27.2.07

Mesta álagið yfirstaðið

Jæja loksins sést fyrir endann á löngu ströngu törninni og nú er runnið upp sýningartímabilið. Frumsýning á Batnandi maður hjá Halaleikhópnum var á laugardaginn og tókst bara ansi vel þó ég segi sjálf frá. Við sýndum fyrir fullu húsi og áhorfendur skemmtu sér konunglega sýndist mér.

Einn áhorfandi bloggaði smá um sýninguna hér

Frumsýningarpartý var svo á eftir fram á rauða nótt og sló næluleikurinn þar enn einu sinni í gegn. Mikið gaman og mikið stuð.

Hjá mér hafa safnast upp verkefni meðan á törninni stóð en einhvern veginn er erfitt að vinda sér í þau. Það kemur. Fór þó að sinna stjórnarstörfum í Víðsýn í gær og tókum við Bjögga góða törn þar enda Bingó framundan á laugardaginn kl. 14.00 og svo er farið að styttast í aðalfundinn.

Ruslið á skrifstofunni minni má bíða en tek samt lag og lag og geng frá. Reyni líka að hvíla mig því þetta gríðarlega álag ofan í heilsuleysi hefur tekið sinn toll frá mér. En svona er það bara þegar það er gaman og það er það sem mér finnst skipta máli. Gleðin

20.2.07

Ég á ekki orð :-)

Eins og ég hef margoft sagt er ég ekkert lítið stolt að ömmubarninu mínu. Á bara ekki orð yfir þennan góða árangur. Setti hér einkunnarblaðið hennar inn:


Annars er það helst af henni að frétta fyrir utan þetta að hún er farin að leika aftur með Halaleikhópnum. Leikur Sunnu Ólafsdóttir litla stúlku sem er í hjólastól eftir að hafa lent í bílslysi. Í leikritinu Batnandi maður eftir Ármann Guðmundsson. Og sú er nú að tækla það ekki að spyrja að því.

Nú nú svo fór hún í klippingu og stytti hárið mikla og síða um helming og það klæðir prinsessuna bara ljómandi vel. Hún ætlar svo að vera púki á öskudaginn. Hlakka til að sjá þá munderingu. Engin Silvía Nótt í ár.

Af 0kkur gömlu skötuhjúunum er lítið að frétta utan leiklistar, við eyðum orðið meiri hluta sólahringsins niðurfrá og höfum gaman af. Þó það braki í gömlum beinum og fólk sé lúið þá er uppskeran smá saman að sýna sig og frumsýning á laugardaginn :-)

16.2.07

Fyrirgefið öll sömul

Nú er rétt vika í frumsýningu á Batnandi maður og dagarnir því ansi langir í annan endann þessa dagana. En flest allt gengur eins og best getur orðið. Miklir álagspunktar hafa verið undanfarna daga og það hefur komið fyrir, sem á alls ekki að gerast að ég hafi misst mig í geðillsku. Stundum við þá sem síst eiga það skilið og bið ég þá hér með opinberlega afsökunar á því og lofa að reyna að hemja mig. Nú svo hafa aðrir sleppt sér algerlega yfir mér og er þeim fyrirgefið. Þetta er mikil tilfinningavinna og reynir á alla þætti mannlegs atferlis.

Já að vera aðstoðarleiksktjóri er margbrotið starf og margir endar að halda í og aðrir sem maður þarf að reyna að sleppa þar sem aðrir eiga að halda í þá. Meðalvegurinn er vandrataður. En ég er afar stolt af leikhópnum mínum þessa dagana. Leikararnir kunna flestir textann sinn upp á 10 og stöðurnar eru að skýrast. Ekki síður er ég stolt af öllu fólkinu sem lagt hefur okkur lið á einn eða annan hátt í sjálfboðavinnu eftir vinnudag hjá sér.

Fólk er búið að þeytast um alla bæ að redda hinu og þessu. Það er búið að smíða, mála, sauma, tengja, bora, þrífa og finna út úr öllum mögulegum og ómögulegum hlutum svo fátt eitt sé talið. Allir eins og ein stór fjölskylda með bros á vör. Ef það eru ekki forréttindi að vinna með svona fólki þá veit ég ekki hvað.

