25.2.06

Fríið á enda

Þá er vikufríinu að ljúka, get nú ekki sagt að ég hafi notað tímann vel. En þó kúplað mig út úr leikritinu milli þess sem maður hefur verið að spá í eitt og annað sambandi við leikritið og svara hinum ýmsu fyrirspurnum.

Í dag er ég svo kölluð á stjórnarfund með stjórn Halans. Ætli það eigi ekki bara að reka mann, hvað veit ég.

Eyddi gærdeginum í að fara milli leikfangabúða og leita að lögguhúfum án árangurs. Hvað er þetta er ekki lengur í tísku að vera í löggu og bófa......
ábendingar um hvar flott kaskeiti fást eru vel þegnar.

Í dag er hálfur mánuður í fyrirhugaða frumsýningu á Pókók og sennilega verður maður á haus niðri í Hala mest allan þann tíma svo kæru vinir og fjölskylda þið verðið bara að sína mér aðeins meiri þolinmæði þennan tíma en þetta tekur fljótt af.

Nú svo er allt á fullu í heimasíðugerðinni. Er að rembast við að halda úti www.halaleikhopurinn.is og næstu daga mun þar koma í ljós síða um Pókók.

21.2.06

Til hamingju með afmælið Olla

Vá ég var næstum búin að gleyma að Olla mágkona á afmæli í dag. Þar sem hún var búin að tilkynna okkur til mikilla vonbrigða að hún tæki ekki á móti gestum var þessi hugsun komin á hold. Hún sem bakar svo góðar kökur og galdrar fram brauðrétti af tærri lyst.



Til hamingju með daginn Olla mín

Áhugaverður dagur

Í dag gerðist ég lifandi bók á bókasafni Húsaskóla. Þetta var mjög skemmtilegt við mættum þarna 8 "bækur" Muslimi, Svartur maður, Hommi, Lesbía, Femíninsti, Alkohólisti, Eineltisbók og eg sem Þunglyndisbók.

Þetta voru krakkar í 8 bekk, þeim var skipt niður í 4 manna hópa og máttu hver hópur taka sér eina bók í 1/2 tíma og fletta upp í honum um viðkomandi málefni. Ég var lánuð út þrisvar og fékk fullt af skemmtilegum og áhugaverðum spurningum. Þessir krakkar voru til mikillar fyrirmyndar prúð og skipulögð og lögðu sig af alúð eftir verkefninu. Ýmsar skondnar spurningar komu fram en mér fannst nú best ein spurningin sem datt út úr einum nemandanum "Er ekki dýrt að vera þunglyndur" :-)

Í kvöld fórum við hjónakornin á heitasta staðinn í bænum Krúa Thai með Palla bróðir og Guðmundi mág. Tókum upp gamlan og góðan sið.

Á heimleiðinn var svo komið við niðrí Hala það er svo erfitt að slíta sig frá þó maður eigi að heita í viku fríi. Þar voru 7 Halar á fullu í málningarvinnu og skemmtu sér stórkostlega. Frábært að sjá dugnaðinn í þeim. Og hvernig þetta litla leikhús okkar tekur stórkostlegum breytingum með nokkrum lítrum af málningu og fúsum Halahöndum.

20.2.06

Ég fraus alveg

Eftir alla veðurblíðuna sem ég skrifaði um í síðasta pistli, skall á þvílíkt vetraveður með roki og fimbulkulda að ég helfraus næstum við að ganga hálfa lækjargötuna. Svona er þetta hér á Fróni en nú er spáð auknum hlýindum aftur svo vonandi fer maður að þiðna.

Á morgun ætla ég að taka að mér alveg nýtt hlutverk og gerast bók á lifandi bókasafni í Húsaskóla. Hlakka til þó ég viti nú ekkert hvað ég er búin að koma mér núna.

Var að tala við Villa bróðir í Afríkunni hann var hress en þreyttur og saknar Guðmundar mikið. En fylgist vel með hvað er að gerast í Halanum og biður kærlega að heilsa öllum sem hann þekkir.

Nú er sem sagt komið á vikufrí hjá mér í Halanum eða svona næstum allavega þarf ekki að mæta daglega eins og ég hef nánast gert frá áramótum hvern einasta dag eitthvað. Ekki það að mér leiðist það væri þá ekki að standa í þessu. Skemmti mér konunglega. Og bíð spennt eftir næstu æfingu.

15.2.06

Vorið er komið

Já það held ég bara rjómablíða dag eftir dag, allavega meðan sólin skín. Grasið í Fossvogsdalnum er iðagrænt og ekki laust við að það þurfi að fara að taka sláttuvélina fram við sum hús.

Já við erum búin að draga Vikoríu aftur fram og skundum nú í göngutúra flesta daga og njótum veðurblíðunnar á Fróni.

Hekla var hjá okkur í 2 daga og yljaði okkur hressilega um hjartaræturnar. Þessi þjarkur var að fá einkunnirnar sínar og við erum að rifna af stolti yfir prinsessunni.


stærðfræði 9
lestur 7,5 (af 8 mögulegum)
skrift 7
málfræði 9
stafsetning 7

Getur það nokkuð betra orðið. Hún hefur verið að hlýða afa sínum yfir textann í Pókók og finnst hann nú ekki nógu góður í þessu. Fékk að koma á eina kvöldæfingu þar sem það var frí í skólanum og skemmti sér vel.


Besti mágur í heimi er svo á landinu og við höfum verið dugleg að hittast og njóta samverunnar. Annars er maður með hugann allan við leikritið. Æfingar ganga vel en það koma alltaf ákveðnir hnútar eins og eðlilegt er á þessum tíma í ferlinu.

Framundan er viku frí frá æfingum en þá á að taka heldur betur til hendinni í leikmynd, leikmunum, búningum og öllu öðru sem tilheyrir.

Enn vantar okkur ýmislegt propps og set ég listann inn hér í þeirri von að einhver góðhjartaður lesandi geti ljáð okkur einhverja muni. Listinn er svo uppfærður reglulega á heimasíðu Halaleikhópsins


Alls konar lopa/ ullar / í sauðalitunum/ dót, má gjarnan vera slitið td. :
Húfur, treflar, sokkar (stroffið er nóg), vettlingar, sjöl, peysur.
3 möppur helst renndar, tvær eiga að vera eins
Vasaklútur stórköflóttur (Ekki þessir gömlu góðu tóbaksklútar)
Fínn herraklútur
Herra hattur
Seðlaveski, gömul kort allskonar dót fyrir óprúttna þjófa
Stór hallærisleg gleraugu á saklausa sveitastelpu.
Fullt af tómum glærum vínflöskum
Skýluklútur/skotthúfa
Flöskustútur með sjússateljara
Blár og grænn matarlitur
Tappatöng (til að setja tappa á gos/bjórflöskur) og tappa
Skrifborðsstóll (forstjóra) svartur með leðuráklæði
Gerviblóm í 1/2 blómavasa
Stóra bangsa
Löggukylfu eða eitthvað í þá áttina
Fjaðratreflar
Vasaúr
Svarta dulu
Úr
Nokkur stk. Sælgætisöskjur
Hálsól
Hundaól útdraganleg
Dropaglös
Plöntur helst ætar
Graslauksplöntur
Svarta minnisbók
Langt munnstykki
Málmlituð ruslafata
Hvít kerti venjuleg
Gamla ölkassa

13.2.06

depurð :-(

Ég er pínulítið mikið döpur. Var að skilja við bestu vini mína til margra ára. Vini sem hafa farið með mér út um allt, í ótal utanlandsferðir og ferðalög upp um fjöll og firnindi og nokkrum sinnum kringum Ísland.

Verið með mér á hinum og þessum skemmtunum, að ótöldum öllum fundunum og ráðstefnunum sem þeir hafa fylgt á.

Þeir hafa tekið þátt í nokkrum leiktímabilum með mér og verið mér sannir félagar sem hafa aldrei brugðist.

Þeir hafa líka verið mjög duglegir við að mæta í öll fjölskylduboð, ótal grillveislur og komu oft með mér í Krikann minn kæra.

Nú finnst mér eins og það sé stórt gat í hjarta mínu og tóm sem vanduppfyllt verður. Enda hef ég lengi leitað að staðgengli fyrir þessa vini mína en það er ekkert sem hefur getað komið í þeirra stað.

Svo nú er ég döpur og leið og full að söknuði.

12.2.06

Lovísa Lilja á afmæli í dag


Lovísa Lilja dóttir Villa bróðir á afmæli í dag. Skellti inn mynd af henni og fallegasta dreng í heimi, syni hennar Gabríel Temitayo. Þau eru að fara eftir nokkra daga til Villa í Greyton S-Afríku

Til hamingju með daginn Lovísa mín

10.2.06

já já

já já er á lífi og í fullu fjöri.

En bara haldin mikilli bloggleti þessa dagana.

Brjálað að gera í leiklistinni og alls kyns nefndarstörfum.

Hafið bara þolinmæði með mér.

7.2.06

Ljóð

Innri átök

Langar að öskra.
Sálin er tómarúm.
Eins og tómur magi,
sem gaular af skorti.
Öskrar sálin af sársauka,
en ekkert heyrist út á við.
Einungis í höfðinu.
Þar sem skerandi veinin óma,
enginn mun nokkurn tíman vita.
Að mig langar að öskra.


Lífsblóm

2.2.06

101 dag eftir dag

Elsku besti mágur í heimi er kominn heim. Mikið er nú dásamlegt að fá að dúlla sér með honum í 101. Síðustu daga hef ég drukkið kaffi á fleiri stöðum en síðasta hálfa árið. Það var svo gott að fá knús frá honum og þessa yndislegu nærveru sem hann einn getur veitt.

Já ég sagði heimsins besti mágur. Hann segist aftur á móti hafa komið til Íslands vegna þess að Frosti var farinn að skora ansi hátt eftir jóla og áramótamatinn. Segist ekki hafa þolað hvað ég var farin að blogga jákvætt um hann. Greyið Steen hefur enga séns í þá íslensku mága mína.

Svo segist Guðmundur ekkert hafa fengið hjartaáfall þetta hafi bara allt hafa verið drama í dramadrottningunni til að komast heim til að keppa við Frosta. Jæja allavega er hann kominn í íslenska heilbrigðiskerfið mér til mikillar ánægju.

Svo verður það spennandi hvað Frosti og Palli kokka ofan í okkur til að heilla okkur upp úr skónum á sunnudaginn en þá verður stórfjölskyldu matarboð. Síðasti sjéns áður en Abrahem fer til UK og svo fer Lovísa og Gabríel seinna í mánuðinum til Villa í Greyton.

Já merkilegt hvað þessi fjölskylda öll er á faraldsfæti og vill búa hér og þar á hnettinum. Ég sem vil bara vera hér á okkar yndislega Fróni, verð þó að viðurkenna að ég er orðin þreytt á rigningunni í vetur.