28.3.07

luðra og hamingja

Skrítið hvernig sumir dagar geta farið alveg úr skorðum hjá manni að ástæðulausu. Í gær vaknaði ég seint og fór í tölvuna og gleymdi mér þar. Varð þess vegna á síðustu stundi upp í Húsaskóla þar sem ég var bókuð sem lifandi bók. Þoli ekki þegar ég er ekki stundvís. En allavega ég náði á slaginu inn á bókasafnið.

Geðbókin var lánuð út þrisvar sinnum til hópa úr 8 bekk og þau spurðu mig í þaula stóðu sig mjög vel. Þetta er ansi skemmtilegt verkefni hjá þeim.

Fór svo og verslaði í Krónunni upp á höfða, kom út með 6 innkaupapoka :-) Voða gaman að fara í aðrar búðir en Bónus svona á milli.

Þegar heim kom var ég þreytt og slæpt og alveg tóm í hausnum. Fattaði rúmlega fimm að ég átti að vera á námskeiði hjá Auði Eir ;-( Hrikalega spæld að missa af því og súr út í sjálfa mig að klikka á þessu.

Við drifum okkur svo eftir soðninguna á félagsfund hjá Sjálfsbjörg þar sem stjórnmálaflokkarnir komu og kynntu áherslumál sín fyrir næsta kjörtímabil. Ekki tókst nú neinum þeirra að sannfæra mig um að best væri að kjósa sig. Sama staglið og rausið um hluti sem maður veit allt um efndir á.

Á miðjum fundinum fattaði ég að ég ætti eftir að skila inn skattframtalinu fyrir miðnætti. Fylltist af stressi og rauk í það þegar heim kom og gekk illa að færa upplýsingar úr heimabankanum yfir en fattaði svo að ég ætti ekki að skila fyrr en 29 svo ég gat slakað á.

Eða hefði átt að geta það en einhvernveginn tókst mér ekki að slaka á var orðinn full að stressi og allrahanda vanlíðan og sofnaði ekki fyrr en rúmlega 4 í nótt.

Ekkert of hress í dag og er búin að átta mig á ástæðunni og vonandi bara lagast það nú eins og ætið fyrr.

Í dag var svo reynt að taka því frekar rólega, fór niður í Vin að undirbúa smá fyrirlestur sem ég verð að hjálpa Guggu með á ráðstefnu á föstudaginn. Sóttum svo Heklu og dúlluðum okkur fram eftir degi.

Og ekki má gleyma aðalfréttunum GIFTING í uppsiglingu í familýunni veit ekki hvort ég má segja meir á þessu stigi málsins. Svo bara fylgist með þegar málin skýrast. Alltaf skemmtilegt þegar tvo hjörtu slá í takt og bara mjög spennandi allt saman.

25.3.07

Af hauslausum kanínum tyggjandi gulrætur.

Já lífið er leiklist það eru orð að sönnu í lífi mínu þessa dagana. Það voru tvær sýningar hjá okkur um helgina, samt var ég ekki búin að fá nóg af leiklist.

Við Hekla skelltum okkur í Þjóðleikhúsið í dag með Labba og Stebbu og sáum Sitji guðs englar. Stórgóð sýning og frábær leikmynd og umgjörðin öll. Hekla var að koma í fyrsta sinn í Þjóðleikhúsið og það var gaman hjá okkur. Þarf að vera miklu duglegri að taka hana með í leikhús. Mæli með þessarri sýningu.

Við vorum alls ekki búnar að fá nóg og skelltum okkur á aðra sýningu hjá Leikfélagi Kópavogs strax á eftir. "Allt og ekkert" heitir hún og er einskonar sögustund. Frábært hjá þeim. Leikmyndin var sófar, stólar og borð og allt stillt upp eins og um kaffiboð væri að ræða enda var þetta kaffiboð, boðið uppá kaffi og með því heimabakað bakkelsi og ávextir með súkkulaði fondú nammi namm Æði.

