4.4.05

Vinir hvað er maður án þeirra


Ánægjuleg helgi að baki og hversdagurinn tekinn við.

Á föstudaginn var nefndarþing hjá Sjálfsbjörg þar sem farið var í hluta stefnumótunarvinnuna sem í gangi er. Það var afar fróðlegt og skemmtilegt að taka þátt í því.

5. sýning á Kirsuberjagarðinum var svo um kvöldið og var það samdóma álit allra sem að komu að þetta hefði verið besta sýningin til þessa. Salurinn var góður og áhorfendur létu ánægju sína berlega í ljós. Ég er afar stolt af mínu fólki.

Auðvitað tóku Halar sig til og héldu Karokee partý á eftir sem tókst líka glimrandi vel og er gaman að fá að taka þátt í svona skemmtilegu starfi.

Laugardagur fór svo í björgunaraðgerðir þar sem elsku besti bíllinn okkar gaf upp öndina eftir allt annríki eigendanna, var algerlega nóg boðið og fór í verkfall. Hann var blíðkaður við og fékk nýjan rafgeymi að launum fyrir þolinmæðina.

Skruppum svo til vinafólks um kvöldið eftir vænan síðdegisblund og spiluðum Skrabbl fram eftir nóttu.

Sunnudagurinn fór svo í leti og spjall við vini sem kíktu inn. Notalegt eftir annríki síðustu mánaða.

Á sunnudagskvöldið var mér svo boðið í leikhús af enn einum vininum. Við fórum og sáum Gísla Súrsson hjá Kómedíuleikhúsinu. Einleik sem Elvar Logi fór með af sinni alkunnu snilld. Þessi saga er mér hjartfólgin síðan ég fór með vinum mínum í Vin á söguslóðirnar í Haukadalnum með leiðsögn þar sem við vorum leidd inn í sögusviðið og kynnt fyrir hverri þúfu í sögunni.

Þegar ég skrifa þetta rennur upp fyrir mér ljós ég á marga vini sem allir hafa veitt mér ómælda ánægju og færi ég þeim þakkir fyrir hér.

Í dag hef ég líka hitt nokkra vini mína á ferð minni gegnum lífið og er þakklát fyrir að vera svona rík.

Engin ummæli: