28.8.05

Meiri útivist með fjölskyldunni

Skutlan hún Viktoría ætlar sannarlega að breyta ýmsum heimilisháttum hér í Húsinu á Sléttunni. Örn sem er vaknaður til nýs og breyttra lífshátta er enn í stöðugum könnunarleiðöngrum um hverfið. Í dag fórum við Hekla með hann í hinn margumtalaða spítalahring sem er algengur göngutúr héðan. Sem sagt hringinn í kringum Borgarspítalann og aðeins víðara eftir göngustígunum.



Aðeins var stoppa í Svartaskógi sem Heklu finnst æðislegur þar sveiflaði hún sér í trjánum eins og api.



Nú svo var lögð þrautabraut fyrir barnið sem helst vildi nú fá að sitja í fanginu á afa sínum á Viktoríu. En amma freka fékk að ráða og Hekla klifraði upp í öll tæki á leikvelli sem á leið okkar var ;-)

Þetta var alveg ný upplifun fyrir Örn sem er farinn að þjást af of miklu súrefnisflæði. Enda orðinn vel gallaður fékk sér þennan fína galla í Kringlunni í gær. Sökum stærðar sinnar fékk hann gallan í barnadeildinni í Hagkaup ;-) hann á örugglega eftir að nota hann mikið.

Viktoría var aftur á móti búin að fá nóg og gafst nánast upp á heimleiðinni. Mótmælti hressilega. Það þarf víst að hlaða hana öðru hverju þegar menn eru svona aktívir.

Seinnipartinn var svo skundað í Kolaportið með bæði börnin, barnabarnið og Viktoría fékk að hvíla sig heim tengd við rafmagn. Þar versluðum við hið yndislega hrossasnitsel frá Deplu mæli með því einn af uppáhaldsréttunum hér á heimilinu. Hundbillegt. Steiki það eins og piparsteik hef svo piparsósu með nammi namm.

En nú tekur skólavika við og lærdómurinn tekur völdin. Segi frá því seinna.

Engin ummæli: