28.4.05

Úr bloggstaffi og orðin frjáls.........

Þá eru lokaverkefnin í höfn og komin í loftið. Þetta er búin að vera mikil törn og í mörg horn að líta. En allt hafðist þetta nú á endanum bara eftir smá hljóðtækniverkefni sem þarf ekki að skila fyrr en 5. maí.

Slóðirnar á verkefnavefinn er hér en þar eru uppi flest þau verkefni sem ég vann á önninni.

Lokaverkefnið stóra Leiklistarskólinn Skotta er svo hér en það er nú ekki allt sýnilegt þar sem stór hluti þess er PHP forritunarmál. Hér má svo sjá verkefnavefi samnemenda minna svona til gamans. Vert er að taka fram að ekki virkar allt forritunarmálið þar sem serverin í skólanum virkar ekki sem skildi en hafið orð mín fyrir því að kódinn er í lagi.

Mig langar til að þakka Ólafi Waage alveg sérstaklega fyrir veitta aðstoð í vetur. Hann er samnemandi minn sem tók að sér að kenna aukatíma í PHP í sjálfboðavinnu og studdi mig gegnum súrt og sætt í verkefnavinnunni. Takk Óli þú ert frábær.

Síðasta sýning á Kirsuberjagarðinum var sl. sunnudag, það var frábært að taka þátt í þeirri vinnu allri og elsku Kirsuberin mín takk fyrir samstarfið í vetur. Mikið er maður heppinn að fá tækifæri til að taka þátt í svona mikilvægu, krefjandi og skapandi starfi.

Að lokum vil ég þakka fjölskyldu minni fyrir þolinmæðina í vetur þar sem ég hef verið á þönum stanslaust í fjóra mánuði og lítt sinnt henni en lofa nú bót og betrun.

15.4.05

Sett í straff

Það er nú ekki bloggleti heldur annir sem eru þess valdandi að ég hef ekki verið dugleg að uppfæra síðuna undanfarið.

Nú eru lokaverkefnin öll að hellast yfir og deadend innan viku þannig að til að halda mér við efnið þá hef ég sett sjálfa mig í bloggstraff og mun hvorki lesa blogg né uppfæra fyrr en ég hef lokið öllum skólaverkefnum.

Bestu kveðjur þangað til............

11.4.05

Söknuður

Í dag hefur helst yfir mig mikill og djúpur söknuður af og til. Ég er búin að vera að hugsa mikið til Villa bróður og Guðmundar í Afríku.

Ég er búin að skrifa um það undanfarið hvað ég hef verið heppin að eiga marga og góða vini. En ekkert kemur samt í stað fjölskyldunnar.

Af einhverju undarlegum ástæðum hafa 3 systkini mín kosið að setjast að erlendis til frambúðar. Við erum tvö hér heima á skerinu.

Einhvern veginn eftir að foreldrar okkar létust þá fjarlægjumst við á ákveðinn hátt hvort annað sambandi orðið sundurslitnara og...........

Jæja ætlaði bara að tjá mig um það Villi minn og Guðmundur að ykkar er hræðilega mikið saknað þessa dagana þið eruð eitthvað svo agalega langt í burtu þessa dagana.

Ástarkveðjur til Greyton Lodge.

10.4.05

Leiklist og meiri leiklist !!!

Vaknaði tímanlega og fór að reyna að hugsa um eitthvað annað en leiklist og skóla jú það er nú sunnudagur en var fljótlega komin í tölvuna bæði að sinna málefnum skólans og leiklistarinnar, tókst að tengjast servernum mikill sigur. Merkilegt hvernig maður festist í ákveðnum mynstrum.

Mundi svo eftir Silfri Egils sem ég var mjög mikill aðdáandi að og missti aldrei af hér áður. En held ekki neinni athygli við stjórnmálaumræðu hvort eigi að selja Símann oo fjölmiðlafrumvarpið og bla. bla. bla. Hvernig gat ég verið heltekin af þessu ????

Ó nei hugur minn er allt annars staðar. Fyrr en varir er ég svifin inn hugsanir um útlit á vef og ýmsa skipulagsvinnu sem þarf að framkvæma í kvöld fyrir sýningu. Svo sveif ég inn í hugsanir um næsta leikár ákveðnar hugmyndir eru að kvikna og lífið dásamlegt.

