31.3.06

Vonlausar væntingar

Finnst einhvern veginn að ég eigi núna að skrifa eitthvað gáfulegt hér

En það bara kemur ekki

Stundum er maður bara ekki í stuði

en það er gott veður úti og inni

Hugsa ég fari bara að lesa Ísfólkið nenni ekki í Bónus

Nenni ekki í póstkassann að ná í blöðin og kl er orðin 14.05

Er samt löngu vöknuð

Látum þetta duga í dag

27.3.06

Ekki gleyma fundinum í kvöld

Kosning á þing Sjálfsbjargar

Á fundinum verða kosnir fulltrúar Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu til setu á þingi Sjálfsbjargar, lsf. sem verður haldið 19. - 21. maí 2006. Fundurinn hefst kl. 19:30 þriðjudaginn 28. mars í félagsheimilinu Hátúni 12.

Mætum nú öll og styðjum okkar fólk :-)

Bland í poka

Afslöppunin er alveg að takast. Tókst að sofa til hádegis tvo daga í röð um helgina og vera á náttfötunum til 2 svo það er mikil framför fyrir morgunhanann minn.

Tvær sýningar voru um helgina og gengu þær bara nokkuð vel, ég er stolt af Hölunum mínum eftir helgina. Allir lögðust á eitt að gera sitt besta og útkoman var góð. Enn er hægt að fá miða allar upplýsingar á www.halaleikhopurinn.is. Í dag er svo alþjóðlegi leiklistardagurinn sjá nánar hér

Sorgaratburður varð á heimilinu á laugardaginn ég fór að vera dugleg og skipti um peru í fína lampanum frá Ömmu Villu erfðagóssinu mikla. Fannst skermurinn eitthvað rykugur og fór með hann út á svalir í sólina til að dusta hann aðeins. En greyið var orðinn svo fúinn að þegar ég rétt snerti hann lauslega hrökk efnið í sundur :-( Það var mikil sorg. Amma mín saumaði þennan skerm þegar ég var barn og mér hefur alltaf fundist hann sá flottasti í heimi. Nú eru góð ráð dýr. Þó mér sé ýmislegt til lista lagt og hafi saumað nokkra lampaskermi á minni löngu æfi legg ég ekki í svona meistaraverk. Svo nú auglýsi ég eftir flinkum skermagerðaraðila. Ég græt innra með mér enn yfir skerminum merkilegt hvað maður getur tengst dauðum hlutum sem jú hafa sál.



Ég varð fyrir merkilegri lífsreynslu í vikunni var að fara í verslun og á planinu fyrir utan hitti ég mann sem ég þekki ekki neitt en les reglulega bloggið hans þar sem hann er frábær penni. Fannst þetta ferlega hallærislegt fór eiginlega í flækju en strunsaði bara fram hjá uppáhaldsbloggaranum mínum eins og ég vissi ekkert hver þetta væri. Hefði kannski átt að biðja hann um eiginhandaráritun á USB-tengið mitt :-) Já netheimar eru merkilegir maður fer að fylgjast með hinum ýmsu málum sem manni koma kannski ekkert við. En allt eru þetta opnar síður. Hvað á maður að gera í svona málum? Nú væri gott að fá komment.... Á maður kannski ekki að lesa blogg frá fólki sem maður þekkir ekki? Eða þarf maður að biðja um leyfi? Hvað finnst ykkur?

Ein ráðvillt en af gefnu tilefni er þessi bloggsíða opin almenningi en gaman væri að vita hvort einhver les bullið í mér

20.3.06

Leiklistarbakterían tekur öll völd

Já það er óhætt að segja að maður sé aðeins að hressast af síþreytunni en önnur veira hefur aftur á móti tekið völdin heldur skemmtilegri finnst mér alla vega.

Í dag skellti ég mér á opinn samlestur í Borgarleikhúsinu á Viltu finna milljón. Það var gaman að sjá hvernig atvinnumennirnir og landslið leikara gerir þetta. Merkilegt fannst mér að sjá hversu lítill munur er á vinnubrögðum er hjá þeim og okkur í okkar litla sæta leikhúsi Halanum. Aðeins fleiri í kringum leikarana en annars bara eins og hjá okkur.

Viltu finna milljón, eftir Ray Cooney, er farsi af betri gerðinni með óteljandi hurðaskellum, misskilningi, lygi, ástarmálum, morði ofl. sem gerir verkið afar spennandi og hlægilegt. Spái að þetta sé verk sem mun verða til þess að ýmsir fá magakrampa og bakföll af hlátri.

Svo er ég búin að bóka mig í leikhús með vinum á fimmtudaginn á WOYZECK hlakka mikið til. Æfing hjá okkur á miðvikudaginn og svo tvær sýningar um helgina. Já það er óhætt að segja að það kemst lítið annað að en leiklist og meiri leiklist þessa dagana.


Næstu sýningar á Pókók eru á föstudagskvöldið kl. 20.00 og sunnudagskvöldið kl. 20.00. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Halaleikhópsins

18.3.06

Enn á lífi

Sorry hvað ég er löt að blogga þessa vikuna. Held bara ég hafi alveg klárað orkuna síðustu vikurnar. Síþreytan hefur tekið öll völd og daglegir hlutir eru orðnir erfiðir. En þetta er ástand sem ég þekki vel og þarf bara að gefa sinn tíma. Svo rís ég aftur upp fílefld vonandi innan skamms. Hafið bara þolinmæði með mér á meðan.

Frumsýningin gekk mjög vel þrátt fyrir að tvo leikara vantaði vegna veikinda, smá breyting og íhlaupaleikari af bestu sort redduðu málunum. Um frumsýningarpartýið ætla ég að hafa sem fæst orð enda er skrifað um það á hinum ýmsu stöðum á netinu. En ég alla vega skemmti mér vel.

Húsbóndinn er á hægum batavegi og ætlar að leika á morgun. Miðasala og allar upplýsingar eru á www.halaleikhopurinn.is nú er tækifærið til að drífa sig í leikhús og skemmta sér vel.

10.3.06

Allt er þegar þrennt er

Já ég vona að það sé mikill sannleikur fólginn í þessu orðatiltæki. Allavega eru þrír meðlimir Pókóksliðsins núna fjarverandi vegna alvarlegra veikinda. Fyrst veiktist ein leikkonan og mun ekki geta verið með okkur næstu mánuðina, svo fótbrotnaði miðasölustúlkan og í dag fékk minn heittelskaði eiginmaður og leikari bráðasýkingu og mun ekki geta verið með næstu daga alla vega.

Og generalprufa í kvöld og frumsýning á MORGUN !!!

Já ég varð svolítið trekt verð að viðurkenna það. Milljón hugsanir þjóta gegnum hugann og ekkert stopp á flæðinu í heilabúinu, vantar allar umferðarstjórnum á þann bæ.

En það kemur alltaf maður í manns stað og sem betur fer hefur Halinn á að skipa miklu af úrvalsfólki sem leysir vandamálin en dettur ekki um þröskuldana. Einn gamall og reyndur leikari datt inn í dag og Villi leikstjóri greip hann á staðnum. Já Jóndi ætlar að leysa Ödda minn af og gerir það eflaust vel.

Töfrarnir eru að skapast í leikhúsinu enn eru hvöss horn hér og þar en þetta verður örugglega fínslípað á laugardagskvöldið enda mikið af úrvalsleikurum með okkur þetta árið eins og ævinlega. Ég hef alla vega tröllartrú á mannskapnum held að hann geti vel unnið saman sem ein heild. Hlakka til frumsýningarinnar.

En tröllatrú mín á heilbrigðiskerfinu er ekki eins mikil. Þegar kom í ljós að við þyrftum að láta athuga fótinn á kalli hringdi ég upp á slysó til að athuga hvert ég ætti að fara með hann, jú jú komdu en það er 2 tíma bið og ekki hægt að skrá sig í röðina gegnum síma þó maður væri staddur í næsta húsi.

Og það varð raunin eftir innskráningu sagðist stúlkan hleypa honum framfyrir þar sem ástandið á honum var svona slæmt. En við biðum samt í tvo tíma á biðstofunni og svo inni líka langa stund áður en doksi kom. Jú jú bráðasýking þarf að fara í ræktun og fá sýklalyf í æð á 8 tíma fresti í einhvern tíma. Þurfi að vera með lyf í poka að leka inn í klukkutíma.

Svo kom rúsínan í pylsuendanum. Það er ekkert pláss á spítalanum fyrir hann allt fullt og enga heimahjúkrun að fá það er svo mikið að gera hjá þeim. Nei nei hann fárveikur maðurinn þarf að koma á 8 tíma fresti á spítalann til að fá lyf í æð og fara heim á milli. Hvað er eiginlega að í þessu kerfi ? ? ? ? ?

Við erum að tala um mann með gerfifót (sem hann nota bene má ekki nota í bili) og í hjólastól. Æ það er gott það er ekki langt að fara.

3.3.06

Stressið tekur völdin

Nú er farið að styttast í frumsýningu og stressið alveg um það bil að taka völdin. Merkilegt hvernig það getur farið með mann. Vakna kannsi á morgnana allt of snemma heltekinn af þeirri hugsun að ég verði að gera hitt eða þetta helst strax.

Já handtökin við uppfærslu á leikriti eru milljón allavega, sem betur fer höfum við margar fúsar hendur sem vinna saman að sameiginlegu markmiði. Og gengur bara þokkalega vel þó manni finnist allt vera á deadlina sumar stundir þá held ég þetta smelli nú allt saman og galdurinn verður til sem gerir hverja leiksýninga að töfrastund.

Já ég elska leiklistarstúss þó síðasta vikan sé strembin þá skilar það sér vonandi eftir frumsýningu.

Reyndi að kúpla mig aðeins út í dag. Fór á aðalfund hins merka ferðafélags Víðsýnar. Þar var ég náttúrulega göbbuð inn í stjórn með hraði og rússneskri kosningu. Þetta merkilega félag er að springa heldur betur út. Hvorki meira né minna en 3 utanlandsferðir síðasta starfsár auk styttri ferða innanlands. Hvern hefði grunað það þegar við stofnuðum þennan anga 1999 hæðstu hugsjónir voru kannski 3 nátta innanlandsferðir einu sinni á ári.

Mörg spennandi verkefni eru fyrirliggjandi þetta árið eins og ferð í júní til Hafnar í Hornafyrði og í Ágúst á norrænt geðhjálparmót í Danmörk. Vonandi get ég lagt eitthvað af mörkum við undirbúning þess.

Hitti svo Guðmund besta mág í heimi á kaffihúsinu okkar þar sem við áttum notarlega stund saman. Hann er nú á leið út aftur til Villa bróðir :-(

1.3.06

Vá orðin svaka fræg

Jess aldeilis dagur mar. Haldiði að Silvía Nótt sú eina og sanna hafi ekki bara bankað uppá hjá mér í morgun og boðið mér að koma með sér til Aþenu sem förðunardama. Vá held varla vatni yfir þessu.

Við eyddum deginum í að prufa okkur áfram með make up og það verður sko flott nú skal sko heimurinn rokka feitt þegar þessi útgáfa sést.

Hommi og Nammi komu líka en ég nennti ekkert að mála þá og lífvarðasvínin lét þá bara dúsa fram á gangi hleypi sko ekki hverjum sem er inn til mín. Enda var Silvía Nótt líka orðin þreytt á þessum beljökum og leyfði mér að keyra sig á Kiunni minni í hin ýmsu partý þegar leið á daginn og limman bara elti helvítis dónarnir.

Ég tók fullt af myndum en út af þið vitið samningunum í Eurovision má ég víst ekki birta þær en USS set eina hér þið segið ekki frá........