9.12.05

Erfiður viðsnúningur

Það gengur illa að slaka á eftir törnina. Ég æði úr einu í annað sem kemur sér stundum vel. Hef verið að gera ýmislegt hér heima sem setið hefur á hakanum, misskemmtileg. Þvoði eldhúsgluggann setti í hann seríu og jólagardínur. Rótaði í jólakössunum og drita skrauti hér og þar. Er komin með stóra borðið á mitt stofugólfið og þar er ég að bagsa ýmislegt, saumaði 3 koddaver, stytti buxur, stagbætti kagbættar uppáhaldsbuxur sonarins, föndra og er rétt í upphafsskrefunum í því. Er búin að fá loforð um nýjan bakaraofn fyrir jólin svo hver veit hverju ég tek uppá næst.

Í gær fór ég í sundleikfimina mína yndislegu. Þaðan beint í Halann og fékk kast þar við að mála á meðmælspjöldin fyrir gönguna á morgun. Það var ansi skemmtileg, skemmti mér svo vel að ég var næstum of sein á jólatónleika í Grensáskirkju í gærkvöldi, hafði engan tíma til að borða (já alveg satt).

Samkór Kópavogs og Reykjavíkur héldu sameiginlega tónleika það var notaleg stund, maður slappaði af og lét jólalögin síga inn í hjartað, frábært. Ekki skemmdi fyrir að mágkona mín elskuleg söng eins og engill í öðrum kórnum. Takk Olla fyrir gott kvöld.

Hekla ætlar með í gönguna og við ætlum svo í leikhús saman annaðkvöld þannig að ég sé nú ekki fram á neina slökun strax en það kemur. Vakna enn fyrir allar aldir en hamast við að snúa mér á hina, kann það varla lengur, hlýtur að koma með æfingunni.

Engin ummæli: