30.8.06

Tilvistarkreppa eða ekki

Hef haft of mikinn tíma til að hugsa undanfarið stórhættulegt fyrir konu eins og mig. Með minn ofvirka heila. Komst svo sem ekki að neinni sérstakri niðurstöðu sem heldur lengi í einu. Er svo fljót að skifta um skoðanir þessa dagana að það er hætt að vera findið.

Var í Krikanum á vaktinni í dag í síðasta sinn þetta sumarið. Veit ekki hvar ég væri stödd núna ef þetta einstaka tækifæri hefði ekki komið upp í hendur mínar í sumar. Náttúran er æði og eitthvað svo heilandi. Maður kemur kannski dapur og æstur en fer heim pollrólegur og glaður. Paradís á jörð.

Stússaði í félagsmálum í morgun og kvöld. Veturinn framundan sem í gær virtist verða eitthvað grár og fyrirkvíðanlegur er allt í einu að verða spennandi og fjölbreyttur. Alla vega eru ýmis tækifæri í burðarliðnum á hinum ýmsu sviðum.

Er búin með Krikapeysu 3 og prinsessan alsæl með hana. Prjónaði hálfa húfu í stíl við hana í Krikanum í dag og ákvað á heimleiðinni í kvöld að rekja hana upp. Hönnunin er að þvælast fyrir mér en lausnin komin í kollinn. Litli putti kvartar en fær þá bara að vera hommaputti og vekur upp gamlar og góðar minningar.

Kraftaverkin gerast enn sonurinn er sennilega búinn að landa píparasamning byrjar á mánudaginn. Til hamingju Ingimar Atli ég vissi að þú gætir þetta.

27.8.06

Hlýnun jarðar

Fékk þessa í pósti frá vinkonu í gær og stóðst ekki mátið að skella henni hér inn finnst hún svo táknræn

Var samt að velta því fyrir mér hvort nokkur af lesendum mínum gangi í naríum eins og gefnar eru upp fyrir árið 2006?

Ég er annars mjög gamaldags eftir þessum staðli að dæma er greinilega enn í 1950 eða svo ;-) Enda kannski ekki mikið annað sem hentar mínu fagra vaxtalagi.

23.8.06

Fallegasta stelpa í heimi :-)


Var að fara í gegnum myndir sem ég hef tekið í Krika í sumar og varð að skella þessari inn. Tekin á mánudaginn síðasta daginn í sumarfríinu hjá Heklu þar sem hún naut sín í paradísinni okkar.

Haustið farið að nálgast

Já þá er verkefnum sumarsins að mestu lokið og fátt framundan eða mikið eftir hvernig á það er litið. Enginn skóli þetta haustið heldur bara hugguleg heit við kertaljós. Eða það vona ég.

Fór á 101 flakk í dag. Aðeins að kíkja á miðbæjarflóruna, komst að því að ég kann betur við mig í 103. Ekki það að dagurinn hefði ekki verið góður bara ysinn og þysinn í miðbænum og sóðaskapurinn. Á ekki að vera í gangi eitthvað hreinsunarátak, alla vega fannst mér miðbærinn skítugur í góða veðrinu.

Ætla á spennandi ráðstefnu sem Hugarafl stendur fyrir næstu tvo daga. Bylting í bata hlakka til.

Annars er ekki mikið títt héðan af bæ alla vega ekkert sem segja má frá að svo komnu máli ;-)

Enn meiri hamingja

Skídfull á þriðjudegi ;-)

Gúrkutímar eru skemmtilegir

Hlakka til fleiri kennslustunda

20.8.06

Tóm hamingja

Bátadagurinn í Krika tókst svo vel að það hálfa væri nóg. Veðrið var dásamlegt. Fólkið fjölbreytt og fallegt. Allt gekk upp eins og best verður á kosið. Hjarta mitt er fullt af hamingju eftir þennan frábæra dag. Takk allir sem að þessu komu.

Verð að viðurkenna að ég er gjörsamlega búin á því samt af þreytu en það lagast, skellti samt inn myndum af deginum HÉR

19.8.06

Menningarlaus dagur

Menningardagurinn fór í allt annað en hefðbundna menningu. Flúði í Kópavoginn og undi mér vel. Allt var á fullu í undirbúningi fyrir morgundaginn. Árni og Einar voru á fullu að rífa gamla flotbryggjuendann og nýta timbrið til að gera bráðabirgða aðgengi að nýja húsinu.



Kjartan vann að breytingum á trébryggjunni nú er komin þessa fína skábraut beint út í vatnið. Þar koma svo flotbryggjukubbar á morgun ásamt fullt af allskyns bátum.



Annars er það afstætt hvað menning er ég vinn aðallega í Krikamenningu þessa dagana
og hlakka mikið til morgundagsins. Allir í sunnudagsheimsókn í Krikann!

