29.11.05

Ingimar Atli 25 ára

Sonur minn er 25 ára í dag. Til hamingju með daginn Ingimar Atli. Mikið er tíminn fljótur að líða. Aldarfjórðungur liðinn eins og skot. Þetta var mjög erfiður dagur þegar hann kom í heiminn nokkuð fyrir tímann og olli örum hjartslætti víða. Lengi dags vissi ég ekki hvort hann var lífs eða liðinn það voru skelfilegir klukkutímar en loks komst samband við vökudeild og snáðinn kom von bráðar til mín.

Lýsi þessari dramatísku atburðarrás kannski betur seinna en tímaleysið er að drepa mig enn einu sinni. Set örugglega myndir inn af prinsinum mínum við fyrsta tækifæri. Þetta er frábær piltur sem kemur alltaf niður standandi á fótunum sama hvað dynur á. Aðeins rólegri en mamman en yndislegur sonur.

28.11.05

Meiri leikir

Tengdasonur minn var að stríða mér með klukki ekki veit ég nú alveg hvað á að gera við það, vantar leiðbeiningar, en hermi bara:

núverandi tími: 17:18
núverandi föt: svörtu uppáhaldsbuxurnar, ljós stuttermabolur, GRÁA flíspeysan :-)
núverandi skap: Ágætt
núverandi hár: Úfið og úr sér vaxið
núverandi pirringur: Verkjapirringur og verkefnaskilakvíði
núverandi lykt: Úff þori ekki að taka stöðuna á því
hlutur sem að þú ættir að vera að gera núna: Vinna gagnagrunn
núverandi skartgripir: Hálsmen, úr, 2 hringir.
núverandi áhyggjur: Hugmyndaleysi um kvikmyndaplaköt sem þarf að vinna og skila.
núverandi löngun: Góðan pastarrétt.
núverandi ósk: að ég væri búin með öll verkefnin og enskuprófið.
núverandi farði: Enginn
núverandi eftirsjá: Hafa verið að slóra undanfarið og einbeita mér ekki að verkefnunum
núverandi vonbrigði: Spik
núverandi skemmtun: Bloggið
núverandi ást: Örn hver annar
núverandi staður: Heima í vinnuherberginu
núverandi bíómynd: Sound of music
núverandi íþrótt: sundleikfimi
núverandi tónlist: Þögnin er alltaf best en jólalögin sækja stíft á.
núverandi blótsyrði: Andskoti
núverandi msn manneskjur: Leyndó
núverandi desktop mynd: blár með gíraffamynd
núverandi áætlanir fyrir kvöldið: Halda áfram við að smíða gagnagrunn
núverandi dót á veggnum: myndir eftir Heklu og Palla, nokkur headsett , medalíur, reglustikur, hornstikur, saumastika, bakklóra, ýmsir minjagripir, hilla full af drasli.

Jæja þá er að klukka 3 aðila. Kiddi 3, Jón Þór, Labbakútarnir.

22.11.05

Eitt orð / Mörg orð

Skemmtilegur leikur er í gangi á mailinu. Ég sendi fullt af vinum mínum og öðrum sem þekkja mig minna beiðni um að senda mér eitt orð sem lýsti mér. Og fékk fullt af svörum sem mér fannst athyglisverð:


STÓRKOSTLEG:-)
Óútreiknanlegadugleg
Trygg
Glaðlynd
Viðkvæm
ÆÐISLEG
Huh?
Traust
Uppörvandi
Hörkudugleg
Brosmild
Hláturmild
Indæl
ákveðinvelgefin


Merkilegt hvað maður finnur alltaf neikvæð orð um sjálfan sig en dettur ekki í hug öll þessi jákvæðu orð sem vinir mínir sendu mér.

Endilega bætið fleirum við í kommnentin

20.11.05

Myndirnar komnar á netið

Myndirnar frá Köben og Malaga eru komnar á netið. Þar sem þær eru svo margar setti ég þær í vefalbúm Vinja myndirnar HÉR og Tívolí myndirnar HÉR

Svíf um í sæluvímu

Já það var gaman í kvöld ég alveg svíf á sæluskýi. Sound of Music var sýnd í Halanum og mæting bara mjög góð. Þessi mynd er alveg snilld og margir margir vasaklútar enda heyrðust snökt víða um salin á hápunktum myndarinnar. Ef þessi mynd kitlar ekki rómantísku taugarnar í fólki þá veit ég ekki hvað. Alger dásemd. Takk bíónefnd fyrir að velja þessa mynd í kvöld.

Í dag sett ég svo í jólagírinn. Já ég veit að það er bara 19. nóv. en ég var bara í stuði til þess og lét það eftir mér. Elsku börnin mín voru líka við hendina og hjálpuðu mömmu gömlu við þetta. Nokkrir jólakassar voru sóttir í geymsluna og jólaserían sett á svalirnar. Er þó ekki búin að kveikja á henni enn það verður mjög bráðlega vantar bara 2 perur ;-) Svo var hin klassíska þrenning sett í stofugluggann og kveikt á henni. En það eru tveir gylltir englar og gyllt jólatré á milli þeirra. Þrískiptur gluggi sko. Krakkarnir reyndu nú að telja mig ofan af því segja þetta gamaldags og þurfi að fara að uppdata. En þó ég sé nýjungagjörn er ég það ekki þegar kemur að jólaskrauti. Þar eru svo miklar tilfinningar við þetta gamla góða dót. Kannski bæti ég fleiri ljósum í gluggan þegar nær líður jólum en þetta gamla fær að vera. Takk Sigrún Ósk og Ingimar Atli fyrir hjálpina.

Hvað finnst ykkur er þetta of snemmt og þarf maður að fylgja einhverri tísku í jólaskrauti?

Lengi vel hlakkað mér ekki til jólanna þau voru bara kvíðavaldandi en eftir að ég tók þau í sátt aftur og fann jólabarnið í sjálfri mér þá vil ég gera eins mikið úr þessu og mér finnst hvert ár og er þakklát fyrir það.

Svo verður líka tóm sæla á morgun. Leiklistarnámskeið og svo kemur Sigrún Jóna systir og stórfjölskyldan ætlar öll að koma hingað annað kvöld og snæða saman gamaldags lambahrygg sem Palli og Frosti ætla að elda fyrir okkur. Mér finnst ég vera svo heppin í lífinu þessa dagana að ég bara svíf á sæluskýi og nýt þess í botn.

18.11.05

Auglýsingahornið

Kvikmyndakvöld

Laugardaginn 19. Nóvember klukkan 20:00 mun Halinn sýna myndina ,,Sound of Music"

Klukkan 22:00 munum við svo sýna myndina ,,Life is Beautiful" með Roberto Benigni.

Athugið að þeir sem mæta munu ákveða hvaða myndir verða sýndar á næsta bíókveldi. Þar á eftir...

Aðgangseyrir: Gott skap og jákvætt hugarfar.

Staður: Halinn, Hátúni 12.

Er hugmyndin að nota sömu aðferð og síðast. Að fólk muni leggja í snakk... púkk, sem ALLIR geta snætt....

Drykki verður hver og einn að koma með sjálfur.

Hlakka til að sjá sem flesta!



Já já ákvað að láta auglýsingu flakka og svei mér þá ef ekki er von á fleirum. Það er mikið athyglisvert að gerast núna út um allt.

Sound of music er uppáhaldsmyndin mín hef ekki enn séð neina sem slær þeim töfrum út sem gripu mig í Gamla bíó þegar ég fór að sjá hana fyrst sem peð með mömmu. Eina skiptið sem ég veit til að mamma hafi farið í bíó sem er samt örugglega rangt hjá mér.

Fjölskyldan stríðir mér látlaust á þessari mynd en sama er mér. Staðföst stúlka þegar kemur að bíómyndum. Mamma ferðaðist svo seinna á þær slóðir sem myndir var tekin uppá og talaði mikið um það. Blessuð sé minning hennar.

Svo söng Öddi þetta Eidelwisinn fyrir mig í tilhugalífinu...USS....

Hér er verið að undirbúa komu Sigrúnar Jónu systir á sunnudaginn, auk alls annars.

16.11.05

Kallinn kominn heim

Örn kom heim í dag eftir vel heppnaða aðgerð. Heilsast þokkalega enn sem komið er. Ekki var hann nú hrifin af aðbúnaðinum sem sjúklingar fá. Læknar og hjúkrunarfólk er til fyrirmyndar og standa sig mjög vel. En eitthvað er ekki í lagi með umönnunaraðilana. Flestir af erlendu bergi brotnir sem er jú allt í sóma en verra er að þau voru ekki talandi á íslensku. Fólk sem var þó að sinna sjúklingum skildu ekki þegar beðið var um vatnsglas eða mjólk út í kaffið og annað slíkt. Þetta er nú ekki í lagi. Það verður að borga þessi störf miklu betur svo hægt sé að fá íslensku mælandi fólk í þessi mikilvægu störf. Það er nógu erfitt að vera hundveikur á spítala og þurfa að glíma við allt sem veikindunum fylgir, þó maður sé ekki líka að glíma við tungumálaörðugleika. Fuss og svei.

En að skemmtilegri málum ég var að koma heim af leiklistarnámskeiði hjá Halaleikhópnum þar sem ég skemmti mér alltaf jafnvel. Í kvöld dönsuðum við Guðný Alda um sviðið í sæluvímu. Fyrir mér er leiklistin eilíf uppspretta gleði og orku til að takast á við hversdaginn. Maður gleymir verkjum og angri og skemmtir sér konunglega. Það eru alger forréttindi að geta leikið sér 48 ára gamall með fullorðnu fólki af öllu tagi. Mæli með leiklistarnámskeiði fyrir alla.

15.11.05

Húrra fyrir Sigursteini Másyni

Ég vil bara vekja athygli á góðri grein í Mogganum í dag (Þriðjudag) eftir Sigurstein Máson nýkosinn formann ÖBÍ um slæman aðbúnað íbúa í Hátúni 10. Þetta er mál sem lengi hefur brunnið á mér en nú loks kemur maður sem hefur kjark til að koma fram og opna umræðu um þetta mál. Ég segi bara Húrra endilega kíkið í Moggan í dag. Stundum hefur manni fundist maður verið að berja hausnum við stein undanfarin ár við að reyna fá eitthvað aðgert svo nú kviknaði stór von í brjósti mínu um að Sigursteinn fylgi þessu máli fast eftir eins og hans er von og vísa.

Hneyksli

Íslenska heilbrigðiskerfið er nú ekki í lagi ég segi nú ekki meir.

Örn var lagður inn í morgun á Lansann og fer í kviðslitsaðgerð í dag. Smá aðgerð sem þarf að gera en til öryggis vildi skurðlæknirinn leggja hann inn sökum fötlunar hans. Öddi mætir í morgun og haldiði að honum hafi ekki verið plantað á setustofuna með sinn hjólastól, gerfifót ofl.

Mér finnst þetta til mikillar skammar fyrir íslensku þjóðina hvernig hlúð er að sjúklingum þessa lands.

14.11.05

Föstudagur

Föstudagur:
Enn eitt flug nú til Köben með Sterling. Nú var ég mjög dugleg að læra í þessu flugi enda komin með samviskubit yfir þessu velsældarlífi. Aftur komu rútur og skiluðu okkur á hótel án þess að við þyrftum að hugsa. Leið eins og kóngafólki.

Á hótelinu tók Sigrún Jóna systir mín á móti mér. Nú skildi ég við hópinn og við systur skelltum okkur í Jóla Tívolíið í Köben, áttum góða kvöldstund saman, borðuðum jóla fleskestek og ráfuðum um í öllu jóladótinu. Frábært.

Fór svo frekar snemma heim að sofa þar sem Sigrún þurfti að keyra aftur upp til Dianelund. Og ég þreytt svo þreytt að þegar hópurinn kom upp á hótel nennti ég partýanimalið ekki niður á barinn í lokapartý.

Föstudagur þá var aðeins sofið lengur. Áður en farið var í heimflugið fór ég í labbitúr um hverfið og lenti í búð sem var með föt sem pössuðu á mig ;-) Missti mig aðeins......

Meira lært í flugvélinni. Heimkoman var svo góð allt í lukkunnar velstandi. Börnin höfðu sinnt föður sínum, Hekla hafði verið meira og minna hjá honum í minn stað enda með flensu og vetrafrí í skólanum. Allir sælir og glaðir. Þessi ferð verður lengi í minnum höfð og er ég ákaflega þakklát þeim sem styrktu okkur til þessarrar lúxussferðar

Myndirnar koma svo seinna enn er verið að forgangsraða verkefnum en það verður ekki langt í þær.

Ekki ér ég nú viss um að tímaröðin sé nú alveg til að stóla á í þessum framhaldssögum en takið viljann fyrir verkið.

Fimmtudagur:

Jæja nú ákvað ég nú að slappa aðeins af og gera það sem á víst að gera á Spáni liggja í sólinni og .... Ekki beint mín deild að liggja kyrr. En fyrst fór ég ásamt skiptinemunum og nokkrum Vinjurum á ströndina sem var handan við hornið á hótelinu. Löbbuðum eftir allri ströndinni á Torremolinos í sandinum og ég steig í fyrsta skipti á æfinni í Miðjarðarhafið. Og í raun í fyrsta skipti á baðströnd ef Nauthólsvíkin er frádregin svo þar kom eitt prikið enn fyrir heimalinginn. Auðvitað var komið við á kaffihúsi og í sölubúðum sem voru eins og hráviði um allt.

Þá var farið í sundbolinn og út að þessari fínu en köldu sundlaug við Hótelið. Lá þar og þurfti frekar mikið að hafa fyrir því að liggja kyrr en alger dásemd og góð hvíld. Dreif mig svo í labbitúr eftir verslunargötunni með Elaine og Buggu þar sem við fórum á nammimarkað ofl.

Fór svo ein á labb meðfram hafnarsvæðinu og skemmti mér mjög vel þar til myrkrið skall á allt of hratt, þá sló hjartað örar en ég ratað alveg upp á hótel þar sem enn ein átveislan beið okkar nú var Spánskt þema í matnum og allskyns sérréttir í boði. Maður var aðeins farinn að kunna á þetta og hemja sig.

Enn fórum við bara á barinn og skemmtistaðinn niðri á hótelinu þar sem dansað var við spænska músík fram eftir nóttu. Nú kom að erfiðum parti á ferðinni að kveðja Lurdes aftur. En við helltum okkur bara í kokkteila aftur og sofnuðum sælar en með trega í hjarta síðasta kvöldið.

Annar hluti:

Miðvikudagur: Ekki var nú sofið lengi fram eftir, það var komin svolítil spenna yfir morgunverðar hlaðborðinu og svo þegar farið er í svona stutta ferð þarf að nýta tómann vel og ég er alltaf eins má ekki missa af neinu. Morgunverðurinn var alger dásemd úrval af öllu hugsanlegu á margra metra borðunum öllum. Nammi namm ég sem er svo svöng alltaf á morgnana. Þetta var annars frekar erfitt fyrir svona sælkera eins og mig að velja og hafna. Þetta minnti á matarhlaðborðin í ævintýrunum í kóngshöllunum í gamla daga.

Svo var planfundur þar sem ég ákvað að fara með hópnum í strætó inn til Malaga 40 mín leið það var mjög gaman og skemmtilegt að upplifa það að fara með þessum hóp aftur í strætó í útlöndum fyrir nokkrum árum fórum við til Svíþjóðar og í strætó þar, þá þurfti ég nánast hjálparmanneskju með mér í það vegna strætófælni. Þvílíkur munur á heilsufari. Tóm gleði.

Við skelltum okkur beint upp í 2 hæða Sightseen strætó í Malaga og fórum í útsýnisferð um borgina. Falleg borg. Þar sem tíminn var dýrmætur fór ég og fleiri af í miðri ferð og gengum í gamla bænum og skoðuðum okkur um.

Hápunktur ferðarinnar var svo kannski að sjá Pikassó safnið það var æðislegt. Tveggja ára safn með sýningu sem var svo vel gætt að manni var um og ó. Alger dásemd. Auðvitað var svo stoppað á kaffihúsum þar sem ýmsir götulistamenn létu sjá sig. Og ansi skemmtilegur skóburstari sem var ekki á því að strákarnir gætu látið sjá sig í rykugum skóm. Myndir seinna.

Þá var farið á Tapasbar þar sem við röðuðum í okkur réttunum hverjum á fætur öðrum með ljúfum drykk. Birtist þá ekki Alfonso skiftineminn okkar síðasti sem kom alla leið frá Madrít til að hitta okkur það voru miklir fagnaðarfundir. Hann dvaldi svo með okkur í sólahring.

Helmingur hópsins fór til Benalmadena til að hitta Lurdes skiptinema okkar frá því fyrir 3 árum sem var líka komin til að hitta okkur alla leið frá Barselóna. Dásamlegt.

Ég fór aftur á móti í Mall leiðangur með nokkrum kaupóðum íslendingum og einum skota. Skemmti mér vel við að ráfa milli búða í útlöndum en var orðin svolítið gengin upp að hnjám svo við splæstum í taxa enda kosta þeir kúk og kanil á Spáni.

Aftur beið okkar mikið hlaðborð ekki síðra en kvöldið áður og valið vandaðist all verulega. En það var frábært að hafa Alfonso og Lurdes sem ekki höfðu hist áður með okkur.

Á skemmtistaðnum var svo Flamingó kvöld þar sem hinir ýmsu kokkteilar voru smakkaðir.

Tóm sæla.

Fyrsti hluti ferðasögunnar:

Mánudagur: vaknaði um miðja nótt til að fljúga til Köben ömurlegir flugtímar skil ekkert í þessu. Jú auðvita þarf maður sinn tíma í fríhöfninni en come on allavega Nýtti tímann í fluginu með hljóðsnælduna og glósubókina því það er enskupróf á mánudaginn (í dag og gekk bara vel ;-)

Í Kóngsins köben beið okkar rúta sem flutti þennan skemmtilega hóp beint upp á hótel. Þetta er 20 manna hópur frá Vin, athvarfi fyrir geðfatlaða sem Rauði Kross Íslands rekur, gestir, sjálfboðaliðar og staff.

Ekki var nú stoppa lengi við á hótelinu heldur hoppað upp í næsta taxa og beint á Strikið. Um leið og áttum var náð fórum við inn á næstu krá og fengum okkur dansk smurbrauð og öl að sjálfsögðu. Síðan var Strikið arkað með viðkomu í hinum ýmsu búðum og kaffihúsum. H og M skoraði hæst eins og venjulega. Ekki verslaði ég þó neitt af viti. Lét Fanney alveg um það ;-)

Löbbuðum svo í Nýhöfninni í myrkrinu og nutum ljósadýrðarinnar og að vera saman í útlöndum. Þetta kvöld var borðað á hótelinu og svo skellt sér beint á barinn þar sem setið var að sumbli fram eftir kveldi.

Þriðjudagur, líka vaknað fyrir allar aldir og nánast beint út á Kastrup, flugum til Malaga þar sem var líka lært í flugvélinni þrátt fyrir syfju. Þar beið okkar líka rúta sem keyrði okkur til Benalmadena á Puerto Marina Benalmeda Riu hótelið 4 ½ stjörnu hótel. Þvílíkur lúxus þetta var eins og að vera um borð í Titanic. Held enginn okkar hafi áður upplifað annað eins.

Fyrst var fundur með hópnum þar sem farið var yfir stöðuna og málin rædd yfir léttum miðdegisverði. Svo var labbað um næsta nágrenni til að ná áttum. Mjög góð staðsetning 3 mín niður að höfn þar sem skemmtisnekkjur láu í bunkum. 70 metrar á ströndina sem reyndist tilheyra Torrimolinos sem var handan við hornið á okkar splunkunýja hóteli. Frábær staður, allt við hendina og stórmarkaður á hinu horninu ásamt fullt af litlum stöðum og göngugötu rétt ofar með enn fleiri túristabúðum. Við vorum komin í himnaríki og mikil kátína í liðinu. Áttum þó eftir að komast að aðal draumnum á hótelinu.

Allri mættu svo uppáklæddir í kvöldverð á hótelinu sem var innifalinn í gistingunni og þar duttu nú allar dauðar lýs úr okkur Vinjurum. Þvílíkt og annað eins var ekki einu sinni til í okkar villtustu draumum. Við fengum borð sem við héldum allan tímann sem við dvöldum á hótelinu.

Fyrst var haldið á forréttahlaðborð sem var örugglega 10 metra langt beggja vegna með öllu mögulegu á Nammi namm. Auk súpuborðs !!! Svo var annað eins aðalréttaborð heldur styttra þó en alveg magnað þar sem kokkar elduðu jafnóðum allan matinn þannig að allt var fersk og fínt. Svo var steikarhlaðborð og pitzaborð brauðborð og síðast en ekki síst magnað eftirrétta hlaðborð og íshorn að maður tali nú ekki um vínið. Þjónustan var frábær og allt perfekt.

Nema þar þurfti ég að takast á við eina fóbíu mína enn fuglafóbíuna það var lítill fugl sem hélt til að mestu uppá málverki nálægt borði mínu. Þeir sem mig þekkja vita að það getur lagt mig í gólfið að fugl flögri í kringum mig. En ég vann einn sigur þar tókst að halda andliti þrátt fyrir ótta og lét sem ekkert væri þó hjartað hamaðist.

Eitt er víst að ekki léttist maður í þessu ferðalagi þrátt fyrir mikið labb. Svo var farið í næsta sal þar sem var bar og skemmtistaður sem var með lifandi atriði á hverju kvöldi. Þetta kvöld var það töframaður sem tróð uppi. Hann tók gesti upp og Gugga lenti í því fyrir okkar hönd og stóð sig eins og hetja í blöðruatriði. Í lok sýningarinnar spurði hann hver ætti þessi fimm úr sem hann hélt á, þá hafði hann stolið úrum af öllum sem upp komu án þess að neinn tæki eftir því alveg magnaður.

Það voru sælir Vinjarar sem sofnuðu við Miðjarðarhafið þessa nótt.

12.11.05

Komin heim ;-)

Jæja loksins komin heim eftir frábæra og yndislega ferð með æðislegu fólki. Skellti mér beint úr fluginu á Næsta Bar þar sem Guðjón Sigvaldason var að opna myndverkasýningu. Flott sýning mæli með að skella sér þangað. Til hamingju Guðjón.

Allt var í lukkunar velstandi heima svo ég var ekki ómissandi eins og ég hélt það. Sem sagt góð heimkoma eftir góða ferð.

Ferðasaga seinna nú þarf að forgangsraða all herfilega.

10.11.05

Viva la Spanja

Hae hae
Skemmti mer konunglega her a Spani. Buin ad vera mikid ad gera og mikid gaman. Hopurinn er mjog godur og mikid stud i Vinjurunum. A morgun er tad Kobenhavn tar sem eg a stefnumot vid Sigrunu systir. Bid ad heils a Fron. Ferdasagan kemur seinna nu er eg a leid i kvoldmat her a hotelinu tad eru svo margir rettir ad jolahladbordin mega skammast sin :-)

7.11.05

Farin í heimshornaflakk ;-)

Jæja nú fáið þið frí frá mér í viku eða svo. Er lögst í heimshornaflakk og reikna með að nenna ekkert að fara á netkaffihús en hver veit.

Njótið lífsins á meðan. Ég mun gera það.

Kveðja Ása Hildur

ps. Jú heimilið er ekki skilið eftirlitslaust, betri helmingurinn verður eftir heima ásamt syninum, barnabarninu og jafnvel einhverjum fleirum. Fjölskyldustærðin er mjög afstæð þessa dagana þenst út suma daga. En það er gott fyrir kallinn, nóg að sýsla.

5.11.05

Á ég eða á ég ekki ?

Það kom komment frá gömlum vini sem býr í Noregi um að opinbera fleig ummæli móður minnar í trúlofunargeyminu mínu en Maggi sumt er ekki hæft til birtingar opinberlega af tillitsemi við aðra fjölskyldumeðlimi, nefnum engin nöfn.

Einnig biður Maggi um fleiri myndir helst eldgamlar það væri mjög gaman og lítið mál á meðal annars skemmtilegar myndir af honum. En Maggi minn ég ætla að bíða aðeins með það að taka ákvörðun um birtingu þeirra. Var að spá í hvers vegna þú bloggar ekki meira síðasta blogg þitt er að verða ársgamalt? Þar sem við þekktumst mest þegar þær reglur voru í gangi sem kváðu á ef þú gerir eitthvað geri ég eitthvað í staðinn. Þá er ég að spá í að birta fullt af gömlum myndum þegar þú ferð að uppfæra næstum ársgamalt blogg hjá þér. Ok eða hvað er maður genginn í barndóm aftur hvað finnst ykkur? Nú vil ég fá einhver komment takk.

Á meðan ætla ég að skella öllu upp í kæruleysi og skella mér á Sjálfbjargardjamm ;-)

2.11.05

Hjúkk hvað maður er vitlaus

Merkilegt hvað heilinn getur farið illa með mann stundum. Í dag fór ég í nefaðgerðina sem ég er búin að kvíða svo ferlega mikið fyrir í heil þrjú ár. Safnaði loks kjarki og dreif í þessu. Vitir menn þetta var ekkert mál. Ég sem er búin að engjast og pínast og grána yfir þessu. Smá staðdeyfing sem er verst og svo bara .... hlífi ykkur við nánari lýsingum hér en bara smá brunalykt. Búið 5 mínútur. Merkilegt. Nú er bara að sjá hvort kæfisvefninn og hóstinn lagist við þetta.

En svona vegna kommenta um spilin þá eru þau alveg gerð frá grunni af mér eins og kápan skil ekki þessu tortryggni.....

Þetta eru ekki rúnir og ekki rómverskir stafir heldur rússlenskt letur sem heitir Cenobyte. Reyndar þurfti ég að búa til Íslensku stafina sjálf.

Annars er fullt að gera eins og fyrri daginn þó þessi tvö stóru verkefni séu frá. Mér hefur gengið mjög vel að vinna í haginn í skólanum. Á föstudaginn eru svo nefndafundir hjá Sjálfsbjörg dagurinn fer sem sagt í fundarhöld en það verður örugglega ekkert nema gaman. Ég er svo mikið félagsmálafrík :-)

Á laugardag er svo fundur í kvennahreyfingu Öbí og svo um kvöldið Haustfagnaður Sjálfsbjargar á höfuðborgasvæðinu og Íþróttafélagi fatlaðra þar verður örugglega líka mikið stuð ef ég þekki mitt fólk rétt.

Nú svo styttist óðum í brottför af landinu þannig að í mörg horn er að snúast. Vonandi að flensan grípi mann ekki áður. Fólk er að leggjast í hrönnum í kringum mann. Hekla komin með 39 stiga hita í gærkvöldi eða 29 stig eins og hún sagði sjálf. Maður krossar bara puttana.

1.11.05

Þetta skot gekk

Stundum tekst manni að vinna hratt og allt í einu hokus pokus voru spilin bara tilbúin ;-)