24.7.06

Mér leiðist tuðandi fólk

Merkilegt í öllu góðviðrinu í sumar hvað margir eru tuðandi um slæmt veður. Það er eins og fólk átti sig ekki á því hvar það býr. Í sumar er búið að vera mjög milt veður en rakt. Lítið um kulda og rok og líka sól en að mínu mati hið fínasta veður að mestu miðað við hvar við erum stödd á hnettinum.

Margir samferðamenn mínir eru ekki á sömu skoðun finnst alveg sjálfsagt að eftir kl. 5 á daginn og allar helgar eigi að vera logn og glampandi sól. Annað er vont veður. Svei mér þá ef mér finnst sumir ekki bara heimskir. Þeim hinum sömu finnst eflaust það sama um mig en svona er þetta. Vildi bara aðeins tjá mig í sólinni.

19.7.06

Dásamlegur dagur

Við hjónakornin skruppum í dag í blíðunni upp í Munaðarnes að heimsækja Árna og Arndísi. Þar voru líka Hanna og Þröstur. Vel var tekið á móti okkur eins og þeirra er siður. Veðrið var í stuði og fullt af frænkum og frændum okkar Árna kíkti inn alltaf gaman að sjá ættingja þó maður þekki þá ekki baun.



Um kvöldið var að sjálfsögðu tendrað upp í grillinu. Hér er Árni í stuði að sprauta grillkveikilegi ótæpilega á kolin svo úr varð hið mesta bál. Mesta mildi að ekki skildi kvikna í trjánum fyrir ofan grillið.



Þröstur fékk það hættulega hlutverk að kveikja eldinn eftir aðfarir Árna.



Í miðju grilleríinu var eins og allir grillmeistararnir misstu móðinn einn flúði út á róló hinir sátu örvæntingarfullir á pallinum og litu ekki einu sinni við grillinu.

En allt fór vel og við fengum dýrindismáltíð svo nú er ég enn södd 4 tímum seinna :-)

Takk fyrir daginn krakkar

18.7.06

Fjölbreytileiki mannlífsins

Undanfarinn sólahring hef ég áþreyfanlega orðið vör við hvað mat manna á atburðum og hlutum getur verið gjörólíkt.

Ég hef verið hundskömmuð og þakkað og hrósað fyrir sama gjörninginn. Maður veit bara ekki hvernig maður á að haga sér.

Og allt eru þetta vinir manns fólk sem maður treystir fullkomlega og elskar óendanlega hver svo sem skoðum þeirra er.

Málefnið eða málefnin eru lítilfjörlegt en þó svo svakalega stórt. Já tilfinningar manna eru ólíkar og fjölbreytileik mannlífsins æðislegur. Er búin að lenda í þessu tvisvar þennan mánuðinn.

Hvernig skildi tuglstaðan vera eiginlega, þarf að fara að skoða þetta eitthvað. Eða að hætta þessarri athafnasemi með öllu nema spyrja bæði kóng og prest álits. En það hefur nú seint verið kallaður minn stíll. Ég sem veð alltaf áfram eins og naut í flagi.

Hvað finnst ykkur?

Hafnfirðingar eru alltaf jafn fyndnir :-)

Hér gengur lífið allt sinn vanagang. Er á kafi í allskyns sjálfboðavinnu svo mínum heittelskaða stendur alls ekki á sama lengur og hótar að fara með mig úr bænum. Hlakka bara til ;-)

Annars fórum við úr bænum í dag aðeins. Fórum og heimsóttum Helgu og Bóbó í Jónsvör í Hvassahrauni. Æðislegt fólk í frábæru húsi á skemmtilegum stað. Takk fyrir okkur.

Á heimleiðinni var ákveðið að kíkja aðeins inn í Fjarðarkaup, ekki komið þangað lengi lengi. Ekki það að matvöruverslanir séu í neinu sérstöku uppáhaldi en það vantaði sitthvað til heimilisins.

Sá þá eina fyndnustu uppstillingu í búð sem ég hef séð um ævina. Á gólfinu í einum rekkanum var metershlaði af strásykri þessum eina sanna hvíta:-) En í fjórum hillum þar fyrir ofan var Slim Fast megrunarlína allskyns tegundir að megrunarvörum undir þessu vörumerki. Það er sem ég segi Hafnfirðingarnir klikka ekki á því.

Ég keyfti kíló af hvítum sykri ;-)

16.7.06

Elsku Bjarni til hamingju með afmælið

Tengdasonurinn er 30 ára í dag. Til hamingju með daginn Bjarni minn og fjölskylda. Hér er mynd sem er tekin í sumabústaðaferð í Miðdal í júní 2004 í bongóblíðu


Hér er Bjarni með dætrum sínum Bryndísi og Heklu algerum gullmolum báðum tveimur


Hér eru stelpurnar svo í Dyrhólaey 2004 þegar ég fékk þær lánaðar einu sinni sem oftar. Við erum þarna á leið að Klaustri í sumarbústað með familýunni.

11.7.06

Hamingjustund

Já þessi fjölskylda mín er nú stundum ansi nægjusöm. Í kvöld áttum við saman eina af þessum ánægjustundum sem droppa við öðru hverju með tómri hamingju.

Það er nú ekki eins og það hafi verið stórkostlegur atburður að gerast í fjölskyldunni. Jú reyndar en hann var á sorgarhluta tilfinningastigans og verður ekki ræddur hér og nú.

Heldur hitt að meðan við lágum á meltunni í stofunni eftir fjölskyldudinner uppgötvaðist af einhverjum dularfullum orsökum sem mér er alls ekki kunnar enn að einn meðlimur fjölskyldunnar (segi ekki hver) getur ekki rýtt eins og svín.

Stórmerkileg uppgötvun sem leiddi af sér mikla kennslustund í að framleiða þetta mikilvæga hljóð. Í ljós kom eftir miklar æfingar og stúdíur að ekkert okkar framleiðir þetta hljóð eins.

Flestir gerðu þetta á innsoginu einn á frásoginu þó. Sumir gegnum nefið aðrir bæði gegnum nef og munn. Miklar pælingar voru uppi um legu tungunnar og gómsins og totunnar og ég veit ekki hvað.

Mæli hiklaust með þessu í fjölskylduboðum. Mæli samt með því að kvenfólk fari á klósett áður. Úr þessum pælingum varð hin mesta hávaðamengun og miklar hlátursrokur en ekki tókst að kenna einstaklingnum að rýta.

Óska eftir nákvæmum leiðbeiningu á einföldu máli um hvernig þetta hljóð er framkallað. Viss um að þið getið skemmt ykkur mjög vel við að skrifa leiðbeiningar niður. Og af þessu verður líka hamingjustund í ykkar lífi kæru lesendur :-)

6.7.06

Leyndarmálið afhjúpað

Hún dóttur dóttir mín Hekla er mjög metnaðargjörn stúlka. Hún fékk þá hugmynd að sauma handa mömmu sinni púða til að gefa henni í afmælisgjöf. Og treysti auðvita á mig til aðstoðar já bara til að aðstoða hún ætlar sko að gera þetta alveg sjálf, búin að horfa á hönnunarþætti í sjónvarpinu og fannst þetta ekki mikið mál þó aðeis 8 ára sé.



Síðast vika hefur því farið í mikinn læðupokagang, teiknaðar upp alls kyns hugmyndir og spáð og spekulerað. Einn dagurinn fór í að stúdera efni og fyllingar inn í púðann. Rúmfatalagerinn kom þar sterkur inn. Sú stutta verslaði sér efni og púðafyllingu.



Í gær var svo hafist handa við saumaskapinn. Fyrst efnið straujað og mælt svo sniðið eftir kúnstarinnar reglum. Þá var tekist á við saumavélina eins og ekkert væri sjálfsagðara og erfiðast fannst henni að handsauma 3 tölur á púðann.



Útkoman var svo stórglæsileg og sú stutta gekk líka frá eftir sig. Mikið er ég nú stolt amma og vona að mamma hennar hún Sigrún mín sem á 28 ára afmæli í dag verði líka eins stolt þegar hún opnar pakkann sem var listilega innpakkaður líka í vel skreyttan pakka.

5.7.06

Til hamingju með afmælið Sigrún Ósk

Sigrún mín til hamingju með daginn.



Já þó ótrúlegt sé þá eru 28 ár liðin síðan ég eignaðis frumburðinn hana Sigrúnu Ósk



Svona litu við mæðgur út árið 1979 :-)



Jú jú og fermingarmyndin, ekki var tískan nú skemmtileg á þeim tíma. En hún fékk að ráða.

2.7.06

Enn fleiri gamlar myndir


Hér er maður 3 ára að bagsa í snjónum við Kolviðarhól, Sigrún Jóna á gönguskíðum í baksýn. Þetta hefur verið í einni af mörgum ferðum okkar austur fyrir fjall en föðuramma mín og föðurfjölskylda bjó á Stokkseyri. Þá voru samgöngur ekki eins greiðar og í dag og ferðalagið gat tekið á sig marga vinkla og samkomulagið milli okkar systkinanna var ekki alltaf upp á það besta í aftursætinu.

Stebbi, Villi, Palli og ég þori að veðja að þetta er á Þorláksmessu rétt áður en við vorum böðuð hvert á fætur öðru.

Hér er Stebbi sennilega á jólunum 1964 við með jólapakka og þarna sést líka fyrsta sjónvarpstæki heimilisins sem ég hataði út af lífinu. Við vorum fyrst í hverfinu til að fá kanasjónvarpið og þegar eitthvað spennandi var í tækinu fylltist stofan af allskonar fólki og krakkaskara. Ég var mjög afbrýðssöm yfir þessu tilstandi á mínu eigin heimili og sennilega hefur það haft þau áhrif að mér finnst ekki mikið til sjónvarpsefnis koma enn þann dag í dag.

Hér má sjá hvernig borðstofan leit út 1971 reyndar leit hún svona út alveg þar til við seldum rétt fyrir aldamótin.

Og svona var stofusófinn með mömmu, Sigrúnu Jónu, pabba og mér :-) Af einhverjum orsökum eru þessar tvær síðustu myndir reyndar speglaðar en það er annar handleggur.

Fíkniefnadraugurinn

Já sá forni fjandi hefur bankað á dyrnar hjá mér í dag frá þrem einstaklingum mismunandi tengdum mér á einum sólahring. Vonandi ná þau botninum strax og auðnast að leita sér hjálpar því hana er svo sannarlega að fá.

Hjálpartæki númer eitt er æðruleysisbænin:

Guð gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli