31.12.06

Til hamingju með afmælið Hannes og Pálmi Þór

Tveir heiðursmenn eiga afmæli í dag þeir Hannes mágur minn og Pálmi Þór bóndi í Árholti. Sendi ég þeim báðum kærar afmæliskveðjur.


Hér mun ekki koma neinn áramótapistill að sinni. En ég vil nota þetta tækifæri og óska lesendum mínum Gleðilegs nýárs og þakka fyrir liðið ár. Sérstaklega vil ég þakka fjölskyldu minni fyrir alla þolinmæðina og umburðarlyndið við mig. Og vinum fyrir vináttuna og kærleikann.

30.12.06

Til hamingju með afmælið Óskar Örn og Inga Aðils

Þessi strákur á afmæli í dag orðinn 12 ára undarlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Mér finnst ekki langt síðan hann var oggupínulítill í fangi stoltra foreldra sinna. Óskar minn til hamingju með daginn, sjáumst á morgun.

Ferðafélagi minn hún Inga Aðils á líka stórafmæli í dag, við Inga höfum brallað ýmislegt saman ferðast innanland sem utan og tekið þátt í að safna fyrir geðsjúkrahús í Gambíu, þessi mynd var tekin þegar við vorum að pakka í gám til að senda út síðast. Til hamingju Inga mín.



26.12.06

Jólamyndirnar

Jæja þá er maður búinn að njóta jólanna. Mikið um fjölskylduboð og mikið gaman. Borðað á sig gat hvað eftir annað. Já sem sagt dásamleg jól. Sem ég ætla að lýsa með myndum að þessu sinni. reyndar gleymdist myndavélin fyrr en upp úr 10 á aðfangadagskvöld en hvað með það.

Palli bróðir og Frosti voru sem sagt hjá okkur í mat og við borðuðum ma. gamaldags lambahrygg. Vorum svaka ánægð með hann öll sömul. Við vorum svo róleg og afslöppuð að við næstum gleymdum að opna pakkana en það hafðist og ýmislegt skemmtilegt kom úr þeim. Eftir eftirréttin var svo skundað upp í Blikahóla í kaffi til Sigrúnar Óskar og fjölskyldu.

Hér er Bryndís orðin að þessari líka fegurðardís. Takið eftir eyrnalokkunum sem ég bjó til handa gellunni minni.

Hér eru Palli og Frosti búnir að koma sér vel fyrir í sófanum, myndavélin komin á loft.

Hekla fékk þennan fína grjónastól og er þarna komin með bók í hönd en það er hennar uppáhald. Enda fékk hún þær margar þessi jólin.

Hér eru systurnar Hekla og Bryndís saman í sínu fínasta pússi, þær eru á flissstiginu svo vonlaust er að ná mynd af þeim saman en það var reynt mikið þetta kvöld. Takið eftir ljósakrónunni :-)

Á jóladag var svo fjölskyduboð Ödda megin 14 manns í hangikjeti og alles hjá okkur þetta árið. Við settum upp langborð í stofunni hér eru Dabbi, Óskar, Auður, Steini, Jóhann og Svavar.

Hinu megin sátu Hannes, Örn, Olla, Ingimar og Bjarni. Á myndina vantar mig Sigrúnu og Heklu, en við vorum öll á svæðinu.

Að sjálfsögðu var farið að spila á eftir hér eru Svavar, Sigrún og Hannes að taka Trivjal Persuit ýmsir fleiri tóku í það en voru eitthvað á vappi þegar myndinni var smellt af.

Auðvita var spilað á mörgum borðum í eldhúsinu var Hættuspilið í gangi. Hér eru Óskar Örn, Jóhann Auðunn, Hekla, Dabbi, Auður og Olla í slagnum.

Óskar Örn er mikill spilakappi og kom og hjálpaði mér í Trivjalinu sem ég er vonlaus í og bjargaði heiðri mínum. Takk Óskar minn.

Siggi Haukur bættist svo í hópinn þegar á leið kvöldið og brá sér strax í jólasveinagerfi enda mikill jólasveinn, þó það nú væri fæddur á jólunum. Hér er hann að hrella Steina pabba.

Jóhann Auðunn kom öllum á óvart og dró upp gítar og spilaði og söng fyrir okkur af mikilli innlifun. Frábært hjá honum það vantar ekki hæfileikana á þeim bæ. Takk Jóhann

Annan í jólum var svo næsta fjölskylduboð hjá Palla og Frosta þar sem við vorum og Lovísa og Gabríel. Hér er hann í nýju peysunni sem strákarnir gáfu honum. Mikið er skreytt hjá Palla ma. má sjá að grímurnar á veggjunum fengu jólasveinahúfur.

Gabríel er mikill íþróttaálfur og þurfti mikið að hoppa og sófinn var góður lendingastaður. Hann þurfti að hafa hælana út úr sokkunum svo hann gæti stokkið hærra :-) Hann naut þess að vera eina barnið og fékk alla athyglina.

Hér er hann í peysunni sem Stebbi sendi honum frá Noregi.

Ingimar Atli og Örn dasaðir eftir dásamlegan mat. Já það er ekki annað hægt að segja en við höfum mikla matarást á Frosta sem klikkar aldrei. Takið eftir öllum seríunum hans Palla ;-)
Við reyndum að ná þeim mæðginum Lovísu og Gabríel saman á mynd en árangurinn var ekkert glæsilegur en samt ....

Bókin um stafakallana vakti mikla lukku hjá Gabríel spái því að hann verði fljótt læs.


Palli fór að rifja upp gamla takta við að setja saman Lego en eitthvað er honum farið að förlast kallinum, en þeir skemmtu sér stórvel við þetta. Lovísa ætlar held ég að taka þetta sundur og setja aftur saman þegar heim kemur. Ég sem hélt þetta væri barnadót :-)

24.12.06

Gleðileg jól


Kæru ættingjar, vinir og aðrir bloggarar ég óska ykkur Gleðilegra jóla og blessunar yfir hátíðinar set hér inn slóð á Jólaguðspjallið



Megi friður vera með ykkur

19.12.06

ýmislegt bilar þegar verst á stendur

Í síðustu viku fór viftan yfir eldavélinni og í gær fór bíllinn minn kæri að hökta. En einhvern veginn reddaðist þetta nú allt saman. Bíllinn slapp beint inn á verkstæði og þeir gerðu við hann strax, þetta voru bara kerti og kertaþræðir sem vildu fá endurnýjun fyrir jól. Og í þessum skrifuðu orðum er rafvirkinn mættur með nýja viftu og er að setja hana upp. Svo hér verður ekki steikarbræla á jólunum.

Annars er allt í gúddý og rólegheitum hér. Hekla og Ingimar settu upp jólatréð í gær og skreyttu svo það er englaþema í ár ;-)

Jólagjafirnar eru flestar komnar í hús svo nú eru það matarinnkaupin sem eru efst á verkefnalistanum. Annars ætlum við að skella okkur í jólaljósaferð til Reykjanesbæjar seinnipartinn og njóta aðventunnar með góðum hóp af Hátúnssvæðin.

16.12.06

Mont mont


Já hún Hekla mín er nú eitthvað til að monta sig af. Var að fá þessar fínu einkanir úr samræmdu prófunum sjá HÉR. Þetta finnst mér mikil gæfa að eiga svona auðvelt með að læra og falla inn í skólakerfið á þessum síðust og verstu tímum. Hekla mín til hamingju með einkanirnar.

15.12.06

Palli til hamingju með afmælið

Palli litli bróðir minn er 44 ára í dag. Til hamingju Palli minn. Skellti hér inn mynd sem mér finnst svolítið týpísk fyrir Palla og lýsa honum ágætlega. Hún er tekin heima hjá honum í haust. Eins og sjá má er hann mikið fyrir sjónvarp og hér má sjá tvo af skjánum sem eru í stofunni. Hvað þeir eru margir veit ég ekki ;-) En einnig má sjá hitt sem er stór partur af Palla það eru myndir og munir frá fjarlægum heimshlutum. Palli er duglegur að ferðast um heiminn.


Annars er allt gott að frétta þó bloggletin sé viðvarandi þessa dagana. Saumavélin hefur átt hug minn allan. Var að enda við að sauma hárautt utan um allar sessurnar á stólunum mínum og svuntu í stíl. Auk annars tilfallandi.

Nú og ekki má gleyma föndrinu sem er alltaf að ná nýjum hæðum. Fór á námskeið í lampagerð á þriðjudaginn og gerði þennan líka fína jólalampa úr hleðslusteini og servettum. Svo kláraði ég jólakortin í vikunni og setti í póst 54 og öll handgerð. Æ þetta finnst mér svo skemmtilegt.

Nú og svo eru bara 9 dagar til jóla og jólasveinarnir mínir farnir að týnast af fjöllum einn af öðrum. Já ég er jólastelpa og elska þennan árstíma.

11.12.06

Sigrún Jóna 60 ára

Í dag er Sigrún Jóna systir mín 60 ára. Hef ekki náð í hana í síma enn. En held áfram að reyna. Til hamingju með afmælið elsku besta systir.


10.12.06

Jólapera :-)


Fór í kvöld á Jólaperu á Grand rokk þar sem Villi var að leikstýra. Frábær sýning og skemmtileg. Kom brostandi hringinn út. Þetta er stutt 45 mín. og tóm gleði. Frábærar rýmislausnir, góður söngur (hjá flestum) búningarnir skemmtilegir og skartgripirnir æði. Eitthvað fyrir okkur stelpurnar. Mæli hiklaust með þessari skemmtan tvær sýningar eftir næsta sunnudag, kostar bara 500 kall. Ekki má gleyma að Gunnsó vinur minn fór á kostum sem vitringur.

9.12.06

Róleg vika

Já það er lítið jólastress á þessu heimili þetta árið. Var á msn að ræða við vinkonu mína í gærkvöldi og hún var að spyrja hvað ég ætlaði að afreka um helgina. Hún varð hálf hvumsa þegar ég sagðist aðallega hafa þau plön að liggja í leti og bara gera það sem mig langaði til.