Við vorum 10 Halar sem fórum saman og settumst hér og þar um sviðið. Leikendur komu svo og sátu milli okkar. Mjög heimilislegt og kósý. Svo byrjuðu þau á að spjalla og ég geri mér ekki fulla grein fyrir hvar sýningin hófst, en einn af öðrum sögðu þeir okkar alls kyns sögur mis skemmtilegar en athyglisverð leið til að ná til áhorfenda. Maður var þátttakandi en samt ekki. Eftir hlé dofnuðu ljósin og sögurnar fóru að vera meira myrkrasögur vel gert hjá þeim. Maður lifði sig vel inní þetta og hreifst með.

Skemmtilegt atvik var hjá mér þegar allt var orðið myrkt og hljótt, lág músik og rómantík í gangi og við vorum að melta sögurnar í rólegheitum, þá fékk Hekla sér gulrót og fór að bryðja hana með miklum látum í þögninni. Veit ekki hvort neinn annar en ég heyrði það enda sátum við þétt saman í myrkrinu. Málið var að fyrr í sýningunni var búið að tala mikið um kanínur og hauslausa kanínu sem var jörðuð í tuppperver boxi svo sálin komst ekki til himna ..... eða eitthvað í þá áttina og það flaug í gegnum huga mér að kanínusálin væri komin hér mér við hlið.

Allavega Takk fyrir kærlega Leikfélag Kópavogs fyrir þessa dásamlegu dagsstund og skemmtun. Ég hvet alla til að drífa sig á sýninguna hjá þeim. www.kopleik.is

15.3.07

Nýtt met ;-)

Ja hérna bara nýtt met hef ekki bloggað í 11 daga. Lengsta stopp so far. Ekki að það sé ekki nóg að gerast bara ..............

Leiklistin á hug minn allan og alls kyns stúss. Er líka búin að vera dugleg í perlinu og var með saumaklúbb í vikunni.

Fór líka á námskeið í að vera yndisleg hjá mínum uppáhaldspresti henni Auði Eir.

Bara er ekki í skriftarstuði þessa dagana. Er með hóstakjölt og slappleika sem ekki vill víkja þrátt fyrir miklar tedrykkjur með hunangi og alls kyns húsráðum.

Fram undan ströng helgi, var að koma af æfingu svo eru sýningar bæði föstudag og laugardag. Hekla mín ætlar að vera hjá okkur alla helgina. Foreldrarnir ætla upp á heiði í skátaútilegu. A la Hafernir.

Ingimar er kominn í nýja vinnu, byrjaði að forkælast svo nú hóstum við í kór.

Jú jú svo fengum við hjónakornin kast um síðustu helgi og keyptum okkur borðstofustóla þá fyrstu í okkar 30 ára búskap, var ekki kominn tími til. Strákarnir hafa svo verið ófáar stundir að setja þá saman sem gekk ekki alveg þrautalaust. Endaði með að ég fór og keypti handa þeim rafmagnsskrúfjárn svo nú erum við að verða svaka forfrömuð.

Hver veit svo hvenær fyrst matarboðið verði til að vígja herlegheitin. Maður er aldrei orðið heima á matartímum. Í dag var svínasteik á borðum kl. 5. Svona fer leiklistarbakterían með okkur.

4.3.07

Mars kominn :-) og strengd heit

Tíminn er fljótur að líða og lítið lát á önnum sem er að mestu bara gott mál. Það hefur enn verið annasöm vika í félagsmálunum og hefur verið fundað á öllum stærstu póstunum. Og við þá yfirferð að sjálfsögðu bæst ýmislegt á verkefnalistann.

Nú er bara að forgangsraða og að muna að hvíla sig. Ég strengi þess hér með heit að fara í rúmið fyrir miðnætti alla þessa viku. Ég er orðinn hinn mesti næturgöltur og veit að það er mjög svo skaðlegt heilsu minni. Svo fremst á forgangslistanum þessa viku verður að koma sér í rúmið fyrir miðnætti. Sjáum hvernig það gengur.

Vorið er finnst mér vera á næsta leiti og hugurinn hefur leitað upp í Krika í róleg heitin þar. Hver veit hvað þetta sumar ber í skauti sér.