Í gærkvöldi kom smíðaflokkur og lagaði áhorfendapallan okkar og ég hef grun um að þegar ég kem á svæðið í dag verði líka búið að teppaleggja þá með spánýju teppi.

En stærstu fréttirnar eru samt eflaust sá stóri sigur í sögu Halaleikhópsins að við erum að sjá fram á að geta keypt það sem okkur hefur dreymt um lengi, lengi tölvustýrt ljósaborð. Sem hópurinn ætlar að gefa sjálfum sér í 15 ára afmælisgjöf. Loksins aðgengilegt ljósaborð þannig að nú höfum við fleiri möguleika fyrir tæknimennina okkar sem hafa unnið hörðum höndum, jú hef líka grun um að þegar ég kem í dag sé verið að setja upp ljóskastara um öll loft. :-)

12.2.07

Til hamingju með afmælið Lovísa Lilja

Bróðurdóttir mín hún Lovísa Lilja á afmæli í dag og svei mér þá ef hún er ekki orðin 25 ára gömul stúlkan sú. Ég sem hélt ég væri svo ung. Lovísa mín til hamingju með daginn.
Þessar myndir voru teknar í ágúst í fjölskylduboði varð bara að láta fljóta með þessa sætu mynd af ungviðunum í þessari fjölskyldu.


Gabríel Temitayo og Hekla. Eru þau ekki falleg ? eins og ættin ;-)

9.2.07

Sorg í huga skátanna

Í gærkvöldi brann til kaldra kola skátaheimilið í Hraunbergi þar sem Hafernir höfðu aðsetur í allmörg ár. Mikil sorg bærðist í brjósti krakkanna sem höfðu barist fyrir að fá þetta hús á sínum tíma og unnið ómælda sjálfboðavinnu við byggingu og standsetningu þess. Dóttir mín Sigrún Ósk er ein af þeim sem aldi öll sín unglingsár og rúmlega það í þessu húsi. Og var það því stór hluti af lífi okkar þessi ár. Því miður er búið að leggja niður skátafélagið Haferni í þeirri mynd sem það starfaði á þessum árum. Blessuð sé minning þess.

8.2.07

Vin til hamingju með daginn

Í dag er Vin 14 ára. Sá merki staður kominn á fermingaraldur. Ég hef verið þar viðloðandi í 13 ár og margt hefur nú breyst síðan, bæði þar og ekki síst hjá mér. Aldrei hefði mér dottið í hug að ég væri á þeim stað í lífinu sem ég er nú fyrir 13 árum og ekki er það síst þeim að þakka vinum mínum þar. Þegar ég er ekki á kafi í leiklistinn og ekki að sinna fjölskyldunni eða Krika má ganga að því nokkuð vísu að ég er þar eitthvað að stússa. Nú er á fullu undirbúningur fyrir fjáröflunarbingó Víðsýnar 3. mars nk. munið að taka frá daginn. En ég er þar í stjórn. Svo hef ég verið að sinna kynningamálum fyrir Vin sem sjálfboðaliði inn á geðdeildum og víðar. Bara gaman og mjög gefandi.

Jú jú en ég er ekki alveg hætt með þessa síðu bara smá lægð í skrifunum sem gerist alltaf reglulega. Ekki það að ég hafi ekki nóg að skrifa um. Jú jú en bara hef ekki haft þörf fyrir að koma því hér inn undanfarið.

Lífið gengur sinn vanagang. Leiklistin í forgangi svona flesta daga ekki þó alveg. Heilsufar hefur truflað aðeins og ekkert markvert finnst út úr því. Maður er bara með erfiða vinstri slagsíðu eins gott að það var þó til vinstri. Þá er hægt að lifa með því skammlaust ;-) Sjúkraþjálfarinn ætlar að fara að skifta um aðferð á hryggnum á mér svo kannski réttist þetta. En til hvaða ráða hann grípur vekur hjá mér ótta, því hann á í sínum ráðabanka mikið að sársaukafullum aðferðum........................Hitti hann á eftir og hlakka alls ekki til.