19.10.05

Langhundur um ýmislegt

Ég hélt á tímabili í gær ég væri alveg að tapa glórunni. Allt of mikið að gera á alltof stuttum tíma. Mikið að hugsa, skipuleggja og taka ákvarðanir. Hringdi í Sigrúnu systir til að fá tímann hjá henni hvenær hún kæmi á fimmtudaginn. Ha sagði hún það er 20 nóvember................

Jæja en það leystust ýmsar skipulagsflækjur við það og Kirkjubæjarklaustur er úr sögunni þennan mánuðinn. Allt stefnir samt í mikið fjör og hullúmhæ en það er allt leyndó ennþá.

Nú er orðið ljóst að ég mun skreppa til Kaupmannahafnar og Malaga í nóvember fyrir tilstuðlan góðra manna ásamt vinum mínum í Vin. Hlakka mikið til þeirrar ferðar. Kvíði samt verkefnavinnunni sem óhjákvæmilega mun hrannast upp. En það leysist.

Skelli hér inn tveimur myndum af félögum í stjórnum Halaleikhópsins sem eru allir svo fínir og sætir hér.



Stebba, Arnar, Sigga, Hanna og Ásdís



Sóley, Þröstur, Jón, Örn og Kristín

Mér gekk frekar illa held ég í Hobbit prófinu í gær en bullaði tóma þvælu held ég.

VARÚÐ EKKI FYRIR VIÐKVÆMA:

Fórum svo til læknis í gær bæði hjónin út af þessum eilífa hósta sem er orðinn ekkert fyndinn lengur. Þetta eintak af doksa sem er víst mjög fær en hann kann akkúrat ekkert í mannlegum samskiptum. Snéri baki í okkur mesta allan tímann og var í tölvunni eða að tala prívatsímal í Gemsann. Uss og svei. Ég hata háls, nef og eyrnalækna. Fátt skelfir mig meira en þegar þeir taka upp á því að renna einhverju tæki gegnum nefið á manni og langt ofan í kok. Þessi tók upp á því líka við okkur bæði. Hryllileg lífsreynsla. Allavega þá heldur hann því fram fullum fetum að við séum í tísku núna og bæði með vélindabakflæði og sendi okkur heim nestuð með pillupakka. Hef einhvern veginn ekki trú á þessari greiningu en það kemur eflaust í ljós.

En ég er líka mjög stolt af sjálfri mér. Ég hef verið með þrengingar í nefi, sennilega síðan ég var 7 ára og nefbrotnaði fyrsta daginn minn í barnaskóla. Þessi sami doktor rálagði mér upp á spítala fyrir 3 árum að láta laga þetta og vitir menn ég sló til og fæ þetta lagað 2 nóv. Get ekki sagt að mér hlakki til en ef kæfisvefninn lagast og hóstinn hættir má leggja sitthvað á sig.

Fór í Þjóðarbókhlöðuna eftir skóla að leita uppi leikdóma um Pókók í gömlum blöðum. Sem betur fer...... Annars hefði ég verið á ferð um Háaleitisbrautina við Sléttuveginn þegar kranabóma af stærstu sort féll yfir götuna og alla leið yfir á bílastæði Borgarspítalans og lokaði henni. Það er þetta blessað byggingasvæði þar sem áður var þetta fína óræktartún. Mesta mildi var að ekki varð manntjón.



Hér hefur aftur á móti ríkt umsátursástand í allan dag. Hálft hverfið er yfirlýst hættusvæði og allir nágrannanir úti með myndavélar. Ekki veit ég hverni þeir ætla að koma ferlíkinu af götunni. Sendi Ödda út með myndavélina til að tolla í tískunni það skiftir víst máli ;-) Frekari upplýsingar á mbl.is og visir.is



Það er hægt að fá stærri mynd með því að smella á þær.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Velkomin í hóp vélindabakflæðis(það er að segja ef þetta er rétt greining). Greyin mín að lenda í þessum lækni. Það ætti að vera hægt að geta fundið út ef þið hafið fengið rétta greiningu. Það er ýmislegt sem ég þoli ekki sem ég þoldi áður!:-(
Kveðja Hanna:-)