Mér finnst ekkert atriði að mæta á allar uppákomur sem eru í auglýsingaskyni að mestu út um allan bæ. Er bara búin að kaupa eina jólagjöf og pollróleg með restina. Ekki það ég gef mjög fáar jólagjafir og bara til allra allra nánustu fjölskyldumeðlima.

Við Hekla, Stebba, Labbi og Ásdís fórum á fimmtudagskvöldið í Þjóðleikhúskjallarann á jólabónusdagskrá Hugleiks og var það hin besta skemmtun, þó verkin væru misvelheppnuð. Söngurinn var frábær og greinilega miklir hæfileikar meðal Hugleiksfélaga.

Þjóðleikhúsið stóð sig aftur á móti ekki eins vel. Okkur var sagt það væri komin þessi fína lifta niður í kjallarann og ekkert vandamál með aðgengið. Raunin varð önnur. Áður en við lögðum af stað hringdi ég í starfsmann sem ég þekkti og spurði hvar við ættum að fara inn. Jú jú bara gamla innganginn næst Þjóðmenningarhúsinu. Ok við mættum þangað ekkert nema tröppur. Líka hinum megin þar sem skábraut er þegar verið er að sýna uppi. Ég fór inn að spyrjast fyrir, enginn vissi neitt og enginn starfsmaður Þjóðleikhússins tiltækur. Við fórum að þreyfa okkur áfram fundum lyfturnar 2 mjög fínar. Ok ekkert mál strákarnir kippa þeim sem eru í hjólastólum upp útitröppurnar. En þá tók nú ekki betra við stóra fína lyftan virkaði bara alls ekki. Fjöldi stráka kom og reyndi að ýta á alla takka en ekkert gekk. Á endanum varð að bera stólana niður og upp aftur. Lyftan niður í salinn var aftur á móti fín en reyndar aðeins bakdyramegin týbískt. Mér finnst þetta skömm fyrir Þjóðleikhúsið að hafa þetta ekki í lagi og mann á svæðinu sem getur sett út skábrautir og annað sem til þarf. En Hugleikur var frábær.

En sem sagt framundan er enn sem komið er róleg helgi. Ætla reyndar að kíka á Jólaperu – helgileikinn um Jósef frá Nasaret á Grand rokk á sunnudagskvöldið þar sem Villi ljósálfur er að leikstýra.

6.12.06

Ó engin desemberfærsla

Hef bara ekki verið í bloggstuði enda hugurinn um víðan völl eins og endranær.

Helgin var góð en strembin. Jólabingóið hjá Sjálfsbjörg gekk vel og var bara gaman. Kórinn klikkaði ekki og er ég stolt að mínum manni þar. Svo var farið á jólahlaðborð á Sögu mjög vel heppnað góður matur og félagsskapur sem hélt saman fram eftir nóttu.

Sunnudagurinn hófst svo á heimsókn í Ikea dótturinni fannst þetta ekki tækt að ég hefði ekki komið í nýju búðina svo það var farin fjölskylduferð þangað. Held foreldrarnir hafi verið að reyna að blekkja Heklu til að setja eitt og annað þaðan á óskalistann enda eru þau með eindæmum mikil Ikeafön :-)

Þá var haldið í hið árlega og yndislega smáköku boð hjá Ollu mágkonu sem bakaði ógrynnin öll af smákökum ofl. og bauð allri fjölskyldunni. Þetta er einn af þeim siðum sem mér finnst ómissandi. Takk Olla mín.

Á sunnudagskvöldið var svo haldið úr bænum og við skelltum okkur í leikhús í Mosó og sáum Varaðu þig á vatninu þetta var góð kvöldstund með miklum hlátri. Vel gert hjá mosfellingum. Takk fyrir mig.

Mánudagurinn rann svo upp með fundarhöldum fyrst fyrir Halann í fjáröflunarskyni og svo niður í Vin þar sem við vorum að taka formlega við hinum höfðinglega styrk frá Fons til Ferðafélagsins Víðsýn með kjötbolluveislu. Um kvöldið datt ég svo í jólakortagerð og er búin að handgera góðan bunka ;-)

Í gær var svo jarðaför sem tók daginn að mestu. Mikill heiðursmaður kvaddur. Fór svo í saumaklúbb í gærkvöldi var ekki afkastamikil þar. Komst að því að fjaðrir eru ekki heppilega í vængi á englum ?

Í dag er ég svo á leið úr bænum aftur nú til Reykjanesbæjar með Víðsýn ætlum að skoða bítlasafnið og heimsækja Björgina og fara svo jólaljósarúnt á heimleiðinni.

30.11.06

Hláturmild stjórn

Ekki mikið að segja frá í dag var í allskyns sjálfboðavinnu og fundarstússi. Samráðshópur athvarfanna var í dag og mætingin mjög góð. Skemmtilegur hópur sem er að ná saman þar. Partur af Viðsýn átti svo örfund um áríðandi mál. Leysum það.

Hleraði að stjórnarfundurinn í Halanum í gær sem ég missti af hefði verið ansi skemmtilegur. Ármann kom með part af handritinu til að kynna stjórninni og mér skilst að þau hafi velst um af hlátri. Það lofar góðu fyrir skemmtileg vor og gott leiktímabil eftir áramót. Nú er bara að taka ákvörðun hvort maður vill vera með eða gera eitthvað allt annað. Ekki það að það sé nein spurning í mínum huga og þó. Stundum virðist grasið grænna hinumegin.

Allt stefni í mjög svo skemmtilega og annasama helgi hjá mér jólabingó með meiru hjá Sjálfsbjörg, Jólahlaðborð með öllum skemmtilegustu vinum mínun, Jólasmákökuteyti hjá Ollu, umm hlakka til svo leikhúsferð á sunnudagskvöldið. Þetta er það sem mér líkar að hafa fullt að gera þó skrokkurinn reyni af veikum mætti að mótmæla þá hlusta ég ekki núna takk.

29.11.06

Ingimar til hamingju með afmæli

Litla barnið mitt eins og ég kalla soninn í gríni er 26 ára í dag. Til Hamingu með daginn ástin mín. Mikið eru nú árin fljót að líða, kúturinn liggur í langri og strangri flensu en hefur vonandi list á góðum mat í kvöld. Já og Halli minn til hamingju með daginn í gær.



Dóttirin kom í gær og hjálpaði okkur við að setja upp jólaljós. Nýju fínu ljósin komin í stofugluggan, ákváðum að henda seríunni úr eldhúsglugganum hún var eitthvað léleg svo nú er það bara rúmfó í dag og endurnýja. Mikið var ég sæl með þetta. Já og Palli hillusamstæðuljósin fóru í rúst en dóttirin gat lagað þau án þess að sprengja öryggi :-)



Eitt og annað smálegt af jóladóti er að týnast upp með diggri aðstoð Heklu sem er ekki sátt við skreytingastefnuna fyrir jólin heima hjá sér. En fær útrás hér.



Hey svo er það nýjasta æðið. Fórum fjórar vinkonur á námskeið í skartgripagerð á mánudagskvöldið í Perlukafaranum. Ferlega gaman og merkilegt manni tókst að gera ansi flotta hluti, þó ég segi sjálf frá. Hið merkilega var að við gerðum allra hálsfesti og eyrnalokka en þetta var svo ólíkt hjá okkur að það var ekki findið. Held ég eigi eftir að dútla við þetta áfram. Gaman gaman.

26.11.06

Búin með allt ?

Ég er búin að hitta nokkra undanfarna daga sem hæla sér af því að vera búin með allt fyrir jólin. Skil þetta alls ekki þó ég leggi mig alla fram.

Hvað er að vera búin með allt ? Jú sumir segja kaupa jólagjafirnar allar. Mér finnst ekki allt búið þá. Jú á mínu heimili tíðkast að pakka þeim inn og koma þeim af sér. Trúi ekki að fólk sé búið að því. Hvað með aðventukransinn er búið að búa hann til og brenna hann niður? Er fólk búið að senda jólakort trúi því ekki heldur. Er fólk búið að skúra skrúbba og bóna? Aumingja það þá verður grútskítugt hjá þeim á jólunum. Er fólk búið að fara á jólatónleika, baka, föndra, kaupa jólafötin, setja eða taka úr skónum, finna barnið í sér og svona mætti lengi telja. Skil ekki alveg þennan hugsunarhátt eða framsetningu.

Hvað með að njóta aðventunnar hverrar trúar sem maður svosem er þessarrar tilbreytingu í skammdegi Íslands. Njóta samverunnar með fjölskyldu og vinum. Njóta þess að gera þær jólahefðir sem tíðkast í hverri fjölskyldu. Njóta þess að vera til. Æ var bara að hugsa.......

Tókst að halda mér rólegri ;-)

Já það tókst nokkuð vel að slappa af þessa helgina. Tókum í gúrku í gærkveldi með labbakútunum þar til þumalputtinn gafst upp. Svaf svo út í morgun. Lá svo í sófanum fram eftir degi við blaðalestur og sjónvarpsflettingar. Þurfti reyndar að rífa mig upp um miðjan dag þar sem neyðarástand skapaðist á heimilinu enginn ostur til .......... Þar sem straujárnið gaf upp öndina í stíl við hin heimilistækin var farið í musteri mammons og verslað í einn poka eða svo. Nágrannarnir kíktu svo í kaffi og spjall. Já svona næstum tóm leti alla helgina og kósýheit.

Öddi fór svo í Bridge í kvöld og ég tók mig til og reif niður allar gardínur heimilisins. Á morgun verða svo gluggarnir þvegnir. Og þá fyrst byrjar gamanið og jólakassarnir verða opnaðir hver á fætur öðrum. Hlakka mikið til að setja upp nýju seríuna sem ég keypti eftir jól í fyrra á útsölu í stofugluggann. Vígði nýja straujárnið áðan, það virkar vel.

Bráðum koma blessuð jólin.....................

25.11.06

Allt að róast

Jæja þá fer að róast hjá mér aftur eftir verkefni haustsins.

Föstudagurinn hófst með mikilli baráttustöðu fyrir utan ráðherrabústaðinn. Þar sem við komum saman meðan ríkisstjórnarfundur var og mótmæltum svikum menntamálaráðherra við Fjölmenntina á Túngötunni. Mikil stemming var og gaman, allir ráðherrar fengu afhenta ályktunina frá baráttufundinum á miðvikudag og útprent af mbl.is, þar sem menntamálaráðherra lofaði að tryggja málefninu nægt fjármagn. Við vorum nú að hugsa sum meðan við stóðum þarna fyrir utan undir eftirliti lögreglu að ekki þyrftum við nú meira fjármagn en sem næmi tveimur ráðherrabílum sem stóðu þarna svartir og gljáfægðir á meðan.

Skunduðum svo á Alþingi þar sem setjast átti á þingpalla meðan atkvæðagreiðsla um fjárlögin stæðu yfir. En lýðræðið er nú skrítið þar núna ekki má hleypa meir en 28 upp þar sem ekki eru fleiri sæti. Man nú vel þá tíð ekki fyrir margt löngu að maður stóð þarna í stöppu að fylgjast með. Kannski erum við orðin svo hættulegur flokkur öryrkjaskríllinn að ekki sé þorandi að leyfa okkur að sitja á þingpöllunum. Allavega var okkur úthýst.

Í gærkvöld var svo lokasýning á Þjóðarsálinni frábær sýning og skemmtilegt samstarf sem nú er lokið. Mikill tregi í gangi. Flott lokapartý með rauðu þema. Ég á eftir að sakna þess hóps þar er á hreinu.

Gallinn við leiklistarverkefni er að þau eru svo krefjandi yfirleitt að maður dettur oftast í tómarúm fyrst á eftir. Í þessu tilviki var þetta kannski ekki svo krefjandi fyrir mig en maður kynntist fullt af fólki sem maður á kannski ekki eftir að hitta svo mikið meir. Snökt snökt.

Í dag dreif ég mig svo á fund hjá Kvennahreyfingu ÖBÍ þar sem minn kæri prestur séra Auður Eir flutti erindi og kom færandi hendi. Alltaf mannbætandi að eiga stund með þeirri konu. Og öllum hinum sem komu.

Stebba kom svo í kaffi og við áttum saman notalegt spjall yfir kaffibolla og skipulögðum ýmislegt og skráðum okkur ma. á námskeið í skartgripagerð ásamt 2 öðrum vinkonum eigum bara eftir að segja þeim frá því :-)

Svo drifum við hjónakornin okkur upp í fjöllin og heimsóttum dóttur okkar og fjölskyldu þar sem okkur var boðið upp á dýrindis marenstertu og notalegheit.

Ætla nú að kveikja á kertum og hafa það kósi áfram það sem eftirlifir dags.

22.11.06

Útfríkun

Félagsamálafríkið í mér fríkaði út í dag algerlega. Sagði hér einhvern tímann að ég væri félagsmálafrík og held sú nafngift hafi sannað sig vel í dag.

Í morgun átti ég leynifund með vinkonu (ekki orð um það meir).

Kl. 1 fundur í Tryggingastofnum þar sem ég var sem fulltrúi Sjálfsbjargar. Samstarf um kynningarmál neglt niður. Stuttur góður og árangursríkur fundur sem líka ber með sér fleiri verkefni.

kl. 2. fundur í Vin með Guggu vegna heimsókna í sjálfshjálparhópa í Borgarnesi og Akranesi annaðkvöld. Alltaf jafn ljúft að vinna með henni og gefandi.

Kl. 4. Baráttufundur hjá Geðhjálp vegna Fjölmenntar þar sem allt stefnir í að þeim góða skóla verði lokað um áramót þrátt fyrir fögur loforð. Skipulögð mótmæli samþykkt ályktun ofl. Kröftugur og góður fundur þar sem mikill hiti var í fólki. Gæti skrifað langhund um skólann og hvað hann hefur gert fyrir mig, mína nánustu vini ofl. ofl. en ætla að sleppa því núna. Kannski seinna.

Kl. 6.15 var svo stjórnarfundur hjá Halaleikhópnum sem stóð í rúma 2 tíma....
Mikið að ræða og afgreiða. Enda mikið starf framundan.

Allavega þegar ég loks skreið heim var ég dauðþreytt.

Á morgun eru svo bara 2 fundir ;-)

Bullmolar

María sendi mér þessar yndislegu ambögur vildi bara deila þeim með ykkur.

Íslenskan er lifandi mál, ekki satt? ;-)
Það er ekki hundur í hettunni -(...það er ekki hundrað í hættunni...)
Það er ljóst hver ríður rækjum hér -(...það er ljóst hver ræður ríkjum hér.)
Þetta er ekki upp í kött á nesi -(...ekki upp í nös á ketti)
Mér er nú ekkert að landbúnaði...
Allt fór afsíðis sem gat farið afsíðis...
Þessi peysa er mjög lauslát...
Þau eiga þvílíka myllu, lifa eins og greifingjar og leika á alls eggi...
Hann sló tvær flugur í sama höfuðið...
Þarna hefði ég sko viljað vera dauð fluga á vegg...
Ég sá svo sætan strák að ég fór alveg fram hjá mér...
Ég var svo þreyttur að ég henti mér undir rúm...
Hann sat bara eftir með súrt eplið...
Og, nú, góðir farþegar, er einmitt fengitími melóna...
Ég hreinlega vissi ekki í hvorn fótinn ég átti að setjast...
Þar stóð hundurinn í kúnni... -(Þar lá hundurinn grafinn... Þar stóð hnífurinn í kúnni.)
Maður fer í bæinn til að sjá sig og sýna aðra...
Svo handflettir maður rjúpurnar...
Já, fólk núorðið er svo loðið á milli lappanna...
Hún nagaði sig í handakrikann
Mestu handfarir sem riðið hafa yfir Vestmannaeyjar
Flísarnar eru miklu varanlegri en allt annað
Falla á mann tvær grímur
Hellti upp á eina Pizzu Fauk saman við yfirmann sinn
Má ég millileggja þetta á reikninginn ykkar
Erfitt fyrir fólk með skammtímaþunglyndi
Ég var svo horuð að ég leit út eins og Sóríasissjúklingur
Það væri nú til að kóróna alveg mælinn
Eins og að skvetta eldi
Það gengur alltaf allt á afturendanum á henni
Sumir taka alltaf allan rjómann
Getum ekki horft hvort á aðra
Kannski þykknar í mér pundið
Þetta var svona orðatækifæri
Hún á náttúrulega að fá greitt fyrir afturgengið orlof
Skírður eftir höfuðið á honum
Flokkast undir kynferðislegt álag
Það er enginn millivegur á þér
Við verðum að leggja okkur í spor barnanna okkar
Fór í klippingu og lét rótfylla á sér hárið
Hjartað hamaðist í höfðinu á henni
Sérðu snjóhryllingana
Kemur seint eftir dúk og disk
Augun voru alveg risastór við hliðina á höfðinu
Við verðum að reka okkur vel á
Ég skal sko troða því niðrí hann
Reisa sér hurðarás yfir öxlina
Vissi ekki í hvort skrefið ég ætti að stíga
Vissi í hvora löppina ég átti að fara
Málið með vexti
Vitum aldrei okkar ævi fyrirfram
Stilla fólki uppfyrir vegg

20.11.06

Kjötsúpukvöld og rólegheit

Eftir angur síðustu viku ákvað ég að skella kjötsúpu í stærsta pottinn minn og bjóða fjölskyldunni í mat. Allir sem á landinu voru komu nema Gabríel sem var upptekinn annars staðar. Þetta var notaleg stundi sem maður gerir allt of lítið af.

Á sunnudaginn lá maður svo bara undir teppi í vonda veðrinu og hafði það kósý, föndraði smá en aðallega slöppuðum við hjónakornin á og var ekki vanþörf á.

Stebbi bróðir hringdi svo í gærkvöldi og áttum við langt spjall saman. Hvað er meira virði en góð fjölskylda. Alla vega er ég mjög ánægð með mína þó meiri partur hennar sé erlendis.



17.11.06

Ekki er séð fyrir endann á ævintýrinu

Fengum hringingu frá tryggingarfélaginu í dag. Bíllinn talinn ónýtur....................
Of dýrt að gera við hann.

Þeir bjóða smáaura fyrir elskuna mína og málið dautt.
Nú eru góð ráð dýr og vandfundin.

Bílastyrkur ekki í boði fyrr en 1. mars kerfið er svo seint og óliðlegt arg.......

Þurfum stærri bíl og því dýrari en buddan leyfir sama hvað hún er undin.

Fórum og skoðuðum bílaliftur í dag.............

Kíkið á þetta . Jón bílabreytir mælir með þessu fyrir Örn eða Caddy life.........

Nú er mikið hugs hugs í gangi og rýkur úr kollunum á okkur.

Allar tillögur velþegnar.

16.11.06

Stiklur

Rakst á þetta á netinu vildi bara deila þessu með ykkur. Eitt af mörgum verkefnum sem ég er á kafi í.

Annars lítið að frétta ég er enn miður mín eftir áreksturinn. Skil þetta bara alls ekki.

Er dottin í jólaföndrið með misjöfnum árangri.

Leiklistarnámskeiðið búið.

Kafi líka í félagsmálum, fundir flesta daga eða vinna kringum það.

Gigtin í stuði, öll stirð og stíf með tilheyrandi verkjum og sársaukafullri meðferð.

4 sýningar eftir á Þjóðarsálinni svo ef einhver á eftir að sjá þessa skemmtilegu sýningu þá drífa sig og panta miða í síma 694-8900

Víðsýn fékk frábærar fréttir í dag svo við brosum allan hringinn. Traustur styrktaraðili skaut fótum undir okkur til lengri tíma :-)

13.11.06

Gott og slæmt

Já sumir dagar eru skrítnari en aðrir. Í dag var ég á frábæru námskeiði með Ron Coleman um þá sem heyra raddir og hvernig maður fæst við það. Afar merkilegur og fræðandi dagur og ekki síður skemmtilegur og gefur manni ýmsar góðar vonir.

Þurfti að rjúka í hádeginu á mjög mikilvægan fund og fór á hundraðinu niður í bæ. Komst þá að því að viðkomandi lá í veikindum ;-) Finnst nú að opinberar stofnanir geti nú látið mann vita. En allavega varð það til þess að ég fór og gat klárað námskeiðið.

Fór svo og sótti Heklu við skelltum okkur á kaffihús og fórum svo að sækja leikhúsmiða sem ég vann á leikhús.is á Sitji Guðs Englar í Þjóðleikhúsinu. Erum báðar fullar tilhlökkunar eftir að nota þá. Gaman gaman.

En gamanið átti eftir að kárna heldur betur. Skutlaðist eftir Ingimar og tók smá aukakrók fyrir hann, haldiði að ég hafi ekki lent aftan á öðrum bíl, skil þetta ekki enn, var ekki á mikilli ferð, með fulla athygli, engin hálka, en þegar bílinn fyrir framan mig og bílinn fyrir framan hann snarhemla þá var bara minn bíll ekki eins fljótur að stoppa og bomm.

Guði sé lof engin slys á fólki en bíllinn minn er mikið skemmdur að framan hinn lítið. Og ég í órétti. Ég er svo fúl að ég ætla ekki að reyna að lýsa því einu sinni. Sem betur fer er ég enn með hann í kaskó, en samt..................

Dreif mig samt í saumaklúbb í gær þar sem við þæfðum engla, ég reyndar líka jólasvein, kláraði ekki en náði geðinu aðeins upp. Set mynd inn þegar ég klára.

9.11.06

8.11.06

Takk Hugarafl og Hekla snillingur

Í gær fór ég í yndislegan göngutúr út í óvissuna með samráðshóp úrræðanna eins og við köllum okkur. Það er hópur sem hittist mánaðarlega og fundar. Þetta er hópur sem samstendur af flestum þeim úrræðum utan stofnana sem eru í boði fyrir geðfatlaða.

Á síðasta fundi var ákveðið að prófa að stefna fólki saman í gönguferð. Hugarafl reið á vaðið og skipulagði fyrstu gönguna. Hist var á Hlemmi þar sem óvissuferðin hófst, kalt var í veðri en 12 vaskir göngumenn mættu til í slaginn.

Fyrst var gengið niðurá Snorrabraut þar sem listaverk Kjuregej Alexandra Argunova gerði á vegg kringum garðinn sinn. Síðan var kíkt í glugga á gallerí og haldið upp á Skólavörðuholtið gegnum húsasund. Sundhöllin og Heilsugæslustöðin skoðuð að utan. Og svo skelltum við okkur upp í turn á Hallgrímskirkju það var mjög gaman að rifja það upp. Síðan skoðuðum við garðinn hjá listasafni Einars Jónssonar. Þá gengum við niður Þingholtið eftir hinum ýmsu stígum og skoðuðum bakgarða og gömul hús. Ég gekk Válastíg í fyrsta sinn held ég örugglega. Enduðum svo í listakaffi á Listasafni Íslands.

Þessi ferð var einstaklega vel heppnuð og samstaðan og stemmingin einstök. Hugaraflsfólk fær mikið hrós frá mér og þakklæti fyrir þessa dagsstund.

Annars er lífið leiklist og félagsmál eða ég er að reyna að hafa það svoleiðis þessa dagana. En gigtarfjandinn vill líka stjórna einum of finnst mér. Spurningin er hvort okkar verður þrjóskari þessa dagana. Þoli ekki þegar völdin eru tekin af mér.

Næstum búin að gleyma að segja frá afrekum prinsessunnar, hún var að fá úrslit úr skólaprófunum fyrir helgi og eins og vanalega er ég að rifna úr stolti. Er annað hægt.

Íslenska: Verkefni 8,5, Vinna 9,5, Próf 9,5. Umsögn: Vinnur vel. Mætti vera vandvirkari. Hefur gott vald á stafsetningu.

Lestur: Lesskilningur 10.0 Lestur/framsögn 7,4. Umsögn: Lesskilningur mjög góður.

Stærðfræði: Verkefni 10,0, vinna 9,0, próf 9,5. Umsögn: Er mjög vinnusöm. Skilningur mjög góður.

Náttúrufræði: Vinna 9,5, próf 8,0.

2.11.06

Næturævintýri

Var að koma úr 40 ára afmæli hjá Samkór Kópavogs, frábærir tónleikar. Takk fyrir Olla mín.

Er annars hálf beygluð öll í dag. Fann fyrir ellinni einhvernveginn. Rifbeinin eru búin að vera í stuði síðustu daga og kvalirnar mig lifandi að drepa, en ég læt það svo sem ekkert aftra mér. Ég er mjög meðvituð um að leyfa ekki verkjum og vanlíðan ná tangarhaldi á lífi mínu. Þau eru búin að fá sinn tíma og nú er minn tími.

Veit ekki hvort þið skiljið hvað ég er að fara. En það er þannig að maður er líkami og sál og það er hægt að skilja að líðan á þessum tveimur sviðum, þó þau séu nátengd eins og ég veit best sjálf. Þegar ég á svona daga eins og undanfarið þá reyni ég að passa að hafa heilann svo upptekinn að líkaminn komist sem minnst að.

Æ hvaða bull er þetta ég get ekki einu sinni útskýrt það sjálf ;-)

En allavega þá var Hekla hjá okkur í gær og dag enda komin í viku vetrarfrí og múttan flogin til Köben, alltaf jafnindælt að hafa prinsessuna hjá sér. Nema í nótt hún var komin með hita í gærkvöldi og sofnaði snemma. Kl. 2 í nótt reis hún upp í rúminu með látum og vildi á fætur því hún gæti ekki sofið. Þetta er svo ólíkt minni sem er alltaf eins og hugur manns. Sú stutta var bara æst og sjóðheit. Mér tókst að lempa hana og knúsa hana í ró aftur og uppí rúm til okkar kom hún og sættist á að fara að sofa aftur. Eftir smábags með kodda og sængur sofnaði hún öfug í rúminu á milli okkar. Sem sagt höfuðið til fóta.

Ég var rétt að sofna aftur þegar hún byrjaði mikinn stríðsdans með fótunum sem voru rétt við andlitið á mér. Svoleiðis gekk það alla nóttina og svefn minn varð ekki mikill. Komst að því í morgun að ég væri gömul ;-( Er það nema von ég segi ekki annað.

Sú stutta er að hressast og ég líka ;-)

26.10.06

Lífið er leiklist......líka eftir 50 ára aldur

Jæja þá er maður orðinn 49 ára. Finnst það ekkert merkilegt og þó þá er svolítið merkilegt að maður skuli tóra enn, miðað við allar orusturnar í lífsins ólgusjó. Já þær hafa verið frekar margar og sumar ansi harðar í þessu lífi. En ég er sátt.

Var spurð að því áðan hvort ég héldi ekki upp á síðasta afmælisdaginn áður en ég yrði 50 ára. Það er nú ekki eins og ég ætli mér að leggjast í kör við 50 ára aldurinn. Annars hefur það nú verið þannig að ég hef alltaf verið frekar lítið fyrir að halda upp á mín eigin afmæli en samt hafa alltaf komið einhverjir í heimsókn úr familíunni og vinir og maður átt eitthvað með kaffinu. En núna nennti ég því ekki, átti að vera á leiklistarnámskeiði í kvöld og fór og naut þess er með strengi í maganum ég hló svo mikið. Hvað er betra en það.

En kannski ef ég nenni skelli ég í eitthvað gummulaði um helgina eða ekki. Kemur í ljós. Á morgun er stjórnarfundur í Víðsýn þar sem við ætlum að taka stefnuna fyrir ferðalög næsta árs. Miklar pælingar þar í gangi. Svo er sýning á Þjóðarsálinni föstdagskvöld og sunnudagskvöld og eitthvað partý í uppsiglingu. Svo það er nóg við að vera svo sem. Það var saumaklúbbur í gær og mikið gaman eins og venjulega. Fékk þessar fínu hugmyndir fyrir næstu verkefni og hugsanlega jólagjafir ef ég verð dugleg ;-)

Hekla mín kom og gladdi mig í dag. Við skelltum okkur á kaffihús og nutum dagsins, komum við í búð þar sem ég lét minn heittelskaða gefa mér nýjan jakka :-) Sigrún kom svo og færði mér blóm áður en ég rauk í leiklistina.

Ég þakka öllum sem sendu mér kveðju í dag. SMS rigndi inn það fyrsta rúmlega 8 í morgun mér fannst það nú samt full snemmt en hefði átt að hafa vit á að slökkva á símanum áður en ég fór í bólin mjög seint eins og oftast þessa dagana.

22.10.06

Leiklistin tekur af manni skarið

Já það er óhætt að segja að lífið snúist um leiklist og meiri leiklist þessa dagana. Er að leika með Einleikhúsinu nokkur kvöld í viku, leiklistarnámskeið hin kvöldin og tölvuvinnsla í sambandi við Halaleikhópinn í frítímum. Skemmtilegt líf.

Í gær fór ég svo á námskeið hjá Leikfélagi Selfoss þar sem var verið að taka fyrir hvernig er hægt að nota ljós í leikhúsi. Farið í alls kyns lýsingar, tæki og tól. Frábært námskeið sem eflaust á eftir að nýtast vel, vel utan um það haldið og allt tipp topp. Til hamingju Leikfélag Selfoss og takk fyrir mig.

Bjarni kom áðan og reddaði hillumálunum í búrinu svo nýji fíni frystisskápurinn fær sitt fína pláss án þess að taka allt búrið. Takk Bjarni minn veit ekki hvernig ég kæmist af án þín kæri tengdasonur. Svo ætlar hann líka að smíða sökkul undir nýja fína ísskápinn minn. Svo allt fer að verða tipp topp og jólaundir búningur má bara fljótlega fara að fara í startholurnar. Ekki það við Hekla perluðum smá jólaskraut í vikunni, já það var svo margt sem kom í ljós þegar tekið var til í búrinu.

En er rokin á leiklistarnámskeið.......

21.10.06

Yfirlýsing

Ég er hlynnt hvalveiðum og fagna því að Hvalur 9 skuli hafa veitt fyrsta hvalinn í dag.

18.10.06

Still a live ;-)

já bara hef ekki haft neina löngun til að tjá mig hér síðustu daga. Ekki það sé ekkert að gerast, jú heldur betur allt á fullu as usual.

Það kom þrýstingur á mig utanfrá til að tjá mig um tvenn óskyld málefni. Þar sem ég er með eindæmum þrjósk og sérvitur, þá fór það í andstæðu sína ég hætti að tjá mig opinberlega um þau málefni í bili. En nota bene hef rætt málin út, við þrýstingsaðilana.

Annars bara allt í jolly. Er að leika á fullu og mjög stolt af þeirri sýningu. Er á kafi í félagsmálunum og á leiklistarnámskeiði. Á leið á ljósanámskeið og kannski annað til sem greint verður kannski frá síðar.

Sá flík sem mig langar óskaplega í og plataði kallinn til að gefa mér hana í næstu viku ;-)

Aðalfundur ÖBÍ var mestan part dagsverkið í dag og á morgun. Lítur svo vel út með að ég fái að sjá Prinsessuna mína næstu daga, þar sem hún er í samræmdum prófum (9. ára finnst ykkur þetta hægt?) og verður með stuttan skóladag. Hún er núna annars önnum kafin við að semja jólalagið í ár fyrir okkur. Já við erum báðar jólastelpur :-)

12.10.06

Á kafi í öllu mögulegu

Já það er ekki hægt að segja annað en það séu búnir að vera annasamir dagar hjá mér undanfarið. Hef ekki einu sinni haft tíma til að skrifa um það hvað þá meira.

Komin út úr skápnum, er sem sagt formlega orðin leikkona í leyniatriði í leiksýningu í næsta bæjarfélagi. Frumsýndum á sunnudaginn eftir að vera búin að vera með 2 forsýningar. Allt gekk upp og svo var náttúrulega frumsýningarpartý með tilheyrandi bravör. Ég er mjög stolt af vinnu okkar vinanna í þessu verki en eitthvað fór það illa í gagnrýnanda Morgunblaðsins sem finnst við vera að láta misnota okkur í áhættuatriðum og að fatlaðir séu hafðir að sýningargripum. Ófaglegri gagnrýni hef ég aldrei lesið áður á síðum þessa virta blaðs. En fjöldi vina minna og vandamanna er þegar búin að sjá herlegheitin og er glatt með sýninguna svo ég er sæl en skora bara á ykkur hin að kíkja. Allar upplýsingar HÉR (nema um mig)

En nóg um það í bili allavega. Fór í saumaklúbbinn minn á mánudaginn og kláraði loksins alveg jólalöberinn sem ég hef verið að vinna að í 3 ár. Set inn mynd seinna.

10. okt. á alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn fór ég svo á ráðstefnu um geðheilbrigðismál þar var alger dýnamík í gangi allt vitlaust vægast sagt út af umræðunni um lyfjamálin. En merkilegir hlutir gerast ótrúlegustu lyfjasinnar viðurkenna að hafa ekki skoðað nægilega aðrar hliðar meðferðar. Hef svo verið að funda um þau mál öllsömul og kynna Vin uppi á geðdeildum.

Nú svo hófst leiklistarnámskeiðið í Halanum á þriðjudaginn og þar var mikið fjör. Á morgun verður svo félagsfundur í Víðsýn þar sem næsta ár verður skipulagt. Mikið gaman og mikið fjör.

Ískápurinn minn gaf upp öndina í öllum þessum ósköpum. Kostar um 40 þús að gera við hann. Og ekki garanterað að það endist mörg ár. Svo við tókum ákvörðun um að endurnýja bara. Uppdata. Eftir miklar vangaveltur og margar búðir enduðum við á að fjárfesta aðeins meira en upphaflega var lagt upp með. Keyftum ísskáp og frystiskáp og DVD spilara með hörðum disk sem hægt er að taka uppá.

Framundan er sem sagt félagsfundur, námskeið, breytingar í búri og eldhúsi (hjálp óskast föstudagskvöld), ráðstefna laugardag, fullt af sýningum framundan og svo þarf víst líka að þvo uppúr óhreinatauskörfunni og margt margt fleira. En svona líkar mér lífið best.

7.10.06

AAADD

Mikið gengur nú illa að taka það rólega á mínu heimili. Ætlaði að nota föstudaginn í rólegheit en afrakstur dagsins voru þessar fínu doppóttu gardínur sem ég saumaði fyrir hana Heklu mína, stytti blússu og ýmislegt fleira á saumavélinni. Fór svo í göngutúr með Labbakútunum.

Kvöldið fór svo í æfingu á leyniverkefninu mínu, allt gekk vel og allt að smella svo bráðum verður farið að plögga. Þegar heim var komið seint og um síðir var svo skellt í Scrabbl fram eftir nóttu. Já svona fór nú um þau rólegheit.

Í dag var ég svo að sinna sjálfboðaverkefninu okkar í Vin og stóð ég í bás í Ráðhúsinu í allan dag og var að kynna Vin. Fór í snúninga vegna stuttbylgjuútvarps og er á leið á generalprufu.

Kannski er að verða eins komið fyrir mér og konunni sem sendi mér eftirfarandi pistil :

Á þetta við þig ???


Mér fannst alveg ótrúlegt að lesa svona nákvæma lýsingu á degi í lífi mínu en var samt alveg ótrúlega ánægð með að fleiri þjáðust af þessu sama. ...... Ég sendi ykkur þetta og bið ykkur að hafa það í huga þegar þið undrið ykkur á því hvað ég hef sjaldan samband - ég er full af vilja en það verður því miður minna úr verki !

Ég hef á seinni árum verið plöguð af alvarlegum sjúkdómi sem nýlega hefur fundist greining á, en engin lækning við, enn sem komið er. Eftirfarandi er lýsing á dæmigerðum degi þegar einkennin blossa upp : Ég ákvað einn daginn að þvo bílinn og hélt áleiðis að bílskúrnum, en tók þá eftir að bréf höfðu borist inn um lúguna. Ég tók bréfin og ákvað að fara í gegnum póstinn áður en ég færi að þvo bílinn. Sorteraði póstinn og ákvað að henda ruslpóstinum en tók þá eftir að ruslafatan var orðin full og lagði því reikningana sem höfðu borist, frá mér á eldhúsborðið og ætlaði út með ruslið, en ákvað þá að fara og borga þessa reikninga, fyrst ég yrði við bílinn hvort eð er. Fór inn í herbergi til þess að ná í veskið og bíllyklana en sá þá ný e-mail í tölvunni og ákvað að svara þeim strax svo ég gleymdi því ekki. Ákvað að ná mér í kaffibolla fyrst. Á leið inn í eldhús tók ég eftir því að blómið í borðstofunni var orðið heldur þurrt. Hellti nýlöguðu kaffi í bolla og ákvað að vökva blómið áður en lengra væri haldið. Náði í blómakönnuna og ætlaði að fylla hana með vatni þegar ég tók eftir því að fjarstýringin af sjónvarpinu lá á eldhúsborðinu. Ákvað að fara með hana á sinn stað í sjónvarpsherberginu fyrst, svo ég fyndi hana örugglega um kvöldið þegar ég settist fyrir framan sjónvarpið að horfa á uppáhaldsþáttinn "Sex in the City". Á leið í sjónvarpsholið rakst ég á handklæði sem ég ætlaði að setja í þvottavélina sem beið full af þvotti. Fór þangað og setti í vélina en fann þá gleraugun sem ég hafði verið að leita að fyrr um morguninn. Lagði fjarstýringuna frá mér í þvottahúsinu og fór með gleraugun inn í svefnherbergi þar sem ég ætlaði örugglega að finna þau þegar ég færi í rúmið að lesa uppáhaldsbókina mína......ef ég finn hana. Stoppaði í svefnherberginu þar sem dagurinn hófst og mundi ekki lengur hvað ég ætlaði upphaflega að fara að gera !!! Í lok dags hafði ég því hvorki þvegið bílinn né borgað reikningana, ekki vökvað blómin eða þvegið þvottinn, ekki farið út með ruslið, heldur ekki svarað e-mailunum og var auk þess búinn að týna fjarstýringunni, bíllyklunum og veskinu og kaffið beið kalt á eldhúsborðinu.

Ég skildi ekkert í þessu því ég hafði verið á fullu allan daginn í ýmsum snúningum. Ég hef nú uppgötvað að þetta er alvarlegt vandamál sem ég ætla að leita mér hjálpar við. Þessi sjúkdómur kallast á fagmáli AAADD eða "Age Activated Attention Deficit Disorder", á íslensku "Aldurstengdur athyglisbrestur".

5.10.06

Rólegur dagur

Hér á bæ hef ég hamast við að taka því rólega og vera skynsöm. Það er ekki alveg mín deild, en eitthvað verður að gera til að losna við hægri slagsíðuna. Pantaði tíma loksins í sjúkraþjálfun, bókaði mig næstu 8 vikurnar. Kvíði ferlega fyrir fyrsta tímanum, veit alveg hvað þarf að gera til að rétta mig við og það er svo sársaukafullt. Svitna við tilhugsunina og gengur illa að hugsa ekki um það. Bilun.

Hekla mín kom í dag og dreifði huga mínum, hjálpuðumst við að læra á metrakerfið, það sem þessi stúlka er klár. Ó ég er svo stolt af henni og veit að þetta er ekki sjálfgefið og er afar þakklát fyrir hversu vel henni gengur að læra. Hún er með alla hugsanir um bækur, bókaormur á háu stigi eins og hún á kyn til þessi elska. Trúði mér fyrir því í dag að það besta sem hún gerði væri að liggja uppí rúmi og lesa góða bók með tónlist á. Mér finnst það æði, þó ég geri mér fulla grein fyrir því að það eru aðrir hlutir sem ekki gengur eins vel á, eða mættu vera framar á hæfnislistanum. En við erum nú bara svona í þessari fjölskyldu.

Fór í kvöld og fræddi sjálfboðaliða RKÍ á 1717 símanum um Vin og geðveikina ásamt Guggu í Vin og Garðari Sölva vini mínum sem brilleraði í Kastljósinu í kvöld . Skora á ykkur að kíkja á það. Merkur maður hann Garðar Sölvi.

Jú jú í sama Kastljósi má ef vel er gáð sjá eina vísbendingu enn í leyniverkefninu.

Bykoblaðið rokkar

Lá uppí sófa í gær og las allt sem ég komst yfir, gat varla hreyft mig fyrir verkjum. Þegar ég fór að flétta Byko auglýsingablaðinu eins og ég væri að fara að byggja. Fékk líka þetta rosa hláturskast sem var sársaukafullt, en þetta var svo fyndið. Það var verið að auglýsa " klósettsetu með dempurum ". Hafiði séð svona er þetta kannski í öðru hverju húsi þó það hafi alveg farið fram hjá mér. Skyldi líka fást klósettsetur sem eru sjálfhreinsandi, já og kannski upphitaðar.

Á mínu klósetti er sem sagt bara hvít plain öryrkjaseta og virkar vel.

Dóttirin er að tapa sér í kommentunum. Ja við getum alveg haft hesta sem 3. vísbendingu. Ætlaði samt að hafa það randir........

3.10.06

3. okt. og jólin ekki að nálgast mjög hratt

Hjá mér eru jólin ekki alveg í augsýn, þrátt fyrir að ég sé mikið jólabarn í mér svona flest ár, það er að segja þegar geðheilsan leyfir. En í dag sá ég jólaljós komin í stofuglugga hér í nágrenninu og tvö tré komin með jólaljós í Kópavogi. Mér finnst þetta of snemmt svo vægt sé til orða tekið.

Jæja svo er ég stolt af sjáfri mér, tókst að segja NEI við stórri áskorun ;-)

Næsta hint í leyndóinu er rafmagnskefli.

2.10.06

Frábær helgi og slagsíða til hægri !!!

Ég var ásamt fimm félögum úr Halaleikhópnum og fullt af öðrum áhugaleikhúsfólki á haustfundi BÍL á Selfossi alla helgina. Ég held ég verði að segja að þetta sé með bestu fundum sem ég hef verið á lengi. Vandamálin krufin og lausnir við öllu á borðinu eftir helgina.

Föstudagurinn fór í snöggsoðið stjórnarnámskeið sem gagnaðist mér helling og mínu félagi, þó svo við séum nú frekar félagslega sinnuð, þá er svo margt sem snýr að BÍL og hin praktísku atriði við stjórnun leikfélaga.

Á laugardeginum vaknaði ég öll skökk og snúin, með herlega verki í hægri síðunni sem lituðu helgina fyrir mér, því miður en svona er það þegar vefjargigtin gerist líka félagslega sinnuð, verst fannst mér nú samt að hún gerðist hægrisinnuð í þetta skiftið.

En sem sagt á laugardaginn var svo mikið málþing um framtíðarsýn fyrir Leiklistarskóla BÍL. Það var mjög áhugavert og margt skemmtilegt kom fram. Best þótti okkur Halafélögum þó að heyra, að loksins virðist vera að allir séu að ná þessu með það að aðgengið þurfi að vera í lagi. Meira að segja höfuðandstæðingurinn (nefni engin nöfn) hafði umpólast í þeim efnum. Óvíst er um framtíðarhúsnæði en nokkrir fýsilegir kostir sem fara í athugun hjá staðarvalsnefnd. Mikill dýrðarljómi er yfir öllum sem hafa farið á lengri námskeiðin á Húsabakka, hreint eins og fólk hafi gengið í sértrúarsöfnuð og frelsast. Það er frábært, sérstaklega þar sem fólk er farið að átta sig á að skólinn býr í hjarta nemandanna en ekki steinsteipunni og dalnum. Flott var að heyra að þau félög sem hafa verið duglegust að senda nemendur í skólann eru að verða sjálfbær vonandi fáum við nú tækifæri til að fara að mennta okkur þegar skólinn verður kominn í aðgengilegt húsnæði.

Á laugardagskvöldið var svo haldið í Tryggvaskála það fína og fræga hús til hátíðarkvöldverðar í boði Leikfélags Selfoss. Þar var mikið fjör og gaman, góður matur og fín skemmtiatriði. Höfðinglegar móttökur. Hægri síðan rak mig samt í rúmið um miðnætti en þá var ball að hefjast á hótelinu.

Á sunnudagsmorgninum var svo haldið áfram að funda og sett upp skyndihjálparnámskeið fyrir leikfélög í dauðateygjunum og fjallað um hvað eina sem snýr að rekstri leikfélaga. Framtíðin skipulögð og ákveðið að á íslandi skildi halda alþjóðlega leiklistarhátíð 2010. Frábær fundur og mjög gagnlegur.

Var ansi þreytt eftir helgina og slagsíðuna, tók það rólega í dag. Fékk ansi stóra áskorun í dag varðandi 10 okt. veit ekki hvort ég á að hrökkva eða stökkva. Sef á því í nótt. Stundum verður maður nú að segja nei er það ekki?

Í kvöld var svo æfing í leyniverkefninu mínu. Meira um það fljótlega. Fyrsta hint : tengist fánalitunum ;-)

29.9.06

Til hamingju með afmælið Guðmundur

Ég hvet fólk til að fara inn á www.visir.is og í vef tv og skoða myndbandið um Jökulsárganga Ómars Ragnarssonar Það er alveg stórkostlegt og predíkun Hildar Ýr Bolladóttur er æðisleg.

Af mér er annars lítið að frétta, félagslífið í miklum blóma. Stjórnarfundir hér og þar. Saumaklúbburinn kominn í gang og haustfundur BÍL um helgina á Selfossi. Já manni leiðist ekki þessa dagana. Er núna bara í tölvuhangsi, jú kom ýmsu í verk í tölvunni en nenni ekki að strauja eða pakka niður eða stytta buxurnar sem ég ætla í austur. Dottin í krosssaum og sauma af miklum móð, en vildi óska ég hefði betri sjón. Þarf soldið að rekja upp en þar er ég þolinmóð merkilegt eins og ég er nú mikil óhemja yfirleitt.

Besti mágur í heimi Guðmundur Aðalsteinn er 46 ára í dag. Sakna hans og Villa bróður en þeir eru á hótelinu sínu í Greyton, S. Afríku. Endilega kíkið á heimasíðuna. Elsku mágur til hamingju með daginn.

28.9.06

Skrítinn þjóðflokkur

Íslendingar eru alltaf samir við sig, öfgafullir og samtaka eða sundraðir og fallnir. Hver hefði trúað því að 15000 manns kæmu á haustkvöldi saman til að mótmæla Kárahnjúkavirkjun. Eftir allan þennan tíma. Meðan örfáir nenntu að koma og mótmæla dag eftir dag í fyrra á Austurvelli. Aðstæður hjá mér þetta kvöld voru þannig að ég var upptekin í fjölskyldumálunum. En hefði gjarnan vilja vera með. Merkilegt hvernig fólk skiftist í tvo hópa annað hvort er þetta frábært hjá Ómari eða þeir sem segja að þetta sé tóm della. Ég stend með Ómari og ber mikla virðingu fyrir þessum eldhuga og náttúrubarni sem hefur verið ötull í áratugi við að kenna þjóðinni að bera virðingu fyrir landi sínu. Hver man ekki eftir Stiklunum td. eða öllum flugferðunum með myndavélina þegar náttúran lætur á sér kræla. Ég segi bara Áfram Ómar.

Hér er slóð á frábærar myndir sem hann sýndi á breiðtjaldi á Austurvelli. Njótið.

Í kvöld var svo annar eldhugi sem kom því í gegn að það skildi myrkva borgina. Nei þá var samstaðan farin út um þúfur. Ég kom mér fyrir ásamt mínum heittelskaða á frábærum útsýnisstað. Því miður var skýjað en mig langaði að njóta dulúðar myrkursins. Götuljósin slökknuðu eitt og eitt, frábær sjón. En því miður voru fyrirtæki borgarinnar til skammar, þar voru flóðljós sem lýstu í allar áttir og auglýsingaskilti blikkuðu og bílljós út um allt. Hvar var samtakamátturinn þá. Ég vona bara að þetta verði gert aftur og þá markvisst unnið í því að fá atvinnurekendur til að taka þátt.

26.9.06

Strange world

Mín skoska vinkona Elaine sendi mér þetta hér.

Langaði bara að deila þessu með ykkur.

25.9.06

Með stjörnur í augunum

Bloggleti, já samþykkt.

Búið að vera mikið að gera í félagsmálunum síðustu daga og djamminu og góðir gestir rekið inn nefið hver á fætur öðrum.

Var með kynningu á lannsanum á föstudag fyrir Vin ásamt sjálfboðaliðahópnum litla en frækna.

Svo var ég á kafi í undirbúing fyrir félagsfund sem var í Halanum á laugardaginn, með matarveislu og alles. Frábært 45 mættu í það heila og getum við ekki annað en verið sátt við það.

Fór á Álftanesið í leyniverkefninu mínu og horfði á stjörnur og norðurljós með sjávarnið sem undirleik og fullt af skemmtilegu fólki. Gæti alveg hugsað mér að búa á Álftarnesi á sjávarlóð.

En sem sagt mikið félagslíf og djamm og tóm sæla.

Setti húfuna hans Bjarna á hold, fæ engin komment með hugmyndum. Keyfti mér "Drottinn blessi heimilið" mynd til að sauma út. Sit nú aum í fingurgómunum og stíf í hálsi.

Framundan eru áframhaldandi annir held þetta verði bara ansi fjörlegur mánuður þegar upp er staðið. Og engin haustmynd tekin enn þetta árið.

18.9.06

Hönnunarleiðangur

Leitin að hönnun húfunnar fyrir Bjarna ætlar að vera erfið rakst á þessa og get ekki annað en deilt þeim með ykkur. Held enginn þessar hæfi honum. Hvað finnst ykkur?

17.9.06

Prjónaæði

Sannkallað prjónaæði hefur gripið mig þessa dagana. Var að klára rokkarahúfu á soninn og er strand í hugmyndum. Þarf að uppfylla áskorum um að prjóna húfu á tengdasoninn en er alveg lens. Bráðvantar flotta hugmynd á Bjarna. Endilega hjálpið mér í þessu máli ;-)

Annars allt í rólegheitum. Hekla var hjá okkur um helgina og lærði og lærði og lærði. Viss um að ég þurfti ekki að læra svona mikið heima þegar ég var 9 ára. En hún stóð sig vel og gerði allt samviskulega og vel. Eyddum svo laugardagskveldinu í Lúdó spil eftir gömlu reglunum eins og sú stutta orðaði það.

Í dag var svo unnið í leyniverkefninu. Meira seinna um það.

Það stefnir svo í metaðsókn á félagsfundinn hjá Halanum næsta laugardag. Þegar búnir að skrá sig 28 í matinn. Gaman gaman.

15.9.06

Til hamingju með afmælið Stefán Þórður

Stebbi bróðið sem býr í Noregi á afmæli í dag, verður 51 árs.

Til hamingju með daginn Stebbi minn.

14.9.06

Samtaka nú

19 líf eru 19 lífum of mikið. Stoppum vitleysuna strax. Skrifum undir hér


Þú getur lagt þitt af mörkum með því að skrifa undir yfirlýsingu um betri hegðun í umferðinni

11.9.06

Krikapeysa no. 3

Krikapeysa no. 3 tilbúin ásamt húfu og vettlingum í stíl. Hekla var mjög glöð og ánægð með peysuna. Og ég auðvitað full af monti.
Annars bara allt á fullu í hinum ýmsu verkefnum sumum enn leyndó, skýrsla seinna.

Mér fannst hressandi að fá haustlægðina. Vona að þeir sem töluðu um vont veður í sumar sjái muninn ;-)

Villi farinn aftur til S. Afríku sakna hans strax.

9.9.06

nornaveisla !!!

Je dúda mía nornaveisla og mín prinsessa bara 9 ára sjá myndir HÉR

7.9.06

Gullkorn dagsins



Hvaða stunur eru þetta í þér ?

Ég er að syngja

Þessar setningar duttu út á mínu heimili í dag :-)

6.9.06

9 ár liðin á örskotsstund


Hekla mín er 9 ára í dag. Til hamingju með afmælið dúllan mín. Þessi 9 ár eru svo fljót að líða. En samt hefur svo margt gerst á þeim tíma. Þegar hún fæddist var ég mjög veik og hún kom með vonina inn í líf mitt og hefur verið mér sannkallaður lífsengill alla tíð. Held ég hefði ekki lifað af þennan tíma hefði hún ekki komið til með sínu ljúfa brosi og viðmóti. Við höfum alltaf verið mjög nánar og þakka ég foreldrum hennar sérstaklega vel fyrir að leifa mér þá hlutdeild sem ég hef fengið í hennar lífi.

Nú er hún að undirbúa afmæli fyrir bekkjarsysturnar. Það á að vera nornaþema. Hér að ofan er mynd af henni í Krikanum sem hún elskar eins og við gömlu hjónin.

Tómas sonur Sigurrósar á líka afmæli í dag er 5 ára. Til hamingju með afmælið Tommi minn.

5.9.06

Spilaborð og píanókonsert

Besti tengdasonur í heimi kom færandi hendi á sunnudaginn, var búinn að sérsmíða eldhúsborð fyrir mig. Alveg eins og draumaborðið mitt nema bara miklu miklu flottar með framlengingu og skúffu fyrir spilin og hvað eina :-) Elsku Bjarni minn takk fyrir.

Annars leið helgin meira og minna í alls kyns fjölskylduboðum og fjöri. Matarboð hjá Palla og Frosta með allri familýunni á laugardag og svo krakkarnir í mat hér á sunnudag. Mér fannst það ansi notalegt. Soldið var gengið með vinum okkar en ganggírinn minn er ekki góður þessa dagana. Gigtin í stuði en það lagast vonandi fljótlega.

Fór á æðislega tónleika í gæri í Listasafni Íslands, sá fyrsti af fjórum undir heitinu Töframáttur tónlistar sem Gunnar Kvaran býður uppá. Í dag var það ungur snillingur Víkingur Heiðar Ólafsson sem flutti okkur nokkur stutt verk. Alger unaður svo var leiðsögn um safnið á eftir sem ég auðvitað nýtti mér. Sem sagt menning í botn þann daginn og svo skellt sér á kaffihús á eftir og náð í skottið á Villa mínum.

2.9.06

Raddir

Að heyra raddir hefur mér alltaf fundist mjög merkilegt fyrirbæri. Þekki nokkra sem heyra raddir og hef hlustað á sögur þeirra, þetta er einhver allt önnur vídd sem erfitt er að setja sig inní, en raunveruleikinn.

Ekki eitthvað hörmulegt eða til að óttast þetta er bara svona og stundum er þetta til mikillar gleði og sköpunar. Kona sem ég kannast við sem er með geðklofa greiningu sagði mér í gær frá því þegar hún var sem veikust og heyrði raddir þá komu undurfögur ljóð til hennar í gegnum raddirnar. En þegar hún fór að taka lyf við sjúkdómnum þá hurfu raddirnar og ljóðin. Mér finnst þetta ákaflega sorglegt hvernig lyf geta breytt jákvæðum þáttum persónu til að lækna annað sem kannski er ekki eins viðráðanlegt. Allavega þá er nú búið að semja lag við eitt ljóða hennar og var það frumflutt um helgina. Mig hlakkar óskaplega til að fá að heyra það.

Ég er sem sagt komin á fullt í undirbúningsvinnu með Guggu í Vin við að undirbúa námsstefnu sem verður í nóvember fyrir fólk sem heyrir raddir og fagfólk til að vinna með þessu. Ron Coleman kemur og heldur dags námskeið.

Verst að ég man ekki tölurnar en það er þó nokkur prósentuhlutfall fólks sem heyrir raddir, kem með þær seinna. Það eru ekki allt geðsjúklingar heldur heilbrigt fólk sem heyrir raddir og skynjar ýmislegt og lifir góðu lífi með því. Þeta ættum við Íslendigar nú að vita með alla álfana, huldufólkið og vættina allt í kringum okkur.

Já sem sagt þetta er eitt af þessum spennandi verkefnum sem fram undan eru. Í kvöld er svo loksins fjölskyldurdinner þar sem öll mín fjölskylda nær loks saman, það er þeir sem eru á landinu. Frábært

30.8.06

Tilvistarkreppa eða ekki

Hef haft of mikinn tíma til að hugsa undanfarið stórhættulegt fyrir konu eins og mig. Með minn ofvirka heila. Komst svo sem ekki að neinni sérstakri niðurstöðu sem heldur lengi í einu. Er svo fljót að skifta um skoðanir þessa dagana að það er hætt að vera findið.

Var í Krikanum á vaktinni í dag í síðasta sinn þetta sumarið. Veit ekki hvar ég væri stödd núna ef þetta einstaka tækifæri hefði ekki komið upp í hendur mínar í sumar. Náttúran er æði og eitthvað svo heilandi. Maður kemur kannski dapur og æstur en fer heim pollrólegur og glaður. Paradís á jörð.

Stússaði í félagsmálum í morgun og kvöld. Veturinn framundan sem í gær virtist verða eitthvað grár og fyrirkvíðanlegur er allt í einu að verða spennandi og fjölbreyttur. Alla vega eru ýmis tækifæri í burðarliðnum á hinum ýmsu sviðum.

Er búin með Krikapeysu 3 og prinsessan alsæl með hana. Prjónaði hálfa húfu í stíl við hana í Krikanum í dag og ákvað á heimleiðinni í kvöld að rekja hana upp. Hönnunin er að þvælast fyrir mér en lausnin komin í kollinn. Litli putti kvartar en fær þá bara að vera hommaputti og vekur upp gamlar og góðar minningar.

Kraftaverkin gerast enn sonurinn er sennilega búinn að landa píparasamning byrjar á mánudaginn. Til hamingju Ingimar Atli ég vissi að þú gætir þetta.

27.8.06

Hlýnun jarðar

Fékk þessa í pósti frá vinkonu í gær og stóðst ekki mátið að skella henni hér inn finnst hún svo táknræn

Var samt að velta því fyrir mér hvort nokkur af lesendum mínum gangi í naríum eins og gefnar eru upp fyrir árið 2006?

Ég er annars mjög gamaldags eftir þessum staðli að dæma er greinilega enn í 1950 eða svo ;-) Enda kannski ekki mikið annað sem hentar mínu fagra vaxtalagi.

23.8.06

Fallegasta stelpa í heimi :-)


Var að fara í gegnum myndir sem ég hef tekið í Krika í sumar og varð að skella þessari inn. Tekin á mánudaginn síðasta daginn í sumarfríinu hjá Heklu þar sem hún naut sín í paradísinni okkar.

Haustið farið að nálgast

Já þá er verkefnum sumarsins að mestu lokið og fátt framundan eða mikið eftir hvernig á það er litið. Enginn skóli þetta haustið heldur bara hugguleg heit við kertaljós. Eða það vona ég.

Fór á 101 flakk í dag. Aðeins að kíkja á miðbæjarflóruna, komst að því að ég kann betur við mig í 103. Ekki það að dagurinn hefði ekki verið góður bara ysinn og þysinn í miðbænum og sóðaskapurinn. Á ekki að vera í gangi eitthvað hreinsunarátak, alla vega fannst mér miðbærinn skítugur í góða veðrinu.

Ætla á spennandi ráðstefnu sem Hugarafl stendur fyrir næstu tvo daga. Bylting í bata hlakka til.

Annars er ekki mikið títt héðan af bæ alla vega ekkert sem segja má frá að svo komnu máli ;-)

Enn meiri hamingja

Skídfull á þriðjudegi ;-)

Gúrkutímar eru skemmtilegir

Hlakka til fleiri kennslustunda

20.8.06

Tóm hamingja

Bátadagurinn í Krika tókst svo vel að það hálfa væri nóg. Veðrið var dásamlegt. Fólkið fjölbreytt og fallegt. Allt gekk upp eins og best verður á kosið. Hjarta mitt er fullt af hamingju eftir þennan frábæra dag. Takk allir sem að þessu komu.

Verð að viðurkenna að ég er gjörsamlega búin á því samt af þreytu en það lagast, skellti samt inn myndum af deginum HÉR

19.8.06

Menningarlaus dagur

Menningardagurinn fór í allt annað en hefðbundna menningu. Flúði í Kópavoginn og undi mér vel. Allt var á fullu í undirbúningi fyrir morgundaginn. Árni og Einar voru á fullu að rífa gamla flotbryggjuendann og nýta timbrið til að gera bráðabirgða aðgengi að nýja húsinu.



Kjartan vann að breytingum á trébryggjunni nú er komin þessa fína skábraut beint út í vatnið. Þar koma svo flotbryggjukubbar á morgun ásamt fullt af allskyns bátum.



Annars er það afstætt hvað menning er ég vinn aðallega í Krikamenningu þessa dagana
og hlakka mikið til morgundagsins. Allir í sunnudagsheimsókn í Krikann!

18.8.06

Niðursveifludagur

Sumir dagar eru verri en aðrir þessi var hálf niðursveiflulegur. Svaf illa í nótt, verkir hér og þar. Dagurinn þar af leiðandi hálfúldinn. Dreif mig samt í göngu með mínum heittelskaða og Viktoríu. Fékk svakalegt hælsæri svo gera þurfti út björgunarleiðangur eftir mér. Sem sagt tóm niðursveifla.

En hvað gerir maður þá ekki skellir sér í Krikann sem er allra meina bót í sandölum, ég en ekki Krikinn. Þar var allt á fullu í undirbúningi fyrir bátadaginn og ýmsar undarlegar sögur og skrítnar í gangi. Einn lýsti því þegar hann varð næstum dauður fyrr um daginn í ristilspeglun. Vinkona annars var illt í rassinum sem svo færðist upp í öxlina. Einn drakk næstum fullan heitan pott til að bjarga sjálfum sér frá drukknun meðan krakkaormar drógu hann hálfan uppúr honum á fótunum. Einn 8 ára var tekinn á flugvelli fyrir að vera með tyggjó í vasanum.

Já ég elska allt þetta lið sem hjálpaði mér upp úr niðursveiflunni í þetta sinnið.
Hvað verður næst þar sem verkefnaþurð með tilheyrandi fylgifiskum er í uppsiglingu á mínum bæ.

17.8.06

Full tilhlökkunar

Já það er svo notaleg tilfinning að hlakka til einhvers. Þegar maður er orðinn 48 (skv. útreikningum Heklu) þá er það svo æðislegt. Sérstaklega þar sem ýmislegt sorglegt og annað leiðinlegt hefur verið á sveimi í kringum mig undanfarið.

Tilhlökkunin er sérlega af tvennum toga, í fyrsta lagi er Villi besti bróðir í heimi kominn á til Íslands og hlakka ég til að eiga æðislegar gæðastundir með honum og allri fjölskyldunni í sátt og samlyndi og tómri sælu. Þó svo að tilefni komu hans sé svo allt annars eðlis en við gerum hið besta úr aðstæðum.

Tilefni tvö er að langþráður bátadagur í Krika verður loksins á sunnudaginn. Allir að mæta og prófa alls kyns báta á Elliðavatni. Það er hinn stórmerki maður Kjartan Jakob Hauksson sem ég skrifaði ekki svo lítið um fyrir ári og tveimur árum líka. Hetjan sem réri hringinn kringum Ísland og safnaði í Hjálparliðasjóð Sjálfsbjargar í sjálfboðavinnu sem er potturinn og pannan í þessu hjá okkur í Krikavinafélaginu.

Árni frændi er líka stór þáttur í þessu og svo skilst mér að það sé búið að fá fullt af alls kyns góðu fólki til að leggja verkefninu lið. Flotbryggja verður lögð og þaðan verður hægt að fara og sigla um vatnið á fleiri tegundum báta en ég kann skil á. Ef þetta er ekki tilefni til að hlakka til þá veit ég ekki hvað.

Ég hvet þig lesandi góður til að kíkja við og helst taka með þér alla fjölskylduna á öllum aldri og prófa að fara á bát út á vatnið. Nú eða bara fylgjast með líflegu mannlífi og náttúru í Krikanum. Það verða svo seldar grillaðar pylsur og nýbakaðar vöfflur til styrktar Krika svo nóg er um að vera. Nánari uppl. á Krikasíðunni

Já mér finnst ég vera ansi heppin þessa dagana þegar ég skoða pósitífu hliðar lífsins, umber bara hitt og reyni að láta það ekki lita líf mitt.

13.8.06

Haladagur og GayPride

Haladagurinn tókst ágætlega, fámennt og góðmennt var í aðgerðarlitlu veðri. Nokkur stuttverk voru leiklesin og svo var skellt í grill og gaman.



Hér eru Arnar, Örn og Guðríður að hlusta á leiklestur lumsk á svip



Palli, Helga og ég ræddum málin, búningageymslan varð heit í umræðunni.



Hekla leiklas lögfræðinginn og Daníel hlustar sposkur.



Tommi dundaði sér á bílnum ekki búin að ná sér almennilega eftir GayPrideskrúðgönguna.



Hér erum við skötuhjúin svo með Heklu tilbúin í að fylgjast með GayPridegöngunni niður laugaveginn, búin að koma okkur vel fyrir. Fleiri myndir úr göngunni má sjá HÉR.

12.8.06

Bestu tengdaforeldrar sem hægt er að hugsa sér



Í dag hefði tengdamóðir mín heitin Auður Hannesdóttir orðið níræð. Betri tengdamömmu var ekki hægt að hugsa sér eða tengdapabba heitinn Sigurð Hjálmarsson. Set hér inn mynd af þeim frá 1943 til heiðurs þeim heiðurshjónum. Blessuð sé minning þeirra.

10.8.06

Nart nart

Enn allt í rólegheitum á Sléttuveginum og þó í dag var allt í góðum gír og tóm kæti með lífið og tilveruna þegar síminn hringdi, það var kær vinkona mín á háa Cinu vægast sagt, öskraði nánast í eyrað mitt. Ég sem var alveg saklaus af því sem hún æsti sig svona yfir. Blessunin gleymdi að anda og hugsa áður en hún dembdi ósköpunum sem hrjáðu hana yfir á aðra. Að sjálfsögðu tók ég þessu með stóískri ró.

Fyndið samt hvernig fólk getur æst sig óskaplega yfir smámunum og hringt í annað fólk málinu óviðkomandi og rutt út úr sér heilum ósköpum án þess að hleypa hinum að hvað þá meir. Verst er að við erum svo líkar að þetta hefði næstum alveg eins getað verið ég.

Ekkert varð af fyrirhugaðri leikhúsferð í Elliðaárdalinn sökum veðurs. Treystum ekki skrokkunum okkar gömlu hjónanna í 2 tíma setu í rigningunni. Leiðinlegt samt að missa af þessu.

Kláraði Krikapeysu 2 í gærkvöldi og fór og keyfti lopa í Krikapeysu 3 í dag. Stefni að því að byrja á henni í Krika á morgun en þar verð ég á vaktinni frá kl.14.00 minni á pylsupartýið kl. 17.oo sjá nánar á www.kriki.bloggar.is.

Framundan er svo spennandi helgi Gaypride og Haladagur á sunnudaginn er svo fjölskyldukaffi Ödda megin en móðir hans hefði orðið 90 ára 12 ágúst ef hún hefði lifað. Blessuð sé minning hennar.

8.8.06

Mávurinn í Elliðadal

Allt róleg enn á þessum vígstöðvum sit og prjóna lopapeysur af miklum móð eins og gömul kona. Var reyndar að vinna í allan dag og frekar þreytt þegar ég kom heim en prjónaði þó helling í kvöld. Já farin að prjóna heima líka enda komin í mynstrið. Skemmti mér vel.

Villi bróðir er að koma heim næstu daga. Hlakka óskaplega mikið til að hitta hann það er svo erfitt að hafa hann svona langt í burtu svona lengi. Reyndar er tilefni heimkomunnar ekki neitt skemmtiefni, hann er búinn að missa báða tengdaforeldra sína með stuttu milli og er að koma til að vera við jarðaför tengdapabba síns.

Vonandi getur hann stoppað aðeins og við átt gæðastundir saman. Guðmundur er búin að vera heima í síðan mamma hans dó, ég hef lítið getað hitt hann þar sem pabbi hans var svo veikur. En nú eru hjónin sem sagt saman aftur blessuð sé minning þeirra.

Helgin var róleg og góð vorum mest heima og skruppum aðeins í Krikann en stutt samt. Fórum svo í partý á sunnudagskvöldið til vinahjóna og þar voru nánast allir vinir okkar úr Halanum samankomnir. Gott kvöld og við skemmtum okkur vel. Takk fyrir okkur.

Á morgun fimmtudag er ég að hugsa um að skella mér á Mávinn í Elliðaárdalnum með leikfélaginu Sýnum. Hver nennir að koma með mér? Verkið fær fína umfjöllun á leiklistarvefnum.

Frétti af því að Stebbi bróðir væri hjá Sigrúnu Jónu í Danmörk hann sendi mér þessa símamynd af henni, þetta gat hann.


Góða skemmtun í Danmörk

Svo kannski nær eldri hluti systkinanna að hittast í Danmörk og unglingarnir á Íslandi þessa vikuna.

5.8.06

Krikapeysa no. 1

Í rólegheitunum í sumar hef ég setið löngum stundum upp í Krika og prjónað lopapeysur. Afrastur sumarsins er að birtast fullskapaður einn af öðrum. Fór með fyrstu peysuna til Sigrúnar í dag og hún smellpassaði.



Get ekki annað en verið rígmontin af peysunni og ekki síður dótturinni. Næsta peysa er að komast á lokastig og ein þegar pöntuð og sú fjórða að gerjast í heila mér. Já ég sem hélt ég hefði ekki lengur hendur í að prjóna svona en það tókst með smá hléum og hendurnar bara smá verri en venjulega en gleðin bætir það upp.