31.12.05

Gleðilegt ár

GLEÐILEGT ÁR OG TAKK FYRIR ÞAÐ GAMLA

Áfram með leikinn

Bloggleikurinnheldur áfram þessir hafa sagt sína skoðun á mér og niðurstaðan er hér:

Hanna

1. Drífandi orkubolti, alltaf gott að fá knús frá Ásu Hildi.
2. Edlewiesse/Sound of music.
3. Diet kók.
4. Ogvodafone og Síminn minn.
5. Fyrsta minningin er frá mínum fyrsta aðalfundi í Halanum minnir að það hafi verið 2000. Við gengum í Halann.
6. Lax.
7. Eins og hjá Arndísi, ef það er eitthvað sem brennur á mér að vita varðandi Ásu þá spyr ég strax

Árni

1. Drífandi, orkumikill hógvær partýbolti.
2. White Christmas/Sound of music
3. Kirsuber
4. Internettengingin heima hjá mér...
5. Sjálfsbjörg í þoku, Halinn gerði línur MIKLU skýrari.
6. Örn... auðvitað.
7. Má Örn ekki fara að safna skeggi aftur?

Sigrún Ósk (dóttirin)

1. Þú hlærð alveg svakalega hátt
2. Sound of music, ekki spurning
3. hmmmmmm Ég veit ekki
4. Ég botna bara ekkert í þessu sem átti að meika sens bara fyrir mig og þig....
5. Ég man eftir að hafa verið skömmuð fyrir að borða graslauk í Langagerðinu.
6. Hrútur
7. Geturðu einhvern tíma verið í sömu peysunni 2 daga í röð?

María Jónsd

Ása Hildur:
1. Þú ert ákveðin, hreinskilin og góður hlustandi
2.My favourite things/Sound of music
3.Diet coke
4. Við gerum þetta saman þrátt fyrir....
5.Það tengist eitthvað Halanum...kannski fyrra leiklistarnámskeiðið hjá Guðjóni??
6.Mér dettur ekkert í hug....
7.Ég held ég þurfi ekki að spyrja þig að neinu...

Hef það ekki lengra í bil fríkaði út í langhund á halablogginu Þar kemur fram hvar hugurinn liggur þessa dagana. Eins og það sé eitthvað nýtt !!!

26.12.05

Góð jól

Þessi jól hafa verið yndisleg hjá mér og minni fjölskyldu. Palli bróðir og Frosti voru hjá okkur í mat á aðfangadagskvöld, við átum allar heimsins dásemdir og nutum þess í botn. Heyrðum í Villa frá Afríku og Sigrúnu Jónu frá Danmörk þau báðu að sjálfsögðu að heilsa öllum. Seinna um kvöldið fórum við svo til Sigrúnar og fjölskyldu þar sem við hittum Bjarna, Bryndísi og Heklu og tekið var upp fullt af pökkum. Allt mjög hefðbundið og notalegt.

Á jóladag var verið á náttfötunum fram eftir degi og svo farið seinnipartinn í jólaboð í Ödda fjölskyldu þar sem snætt var hangiket að þeirrar fjölskyldu sið og svo spilað fram eftir kveldi.

Í kvöld koma svo Palli og Frosti og ætla að elda fyrir okkur og Lovísu og fjölskyldu þá verður maður búinn að hitta alla fjölskylduna sem á landinu er þetta árið. Mér finnst þessir dagar alltaf mjög mikilvægir og yndislegir. En eins og ég hef áður sagt hefur mér ekki alltaf liðið vel þessa hátíðardaga en það er liðin tíð og jólabarnið í mér er í öndvegi þessa dagana.

Ég set svo myndir inn eftir kvöldið í kvöld en Palli er kominn með jólamyndir á þessar slóð.

HÉR fann ég svo skemmtilega mynd af okkur fjölskyldunni úr meðmælagöngunni 9. des. sl á vef ÖBÍ

24.12.05

Gleðileg jól


Kæru lesendur ég óska ykkur öllum Gleðilegra jóla og friðsældar á komandi ári um leið og ég þakka ykkur fyrir blogg-samveruna á árinu.

22.12.05

Já já er ekki best að fylgja bloggtískunni ;-)

Þú skráir þig s.s. í skoðanir og ég:

Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig.
Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig.
Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig.
Ég segi þér eitthvað sem meikar bara sens fyrir mig og þig.
Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér.
Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á.
Ég spyr þig að einhverju sem ég hef lengi velt fyrir mér um þig.
Ef þú lest þetta þá verðurðu að setja þetta á bloggið þitt...

21.12.05

Ó já jólin eru komin...

Eða þannig líður mér núna. Í dag fórum við hjónin á litlu jólin í Vin. Áttum þar yndislegan dagspart þar sem borðað var hangiket með öllu tilheyrandi. Sungið, hlustað á upplestur og notið þess að vera saman í þessu vinalega athvarfi við Hverfisgötuna. Fjölmenni var í ár og að sjálfsögðu kom hin jólalega hljómsveit Bambínós og skemmti gestum á sinn einlæga hátt.

Myndirnar frá í dag eru HÉR

Hekla var að passa gömlu hjónin í gær og skellti sér í perluföndrið sem hefur verið árvisst með öllum börnum í þessari fjölskyldu. Þetta eru tveir af mínum uppáhaldsatburðum á aðventunni svo nú er ég tilbúin til að hleypa jólaboðskapnum inn í hjarta mitt þetta árið.

Á morgun á svo að pakka inn gjöfunum og fara yfir allt og gera loka innkaupalista sem ég held að geti nú ekki verið mikið annað en mjólk og salatblöð.

Vonandi gengur eins vel hjá ykkur öllum lesendur góðir.

18.12.05

Jólastuð að komast á alvarlegt stig



Enn ein annasöm vika að baki og fullt að gerast. Á mánudaginn fékk ég einkunnirnar mínar og var bara glöð með þær tvær áttur tvær níur og ein tía  er þar með útskrifuð sem Vefsmiður.



Tvær jarðafarir voru í vikunni það er alltaf erfitt en gangur lífsins segja þeir. Fór norður á Blönduós á laugardag og hitti þar fósturfjölskyldu mína alla á einu bretti. Það var ansi áhugavert og ákveðinn hjalli fyrir mig að yfirstíga. Þar sem ég sleit öllu sambandi við þau fyrir nokkrum árum. En er glöð með ferðina sem ég fór með Rögnu Guðrúnu sem líka var í sveitinn með mér og hefur heldur ekki komið norður í mörg ár.



Jólabíó var í Halanum í gærkvöldi og var mikil stemming í hópnum. Það mæta alltaf fleiri og fleiri. Í dag var svo undirbúningsfundur vegna Pókoks, ýmsar hugmyndir hafa fæðst í vikunni og verður gaman að vinna úr þeim.



Jólastússið er á fullu og jólatréð komið upp Hekla sá til þess. Stíllinn í skreytingunum þetta árið er allar sortir og allt of mikið ;-) Við eigum fjárhús með litlum styttum sem í eru María, Jósef, Jesúbarnið í jötu, engill, vitringar ofl. ofl. Þegar tekið var upp úr kassanum komu fjórir jesúar, sú stutta var nú ekki lítið hneyksluð. En í fyrra var það aðalstuðið að hafa jesú sem þríbura. Fljótt skipast veður í lofti þegar maður er bara 8 ára.

Hef verið ansi dugleg við saumavélina og ýmislegt klárað sem lengi hefur beðið.

15.12.05

Palli bróðir er 43 ára í dag

Til hamingju með daginn Palli minn



Palli er hér fremstur litli bróðirinn í hópnum Það er ég viss um að flugvél hefur flogið yfir í þann mund sem þessi mynd er tekin. Flugvöllurinn er ekkert nýtt vandamál hér í borginni.

13.12.05

Auglýsingahornið

Laugardaginn 17. desember klukkan 20:00

verður jólabíó í Halanum, Hátúni 12.
Þá verður sýnd klassíska jólamyndin ,,White Christmas" á stóru tjaldi! Eftir myndina verður eitthvað óvænt gert.

Enginn aðgangseyrir.

Jólaveitingar á staðnum

Allir velkomnir

11.12.05

Næg verkefni og mikið gaman

Enn stend ég upp á haus í ofvirkninni brjálað að gera annars er ekkert gaman !!!

Á föstudaginn fórum við hjónin með Heklu í meðmælagönguna frá Hallgrími niður á Austurvöll í skítsæmilegu veðri en blautu. Fjölmiðlar segja að það hafi verið um 400 manns í göngunni hef ekki hugmynd um það en það var mjög góð stemming og spjöldin virkuðu fínt. Örn fór í nýja hjólastólnum og kom hann bara vel út. Lagði ekki í að fara á Viktoríu vegna tvísýns veðurútlits. Fundurinn gekk líka mjög vel þrátt fyrir úrhelli. Hekla tók þátt í þessu stússi gamla settsins af mikilli einbeitingu en trúir því nú að hagur öryrkja fari batnandi fyrst Davíð ræður ekki lengur.



Á föstudagskvöldið skelltum við Hekla okkur svo á Jólaævintýri Hugleiks í Tjarnarbíói. Þar áttum við frábæra kvöldstund með þessum skemmtilega leikhóp. Við hrifumst báðar upp úr skónum. Mæli hiklaust með þessari sýningu fyrir fólk á öllum aldri. Keyftum líka geisladisk með lögum úr sýningunni sem er búinn að vera á fóninum síðan. Mikið gaman og þjóðleg stemming. Heklu fannst merkilegt hvað þau notuðu ljót orð og átti ekki orð yfir þennan dónalega orðaforða sumra leikara og á geisladisk líka. Fussum svei en hafði samt gaman af. Stundum á spennandi augnablikum var gripið í hendina á mér og haldið fast gegnum sumar draugasenur.

Sú stutt var svo hrifin þegar hún kom út að hún neitaði að fara lengra en út í bíl fyrr en hún væri búin að hringja í báða foreldra sína til að tjá þeim hrifningu sína. Já þetta er sko eins skemmtilegt og Harry Potter bara öðruvísi. Það er sko stórt hrós frá minni ömmustelpu. Henni fannst líka merkilegt að þau væru búin að stela grímunum frá Halaleikhópnum. En amma leiddi hana í allan sannleikann með grímurnar.

Undur og stórmerki gerðust á föstudagsmorguninn ég fékk nýja bakaraofn eftir 8 ára bið. Þolinmóð kona. Já góðir hlutir gerast hægt. Á laugardag var hann svo vígður með Pavlóvinni góðu. Og vitir menn hún tókst æðislega. Í dag sunnudag var svo skellt í Piparkökur og jólastemmingin í algleymingi. Sigrún Ósk kom og hjálpaði okkur við að fletja deigið út við erum orðin svoddans hró í höndunum. Þetta var yndisleg stund.

Annars mátti Hekla ekkert of mikið að vera að þessu hún þurfti jú að lesa Harry Potter. Hún liggur í henni nótt og dag og þrælast í gegnum þessar 740 bls. með hjálp en er farin að lesa heilmikið sjálf alveg dottin í bókaorminn eins og hún á kyn til. Við erum ansi stolt af henni enda er þessi bók ansi þung leslega séð og líka í kílóum mesta furða hvað prinsessan puðar. Meðan á bakstri Pavlovunnar stóð fannst Hekla inni í búri á stól að lesa. Hún sem veit ekkert skemmtilegra en baka.



Á laugardagskvöldið fór ég með Villa lýsing í Þjóðleikhúsið að sjá Halldór í Hollivúdd, þvílíkt flopp sýningin var ömurleg sagan var alls ekki að gera sig. Sviðsmynd og búningar voru flott en annað bull. Ekki fleiri orð um það.

Palli og Frosti komu í Pavlovu og Piparkökur í dag og var Palli þá gripinn í að setja upp hilluseríurnar ásamt Sigrúnu. Takk fyrir hjálpina bæði tvö :-)



Sigrún Jóna systir er 59 ára í dag og bjölluðum við í hana hún var hress og biður að heilsa öllum. Ég heyrði líka í Stebba bróðir og Villa um helgina og allir eru hressir og kátir og biðja að heilsa öllum.



En lífið er ekki tómt gaman, dauðinn stígur dans í kringum mig þessa dagana og það stefnir í mikla jarðafaraviku næstu dagana. Pálmi Ólafsson Holti lést í síðustu viku. Fyrir þá sem ekki þekkja sögu mína þá var hann eitt sinn það sem kallaðist fósturafi minn, sem sagt faðir fósturmóður minnar. Pálmi var fínn karl og reyndist mér alltaf mjög vel. Það veltur svo á því hvaða dag hann verður jarðaður hvort ég fer norður eða ekki. Því það á líka að jarða Helga Jósefsson lærimeistara minn í vikunni.

Ég tók þá ákvörðun fyrir nokkrum árum að slíta sambandi við þessa fjölskyldu að mestu vegna hluta sem ég réð ekki við þá. Nú er kominn tími til að horfast í augu við sjálfan sig og vona hið besta. Allavega býst éf við að fara ef það verður ekki sama dag og hin jarðaförin og veður og færð leyfa langferðir.

9.12.05

Gleymdi einu

Núna eru 15 dagar 17 klukkustundir 22 mínútur og 50 sekúndur til jóla ;-)

Erfiður viðsnúningur

Það gengur illa að slaka á eftir törnina. Ég æði úr einu í annað sem kemur sér stundum vel. Hef verið að gera ýmislegt hér heima sem setið hefur á hakanum, misskemmtileg. Þvoði eldhúsgluggann setti í hann seríu og jólagardínur. Rótaði í jólakössunum og drita skrauti hér og þar. Er komin með stóra borðið á mitt stofugólfið og þar er ég að bagsa ýmislegt, saumaði 3 koddaver, stytti buxur, stagbætti kagbættar uppáhaldsbuxur sonarins, föndra og er rétt í upphafsskrefunum í því. Er búin að fá loforð um nýjan bakaraofn fyrir jólin svo hver veit hverju ég tek uppá næst.

Í gær fór ég í sundleikfimina mína yndislegu. Þaðan beint í Halann og fékk kast þar við að mála á meðmælspjöldin fyrir gönguna á morgun. Það var ansi skemmtileg, skemmti mér svo vel að ég var næstum of sein á jólatónleika í Grensáskirkju í gærkvöldi, hafði engan tíma til að borða (já alveg satt).

Samkór Kópavogs og Reykjavíkur héldu sameiginlega tónleika það var notaleg stund, maður slappaði af og lét jólalögin síga inn í hjartað, frábært. Ekki skemmdi fyrir að mágkona mín elskuleg söng eins og engill í öðrum kórnum. Takk Olla fyrir gott kvöld.

Hekla ætlar með í gönguna og við ætlum svo í leikhús saman annaðkvöld þannig að ég sé nú ekki fram á neina slökun strax en það kemur. Vakna enn fyrir allar aldir en hamast við að snúa mér á hina, kann það varla lengur, hlýtur að koma með æfingunni.

6.12.05

Búin

Jæja þrátt fyrir ýmsa þröskulda síðustu dagana kláraði ég lokaverkefnin mín í dag og fór með þau í prentun í dag og skilaði af mér. Þá er þessum kafla lokið í lífi mínu og eitthvað annað tekur við. Þessi ár í skólanum hafa verið skemmtileg og gert heilmikið fyrir mig.

Þetta byrjaði allt með því að mætur maður stakk upp á því við mig að skella mér í smá íslensku upprifjun sem ég fór í í Fjölmennt þegar það merka framtak fór í gang áður en ég vissi af var ég komin í fjarnámi við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Áður en ég vissi af var ég komin í dagskóla og fyrr en varði var ég komin í fullan skóla í Vefsmíðanámi og kláraði það núna.

Maðurinn og lærimeistari minn sem kom mér af stað í þetta allt saman og var mín stoð og stytta frameftir þessu lést um aldur fram á föstudaginn var. Blessuð sé minning hans. Hann var mjög merkur maður og mikill hugsjónamaður með stórt hjarta. Guð hefur þurft á honum að halda í önnur verkefni eftir sitjum við með holu í hjartanu.

Dagurinn í dag var annasamur þrátt fyrir lok lotunnar. Fyrst var farið í Samveruna og súpuna hjá Sjálfsbjörg þar sem ég bauð fram krafta mína í það mæta verkefni.

Átakshópur öryrkja hittist svo seinnipartinn þar sem var verið að undirbúa meðmælagöngu og fund á föstudaginn þar sem á að afhenda alþingismönnum jólapakka. Skýrsluna góðu.

Í kvöld var svo saumaklúbbur hjá mér og talsvert saumað og mikið malað. Notalegt þar sem ég hef sökum anna ekki getað mætt mikið í vetur. En þetta stendur allt til bóta.

Nú bíða jólagardínurnar eftir mér. Í fyrsta sinn í mínum langa búskap eru þær ekki komnar upp enn. Tek bara jólaflippið vel út alla vikuna vonandi.

Það stefnir svo í mikla leikhúshelgi hjá mér. Við Hekla ætlum að sjá Jólaævintýri Hugleiks í Tjarnarbíói. Og svo verður fyrsti leikstjórafundurinn á laugardaginn sem við ætlum að enda á leikhúsferð og sjá Halldór í Hollivúdd.

En á morgun miðvikudag á að hittast kl. 17.00 í Halanum og mála spjöld fyrir gönguna á föstudag. Vonandi mæta allir sem vettlingi geta valdið.

Auglýsingahornið

Fundur í Átakshóp Öryrkja í dag kl. 16:00
fundarstaður: Hátún 10, jarðhæð, fundarsalur Öryrkjabandalags Íslands.

Efni: Dreifing auglýsinga fyrir meðmælagönguna sem áætluð er 9. des. nk. o.fl.

3.12.05

Mælirinn fullur

Núna finn ég að það er komið nóg af álagi. Loksins. Ég þurfti að hringja stutt símtal í náinn ættingja til að fá smá upplýsingar. Ekki stóð vel á hjá þeim sem ég hringdi í, meðan á samtalinu stóð þá fann ég hvernig ég minnkað og minnkaði inni í mér og þegar viðkomandi var kominn á hæsta tóninn, já eiginlega öskraði á mig í símann var mér allri lokið og þegar símtalinu lauk var ég öll í molum og hágrét.

Þetta er ekki góð tilfinning en segir mér margt um mig sjálfa og ástandið sem ég er búin að bjóða mér uppá þetta haustið. Ekki leystist vandamálið sem varð til þess að símtalið átti sér stað en það verður bara að hafa það. Ekki geri ég aðra tilraun í þá áttina í bráð. En fer í að reyna að púsla sjálfri mér saman áður en allt fer í alvarlegt óefni.

Ég er nú í síðustu verkefnunum í skólanum með tilheyrandi pressu, búin með gagnagrunninn og næstum með annað plakatið sem mér reyndar vantar smá aðstoð við og hitt er að fæðast í huganum held ég. Eftir þessa reynslu af sjálfri mér held ég að ég segi svo stopp við meira skóladóti og sleppi alveg enskuprófinu enda kemur það ekki til með að skifta neinu máli í loka uppgjörinu fór bara í hana til að þjálfa mig í henni.

Annars er jólaskapið stutt undan og ég nýt þess á ferð minni um bæinn að fylgjast með jólaskreytingum hér og þar. Þegar seinna plakatinu líkur þá fer ég á fullt og næ í glaða og hamingjusama jólabarnið sem er inni í mér.

Þegar þessi orð eru skrifuð eru 21 daga, 4 klukkustundir, 19 Mínútur og 22 Sekúndur til jóla.

2.12.05

Auglýsingahornið

Alþjóðadagur fatlaðra 3. desember !!!

Haldið verður upp á alþjóðadag fatlaðra í Alþingishúsinu milli kl. 14 og 15.
Þar verður forseta Alþingis, Sólveigu Pétursdóttur, afhend hressleikaverðlaun ungliðahreyfingar Sjálfbjargar, Ný-ungar, í viðurkenningarskyni fyrir bætt aðgengi í Alþingishúsinu og Skála Alþingis. Af þessu tilefni verður athöfn í efrideildarsal Alþingishússins.

Þá verður ennfremur athöfn í Skála Alþingis þar sem Tinna Gunnlaugsdóttur, þjóðleikhússtjóri, tekur við hvatningarverðlaunum Sjálfbjargar í viðurkenningarskyni fyrir áætlanir um bætt aðgengi í leikhúsinu. Ragnar Gunnar Þórhallsson, formaður Sjálfsbjargar, og Guðmundur Magnússon, leikari og formaður starfsnefndar Sjálfsbjargar um ferlimál, munu segja nokkur orð.

Félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, og umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, munu síðan opna formlega vefsíðu fyrir handbókina „Aðgengi fyrir alla“. Með þessari vefsíðu er stigið fyrsta skrefið í átt að vef sem ætlað er að þjóna jafnt hönnuðum, aðilum í byggingargeiranum, eftirlitsaðilum, hagsmunahópum og öðrum sem fjalla um aðgengismál.

Sínum samstöðu og mætum sem flest

1.12.05

Sitt lítið af hverju

Skólinn er búinn það er mætingarskildan. Enn eru 3 verkefni ókláruð og svo er það stóra spurningin hvort maður eigi að hætta sér í enskuprófið.........
Heilmikill söknuður fylgir þessu þó þar sem ég er að útskrifast sem Veftæknir um jólin. En það taka önnur verkefni við.

Allavega ligg ég nú dag og nótt yfir gagnagrunnsverkefni sem á að skilast fyrir helgi. Gengu allt á afturfótunum. En mjakast þó hægt fari.

Dreif mig á morgunverðarfund hjá Öbí í morgun vegna útkomu skýrslu Stefáns Ólafssonar um örorku og velferð á Íslandi. Athyglisverðar upplýsingar sem þar komu fram um stöðu öryrkja á Íslandi, hvet ykkur til að lesa hana hún er HÉR í PDF skjali og frétt um hana HÉR og HÉR og HÉR og HÉR og eflaust mikið víðar. Vonandi getur þessi góða skýrsla orðið okkur gott vopn í stríðinu við stjórnvöld í þessu velmektarlandi.

Annars er allt gott að frétta héðan af Sléttuveginum. Sigrún Jóna systir var hjá mér í viku og þá var staðan tekin á stórfjölskyldunni það var ansi notalegt. Hér hafa verið fjölskylduboð á hverjum degi nánast svo maður fer vel kýldur inn í jólastandið.

Aðventukransinn er kominn upp og meira á leiðinn þegar verkefnavinnu lýkur. Ég þarf að gera tvö kvikmyndaplaköt fyrir mánudaginn og hef alls engar hugmyndir hvað þá meir alveg galtóm. Ef ykkur dettur eitthvað skemmtilegt í hug megið þið endilega luma hugmyndum til mín.