetta nú orðið snúið. Ég gleðst mjög að fá tækifæri til að sjá stóra bróðir sem ég sé ekkert of oft, þó tilefnið sé þetta.

Um helgina var ég svo í miklu kveðjuhófi hjá Villa bróðir og Guðmundi mági sem eru að flytja til Suður Afríku mér til mikillar hrellingar ein sorgin þar. Jæja en boðið var fínt þeir mættu í Afrískum þjóðbúningum og mikið húllumhæ sem við héldum auðvitað áfram fram eftir nóttu að okkar hætti.

Í gær byrjaði ég svo á leiklistarnámskeiði í skólanum það var mjög skemmtilegt og lofar góðu mikið leikið sér og gaman gaman. Var fyrirfram svolítið kvíðin hvernig ég myndi falla inn í hópinn þar sem ég er eldri en hinir nemarnir en það var ekki vandamál þegar til kom. Það er alltaf ákveðin áskorun að taka þátt í svona án þess að hafa vini sér til hægri handar en bara stuð.

Ég byrjaði líka í þessari viku í VMM-103 þar sem ég fékk leiðréttingu á matinu hvernig ég var metin inn í skólann það var svolítið töff þar sem mig vantar 3 vikur framan af náminu en held ég meiki það, bý vel að því að hafa tekið vefsíðugerðina í Fjölmennt Takk Trausti og Helgi að hafa komið mér í þetta.

Framundan er svo fjölskyldukvöldverður í kvöld hjá Palla og Frosta þar sem við náum að hittast fjögur systkini af fimm ásamt fjölskyldum Þetta verður sennilega í síðasta skipti í langan tíma sem það gerist þar sem Strákarnir eru að flytja til Afríku og Stebbi býr í Noregi. En Sigrún systir okkar býr í Danmörk og gat ekki verið með okkur nú. En mér skilst að öll börn og barnabörn komi þannig að við verðum sennilega 14 og það er nú þó nokkuð í okkar fjölskyldu. Mig hlakkar mikið til kvöldsins :-) Búin að læra fyrir morgundaginn svo þetta er í góðu lagi.

7.9.04

Mennt er máttur

Jæja það kom að því að maður notaði skólalærdóminn eitthvað af viti. Ég var að velta því fyrir mér fyrr í dag hvernig ég gæti sett linka og fleira inn. Ég fór að prufa mig áfram og allt í einu small eittvað rétt saman í hausnum á mér og ég rifjaði upp það sem ég hafði verið að læra í Fjömennt í fyrra og komst af stað við að forrita í HTML og setja það inn í þetta blogg. Ég er hrikalega stolt af mér þó verkinu sé nú ekki lokið en allt í áttina.

Úr einu í annað

Ég hef nokkrum sinnum undanfarna viku gert tilraun til að skrifa hér inn á bloggið, en allaf komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki hæft til birtingar vegna þess að málefnið snerti einhverjar aðrar manneskjur sem ég vildi síður að læsu þetta. Þetta er sem sagt opinber síða og því þarf að skrifa á hlutlausan hátt um menn til að særa nú engan. Þannig að nú þarf að fara að hugsa aðeins öðruvísi en með hreinum dagbókarfærslum. Ekki það að ég hafi nú miklar áhyggjur af innliti á síðuna meðan ég gef það ekki upp við vini og vandamenn. Gaman væri þó að hafa teljara og gestabók til að fylgjast með en kann ekki að setja það upp í þessu bloggi. Annars hefur þessi vika verið annasöm að venju. Skólinn kominn í fullan gang og enn verið að hræra í stundaskrá þannig að jafnvægi er ekki komið á enn. Starfið í Halaleikhópnum þar sem ég starfa er að fara í fullan gang og mikið verið um fundarhöld og spekulasjónir því við ætlum að taka þátt í Stuttverkahátið í Borgarleikhúsinu 23. okt. nk. Á endanum var ákveðið á sunnudagskveldið að æfa upp fjögur mismunandi verk og senda inn í þeirri von að valnefndin velji eitthvert þessarra verka á hátíðina. Eitt verkanna er skrifað af einum Halafélaganum Kolbrúnu Dögg og hlakka ég mikið til að sjá það fullunnið sem og hin þrjú sem við fengum handrit af niður á BÍL. Svo var Prinsessan og ömmustelpan mín 7. ára í gær með tilheyrandi hátiðarhöldum. Hekla er mikið búin að vanda sig við undirbúning afmælanna spá í uppskriftir af kökum, skreytingar, gestalista, tímasetningar ofl. ofl. Mér var meðal annars skipað að mæta í kjól. Henni finnst ég ekki vera nógu fín í klæðaburði ef ég mæti í buxum sem ég nota ótæpilega svo ég gróf inn í fataskápinn og fann einn gamlan og sígildan og sló í gegn hjá prinsessunni. Hvað gerir maður ekki fyrir barnabörnin! En ég fór líka í annað barnaafmæli hjá vinkonu okkar hjónanna um helgina. Þar var hlaðborð eins og í fermingarveislu og svaka fínt. En við komum um kvöldin og þá voru blessuð börnin orðin snarvitlaus af sykuráti og afmælistilstandi, þannig að það var ekki eins gaman eða maður er bara orðinn og gamall til að fara í mörg barnaafmæli eina helgi. Framundan er svo að finna stundir til að vera meira með Villa bróðir sem er að flytja til Suður-Afríku núna 20 sept, mér til mikillar sorgar þar sem við erum ansi nátengd á okkar sérstaka hátt.

