31.5.07

Perluæði

Á morgun föstudag ætlum við vinkonurnar að vera með bás í Mjódd og selja handunna skartgripi. Vorum um daginn með litlum árangri en lítum björtum augum til mánaðarmótanna. Vantar ykkur ekki skartgripi? Gott til gjafa og bara að skreyta sig með. Allir að kíkja við og kíkja á perluvinkonurnar :-)

Það fór sem mér datt í hug. Ég fékk grænan miða á bílinn. Pústið var ekki nógu þétt til að hægt væri að mengunarmæla hann. Mátti svo sem vel vita það. Mig vantar að vinna í lottó á morgun svo ég geti keypt draumabílinn með lyftu fyrir hjólastólinn.......

Annars fór dagurinn meira og minna í stærðfræði með Heklunni minni. Verð að finna annan tíma fyrir Gambíusöfnunina. Smá félagamálastúss en aðallega heilabrot. Það er erfitt að hjálpa krökkum í dag í stærðfræði þar sem ekki má nota gömlu aðferðirnar sem hafa dugað síðustu kynslóðum. En vonandi gengur henni vel á morgun hef svo sem ekki trú á öðru enda vel gerð stúlka og samviskusöm.

Er enn að prófa mig áfram með moggabloggið, bætti við nokkrum tenglum

bloggspekuleríngar

Ég var í einu enn bloggleiðangrinum áðan og fór þá að hugsa hvers vegna svona margir eru farnir að flytja sig yfir á moggabloggið? Ég prófaði það fyrir rúmu ári og leist alls ekkert á það. En ætla að kíkja aðeins á það betur. Er ekkert farin héðan langt í frá bara vildi heyra hvað ykkur finndist. Hvaða blogg kerfi er best ? skrifa nú í kommentin

moggabloggið mitt er www.ormurormur.blog.is

Fann meira að segja stórvin minn Grétar Pétur sem er farinn að blogga þar.

29.5.07

Vorferðalag

Hátúnshópurinn minn skellti sér með rútu í vorferðalag austur í Fljótshlíð og Emstur. Við fengum einmana veðurblíðu og nutum dagsins og útsýnisins. Að sjálfsögðu fengum við okkur súpu eins og alla aðra þriðjudaga. Stoppuðum í Kaffi Langbrók þar sem sannur víkingur og hans frú tóku á móti okkur með þessarri dásamlegu kjötsúpu.


Hann flutti okkur svo rímur og ýmsan kveðskap meðan við snæddum. Fórum svo og skoðuðum með honum hof sem hann er að byggja að gömlum sið. Þrír fallegir minkahundar heilluðu okkur alveg og ekki síst Stefaníu.

Góður dagur í góðum félagsskap :-)

28.5.07

Ferming

Fór í gær norður á Hvammstanga í fermingu hjá honum Helga Jóhannssyni. Syni Jóhanns Indriða Kristjánssonar sem er sonur hennar Auðar Jónsdóttir sem er dóttir Iðunnar heitinnar Bjarkar sem var systir hans Ödda míns.

Já eitthvað er ættfræðin nú flókin en hann Jói er nú einn af okkar nánustu fjölskyldumeðlimum þó blóðið segi nú kannski eitthvað fjarlægara. Þetta var stórglæsileg fermingarveilsla í safnaðarheimilinu. Og ekki skánaði nú ættartengslin þegar maður fór að spá í hver væri skyldur hverjum. Hann Helgi minn er ríkur strákur á 7 systkini og tvenn pör af foreldrum, fóstursystkini og ættingja úr öllum áttum. Sem sagt íslensk stórfjölskylda eins og hún gerist best. Og allir í sátt og samlyndi eins og það á að vera.

Það var æðislegt að fá loks að hitta norðurlegg fjölskyldunnar, hittumst alltof sjaldan hin seinni ár. Ekki spillti veðrið deginum og ánægujulegt ferðalag. Fleiri myndir úr fermingunni má sjá hér.


26.5.07

Kleppur er víða

Ó já er soldið hugsi eftir 100 ára afmæli Kleppsspítala þeirrar merku stofnunar, þar sem haldið var upp á afmælið með glæsibrag en með miklum fordómum að mínu mati.

Þeir héldu m.a. tveggja daga ráðstefnu stórglæsilega á Grand Hóteli með mikið af merkum fyrirlesurum. En árið er 2007 og það er eins og þeir sem eru í þessari afmælisnefnd hafi ekki verið með í þjóðfélaginu síðustu kvartöldina eða svo. Jú kíkið á auglýsinguna fyrir ráðstefnuna http://www4.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/htmlpages/index2.html#frettir_3863 og lesið neðst. "Starfsfólk geðsviðs og fagfólk utan LSH velkomið" !!!

Hvað með notendur og aðstandendur. Þeir eru ekki velkomnir eftir þessari auglýsingu að dæma, reyndar sé ég í mogganum í dag að eitthvað eru þau farin að skammast sín og þar segir á öðrum degi ráðstefnunnar að allir séu velkomnir.

Ef þetta eru ekki fordómar þá veit ég ekki hvað og verð að segja að ég er mjög móðguð fyrir hönd okkar notenda og okkar sem hafa staðið í baráttunni síðasta áratuginn.

Ég var samt á Kleppi (ekki Grand) í dag í glæsilegri afmælisveislu sem öllum var boðið velkomið að koma. Ég var með kynningarbás að kynna Vin. Fór svo á málþing um fordóma. Flott málþing en einhvernveginn ekki í takt við það sem aðrir á spítalanum eru að gera.

Ég segi bara Kleppur er víða og það fyndna við þetta er að yfirskrift Grandráðstefnunnar er Kleppur er víða.

25.5.07

Cusco

Hef verið hálf slöpp í dag eins og næstum bensínlaus. Afreka lítið og heilinn í mauki þó ekki eins og í House. Nema það sé kannski smitandi..................

Palli og Frosti biðja að heilsa frá Cusco í Perú. Þeir eru búnir að fá háfjallaveiki og drullu :-) En eru orðnir góðir og skemmta sér vel. Iss held þeim hefði verið nær að vera bara á Fróni

Æ nei meinti það ekki.

Allir að mæta í 100 ára afmæli Klepps á morgun

24.5.07

Kveðja frá s. Afríku

Villi bróðir hringdi kátur og hress frá S. Afríku í dag og biður kærlega að heilsa öllum. Þar er kominn vetur og snjór í fjöll eins og hér þó hér eigi að heita sumar.

Palli er í Perú, Stebbi í Noregi og Sigrún í Danmörk. Meiri heimshornaflakkararnir þessi systkini mín. Ég fór þó út úr bænum í kvöld alla leið í Kópavog á fína tónleika hjá Samkór Kópavogs þar sem Olla mágkona var að syngja. Þar frétti ég að hún hefði verið að kaupa hús í Mosó í dag tilbúið undir tréverk. Næg verkefni framundan á þeim bæ.

Hannes og Prisella eru búin að koma sér fyrir í Hátúninu og hlakka ég til að kíkja til þeirra.

Allt stefnir í að ég fari í fermingu á Hvammstanga um helgina :-) Hann Helgi hans Jóa á að fermast.

Svo ætla ég að stefna á vinagrill um helgina líka og kannski mikla spilamennsku líka. hver veit hvernig það endar.

22.5.07

Dóttirin í ham

Svei mér þá veit ekki hvað ég á að segja en dóttirin er komin með nýtt blogg og þar virðist ég vera aðalumræðuefnið................

Ekki leiðinlegt að eiga svona skemmtilega mömmu :-)
Búin að uppfæra tengilinn

Ekki nóg með það heldur er sonurinn búinn að breyta um ham orðinn svo sólbrúnn og sæll í nýju útivinnunni sinni að mér stórbregður alltaf þegar ég sé hann. Svo er hann líka orðinn félagslyndur hringdi heim í dag og tilkynnti mér að hann ætli að hafa fund heima í kvöld..........

Ég bara lokaði mig inní herbergi og horfði á pólitíkina gossa

Fékk þetta sent í tölvupósti

Þetta ætti sennilega að vera límt á spegilinn á baðinu hjá þér þar sem þú getur lesið þetta á hverjum degi. Þú gerir þér kannski ekki grein fyrir því en þetta er 100% satt!

1. Það eru að minnsta kosti tvær manneskjur í þessum heimi sem þú myndir deyja fyrir.
2. Það eru að minnsta kosti 15 manns í þessum heimi sem elska þig á einhvern hátt.
3. Eina ástæðan fyrir því að einhver hati þig er, viðkomandi vill vera eins og þú.
4. Bros frá þér getur fært einhverjum hamingju, jafnvel þótt viðkomandi líki ekki við þig.
5. Á hverju kvöldi, hugsar EINHVER til þín áður en viðkomandi fer að sofa
6. Þú ert himinn og jörð hjá einhverjum.
7. Þú ert einstök og sérstök í þessum heimi
8. Einhver sem þú þekkir ekki, elskar þig.
9. Jafnvel þegar þú klúðrar málunum, verður eitthvað gott úr því.
10. Þegar þér finnst heimurinn hafa snúið í þig baki, líttu aftur á.
11. Mundu alltaf eftir hrósum sem þú færð. Gleymdu dónalegum hreytum.

Ákvað þar sem bloggletin er alsráðandi hjá mér að setja þetta hér inn.

Já og mundu………þegar lífið afhendir þér Sítrónu /Lime, biddu þá um Tequila og salt!

15.5.07

Stærðfræði getur verið höfuðverkur


Þessa skemmtilega mynd tók Örn af þremur kynslóðum að glíma við nútíma stærðfræði sem reyndist ansi snúin. Sú yngsta hafði fyrri þrautina og sú í miðkynslóðinni hafði þá seinni eftir mikið bags og hugs þriggja kynslóða.
Fór upp í Krika í dag í vettvangsferð. Leist vel á það sem smiðirnir eru að gera held það verði hægt að halda böll á pöllunum beggja vega við bústaðinn. Og flotbryggjan var á sýnum stað. Líst vel á sumarið :-) Set inn myndir af framkvæmdunum á Krikasíðuna.

14.5.07

timarit.is

Mæli með www.timarit.is stórskemmtilegur vefur. Var í heimildaleit og flétti í kvöld öllum Morgunblöðum sem komu út í janúar 1993. Afar fróðlega lesning en fann ekki allt sem ég leitaði að en sumt þó. Næsta skref er febrúar 1993 :-)

11.5.07

Til hamingju með afmælið elsku Öddi minn

Minn heittelskaði á afmæli í dag. Veit ekkert hvað ég á að gefa honum í afmælisgjöf. Mikið hugs hugs í gangi. Kannski dreymir mig það í nótt. Allar tillögur vel þegnar.

Já veit að það er komið miðnætti og hálftími betur bara var að sinna húsmóðurverkum eftir Eurovision. Og skellti svo í tvær brauðtertur.......

Í fyrsta skipti í mörg ár er ég alveg viss hvað ég á að kjósa í kosningum merkilegt.

Annars var þetta ánægjulegur dagur í meira lagi og ábatasamur fyrir þau félög sem næst mér standa í félagsmála stússi mínu öllu. Fór fyrir hönd Ferðafélagsins Víðsýn að sækja styrk upp á 300 þús kr til heilsutengdra ferðalaga. Um leið fékk Halaleikhópurinn líka 300 þús. kr, Sjálfsbjörg fyrir Krika 500 þús. kr. og HH Hátúnshópurinn sem er samveru og súpu verkefnið mitt gamla góða 200 þús. kr. Frábært og mörg góð og verðug málefni önnur fengu úthlutun svo ég hætti að hafa móral yfir pokanotkun. Þó ég viti vel að þeir eru ekki umhverfisvænir en hvað um það sný mér að umhverfismálunum á annan hátt.

10.5.07

Mér tókst það

Það hlaut að koma að því. Gekk gjörsamlega frá sjálfri mér þegar ég tapaði mér algerlega í félagsmálunu um síðustu vikuna. Fór um landið þvers og kruss allt frá Akranesi í Hallormstað og þaðan á Neskaupstað og heim aftur beint á tveggja daga námskeið hjá RKÍ.

Það sem ég hef mér til málsbóta er að ég skemmti mér vel ;-)

Mæli samt ekki með þessu öllu á 6 dögum. Er nú að reyna að púsla mér saman fór samt á einn fund í dag. Og er nú að gera máttlausa tilraun til að taka til á skrifstofunni minni, skil ekki hvernig er hægt að drasla svona til. En þegar maður er í félagstússi á mörgum sviðum og nefndum í einu á sama tíma að perla og í fatasaum að auki þá fylgir þessu öllu alls kyns hlutir verkfæri og pappírsstaflar.

En ilmurinn úr eldhúsinu er indæll. Minn heittelskaði sem á afmæli bráðum er farinn að baka ;-) Kannski ég bara loki herberginu og taki til frammi ekki dugir lengur bara að kveikja á kertum það er orðið svo bjart úti.

2.5.07

gamlir taktar

Loksins gaf ég mér tíma í dag og kíkti á vini mín í Vin. Besta stað í bænum. Skrítið þegar maður er svona upptekinn og næstum gleymir vinum sínum, les um ýmislegt um þá í blöðunum sem maður hafði ekki hugmynd um að væri í gangi þar svo sem Morgan Kane skákmót og myndlistarsýning. Ég sem hélt ég væri innsti koppur í búri.

Vin er staður sem hefur oft fleytt mér yfir margan hjallan og gefið mér orku til að taka á vandamálum hins daglega lífs. Þar er ávallt hægt að fá eyra til að skrafa í, holl ráð og áttavita eins og ég kalla það. Það er þegar maður fer að tjá sig og fær lausn vandans við tjáninguna. Ætla að vera duglegri að fara þangað á næstunni.

Fór svo á langan og duglegan stjórnarfund í Halanum, ariseraði ýmsu um austurferðina fyrir Sjálfsbjörg og skellti mér svo í leikhús nema hvað. Sá Bingó í hjáleigunni hjá leikfélagi Kópavogs og Hugleiks. Skemmti mér bærilega en var ekki alveg að ná samt leikritinu var of súrrealískt fyrir minn smekk. En leikararnir stóðu sig með mikilli prýði og öll umgerð skemmtileg.

Var að leita mér að buxum í vikunni og finn engar sem eru nógu stórar eða nógu litlar eða bara passa á mig. Gafst upp nennti þessu ekki og fór og keypti mér efni í tvennar buxur. Bjó svo snið áðan eftir uppáhaldsbuxunum mínum. Gömlu taktarnir alls ekki gleymdir. Sníð á morgun og sé til hvað tíminn leyfir þarf víst að skreppa aðeins upp á Akranes í embættiserindum :-)

Vorið er komið fuglarnir syngja við gluggan minn í kapp við verkamenn sem eru að byrja að athafna sig fyrir neðan svefnherbergisgluggann minn. Sá líka fífil í gær svo vorið er örugglega komið. Langar í sumarjakka......................

misnotkun á börnum

Hvað finnst ykkur þegar börn á íslandi eru misnotuð í þága stjórmálaflokka á íslandi 2007.
Hvað er í gangi eiginlega. Sá börn í dag með strokk um höfuðið greinilega merkta stjórnmálaflokki. Mér líst mjög illa á þetta svo ekki sé meira sagt.

Verndum börnin okkar og virðum þau sem manneskjur. Börn hafa ekki þann þroska sem þarf til að mynda sér skoðun á stjórnmálum

Næstum búin að gera sömu mistökin aftur

Það getur verið flókið að halda úti mörgum bloggsíðum.

Ætlaði bara að bera ykkur öllu sérstaklega Hölum og fjölskydunni kærar kveðjur frá Villa í south afríku. Þegar ég sagði honum hvað leikrit slúðrið væri helst að tala um sagði hann nú bara að það lægi við að hann færi að reka á eftir sölunni og koma leika í því stykki..................

Nú er leiklistin að komast í frí eða þannig eftir á að ganga frá eftir sýninguna og halda lokapartý, en það er allt í vinnslu. Stjórnarfundur í dag. Og svo saumaklúbburinn beint á eftir.

Á fimmtudag er líka annríki þarf að pakka niður fyrir okkur hjónin, þvo upp úr körfunni og klára að gera fyrirlesturinn sem ég flyt með Sjálfsbjörg á Neskaupstað á sunnudaginn.

Þarf svo um kvöldið að skreppa á fund upp á Akranes með félagasmálanefndinni.

Um helgina á svo að fljúga austur á Hallormstað á aðalfund BÍL ásamt Erni og Hönnu Margréti þar verður örugglega mikil vinna og fjör.

Þaðan brunum við svo á Neskaupstað ásamt Leif og Stefáni og fulltrúa TR.

Svo er ekkert meira áríðandi á dagskrá svo ég get farið að huga að þeim verkefnum sem hafa hlaðist upp á sýningartímanum. Sinna ýmsu varðandi Víðsýn sennilega fara á námskeið í næstu viku. Klára heimildarvinnuna kringum vef Halaleikhópsins sem er ærið starf þar sem mjög illa gengur að fá fólk til samstarfs. Svo er ég að smíða annan vef um leyniverkefnið. En mest af öllu hlakkar mig til þegar KRIKI verður kominn með reglulegar opnanir.

Óleyst er líka bílamálið sem liggur þungt á mér þessa dagana enda bíllinn okkar búinn að vera bílaður á aðra viku. Ég verð að kaupa nýrri bíl helst nýjan en hef ekki efni á því. Þarf að fara í endurfjámögnun eða eitthvað svo endar nái saman þar til stjórnmálaflokkarnir fari að uppfylla öll l0forðin sín.

1.5.07

Detti úr höfði mér allar dauðar lýs

Ég get svo svarið það að ég bloggaði í gærkvöldi og sú færsla birtist hér en er nú horfin!!!!!
Mér er algerlega ómögulegt að skilja þetta, er alveg viss um að þetta var ekki draumur því ég photoshoppaði mynd af okkur perluvinkonunum og setti inn og hún er hér í sinni möppu.

??????????????

Meðan ég skrifaði þetta datt ég niður á lausnina. Ég birti hana á annari bloggsíðu sem ég er með í vinnslu :-) Meira um það seinna, svona getur maður verið ruglaður. Svo ég bara kópíera hana og hér sem sagt kemur hún:


Mátti til að skella þessari fínu mynd af okkur perluvinkonunum þar sem við vorum að reyna að selja skartgripina okkar á handverksmarkaði í Hinu húsinu. Þetta var skemmtilegur dagur en salan dræm. Svo nú verður gripið til annara ráða til að fjármagna þetta skemmtilega hobby okkar. Allt í vinnslu.

Leiklistarveislan í Borgarleikhúsinu í gær gekk vonum framar, fullt hús og mikið fjör. Allt gekk upp í báðum verkunum sem Halinn tók þátt í og nú er ég sem sagt búin að ná þeim áfanga að stíga á svið í Borgarleikhúsinu og leika þar :-) Ekki það að ég ætli að leggja leik fyrir mig alls ekki.
Þetta Þjóðarsálarverkefni var bara svo skemmtileg og frábær hópur sem gat smækkað atriðið úr reiðhöllinni og á Nýja sviðið. Svo var partý á eftir sem Sigrún Sól bauð uppá í forsalnum. Mikið sungið og haft gaman af.

Í dag ætla ég svo í afmæli hjá mínum ástkæra mág Frosta sem bíður í pönnsur og kakó og leiklestur m.m. Til hamingju með daginn Frosti minn.