18.8.06

Niðursveifludagur

Sumir dagar eru verri en aðrir þessi var hálf niðursveiflulegur. Svaf illa í nótt, verkir hér og þar. Dagurinn þar af leiðandi hálfúldinn. Dreif mig samt í göngu með mínum heittelskaða og Viktoríu. Fékk svakalegt hælsæri svo gera þurfti út björgunarleiðangur eftir mér. Sem sagt tóm niðursveifla.

En hvað gerir maður þá ekki skellir sér í Krikann sem er allra meina bót í sandölum, ég en ekki Krikinn. Þar var allt á fullu í undirbúningi fyrir bátadaginn og ýmsar undarlegar sögur og skrítnar í gangi. Einn lýsti því þegar hann varð næstum dauður fyrr um daginn í ristilspeglun. Vinkona annars var illt í rassinum sem svo færðist upp í öxlina. Einn drakk næstum fullan heitan pott til að bjarga sjálfum sér frá drukknun meðan krakkaormar drógu hann hálfan uppúr honum á fótunum. Einn 8 ára var tekinn á flugvelli fyrir að vera með tyggjó í vasanum.

Já ég elska allt þetta lið sem hjálpaði mér upp úr niðursveiflunni í þetta sinnið.
Hvað verður næst þar sem verkefnaþurð með tilheyrandi fylgifiskum er í uppsiglingu á mínum bæ.

17.8.06

Full tilhlökkunar

Já það er svo notaleg tilfinning að hlakka til einhvers. Þegar maður er orðinn 48 (skv. útreikningum Heklu) þá er það svo æðislegt. Sérstaklega þar sem ýmislegt sorglegt og annað leiðinlegt hefur verið á sveimi í kringum mig undanfarið.

Tilhlökkunin er sérlega af tvennum toga, í fyrsta lagi er Villi besti bróðir í heimi kominn á til Íslands og hlakka ég til að eiga æðislegar gæðastundir með honum og allri fjölskyldunni í sátt og samlyndi og tómri sælu. Þó svo að tilefni komu hans sé svo allt annars eðlis en við gerum hið besta úr aðstæðum.

Tilefni tvö er að langþráður bátadagur í Krika verður loksins á sunnudaginn. Allir að mæta og prófa alls kyns báta á Elliðavatni. Það er hinn stórmerki maður Kjartan Jakob Hauksson sem ég skrifaði ekki svo lítið um fyrir ári og tveimur árum líka. Hetjan sem réri hringinn kringum Ísland og safnaði í Hjálparliðasjóð Sjálfsbjargar í sjálfboðavinnu sem er potturinn og pannan í þessu hjá okkur í Krikavinafélaginu.

Árni frændi er líka stór þáttur í þessu og svo skilst mér að það sé búið að fá fullt af alls kyns góðu fólki til að leggja verkefninu lið. Flotbryggja verður lögð og þaðan verður hægt að fara og sigla um vatnið á fleiri tegundum báta en ég kann skil á. Ef þetta er ekki tilefni til að hlakka til þá veit ég ekki hvað.

Ég hvet þig lesandi góður til að kíkja við og helst taka með þér alla fjölskylduna á öllum aldri og prófa að fara á bát út á vatnið. Nú eða bara fylgjast með líflegu mannlífi og náttúru í Krikanum. Það verða svo seldar grillaðar pylsur og nýbakaðar vöfflur til styrktar Krika svo nóg er um að vera. Nánari uppl. á Krikasíðunni

Já mér finnst ég vera ansi heppin þessa dagana þegar ég skoða pósitífu hliðar lífsins, umber bara hitt og reyni að láta það ekki lita líf mitt.

13.8.06

Haladagur og GayPride

Haladagurinn tókst ágætlega, fámennt og góðmennt var í aðgerðarlitlu veðri. Nokkur stuttverk voru leiklesin og svo var skellt í grill og gaman.



Hér eru Arnar, Örn og Guðríður að hlusta á leiklestur lumsk á svip



Palli, Helga og ég ræddum málin, búningageymslan varð heit í umræðunni.



Hekla leiklas lögfræðinginn og Daníel hlustar sposkur.



Tommi dundaði sér á bílnum ekki búin að ná sér almennilega eftir GayPrideskrúðgönguna.



Hér erum við skötuhjúin svo með Heklu tilbúin í að fylgjast með GayPridegöngunni niður laugaveginn, búin að koma okkur vel fyrir. Fleiri myndir úr göngunni má sjá HÉR.

12.8.06

Bestu tengdaforeldrar sem hægt er að hugsa sér



Í dag hefði tengdamóðir mín heitin Auður Hannesdóttir orðið níræð. Betri tengdamömmu var ekki hægt að hugsa sér eða tengdapabba heitinn Sigurð Hjálmarsson. Set hér inn mynd af þeim frá 1943 til heiðurs þeim heiðurshjónum. Blessuð sé minning þeirra.

10.8.06

Nart nart

Enn allt í rólegheitum á Sléttuveginum og þó í dag var allt í góðum gír og tóm kæti með lífið og tilveruna þegar síminn hringdi, það var kær vinkona mín á háa Cinu vægast sagt, öskraði nánast í eyrað mitt. Ég sem var alveg saklaus af því sem hún æsti sig svona yfir. Blessunin gleymdi að anda og hugsa áður en hún dembdi ósköpunum sem hrjáðu hana yfir á aðra. Að sjálfsögðu tók ég þessu með stóískri ró.

Fyndið samt hvernig fólk getur æst sig óskaplega yfir smámunum og hringt í annað fólk málinu óviðkomandi og rutt út úr sér heilum ósköpum án þess að hleypa hinum að hvað þá meir. Verst er að við erum svo líkar að þetta hefði næstum alveg eins getað verið ég.

Ekkert varð af fyrirhugaðri leikhúsferð í Elliðaárdalinn sökum veðurs. Treystum ekki skrokkunum okkar gömlu hjónanna í 2 tíma setu í rigningunni. Leiðinlegt samt að missa af þessu.

Kláraði Krikapeysu 2 í gærkvöldi og fór og keyfti lopa í Krikapeysu 3 í dag. Stefni að því að byrja á henni í Krika á morgun en þar verð ég á vaktinni frá kl.14.00 minni á pylsupartýið kl. 17.oo sjá nánar á www.kriki.bloggar.is.

Framundan er svo spennandi helgi Gaypride og Haladagur á sunnudaginn er svo fjölskyldukaffi Ödda megin en móðir hans hefði orðið 90 ára 12 ágúst ef hún hefði lifað. Blessuð sé minning hennar.

8.8.06

Mávurinn í Elliðadal

Allt róleg enn á þessum vígstöðvum sit og prjóna lopapeysur af miklum móð eins og gömul kona. Var reyndar að vinna í allan dag og frekar þreytt þegar ég kom heim en prjónaði þó helling í kvöld. Já farin að prjóna heima líka enda komin í mynstrið. Skemmti mér vel.

Villi bróðir er að koma heim næstu daga. Hlakka óskaplega mikið til að hitta hann það er svo erfitt að hafa hann svona langt í burtu svona lengi. Reyndar er tilefni heimkomunnar ekki neitt skemmtiefni, hann er búinn að missa báða tengdaforeldra sína með stuttu milli og er að koma til að vera við jarðaför tengdapabba síns.

Vonandi getur hann stoppað aðeins og við átt gæðastundir saman. Guðmundur er búin að vera heima í síðan mamma hans dó, ég hef lítið getað hitt hann þar sem pabbi hans var svo veikur. En nú eru hjónin sem sagt saman aftur blessuð sé minning þeirra.

Helgin var róleg og góð vorum mest heima og skruppum aðeins í Krikann en stutt samt. Fórum svo í partý á sunnudagskvöldið til vinahjóna og þar voru nánast allir vinir okkar úr Halanum samankomnir. Gott kvöld og við skemmtum okkur vel. Takk fyrir okkur.

Á morgun fimmtudag er ég að hugsa um að skella mér á Mávinn í Elliðaárdalnum með leikfélaginu Sýnum. Hver nennir að koma með mér? Verkið fær fína umfjöllun á leiklistarvefnum.

Frétti af því að Stebbi bróðir væri hjá Sigrúnu Jónu í Danmörk hann sendi mér þessa símamynd af henni, þetta gat hann.


Góða skemmtun í Danmörk

Svo kannski nær eldri hluti systkinanna að hittast í Danmörk og unglingarnir á Íslandi þessa vikuna.

5.8.06

Krikapeysa no. 1

Í rólegheitunum í sumar hef ég setið löngum stundum upp í Krika og prjónað lopapeysur. Afrastur sumarsins er að birtast fullskapaður einn af öðrum. Fór með fyrstu peysuna til Sigrúnar í dag og hún smellpassaði.



Get ekki annað en verið rígmontin af peysunni og ekki síður dótturinni. Næsta peysa er að komast á lokastig og ein þegar pöntuð og sú fjórða að gerjast í heila mér. Já ég sem hélt ég hefði ekki lengur hendur í að prjóna svona en það tókst með smá hléum og hendurnar bara smá verri en venjulega en gleðin bætir það upp.

Ládeyða

Ja nú er bleik brugðið. Það er bara ekkert að frétta og lítið að gerast og mér finnst það bara fínt.

Er samt alveg til í smá gigg. Tillögur óskast?