Ég sagði í gær að lífið væri yndislegt og meina hvert orð, fékk smá glósur um pistilinn sem vakti mig til umhugsunar. Líf mitt hefur ekki alltaf verið yndislegt og stundum og það bara ansi oft sem það hefur verið hreint helvíti. En það eru dagar sem gera mann bjartsýnan og atburðir sem henda sem fleyta manni fram veginn.
Ein af mínum fötlunum er kvíðaröskun og þunglyndi sem var á mjög alvarlegu stigi fyrir nákvæmlega 8 árum. 6. júlí 1997 var einn magnaðasti dagur í mínu lífi. Þá fór ég allan skalann frá lífi til dauða á einum sólahring. Sjaldan hef ég farið eins djúpt og þá nótt. Ýmislegt varð til að hrinda þeirri atburðarrás í gang sem ég ætla nú ekki að rekja hér. En það sem var þess valdandi að ég höndlaði það ekki var sjúkdómurinn. Villi bróðir var líflínan mín þessa nótt sem oftar. Takk Villi.
En þessa skelfilegu nótt var annar þráður sem hélt mér lifandi það var kraftaverkið mitt hún Hekla dótturdóttir mín fæddist þennan örlagaríka dag. Það var þarna týra í öllu myrkrinu sem ljómaði sterkar og sterkar og varð til þess að veita mér þann kraft sem þurfti til að snúa við til lífsins aftur.
Hekla veitti mér þann styrk sem þurfti til að fara í þá meðferð sem ég þurfti við mínum sjúkdómum. Ég hóf 5 ára samfellda meðferð á Hvítabandinu meðferð sem heldur enn. Ég lærði að lifa með mínum sjúkdómum og vera sátt við lífið og mín örlög eins og þau eru. Þegar ég útskrifaðist sagði læknirinn minn mér að ég hefði verið eins og trédrumbur þegar ég kom, ég var svo stíf og full af verkjum líkamlegum sem andlegum að ég gat mig engan veginn hreyft.
En nú er lífið allt annað og ekkert nema yndislegt. Það er sama í hvaða raunum maður lendir í eða kemur sér í, alltaf er leið út og birta handan við hornið. Stundum þurfa harkalegir atburðir að gerast til að maður átti sig á því.
Hér kemur svo syrpa af myndum af prinsessunni minni henni Heklu sem er 8 ára í dag og alger ljósgeisli í lífi mínu. Til hamingju með afmælið Hekla mín.
Heklu hefur alltaf þótt betra að vera fín til fara. Þessi kjóll er ættargripur sem mamma saumaði á Sigrúnu Jónu systir mína sem er fædd 1946. Þetta var á kreppuárunum og kjóllinn er saumaður úr jafa sem ætlaður var í dúka. Algert listaverk.
Þetta prjónadress prjónaði Sigrún Jóna á Heklu ársgamla. Já handavinna er í genunum.
Þessi upphlutur var saumaður af Villu ömmu á mömmu fyrir alþingishátíðina 1930. Allar kynslóðir síðan hafa gengið í honum. Hekla hefur alltaf haft mikið dálæti á honum og vill helst fara sem oftast í hann. Nú er hún vaxinn uppúr honum og finnst nú að amma hennar gæti nú alveg stækkað hann.
Við Hekla erum miklar jólastelpur og elskum allt jólastússið, föndrum, skreytum, syngjum, bökum, kíkjum á jólasveinana ofl. ofl. Já við trúum víst á jólasveinana íslensku. Höfum sko séð alvörujólasveina.
Já það er sko gaman að klæða sig upp ekki síst á öskudaginn. Eitt árið var hún Lína langsokkur og hélt mikið upp á Línu og fannst sjóræningjaskip hlyti að vera mest spennandi staður í heimi.
Skartgripir og snyrtivörur voru númer eitt lengi vel og er svo sem enn þó ekki eins ýkt og þarna enda nýbúin að komast yfir mikið safn af glingri frá langömmu sinni.
Birgitta Haukdal var lengi vel fyrirmyndir hér er sungið af mikilli innlifun.
Látum gott heita í bili enda hafa komið myndir af prinsessunni reglulega hér inn síðustu mánuði.
6.9.05
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Hæ Asa skiladu Afmælis kvedju til
Heklu Og takka ykkur fyrir kortid
Nu get eg tekid massa av mindum
Eg legg a stad kl 05 og kem 22 til Capetown.Eg sendi raport.
Bæ Stebbi
Hún er dásamleg hún Hekla okkar. Eitt bros, orð, eða knús getur eitt hvaða skugga sem er úr dýpstu sprungum heilans.
Skrifa ummæli