Loksins er að renna af mér mesta þreytan og ætla ég nú að reyna að gera ferðasögunni skil. Við lögðum af stað norður á þriðjudag og þar sem við erum gömul og lúin þá vorum við okkar klassísku 6 tíma á leiðinni enda nutum við náttúrunnar þó við söknuðum prinsessunnar okkar sem venjulega hefur fengið að vera með okkur á ferðalögum. Á Eddunni fengum við þetta líka fína herbergi hjólastólafært og frábært. Reyndar komst Örn ekki niður í matsalinn en okkur var þá bara færður morgunverður upp á setustofu.
Við fórum svo að heimsækja Jóa og Guðný í nýja húsið. Fallegt hús og heimili til hamingju krakkar. Strákarnir þeirra hver öðrum fallegri og yndislegri. Sá yngri ansi mikill vargur, hressilegir strákar.
Þegar leið á kvöldið týndust Halarnir norður og skellt var í smá gleðskap. En við vorum 6 frá Halaleikhópnum, reyndar bættist 1 Hali svo við einn daginn.
Opnunarhátíðin var svo á miðvikudeginum og skemmst frá því að segja að hún var algerlega misheppnuð eða réttara sagt vitlaust kynnt þannig að flestir ef ekki allir misstu af henni, en fall er fararheill. Setningin tókst svo vel með sirkusatriðum og gamni þó bæði forsetinn og bæjarstjórinn væru veikir þá tókst þetta mjög vel á Ráðhústorginu.
Fyrsta sýningin var svo kl. 16.00 í Samkomuhúsinu þar sem Leikhópurinn Jonava frá Litháen sýndi Bobos eða Konur. Kröftugur leikhópur sem tókst að skemmta manni og hrífa þó maður skildi ekki eitt einasta orð. Þau voru snillingar í andlitsgrettum búningar mjög skemmtilegir og umgjörðin einföld og falleg. Eftir á þegar maður sá svo leikarana í öðru ljósi þekkti maður þá alls ekki alla aftur gervin voru það góð.
Næst fór ég á Dýragarðssögu kl. 17.30 með Leikfélagi Hafnarfjarðar í Húsinu. Þar komst Örn ekki með þar sem það hús er algerlega óaðgengilegt og hann vill ekki láta bera sig upp og niður stiga, sem ég skil svo sem vel ekki myndi ég vilja láta bera mig. En þetta var eina húsið sem var alveg óaðgengilegt.
En að sýningunni Hafnfirðingarnir Gunnar Björn og Guðmundur Lúðvík sýndu afbragðsleik undir leikstjórn Halldórs Magnússonar, enda fékk Gunnar verðlaun fyrir besta leik í karlhlutverki fyrir það verk. Leikmyndin var einföld og algerlega brilljant. Lýsing og búningar til fyrirmyndar. Maður kom sæll út af þessum sýningum.
Hafnfirðingarnir voru ansi skemmtilegir þeir voru allan tímann í gamaldags jakkafötum með bindi og sólgleraugu allt í stíl og skiptu oft voru greinilega með gott búningasafn með sér og settu skemmtilegan svip á hátíðina.
Þá stungu Halarnir sér á Greifann að borða saman til að safna orku fyrir kvöldið. Góður hópur í fínu stuði.
Um kvöldið forum við svo í Ketilshús að sjá Hugleik með Patataz. Það var líka frábært leikrit og vel leikið sviðsmyndin mjög vel unnin og mikið í hana lagt sem og búninga. Leikurinn líka mjög góður þar sem Sigurður H. Pálsson fór á kostum og talaði með arabískum hreim sem hélt alla sýninguna alger snilld. Maður kom alveg heillaður út og spáði í hvernig væri nú hægt að toppa þennan dag því gæði þessa sýninga voru mjög há. Algert konfekt fyrir öll skynfæri.
Ketilshús var alveg aðgengilegt en því miður höfðu áhorfendapallar verið settir fyrir gangveginn inn í salinn þannig að við þurftum að fara smá krókaleið en ekkert mál.
Ekki vorum við nú tilbúin að fara að sofa eftir þetta svo við fjögur sem héldum mest saman við hjónakornin og Stebba og Labbi, skelltum okkur á Græna hattinn (tvær tröppur) á hátíðarklúbbinn þar var mjög gaman. Leikfélagið Sýnir stóð þar fyrir leikhússporti og var mikið fjör. Það voru svo lúnir Halar sem skriðu heim fyrir tvö.
Á fimmtudeginum tókum við það rólega fram að hádegi skelltum okkur á gagnrýnifund kl. 13.00 þar sem Þráinn Karlsson leikari og Þorsteinn Bachmann leikari og fyrrum leikhússtjóri gagnrýndu sýningar dagsins á undan auk eins gestagagnrýnanda. Það var ansi fróðlegt að heyra hvað þeim fannst og skemmtilegt. Mér fannst ég geta lært ýmislegt á að hlusta.
Kl. 15.00 var svo skundað í Freyvang að sjá Taktu lagið Lóa með Freyvangsleikhúsinu. Það var búið að segja okkur að þar væri skábraut inn en hún var horfin eitthvað svo enn fórum við inn bakdyramegin. Nóg af sterkum strákum í Eyjafirði.
Guðrún Halla formaður BÍL lék aðalhlutverkið og gervið var svo gott að lengi vel þekkti ég hana ekki. Sýningin var alveg ágæt þó ekki toppaði hún nú sýningar dagsins á undan enda erfitt. María Gunnarsdóttir sýndi þó frábæran leik og söng svo fallega að það fór gæsahúð um mann. Skipti um persónur í söngnum algerlega átakalaust. Söngur hennar þennan dag inni í Freyvangi þegar það var glampandi sól og blíða úti rennur seint úr minni. Það var einnig mjög vel útfærð tæknibrella þegar kviknaði í sviðsmyndinni.
Kl. 18.00 var svo komið að Svíunum Cirkity Gravikus í Ketilhúsi með 40% af engu. Ég varð satt að segja fyrir vonbrigðum með þá sýningu og fannst gæði hennar ekki vera til þess að fara með milli landa. En ég skemmti mér þó ágætlega og ýmis atriði voru vel gerð en sem heild ekki alveg að gera sig. Kannski er hluti skýringarinnar að við eigum svo fínan Sirkushóp á Akureyri Cirkus Atlanta sem ég er búinn að sjá nokkrum sinnum og þeir eru svo frábærir að Svíarnir falla í skuggann kannski hefðu þeir matt bæta 60% við til að virka.
Við vorum orðin þreytt eftir þetta og skelltum okkur í mat á Bautann þar hittum við s´öunda Halann hann Kidda 1 sem var kominn til að troða upp í hátíðarklúbbnum um kvöldið.
Það var Jónsmessuhátíð í Kjarnaskógi sem við treystum okkur ekki alveg á sökum aðgengis og þreytu. Slöppuðum bara á fram eftir kvöldi og skelltum okkur svo í Deigluna um kvöldið þar var aðgengi í lagi það er að segja þegar við komumst upp Gilið. En ekki hjólastólafært á WC. Þar voru nokkur skemmtiatriði söngur og gaman. Við misstum af Kidda hann var búinn með sitt atriði þegar við komum en það kom ekki að sök þar sem við höfðum öll séð það sum nokkrum sinnum.
Á föstudagsmorguninn skelltum við okkur svo í leiksmiðju hjá Stefáni Vilhelmssyni sem var með STOMP það var mjög gaman, hann var búinn að tína ýmislegt járnarusl af öskuhaugunum var með tvær bassatrommur og við fengum svo niðursöguð kústsköft með teypaða enda í hendurnar og svo var bara byrjað að berja allt sem fyrir fannst og leitað að hljóðum og takti. Við fengum hressilega útrás. Þá var haldið Stompandi niður Listagilið og út alla göngugötuna og allt barið sem gat gefið frá sér skemmtilegt hljóð. Fundum tvo gáma sem gáfu ansi skemmtilegt sound. Þeir sem mig þekkja vita að ég hef ekki mikinn tón eða takt í mér en allavega skemmti ég mér mjög vel og hélt út til hádegis meira en ég reiknaði með.
Kl. 13.00 fórum við Stebba svo á gagnrýnifund aftur og var það fróðlegt og skemmtilegt.
Kl. 15.00 fórum við öll nema Örn í Ketilshús að sjá Memento Mori hjá Hugleik og Leikfélagi Kópavogs. Örn ákvað að hvíla sig þar sem við vorum búin að sjá sýninguna í vetur. Í stuttu máli sagt var sýningin frábær í alla staði og ekki versnað frá í vetur. Vel skrifað stykki, frábær leikur, frábær hreyfimunstur, umgerðin einföld og falleg, búningarnir hreint unaðslegir. Takk fyrir sýninguna. Þess má geta að hún var svo í lok hátíðar valin besta sýning hátíðarinnar. Enda átti hún það fyllilega skilið þó margar aðrar hafi komið sterklega til greina og keppnin hörð. Huld Óskarsdóttir átti brilljant leik maður grét og hló með henni fékk fiðring um allan kroppinn. Takk Huld.
Kl. 19.00 var svo skundað enn í leikhús nú á Davíð Oddson Superstar með Leikklúbbnum Sögu í Útihúsinu þar hafði okkur verið sagt að þetta væri í skemmu en þar væri beint inn. Skemma var það en hár var þröskuldurinn vægast sagt. En aftur fékk Örn flugferð. Þetta voru ungir kraftmiklir krakkar sem stóðu sig ágætlega allavega hreifst ég með þeim af leikgleði þeirra og sköpunarkrafti. Þau eiga örugglega eftir að þroskast í fína skapandi leikara.
Eftir stutt matarhlé var svo brunað fram í Hörgárdal að Melum þar sem Leikfélag Hörgdæla sýndi Stundarfrið. Aðgengi þar var gott hjólastólaklósett og alles en trappa af planinu upp á stéttina. Melar er yndislegt félagsheimili og notaleg stemming í húsinu, skemmtilegt fannst mér að þar serveruðu miðaldra karlmenn kaffi og þjónuðu gestum. Hlutverk sem allt of oft lendir á kellum.
Jæja en Stundarfriður var prýðilegt verk vel leikið og sviðmyndin mjög fín. Búið var að færa verkið fram í tíma og tókst það vel. Eftirminnilegur var leikur Vigdísar Maríu Hermannsdóttur sem sýndi snilldartakta og hvíldi einstaklega vel í hlutverki sínu þó er hún bara 14 ára. Ég skemmti mér vel það kvöld og kom sæl úr sveitinni.
Þetta kvöld eða nótt var farið snemma að sofa og hátíðarklúbbnum sleppt.
Nú upp rann laugardagur og Stebba átti afmæli og fékk að sofa út. Ég skellti mér á fyrirlestur hjá Bernd Ogrodnik í leikbrúðugerð. Þar var á ferð alger snillingur sem heillaði mig upp úr skónum. Hann sýndi hinar ýmsu gerðir af brúðum allt frá tveimur augum upp í margslungnar strengjabrúður sem notaðar voru í String myndinni.
Hann talaði líka um það hvernig leikarinn þarf að hugsa um sjálfan sig ef hann er ekki í formi þegar hann er að leika þá gerist ekkert og hann er ekki viðbúinn ef eitthvað fer úrskeiðis. Talaði mikið um mikilvægi einbeitingar og innstillingar og að fara vel með sig. Alger snillingur á ferð og einstakur maður.
Kl. 13.00 fór ég svo á gagnrýnifundinn alltaf jafn fróðlegt.
Svo skellti maður sér kl. 14.00 á Birdy hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar í Húsinu. Frábær sýning og vel gerð í alla staði, frábær leikur er Stefán Benedikt Vilhjálmsson einstaklega eftirminnilegur. Verkið var leikið í talsverðri nánd ég var á fremsta bekk. Skiptingar voru skemmtilegar, leikmyndin góð og allt eins og best var á kosið. Enn eitt snilldarverkið sem maður naut á hátíðinni.
Kl. 16.00 fórum við svo í Ketilhús og sáum Allra kvikinda líki hjá Leikfélagi Kópavogs. Það var vel útfærðar senur úr teiknimyndasögum og skemmti ég mér mjög vel. Sýningin kitlaði hláturstaugarnar hressilega og leikurinn góður þó samt nokkuð misjafn milli leikara. Bjarni töframaður fór á kostum og er eftirminnilegur sem og Andrea Ösp Karlsdóttir. Það er gaman að fylgjast með hvernig þessi leikhópur þróar teiknimyndaformið.
Þá var skundað upp á hótel og sett upp spariandlitið því nú var lokahófið í aðsigi. Reyndar skyggði það á gleðina að hófið var haldið í Freyvangi og þar kemst Örn ekki á klósett. En við létum það ekkert á okkur fá og mættum í okkar fínasta pússi með góða skapið í hjartanu. Okkar mætti fyndin sjón þegar við komum, fjórir fílefldir karlmenn voru að koma einhverstaðar utan af túni með þessa líka risa skábraut sem var skellt á tröppurnar, frekar óstöðug en virkaði.
Hátíðarnefnin mallaði ofaní okkur 200 manns glerfínan mat af mikilli snilld. Júlíus Júlíusson frá leikfélagi Dalvíkur stjórnaði veislunni með miklum glæsibrag. Fjöldinn allur af skemmtiatriðum var enda fullt hús af leikurum. Skemmtilegast var samt að nöfn allra leikritanna var sett í umslag sem hver leikhópur dró svo og þurfti að leika það leikrit sem það dró á 2 mínútum og hafði tvær mín í undirbúning og svo átti salurinn að giska hvaða verk það væri. Öllum tókst vel upp meira að segja Litháanir sem ekki skildu íslensku og varla ensku heldur. Síðan var leikið fyrir dansi.
Afmælissöngurinn var sunginn fyrir elsku Stebbu sem var 33 ára þetta kvöld. Örn fór svo heim þegar kom að klósett ferð ásamt Jónda og Siggu en við villingarnir héldum út meðan ballið entist og svo var auðvita partý uppá hóteli.
Það var svo frekar framlágt lið sem mætti í Samkomuhúsið á Náttúran kallar hjá Leikfélagi Selfoss kl. 13.00 á sunnudeginum. Verkið þeirra fannst mér síst af því sem ég sá kannski var það mitt ástand en samt skemmti ég mér bærilega á köflum. Sviðslausnirnar voru mjög fínar hjá þeim en leikurinn misjafn og verkið klént.
Á eftir var svo gagnrýnifundur og verðlaunaafhending. Ég var mjög sátt við hvernig þau deildust niður en úr vöndu var að ráða. Enda eins og fram hefur komið hvert verkið öðru betra og standardinn ansi hár á þessari annarri leiklistarhátíð BÍL.
Það er óhætt að segja að þetta hafi verið unaðslegir dagar en strembnir enda þreytt fólk og sælt sem rann suður fyrir heiðar. Mæli hiklaust með að allir sem hafi á annað borð áhuga á leiklist láti svona hátíðir ekki fara fram hjá sér.
Myndir úr ferðinni eru svo hér.
Nánari umfjöllun er svo á BÍL www.leiklist.is
28.6.05
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Skemmtileg ferðasaga hjá þér Ása. Þakka samveruna fyrir norðan. Þið Halafólk eigið heiður skilinn fyrir þann mikla áhuga sem þið sýnið listinni.
PS. Það voru Litháar en ekki Lettar sem sýndu Konur.
Takk fyrir leiðrétting komin inn
Skrifa ummæli