27.8.05

Annasöm vika og Örn i ævintýrum

Annars hefur þetta verið ansi annasöm vika. Það tekur aðeins á að hefja skólann aftur en þetta er nú allt að koma. Bara að muna að fara snemma að sofa. Mér gengur ágætlega í náminu enn og er að verða bjartsýnari á þokkalegan árangur eftir því sem námsefnið skýrist.

Hélt reyndar að ég væri að ganga frá sjálfri mér um kvöldmatarleitið á fimmtudag eftir að hafa verið í skólanum frá 8 um morgunin þaðan beint í sjúkraþjálfun, þaðan beint aftur í skólann, svo með Örn til læknis, svo að versla og stússa ýmislegt, þaðan beint í gönguna í Laugardalnum með Trimmklúbbnum og svo loksins heim. Þá var ég alveg búin á því þarf aðeins að taka skipulagið í gegn og raða þessu aðeins niður á vikuna betur. En þetta kemur allt saman.

Af læknisheimsókninni er það að frétta að Örn fór frískur og hress inn til að fá nýtt vottorð fyrir ferðaþjónustuna en kom sárlasinn út aftur. Gerður blessunin var í læknisstuði og setti hann í allskonar test og út kom sjúkur maður með tvo lyfseðla og vottorðið. Ekkert alvarlegt samt.

En það var nú fljót að hýrna á honum brúnin enda er Tryggingastofnunin nú líka búin að samþykkja sérpantaða hjólastólinn svo nú er von á honum eftir 3 vikur eða svo. Ekki nóg með það heldur var hringt frá Eirberg og þeir buðu honum lánsskutlu þar til sendingin kemur í september. Ó jú hann þáði það auðvitað !!!!

Örn var alveg í skýjunum og fékk skutluna seinnipartinn í dag og það var ekki að sökum að spyrja hann fór beint út eða ætlaði það allavega held ég !!!



Hann náði ekki beygjunni fram á gangi og rafmagnshurðin réðst á hann eða hann fór of geist á skvísunni. Hurðin með öryggisglerinu lifði það af ansi lerkuð en Örn og skutlan sem heitir víst Viktoría lifðu þetta af.

Jú jú mér fannst þetta nú fyndið en sá var nú ekki lítið skelkaður svo ég varð að halda andlitinu og lóðsaði hann út og sagði honum að fara út að leika sér ;-) Meðan ég þreif upp glerbrotin.

Það sem mér fannst nú fyndnast við þetta var að þegar hann fékk nýjan bíl síðast var hann ekki búinn að eiga hann i klukkutíma þegar hann klessti hann (smá). Held ég bíði aðeins með að endurnýja ´bílinn ef þetta heldur svona áfram.

Af Erni og Viktoríu er það að frétta að þau fóru um allt hverfi og Örn uppgötvaði alveg ný svæði sem hann hefur aldrei komið á áður og hafði ekki hugmynd um að væru í næsta nágrenni við sig. En heldur var hann kaldur þegar inn kom og skreið beint undir sæng sæll og glaður eftir túrinn á Viktoríu.

Talaði um að nú þyrfti hann að fá sér úlpu vettlinga og síða brók. Já alveg satt veit systkini hans verða hissa þegar þau heyra þetta en þetta eru flíkur sem ekki hafa sést í fataskáp hans í áratugi.

Hekla ætlar svo að koma um helgina á hjólinu sínu til að lóðsa afa sinn um hverfið svo hann geri engan skandala meir.

ps.
Nú fær hann ekki að koma upp á skutlunni og verður að skilja við Viktoríu í bílageymslunni. Ein skvísa er nóg á þessu heimili ;-))

Engin ummæli: