30.4.06

Bleikar gardínur flögra um Laugaveginn

Held það sé að grípa mig bloggleti aftur og kannski maður bara hætti og þó. Er frekar andlaus í skrifum þessa dagana.

Merkilegt því í dag hringdi í mig maður og bað mig að taka að mér stórt og mikið verkefni þar sem reynir verulega á rithæfileikana. En ég var nú ekki tilbúin að taka það að mér tel að í það stóra verk þurfi að minnsta kosti sagnfræðing og ekki er það nú alveg mín deild. En maðurinn gaf sig ekki og taldi upp kosti mína og tókst næstum að sannfæra mig um hversu frábær penni ég væri. En ég náði andanum eftir allt hrósið og sagði nei takk.

Reyndar merkilegt þessi merki maður og vinur minn hefur komið mér til að taka að mér hin ólíklegustu verkefni gegn vilja mínum og mörg stór skref hef ég stigið fyrir tilstuðlan orða hans. En þetta var to much svo maður bregði fyrir sig útlenskunni sem ég er svo góð í eða hitt þó.

Annars leið þessi dagur áfram í tómri sælu þrátt fyrir að byrja heldur seint sökum lítils nætursvefns eftir gott Halapartý fram eftir nóttu.

Við hjónakornin drifum okkur á aðalfund Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðin sem gekk stórvel og félagið í góðum gír. Var skellt í talningu atkvæða, fer að verða sérfræðingur í atkvæðatalningu með þessu áframhaldi. Á heimleiðinn var komið við hjá Bleika grísnum og fylltir nokkrir gulir pokar af góðgæti.

Mætti dótturinni og tengdasyninum í dyrunum heima ásamt prinsessunni sem var alsæl enda voru þau að koma frá því að kaupa flunkunýtt hjól 20" 6 gíra með alls kyns aukabúnaði. Gamla hjólið bar sitt barr ekki eftir áreksturinn við steinvegginn í fyrra sumar. Og kjarkurinn hjá þeirri stuttu að lagast enda þrjósk eins og amman.

Hekla var ekki í rónni fyrr en hún fékk pabba sinn til að setja það saman hjá okkur svo hún gæti farið út með afa á skutlunni til að prófa nýja gripinn. Auðvitað dreif Bjarni bara í þessu og það tók sinn tíma, svo við mæðgurnar redduðum bara Pitsuveislu fyrir alla fjölskylduna meðan Bjarni skrúfaði og skrúfaði.

Hvað er betra en góð stund með familíunni ;-)

En amma gamla er með leiklistarbakteríu á háu stigi svo ég stakk af úr öllu geiminu og gleðinni og fór í leikhús að sjá Systur hjá Hugleik með Labba og Stebbu. Lenti í merkilegri reynslu á leiðinni. Lögðum fyrir framan TR og gengum yfir götuna sé þá konu stökkva út úr bíl og grípa gardínur sem lágu í hrúgu ofan á kommóðu á miðjum laugaveginum og henda þeim inn í bíl og bruna í burtu. Þetta var einhvern veginn svo óraunverulegt í henni Reykjavík.

En þegar betur var að gáð var heil hrúga af ýmsu dóti á gangstéttinni (alveg eins og í útlandinu) og miði á vegg sem stóð gefins. Það var víst að hætt þarna antikbúð. Við Stebba förum að kíkja á þetta og sjáum að ma. var þarna hellingur af bleikum velúr gardínum af flottustu sort. Við gripum gæsina og skelltum þeim í skottið, kæmi mér ekki á óvart að þessi fínu tjöld ættu eftir að verða að glæsilegum leiktjöldum.

Þrátt fyrir fögur loforð var familían svo upptekin af hjólinu að það gleymdist að mynda fyrstu hjólaferðin á fína gripnum en ég bæti úr því seinna. Reikna með að sú stutta mæti hér með hjólið innan skamms. Það er að segja ef hún verður ekki strokin að heiman en hún gerði víst heiðarlega tilraun til þess í morgun þar sem henni fannst foreldrarnir ekki alveg nógu góðir. Pakkaði niður og smurði nesti en gafst svo upp og borðaði nestið úti á svölum ;-) Ef hún er ekki skild mér þá veit ég ekki hvað. Held samt örugglega að hún hafi sofnað sæl í kvöld eftir að foreldrarnir splæstu í hjólið.

Engin ummæli: