6.12.05

Búin

Jæja þrátt fyrir ýmsa þröskulda síðustu dagana kláraði ég lokaverkefnin mín í dag og fór með þau í prentun í dag og skilaði af mér. Þá er þessum kafla lokið í lífi mínu og eitthvað annað tekur við. Þessi ár í skólanum hafa verið skemmtileg og gert heilmikið fyrir mig.

Þetta byrjaði allt með því að mætur maður stakk upp á því við mig að skella mér í smá íslensku upprifjun sem ég fór í í Fjölmennt þegar það merka framtak fór í gang áður en ég vissi af var ég komin í fjarnámi við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Áður en ég vissi af var ég komin í dagskóla og fyrr en varði var ég komin í fullan skóla í Vefsmíðanámi og kláraði það núna.

Maðurinn og lærimeistari minn sem kom mér af stað í þetta allt saman og var mín stoð og stytta frameftir þessu lést um aldur fram á föstudaginn var. Blessuð sé minning hans. Hann var mjög merkur maður og mikill hugsjónamaður með stórt hjarta. Guð hefur þurft á honum að halda í önnur verkefni eftir sitjum við með holu í hjartanu.

Dagurinn í dag var annasamur þrátt fyrir lok lotunnar. Fyrst var farið í Samveruna og súpuna hjá Sjálfsbjörg þar sem ég bauð fram krafta mína í það mæta verkefni.

Átakshópur öryrkja hittist svo seinnipartinn þar sem var verið að undirbúa meðmælagöngu og fund á föstudaginn þar sem á að afhenda alþingismönnum jólapakka. Skýrsluna góðu.

Í kvöld var svo saumaklúbbur hjá mér og talsvert saumað og mikið malað. Notalegt þar sem ég hef sökum anna ekki getað mætt mikið í vetur. En þetta stendur allt til bóta.

Nú bíða jólagardínurnar eftir mér. Í fyrsta sinn í mínum langa búskap eru þær ekki komnar upp enn. Tek bara jólaflippið vel út alla vikuna vonandi.

Það stefnir svo í mikla leikhúshelgi hjá mér. Við Hekla ætlum að sjá Jólaævintýri Hugleiks í Tjarnarbíói. Og svo verður fyrsti leikstjórafundurinn á laugardaginn sem við ætlum að enda á leikhúsferð og sjá Halldór í Hollivúdd.

En á morgun miðvikudag á að hittast kl. 17.00 í Halanum og mála spjöld fyrir gönguna á föstudag. Vonandi mæta allir sem vettlingi geta valdið.

1 ummæli:

Kjaftaskurinn sagði...

Til hamingju með að vera búin að ljúka þessum áfanga. Nú mæli ég með góðri slökun og hvíld í desember.
Kv. Dóttirin