31.5.06

Dagurinn sem ekkert er að gera á

Já sá dagur kom loksins að ég var ekki bókuð á fundi, spjall eða önnur verkefni. Sem sagt ekkert að gera. Þar sem athafnaleysi á ekki vel við mig þá tókst mér að fara í hinar ýmsu útréttingar sem hafa dregist á langinn. Held ég hafi komið við í flestum hverfum austan Elliðaár og lokið hinum ýmsustu mikilvægu verkefnum.

Pikkaði svo Heklu upp og tók með mér heim. Sinnti ýmsu í tölvupósti og meira að segja straujaði allan bunkann sem safnast hafði saman. Rakti upp 8 cm af lopapeysu sem ég var byrjuð á og byrjaði aftur fannst hún eitthvað svo víð.

Nú er kl. 21.40 og engin verkefni fyrirliggjandi sem ég nenni í svo kannski ég fari bara að snemma að sofa, sýnist á öllu að það verði sól og blíða á morgun. Þá fer ég sko í Krikann.

29.5.06

Kriki er málið

Nú er sólin farin að skína og ég á leið í Krikann. Fyrsti dagurinn minn þar sem umsjónarmanneskja lofar góðu svo bara að drífa sig uppeftir í paradísina. Ef þið ratið ekki er komin leiðarlýsing með myndatexta og öllum upplýsingum á www.kriki.bloggar.is

26.5.06

Enginn langhundur í dag

Þessi dagur var frekar rólegur sat þó einn stórskemmtilegan fund í Vin með hinum athvörfunum og stöðum tengda geðfötluðum. Mikið að gerast á mörgum stöðum.


Hér er svo mynd af hótelinu sem Palli og Frosti eru á í Beijing í Kína ferlega flott endilega kíkið á myndirnar Sé þá ekki alveg fyrir mér harmonera inn í þennan lúxsús en......

Kveðja til Kína

25.5.06

Hugs, myndir og tiltekt

Ég er búin að hugsa of mikið í dag held ég. Komin í marga hringi. Í gær fékk ég fréttir sem komu mjög illa við mig í kjölfarið fór ég að hugsa. Flest af því er ekki birtingarhæft þar sem hugsanirnar skala allann tilfinningastigann. Niðurstaðan er engin en samt fékk mig til að hugsa minn gang í ýmsum málum. Kannski verður bara tekin vinkilbeyja í ýmsum málum. Var næstum búin að hleypa frekjunni út en sú auðmjúka og undirgefna tók völdin. Málið er í salti en æðruleysi er eina lausnin til að halda friðinn og lifa með því.

Hér koma nokkrar myndir úr Stokkseyrarferðinni með Hátúnshópnum



Stöllurnar Ríkey og Begga sem hafa af miklum myndarskap eldað fyrir okkur súpu flesta þriðjudaga undanfarna mánuði.



Jóna Haraldsdóttir sem tók á móti okkur í Menningarsetrinu með þessarri fínu gúllassúpu. Takk Jóna mín



Og Gróa móðir hennar sem kom alla leið vestan af Flateyri til að aðstoða. Eða sagan hljómar svo skemmtilega þannig. Jóna er sem sagt systir hennar Guggu svilkonu minnar sem er gift Hjálmari bróður Ödda míns. Þau fluttu aftur vestur í vetur eftir að vera búin að búa í ár á hæðinni fyrir neðan mig. Ekki veit ég hvers vegna kannski var ég svona erfiður nágranni, það skildi þó ekki vera. Alla vega sakna ég þeirra hrikalega mikið. Ástarkveðja vestur



Hér er hluti hópsins að snæða áður en haldið var í Draugasafnið



Hér erum við á horfa á Vitasýninguna og Björn Ingi messar yfir okkur, hann er maðurinn hennar Jónu.



Þá komum við að tiltektinni. Tók aðeins til í linkunum mínum. Ekki það að ég sé svo sár og svekkt út í neinn. Nei nei bara tiltekt sem hefur orðið útundan vegna anna. Setti einu sinni vinnureglu á blogginu að sá sem ekki bloggar í mánuð dytti út að tenglalistanum mínu. Stundum hef ég verið ströng á þessu stundum ekki. Stundum sér maður gegnum fingur sér við einstaka bloggar. En sem sagt nú var tiltekt.

2 tenglar hjá Árna og Daníel voru lagfærðir þar sem þeir voru búnir að flytja bloggið sitt annað.

5 tenglar duttu út þar sem þeir hafa ekki verið uppfærðir lengi, mislengi þó. Það voru Örn minn ektamaki, Sigrún Ósk dóttir mín, Jón Þór, Ásdís Jenna og Kiddi 3 þau eru Halafélagar.

3 tenglar eru í gjörgæslu og detta hugsanlega út næstu daga meðan ég hugsa málið. Það er Bjarni tengdasonur minn sem ég vona heitt að taki sig til og uppfæri hann er svo skemmtilegur penni, Lovísa Lilja dóttir Villa bróðir sem nú er flutt til London nýkomin frá S.Afríku hún fær sjens þar sem hún er búsett erlendis með búslóðina í kössum. Svo er það Óopinber bloggsíða Halaleikhópsins síða sem ég batt svo miklar vonir við en nú virðist ég ein skrifa á hana mánuðum saman svo kannski er bara best að dumpa henni. Blogg er greinilega að fara úr tísku.

2 koma nýir og sterkir inn Almar Leó Jóhannsson sem er sonarsonur Auðar systurdóttir Arnar. Já sonur hans Jóa sá yngsti. Mamma hans hún Guðný Rut er nú ekki duglega að blogga en hún setur reglulega inn myndir í albúmið sem kætir mig mikið. Bið að heilsa á Akureyri. Hinn nýji tengillinn er síða sem ég held verði heitasta síðan í sumar allavega fjallar hún um heitasta staðinn næstu mánuði það er Krikasíðan

Jú jú 2 tenglum í viðbót var bætt við það eru Reunion síður Reykjaskóla veturinn 1974-5 og Reykholts veturinn 1975-6. Reunion eru sem sagt mikið í tísku þessa dagana og þessir tveir hópar sem ég tilheyri hittast báðir í vor. Í Reykholt kemst ég því miður ekki þar sem það er sama kvöld og lokakvöldið í Halanum þetta árið en á Reykjaskólamótið skal ég ef guð og góðir menn lofa.

24.5.06

Kveðskapur og gömul loforð

Í ferðinni í gær kastaði einhver úr hópnum fyrriparti á Kristján Líndal, sem svo hringdi í mig í þegar heim var komið var þá kominn með seinnipart hafði notað víxlað innrým.
Megi vanda tungutak
tala sátta máli

Eins og fjandans englakvak
okkar háttinn brjáli


Var búin að lofa að setja inn myndir af Heklu á nýja hjólinu hér kemur hún:



Var líka búin að lofa mosamyndum úr Svartaskógi í Fossvogi. Hér koma nokkrar með mínum uppáhaldslit mosagrænum.









23.5.06

Klór í haus

Amstur daganna tekur lítinn enda enn sem komið er á þessum bæ.

Helgin fór í stórskemmtilegt og afkastamikið vel skipulagt þing Sjálfsbjargar lsf. Þar hitti maður fullt að skemmtilegu og duglegu fólki sem er að leggja mikla vinnu á sig fyrir málstaðinn.

Á sunnudaginn fór ég svo á málþing um fátækt sem Rauði krossinn hélt. Það var ansi athyglisvert og skemmtilegt að taka þátt í umræðum þar.

Ætla ekki að telja upp málefnin sem voru tekin fyrir þau hafa komið í fjölmiðlum og má finna á heimasíðum þessarra félaga.

Mánudagurinn fór í útréttingar og smá fundi og síðast en ekki síst fór ég í gönguhópinn minn sem er að komast í fullt fjör. Trimmklúbbur Eddu hittumst alltaf á mánudögum og fimmtudögum rétt fyrir kl. 17 við innganginn í Grasagarðinn í Laugardal og löbbum í klst. Allir eru velkomnir svo lesandi góður drífa sig nú næsta mánudag.

Í dag fór ég með Hátúnshópnum í menningareisu austur fyrir fjall í rútu. Keyrðum um Ölfusið með fararstjóra og forsöngvara, mikið gaman. Fórum svo í menningarmiðstöðina á Stokkseyri þar sem Jóna og Gróa tóku á móti okkur með þessari líka fínu Gúllassúpu og tilheyrandi. Skoðuðum málverkasýningur, Vitasýningu og Draugasafnið sem fékk hjartað á mér til að kippast all verulega við. Þorði þó ekki að lyfta steinhellunni sem hylur sjálfan kölska að sagt er. Gaman, mæli með safninu en varúð ekki fyrir hjartveika og passið að hafa nægan tíma það eru svo margar krassandi draugasögur sem þarf að hlusta á . Fórum svo á Minjasafn Kristjáns Líndal í Hveragerði það klikkar aldrei ef þið hafið ekki komið við þar enn þá drífa sig nú.

En að klóri í haus, þetta er orðið ferlegt ástand með mig og pólitíkina hef ekki minnsta vilja til að mynda mér skoðun í pólitíkinni eins og ég hef nú oft verið heit í henni. Finnst þetta allt vera sama sullið þetta árið á mínu kjörsvæði líst ekki vel á neinn af borgarstjóraefnunum og nenni alls ekki að leggjast í lestur stefnumála flokkanna. Hvað er að gerast eiginlega..............

Skildi þó ekki vera vöntum á tíma til að hugsa heila hugsun............

Framundan er lokatörnin í Halanum þetta leiktímabilið og tilheyrandi frágangur mála af ýmsu tagi. Nú og auðvita lokahóf að ég tali nú ekki um Aðalfundinn.

Jæja best að fara að halla sér og tæma hugann

19.5.06

Skamm skamm

Þetta sagði við mig maður í gær. Af hverju jú ég hafði ekki skrifað neitt í rúma viku á bloggið mitt. Meiri frekjan sérstaklega þar sem þessi elska hefur oft langar bloggpásur og flytur bloggið sitt og er með alls kyns fíflalæti.

Nei nei þetta er ýkt verulega. Ég er sem sagt á lífi en hef verið að blogga fyrir hina ýmsu félög sem ég er í og ekki gefið mér tíma í þetta hér.

En sem sagt sögur af andláti mínu og heimsreisu eru stórum ýktar er enn í Fossvoginum allavega nokkra tíma um miðja nóttina.

Þessa helgina er 33. þing Sjálfsbjargar sem heldur mér upptekinni auk Rauða krossins og að sjálfsögðu Eurovision auk vefsíðugerðar. Sem sagt enn með mörg járn í eldinum og ekkert sumarfrí í uppsiglingu.

Kannski skrifa ég aftur í dag kannski ekki, kannski skrifa ég aftur á morgun, kannski ekki, kannski er ég hætt að blogga, kannski ekki, allavega er ég enn í fullu fjöri og bláedrú núna.

10.5.06

Dagsformið

Já enn á lífi það er bara allt of gott veður til að hanga í tölvunni :-)

Erum dugleg að labba hjónakornin þessa dagana, það er svo æðislegt að fylgjast með gróðrinum og fuglunum vakna til lífsins. Verst með d..... Aspirnar sem eru að skríðast laufum og taka frá mér útsýnið úr stofuglugganum.

Helgin var annasöm en skemmtileg úr hófi fram. Allt gekk vel og sæl en þreytt kona sem lagðist á koddann seint á sunnudagskvöld, eða kannski var löngu kominn mánudagur.

Sýningin hjá okkur á Sunnudaginn tókst frábærlega og var án efa lang besta sýningin til þessa. Nú er að renna upp lokahelgin í þessari sýningarlotu. Enn eru nokkrir miðar til svo drífa sig. Allar upplýsingar hér

Hekla kom í dag og hjálpaði mér við brauðtertuundirbúning ofl. enda á minn heittelskaði afmæli á morgun 11. maí. Eitthvað verður til með kaffinu ef einhver stingur inn nefinu annaðkvöld. Var að hugsa þegar við vorum að þessu stússi í dag að ég er ferlega íhaldssöm þegar kemur að meðlæti í afmælum á þessum bæ. Er ekki mikið fyrir nýjungar á svoleiðis dögum. Veit ekki hvort það er hnignun eða öryggisleysi allavega geri ég mitt besta þessa dagana til að sýna húsmæðrataktana sem ég hef nú lítið sýnt undanfarin ár.

Annars var ég búin að skrifa langan pistil hér í gær en ákvað að birta hann ekki í bili. Heyrði í útvarpinu að maður var að dásama blíðuna og hvað það væri gaman að sjá allar fallegu stúlkurnar og talaði um sjónmengunina sem aðrar stúlkur illu. Varð foxill og fór í djúpar pælingar. En af tillitsemi við ykkur ætla ég ekki að birta þann óhroða í bili allavega. Þó geri ég mér fulla grein fyrir að þar með er ég að setja sjálfri mér skorður sem ég vil ekki falla í. En svona er dagsformið í dag.

3.5.06

Allir á Margt smátt



Plögg dagsins er Margt smátt Stuttverkahátið BÍL í samstarfi við Borgarleikhúsið. Já maður fer bara að vera daglegur gestur baksviðs þar, veit ekki hvar þetta endar eiginlega. En sem sagt mæli með því að allir drífi sig í Borgarleikhúsið á föstudagskvöldið og njóti þess að sjá fullt að stuttum leikritum. Tóm veisla nánari upplýsingar eru HÉR



Þau verk sem sýnd verða eru:

Kratavar eftir Sigurð H. Pálsson – Hugleikur

Það er frítt að tala í GSM hjá guði eftir Pétur R. Pétursson – Leikfélag Mosfellssveitar

Súsanna baðar sig eftir Lárus Húnfjörð – Leikfélag Hafnarfjarðar

Dagur í lífi Mörthu Ernsdóttur eftir Sverrir Friðriksson – Freyvangsleikhúsið

Bara innihaldið eftir Sævar Sigurgeirsson – Leikfélag Rangæinga

Geirþrúður svarar fyrir sig eftir Margaret Atwood og Shakespeare – Leikfélag Selfoss

Morð fyrir fullu húsi eftir Lárus Húnfjörð – Leikfélag Hafnarfjarðar

Aðgerð eftir Guðjón Þorstein Pálmarsson – Leikfélag Kópavogs

Í öruggum heimi eftir Júlíu Hannam – Hugleikur

Afi brenndur eftir Odd Bjarna Þorkelsson – Leikfélag Kópavogs

Friðardúfan eftir Unni Guttormsdóttur – Leikfélagið Sýnir

Maður er nefndur eftir Birgir Sigurðsson og Pétur R. Pétursson – Leikfélag Mosfellssveitar

Hannyrðir eftir Sigurð H. Pálsson – Hugleikur

Miðapantanir í síma 568 8000 og á midasala@borgarleikhus.is. Miðaverð er kr. 1.000

Bingóið gekk stórvel og fjáröflunin gekk framar björtustu vonum. En mörg voru handtökin sem úrvals lið Víðsýnarfélaga lagði á sig ásamt vinum og vandamönnum. Sérstakar þakkir fá strákarnir í Hátúni 10 fyrir allan borða og stólaburðinn. Já eins og ég segi gjaldkerinn brosti sýnu blíðasta og takk fyrir komuna kæru gestir og velunnarar.


Heppnastur allra var samt Helgi sem sést hér fyrir miðjum sal hann var að koma í Bingó í fyrsta sinn á ævinni og fékk tvisvar vinning. Miða fyrir 2 í Þjóðleikhúsið og gistingu fyrir tvo í tvær nætur á Hótel Eddu, bók að lesa og konfektkassa. Helgi var sannarlega vel að vinningunum kominn.

Annars var tiltölulega rólegt í dag eða átti að vera það svo ég fór í að skanna inn myndir frá Reykholti veturinn 1975-6 það á að vera reunion þar líka í vor. Setti þær inn HÉR. Margar skemmtilegar minningar vöknuðu við þessa yfirferð eins og Húsafellshelgin, böllin, próflesturinn, músikin ofl. ofl. vonandi tekst mér að komast. Koma tímar koma ráð.


Á meðan á allri þessari skönnun stóð tókst mér að taka aðeins til í stóru hrúgunni á skrifborðinu mínu nú sést næstum í heilan fermetra sem ekki hefur sést í síðan um jól ;-)

Á morgun fer þarfasti þjónninn í yfirhalningu veit að það er ýmislegt ekki í lagi svo ég geri ráð fyrir að á morgun verði leiðindadagur fjárhagslega. En ýmisleg erindi þarf ég samt að reka og ætla að reyna á Gulu limmosínurnar fékk mér nýja línulega kortið en ef þið rekist á mig á einhverju horninu með kort eins og túristi rammvillta, endilega kippið mér inn í bílinn og skutlið mér heim.

2.5.06

Allir í Bingó

Hið árlega fjáröflunar BINGÓ Ferðafélagsins Víðsýnar verður 3. maí kl.19.00 Í Hátúni 10, 9 hæð Húsið opnar 18.30

Spilaðar verða 10 umferðir Fjöldi glæsilegra vinninga:
Gisting á Hótel Eddu, miðar í Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið, út að borða fyrir tvo, gjafakörfur frá Danól og Te og kaffi, geisladiskar, DVD, gjafabréf í klippingu ofl. ofl.

Spjaldið kostar 500 krónur
Allur ágóði rennur til niðurgreiðslu ferða Víðsýnar

Allir hjartanlega velkomnir

Ferðafélagið Viðsýn er félag gesta Vinjar athvarfs fyrir Geðfatlaðra.
Nánari upplýsingar um félagið er að finna á vef RKÍ

Já já meira plögg enda mikið að gerast þessa dagana. Enn meira plögg svo á morgun tökum eitt í einu.

Allt gekk vel í Borgarleikhúsinu í gær og Halaleikhópurinn stóð sig frábærlega vel. Gaman að vera á þessu stóra sviði og sjá hvað aðrir hópar fatlaðra og blandaðir eru að gera. Stórskemmtilega dagskrá og enn fullt eftir af atburðum á List án Landamæra dagskráin HÉR

Dagurinn í dag hefur nú aðallega farið í undirbúning fyrir Bingóið en verið skerpt á ýmsum járnum líka á öðrum stöðum. Fékk ekki að fara í gálgann heittelskaða í dag :-(