30.1.06

Syndajátning

Er kanínan ekkert orðin þreytt á að hlaupa spyr anomynus.

Æ ég veit það nú ekki hún bara er svona rétt eins og ég á stundum. Er annars afslöppuð þessa dagana og með allan hugann við P Ó K Ó K sem er svakalega ávanabindandi. Ég kom með poka af þessu æðislega sælgæti á æfingu á nammidaginn og um leið og ég kem á æfingar núna er spurt hvort ég sé ekki með P Ó K Ó K í bakpokanum. Þetta er ferlegt og verksmiðjan ekki kominn í fullan gang enn. Þrátt fyrir að Emanúel hafi nú sett upp ansi mörg tannhjól í fínu vélina okkar í kvöld.

Já og það er nú fleira en P Ó K Ó K sem er orðin ávanabindandi!!! ÉG GERI HÉR MEÐ JÁTNINGU. Ég er orðin háð gálganum. Hlakka til að fara í sjúkraþjálfun og fá að vita hvort ég fæ að fara í gálgann eða ekki. Stórmerkilegur andskoti. Fyrir þá sem ekki vita hvað gálginn er þá er það strekkingarbekkur. Ekki til að slétta úr hrukkunum (enda fylli ég bara út í þær með spiki:)

Nei nei. Það eru settar ólar á höfuðið á mér svona eins og í verstu hryllingmyndum, svo eru þær hengdar upp í gálga með járnstöng. Apparatið er svo með mótor sem togar höfuðuð á mér upp með einhverjum fyrirframstilltum þunga í ákv. margar mínútur svo er slakað aðeins á og svo togað aftur. 15 - 20 mínútur frekar óþægilegt sérstaklega fyrir mína sködduðu kjálkaliði. En árangurinn af þessu togi öllu saman er svo mikill að þetta er orðin tóm sæla. Helmingi færri hausverkir og höfuðið getur nú snúist í báðar áttir flesta daga án teljandi sársauka.

Eins og ég fékk nú mikið kvíðakast þegar ég sá nýja tækið hans Gústa míns fyrst. Og fyrst ég er nú farin að tala um tækin hans þá er hann nú líka kominn með splunkunýtt starwarsleysersverð sem líka virkar helv... vel á olbogann á mér ásamt undrakreminu frá henni Stínu minni. Sem sagt heilsufarið er með betra móti þökk sé öllum hjálparmeðulunum.

Annars gengur lífið sinn vanagang hér á Sléttó og ekkert sérstakt títt úr þeim herbúðum. Við erum meira og minna öll kvöld og allar helga niðrí Hala að æfa upp P Ó K Ó K eftir Jökul Jakobsson. Mikil vinna og mikið gaman. Svo er maður að smá bæta inn á heimasíðu Halaleikhópsins og nú bíða mín stór bunki af gömlum myndum sem ég þarf að fara að skanna inn og setja upp.

Á morgun er svo stóri dagurinn. Guðmundur minn kæri mágur kemur til Íslands mikið hlakka ég til. Búin að sakna hans og Villa míns svo svo svo mikið. Knús til þín Villi minn. Nú fæ ég loksins fréttirnar beint í æð. Það er svo erfitt að tala og skrifa milli heimsálfa í allan þennan tíma.

24.1.06

Æ er hún ekki skemmtileg


Mér fannst´hún svo góð þessi og minna mig yndislega á lætin í mér síðustu mánuði. En nú er ég orðin voða stillt sef frameftir meira að segja

22.1.06

Hamingjudagur

Í gær fórum við í brúðkaup hjá kærum berskufélaga okkar hjónanna. Einar Bjarnason er nú komin í hnapphelduna loksins kallinn á það svo skilið. Ekki þori nú ég að skrifa nafnið á frúnni svo ég fari nú ekki að afbaka nafn þessarrar yndislegu konu sem hann náði í frá Víetnam.



Athöfnin var mjög falleg og hjartanleg. Séra Bjarni brilleraði eins og hans var von og vísa og ekki var veislan af verri sortinni. Dýrindis réttir frá tveimur heimshornum. Vona ég bara að gæfa og hamingja fylgi þessu hjónabandi. Einar á það svo skilið.



Í veislunni hitti ég gamla kempu úr Vatnsdalnum sem var einu sinni í árdaga næstum orðin tengdamamma mín. Hressari kellu er varla hægt að hitta. Didda á Bakka í Vatnsdal. Hún sagðist vera hálftimbruð hafa verið á þorrablóti og sungið og dansað til 4 sl. nótt. Geri aðrir betur á hennar aldri. Alltaf hef ég dáð þessa konu sem hefur verið Einari eins og besta móðir alla tíð.

Já þetta var sannkallaður hamingjudagur.

19.1.06

Eins og kolrugluð skopparakringla

Síðustu daga hafa mér borist ýmsar fréttir sumar mjög alvarlegar og dapurlegar og aðrar sem rífa mig upp í hæstu hæðir í kæti. Og svei mér þá maður veit ekkert hvernig maður á að haga sér.

Sat við tölvuna áðan og leið eitthvað undarlega og fór að skoða í huganum aðburði liðinna daga og fór að tengja. Merkilegt hvað maður getur verið utanvið sig stundum og ótengdur sjálfum sér. Eins og maður ætti ekki að þekkja sjálfan sig eftir heillar æfi sambúð.

Ég segi nú ekki meira.

17.1.06

Í þá gömlu góðu daga

Þessar indilegu myndir lágu á stofuborðinu mínu þegar ég vaknaði í morgun. Eitthvað hefur sonurinn verið að gramsa og fundið þennan líka fjársjóð sem ég ætla að deila með ykkur

Þetta er Stebbi bróðir sennilega uppúr 1970 að taka myndir, þeir félagar dunduðu sér við það langar stundir. En ekki veit ég hvar allar þær myndir eru. Gaman væri að sjá þær. Þeir voru með góðar græjur og örugglega liggur leyndur fjársjóður einhversstaðar.


Þetta er Stebbi og Dóri Nell að mig mynnir átti Dóri þenna kagga ;-) En strákar nú kommentið þið og gefið okkur frekari upplýsingar

Svona til gaman má geta að Stefán Þórður er nú virðulegur vaktmaster í Ráðhúsinu í Osló og Dóri Nell er virðulegur skipherra með meiru hjá landhelgisgæslunni.

Snjórinn er æði

Í Reykjavík kyngir niður snjó þessa dagana mér finnst það æðislegt. Birtan verður svo falleg, litirnir æðislegir og lyktin eitthvað svo fersk. Það er ekki það ég sé skíðamanneskja eða eitthvað svoleiðis langt því frá.

Mér finnst bara að það eigi að vera snjór á Íslandi nokkra mánuðí á ári. Það brýtur svo skemmtilega upp skammdegið. Það er hægt að fara út og leika sér í snjónum búa til snjóengla og njóta í botn.

Fólkið sem ég umgengst þessa dagana mest er nú ekki á sömu skoðun og ég allstaðar sem ég kem fjasar fólk yfir snjónum og ófærðinni og erfiðleikum við hitt og þetta vegna fannfergis. Það er nú ekki eins og það sé fannfergi heldur smá snjór.

Ég held við séum flest búin að gleyma hvar við búum á 66°norður á hnettinum. Veðurblíðan er búin að vera svo mikil undanfarin ár að fólk man ekki að á þessum árstíma á að klæða sig mun betur, fara í góða skó, gefa sér rýmri tíma til að komast milli staða og ef fólk er á bíl þá þarf að skafa og vera á góðum vetrardekkjum eða skilja bílinn bara eftir heima.

Þó ég sé snjóaðdáandi elska ég vel ruddar götur og gangstéttir sem borgarstarfsmenn vinna ötullega að, en borgin er stór.

Ég ætla samt ekki að setja inn snjófídus á síðuna mína þennan sem snjókornum rignir yfir síðuna. Kann það en þoli það ekki það er svo erfitt að lesa þegar allt er á iði.

Annars er ég bara í Pollýönnuleik þessa dagana meðan mál mín skírast tók það upp eftir Villa elsku bróður mínum í afríku.

12.1.06

Góðar fréttir og slæmar

Arg og garg ................

Kerfið er að klikka einu sinni enn. Læknirinn minn var svo elskuleg að gleyma að setja örorkuvottorðið mitt í póst í byrjun nóvember, ég komst að því í gær og arg varð brjáluð........

Þetta þýðir það að ég fæ ekkert borgað út úr velferðarsjóð ríkisins næstu tvo mánuði eða svo meðan þeir kerfiskallar og kellur sem þar sitja fara yfir bréfið sem fór vonandi í póst í dag.

Sem betur fer hef ég nægt annað til að hugsa um svo þetta setur mann ekki alveg úr sambandi verð víst samt að finna einhver ráð til að eiga fyrir salti í grautinn. Þetta er sá hlutur við þetta mikilvæga og margöfundaða starf sem öryrki sem mér hefur alltaf þóst erfiðast. Þessi óvissa. Ég sem hélt þetta væri nú allt í lagi í þetta skiftið. Var með góðum fyrirvara farin gegnum læknisskoðun og allt það en helv. lækn........ klikkaði......... Verst að svona er þetta á 6 ára fresti eða svo. Kerfiskliiiiikkkkkkkuuuuunnnnnnn

Jæja en góðu fréttirnar eru þær að við erum búin að hala inn leikara í síðasta hlutverkið svo nú ætti allt að fara að ganga snuðrulaust í Pókókinu.

Við erum búin í þessari viku að fara yfir alla þættina og stytta og snurfusa. Á laugardag verður svo skuggaæfing sem ég hlakka mikið til. Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.

Nú svo eru önnur félagsmál að banka á gluggann í hinum ýmsu félögum og nefndum sem ég sit í mér til mikillar undrunar. Datt inn í eina nefnd enn í dag segi nánar frá því seinna.

Á morgun er svo frí frá leiklistinni og Heklan mín fær loksins óheftan aðgang að afa og ömmu okkur til mikillar ánægju og yndisauka. Hvar væri maður staddur ef maður ætti ekki þetta ömmuskott.

Sem minnir mig á að ég hef ekki enn sett inn slóðina á jólamyndir og áramótamyndir en það kemur hér Jól 2005 og Áramót 2005-6
´
Hér eru svo myndir sem Palli tók annan í jólum HÉR og HÉR frá aðfangadegi og HÉR frá áramótunum

Annasamir dagari

Þessi vika hefur farið í samlestur og reyna að kynnast persónunum í PÓKÓK. Heilmikil vinna í annars góðum og fjölbreyttum hóp. Það gekk brösulega að finna leikarar í nokkur hlutverk en rættist úr því á síðustu stundu þá urðu allir voða glaðir.

Næsta dag varð einn aðalleikarinn að hætta af persónulegum aðstæðum svo nú hefur farið farm all ýtarleg leit að karlleikara. Einhverjar vonir glæddust í kvöld en þetta skýrist allt á morgun vonandi.

Illa hefur gengið að fá hluta að hópnum til að mæta stundvíslega en vonandi verður það lagað hið fyrsta.

Helgin verður öllu annasamari þar sem allir leikaendur og aðstoðarfólk verður með og skuggaleikið, form sem flest okkar höfum ekki reynt áður en verður örugglega fínt. Við bara treystum leikstjóranum.

Nú svo hefur farið mikill tími í að uppfæra og laga heimasíðuna www.halaleikhopurinn.is. Gaman væri ef þið skoðuðu hana fyrir mér og gæfuð mér komment um hvað ykkur fynnst og ekki síst ef þið eruð með ábenigar um ýmislegt sem mætti laga.

Textasmiðir eru endilega beðnir um að gefa kost á sér við vinnuna og grafíkerara.

Af mér er annars það helst að frétt að ég er í brjáluðu skapi út í heilsugæsuna sem gleymdi að senda vottorð sem senda átti í byrjun nóv sl. til TR en klikkaði og ég fattaði það ekki fyrr en í dag þegar ég fór að spurjast um örorkumatið mitt nýja sem átti að koma fyrir mánaðarmótin.

En sem sagt þegar bréfið berst loks þá tekur kerfið í TR minnst 6 vikur að fara í gegnum bréfið. AAAAARRRRRGGGG

Þetta þíðir fyrir mig að ég fæ ekki nein laun næstu tvo mánuðina og það er eitthvað sem ekki mátti gerast.

Setti inn eina til að sýna fjölskylduna í mótmælum

6.1.06

Heimspeki Charles Schultz

Fékk þetta sent í tölvupósti fannst það svo gott að ég ákvað að skella því upp hér.

Charles Schultz er höfundur teiknimynda syrpunnar Peanuts. Þú þarft ekki að svara spurningunum.

Lestu verkefnið og þér mun verða þetta ljóst:

1. Nefndu fimm auðugustu einstaklingana í heiminum.
2. Nefndu fimm síðustu sigurvegara í fegurðarsamkeppni Evrópu.
3. Nefndu tíu einstaklinga, sem hafa unnið Nobels verðlaunin.
4. Nefndu sex leikara og leikkonur, sem unnu Óskars verðlaunin á síðasta ári.

Hvernig gekk þér?

Niðurstaðan er, að enginn okkar man fyrirsagnir gærdagsins. Þetta eru ekki annars flokks afreksmenn. Þeir eru þeir bestu á sínu sviði. En klappið deyr út. Verðlaunin missa ljómann. Afrekin eru gleymd. Viðurkenningarnar og skírteinin eru grafin með eigendum sínum.

Hér eru nokkrar aðrar spurningar. Sjáðu hvernig þér gengur með þær:

1. Skrifaðu nöfnin á fimm kennurum sem hjálpuðu þér á þinni skólagöngu.
2. Nefndu þrjá vini, sem hafa hjálpað þér á erfiðum stundum.
3. Nefndu fimm einstaklinga, sem hafa kennt þér eitthvað mikilvægt.
4. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem kunnu að meta þig að verðleikum.
5. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem þér þykir gott að umgangast.

Auðveldara?

Lexían: Fólkið sem skiptir þig mestu máli í lífinu eru ekki þeir, sem hafa bestu meðmælabréfin, mestu peningana eða flestu verðlaunin. Heldur þeir, sem finnst þú skipta mestu máli.

Hafðu ekki áhyggjur af því, að heimurinn sé að farast í dag. Það er nú þegar morgun í Ástralíu. (Charles Schultz)

4.1.06

Why be normal

Rakst á þessa slóð í mogganum og vil endilega deila henni með ykkur. Þetta er stuttmynd um VÍSINDAMANN VONARINNAR ELÍNU EBBU.

Konu sem ég hef mikið litið upp til í mörg ár, og fengið mörg skemmtileg og fróðleg ráð frá henni sem hafa gagnast mér og mörgum mörgum öðrum í lífsins ólgu sjó.

3.1.06

Enn á lífi bara blogglöt á nýárinu

Í nóvember sl. þegar sem mest gekk var ég mikið spennt yfir að fá frí í desember, skólinn búinn og bara jóladundur ásamt smá verkefnum hér og þar. En annað kom á daginn ég er ekki enn búinn að fá þennan frídag (jú 1. jan. sem ég eyddi í þynnku).

Ég fór á fullt í hin ýmsustu verkefni og undirbúning fyrir Pókók og www.halaleikhopurinn.is sem fór í loftið um áramótin og hefur verið í stöðugri vinnslu síðan líka breytt og bætt endalaust.

Á morgun (í dag, næstum) verður svo fyrsti samlestur á Pókók í Halanum hlakka ég mikið til að hefjast handa með öllum hópnum.

Ég ætla ekki að skrifa áramótahugleiðingu eða strengja áramótaheit. Hugurinn er alltof staðbundinn þessa dagana.

Ég átti yndisleg áramót með Palla og Frosta og hans fjölskyldu allri. Skemmtilegur hópur á öllum aldri sem borðuðum saman æðislegan mat og djömmuðum fram eftir nóttu. Set inn myndir seinna. Já líka restina af jólamyndunum. Er ekki einu sinni farin að skoða þær sjálf. Ég heyrði í öllum systkinum mínum um áramótin úr öllum heimshornum það var náttúrulega toppurinn.

Guð hvað þetta hljómaði leiðinlega þegar ég las það yfir, kannski ætti maður að fara að stoppa þetta blogg ?