Í gær kom Steini mágur færandi hendi með tvær stórar brauðtertu og við sendum SMS á nokkra vini úr varð heilmikill gestagangur og skemmtilegheit. Takk Steini minn.

Í gærkvöldi fór ég svo að sjá Mýrarljós með Villa ljósálfi. Þetta var dúndurfín sýning og komum við bæði mjög hrifin út eftir gott kvöld. Mæli hiklaust með því að skella sér í Þjóðleikhúsið.

Framundan er svo Kirsuberjagarðurinn í kvöld, við erum loksins að fá nýjan sviðsmann í kvöld sem þarf að þjálfa fyrir sýningu, ljósa og hljóðmálin eru líka í yfirhalningu, þannig að það er í mörg horn að líta.

6.4.05

Hver dagur á sér sinn smá sigur

Þessi vika rennur áfram í ljúfum önnum.
Við hjónin bókuðum okkur á Hótel Eddu og alþjóðlegu leiklistarhátíðina á Akureyri í sumar.

Í kvöld er svo æfing á Kirsuberjagarðinum með mínum frábæru Halafélögum.

Uppselt er á þrjár sýningar fram í tímann og er ég ákaflega stolt af því. Enn eru þó lausir miðar á sunnudaginn kl. 20.00 miðasölusíminn er 552-9188 ef einhver hefur ekki tryggt sér miða.

Lærði mikið í skólanum í dag. Viðfengum loks langþráðan server sem við eigum að komast á heiman frá og kom verkefnavefnum mínum þar inn, en ekki tókst mér nú að fá þetta til að virka heiman frá ennþá, það kemur.

Tókst samt að láta hausinn á Einari bekkjabróður mínu snúast heilhring.

Skóladagurinn endaði samt illa umsjónarkennarinn hellti sér yfir nemendurna þar sem nokkrir voru ekki búnir að skrá valið sitt og gera námsáætlun. Ég þoli ekki þegar fjöldinn er skammaður fyrir afglöp fárra, verð allt of oft vitni af slíku. Skamm skamm Katrín.

4.4.05

Vinir hvað er maður án þeirra


Ánægjuleg helgi að baki og hversdagurinn tekinn við.

Á föstudaginn var nefndarþing hjá Sjálfsbjörg þar sem farið var í hluta stefnumótunarvinnuna sem í gangi er. Það var afar fróðlegt og skemmtilegt að taka þátt í því.

5. sýning á Kirsuberjagarðinum var svo um kvöldið og var það samdóma álit allra sem að komu að þetta hefði verið besta sýningin til þessa. Salurinn var góður og áhorfendur létu ánægju sína berlega í ljós. Ég er afar stolt af mínu fólki.

Auðvitað tóku Halar sig til og héldu Karokee partý á eftir sem tókst líka glimrandi vel og er gaman að fá að taka þátt í svona skemmtilegu starfi.

Laugardagur fór svo í björgunaraðgerðir þar sem elsku besti bíllinn okkar gaf upp öndina eftir allt annríki eigendanna, var algerlega nóg boðið og fór í verkfall. Hann var blíðkaður við og fékk nýjan rafgeymi að launum fyrir þolinmæðina.

Skruppum svo til vinafólks um kvöldið eftir vænan síðdegisblund og spiluðum Skrabbl fram eftir nóttu.

Sunnudagurinn fór svo í leti og spjall við vini sem kíktu inn. Notalegt eftir annríki síðustu mánaða.

Á sunnudagskvöldið var mér svo boðið í leikhús af enn einum vininum. Við fórum og sáum Gísla Súrsson hjá Kómedíuleikhúsinu. Einleik sem Elvar Logi fór með af sinni alkunnu snilld. Þessi saga er mér hjartfólgin síðan ég fór með vinum mínum í Vin á söguslóðirnar í Haukadalnum með leiðsögn þar sem við vorum leidd inn í sögusviðið og kynnt fyrir hverri þúfu í sögunni.

Þegar ég skrifa þetta rennur upp fyrir mér ljós ég á marga vini sem allir hafa veitt mér ómælda ánægju og færi ég þeim þakkir fyrir hér.

Í dag hef ég líka hitt nokkra vini mína á ferð minni gegnum lífið og er þakklát fyrir að vera svona rík.