30.8.04

Einn af þessum dögum

One of those days.....
Á mánudögum er stundaskrá mín ansi götótt og leiðinleg með afbrigðum, svo ég ákvað að gera eitthvað vitrænt í þessu. Ég er ein af þeim sem er ekki almennilega komin í gang fyrr en ég er búin að skella mér í sturtu og sleppi því helst aldrei. En í dag var ég í gati strax eftir 1. tíma í 85 mín. svo ég ákvað að hugsa um heilsuna og sleppa sturtunni og fara í sund í gatinu. brilljant hugmynd svo ég tek sundtöskuna með í skólann. Þegar fyrsta tíma lauk dreif ég mig af stað en var þungt hugsi um námsefnið og ók af stað en eitthvað fannst mér bíllinn nú undarlegur en var sem sagt djúpt hugsi á .eiðinn fannst mér bíllin enn skrítnari en náði ekki fullri meðvitund frá námsefninu fyrr en ég var komin niður á Reykjaveg . Þá klingd klukku í hausnum á mér GÆTI HUGSANLEGA VERIÐ SPRUNGIÐ Á BÍLNUM? Ég snarast í á næsta bílastæði og athugaði málið og jú þetta reyndist rétt, ég var á felgunni og hafði sennilega verið alveg frá skólanum, svona getur MOFið farið með mann. Jæja nú voru góð ráð dýr. Ég ætlaði fyrst að drífa bara í að skipta um dekk en .... bakið.......ljósu buxurnar.......Ég mundi allt í einu að ég væri í FÍB og þar væri hægt að fá þjónustu við svona vesen. Ég hringi og ekkert mál sendi bíl til þín í hvelli. Frábært FÍB og GSMsíminn. Ég slaka á og bíð róleg næ sennilega ekki að synda mikið en kemst í sturtu og heita pottinn smá stund....30 mín er orðin óþolinmóð hringi aftur! svarið var mikið að gera þeir eru alveg að koma til þín....15 mín út um sundferðina, sturtuna og heita pottinn :-( en næ að skutlast heim með bílinn áður en ég fer aftur í skólann, bóndinn þurfti að nota hann fyrir kl. 13. Hringi aftur frekar mikið pirruð og finn stressið byggjast upp!! Jú það er svo mikið að gera að við sendum beiðnina í Krók þeir eiga að vera á leiðinni viltu fá númerið þeirra?... Blóðið rann nú hratt til höfuðsins ég að falla á tíma sem er eitt af því verra sem ég lendi í!!! Hringi í Krók. Já hann er að losa bílinn kemur svo er 10 mín að keyra til þín. Og það stóðst. Kemur ljúfur maður og snarar varadekkinu undir á no time. Ég sagði takk og dreif mig í skólann, verð að fara í næstu frímínútum með bílinn. Lenti í umferðateppu á planinu í FA. Hálf hljóp upp í V25 nái tölvu loggaði mig inn og dró djúpt andann, ferlega voru fáir í tímanum en það var verið að skipta hópnum í tvennt. Enginn kennari fer á netið ramba inn á Skjámyndirnar sé að tíminn 11.40 FELLUR NIÐUR og ég sem hafði svo mikið fyrir að komast á réttum tíma.Og nú flaug ýmislegt um huga minn um sjálfa mig sem ég þarf greinilega að spá í. Jæja en svona hélt þessi dagur áfram fæst gekk upp eins og áætlað var án nokkurra ævintýra en kvöldið hefur verið rólegt ennþá.

26.8.04

Þar lá maður í því

Blogg Já nú lágu Danir illa í því ég lenti í þeim hörmungum í skólanum að eitt af skilduverkunum í TEX er að halda úti bloggsíðu. Í sumar hefur gengið Bloggæði alls staðar í kringum mig sem ég hef haft lúmskt gaman að en ekki séð mig alveg fyrir mér sem Bloggara en nú er sem sagt komið að því að byrja að Blogga. Ekki hef ég hugmynd um hvað ég á að skrifa um en það hlýtur að koma þar sem ég er nú hugmyndarík svona yfir höfuð. Það sem mér er efst í huga núna á þessarri stundu er náttúrulega skólinn sem byrjaði á mánudaginn. Ég fékk hörmulega stundatöflu með fullt af götum flesta daga þannig að ég fer oft Ármúlann og Háleitisbrautina í vetur ef þið rekist á mig þar þá bara ekki hrekja mig af leið svo ég detti í þann pytt að gleyma að mæta aftur eftir gat. Annars ætti maður nú að skipuleggja einhvert heilsubótartengt í þessi göt en er ekki komin svo langt ennþá er að læra á stundatöfluna, finna skólastofur og bílastæði sem er frekar flókið mál þessa dagana. Auk þess að pússla bílferðum saman við aðra fjölskyldumeðlimi nú erum við 3 sem deilum bílnum 2 í skóla og svo einkabílstjórinn okkar. Sonur minn er sem sagt í Borgarholtsskóla og líka með götótta stundatöflu og auk þess ökklabrotinn svo hann fær þá frábæru þjónustu hér á heimilinu að vera skutlað hvert sem er. Ég þarf sem sagt að fara að stilla mig betur inn á strætóferðirnar. Jæja en lífið eftir að skólastandi líkur er líka að hefjast á fullu í kvöld er fundur í Halaleikhópnum þar sem ég hef haldið mig viðloðandi sl. ár. Þetta verður spennandi fundur þar sem á að hnýta á lausa enda í vetrarstarfinu. Velja endanlega vonandi nokkur stuttverk til að fara með á stuttverkahátið í október og velja leikara, leikstjóra og fl. í það. Svo er leiklistanámskeið líka framundan ofl ofl. á þeim vígstöðvum. Þannig að það er nóg að gera............

25.8.04

Prufa

Prufu blogg samskvæmt fyrirskipunum í tíma í TEX103