3.12.05

Mælirinn fullur

Núna finn ég að það er komið nóg af álagi. Loksins. Ég þurfti að hringja stutt símtal í náinn ættingja til að fá smá upplýsingar. Ekki stóð vel á hjá þeim sem ég hringdi í, meðan á samtalinu stóð þá fann ég hvernig ég minnkað og minnkaði inni í mér og þegar viðkomandi var kominn á hæsta tóninn, já eiginlega öskraði á mig í símann var mér allri lokið og þegar símtalinu lauk var ég öll í molum og hágrét.

Þetta er ekki góð tilfinning en segir mér margt um mig sjálfa og ástandið sem ég er búin að bjóða mér uppá þetta haustið. Ekki leystist vandamálið sem varð til þess að símtalið átti sér stað en það verður bara að hafa það. Ekki geri ég aðra tilraun í þá áttina í bráð. En fer í að reyna að púsla sjálfri mér saman áður en allt fer í alvarlegt óefni.

Ég er nú í síðustu verkefnunum í skólanum með tilheyrandi pressu, búin með gagnagrunninn og næstum með annað plakatið sem mér reyndar vantar smá aðstoð við og hitt er að fæðast í huganum held ég. Eftir þessa reynslu af sjálfri mér held ég að ég segi svo stopp við meira skóladóti og sleppi alveg enskuprófinu enda kemur það ekki til með að skifta neinu máli í loka uppgjörinu fór bara í hana til að þjálfa mig í henni.

Annars er jólaskapið stutt undan og ég nýt þess á ferð minni um bæinn að fylgjast með jólaskreytingum hér og þar. Þegar seinna plakatinu líkur þá fer ég á fullt og næ í glaða og hamingjusama jólabarnið sem er inni í mér.

Þegar þessi orð eru skrifuð eru 21 daga, 4 klukkustundir, 19 Mínútur og 22 Sekúndur til jóla.

Engin ummæli: