Enn stend ég upp á haus í ofvirkninni brjálað að gera annars er ekkert gaman !!!
Á föstudaginn fórum við hjónin með Heklu í meðmælagönguna frá Hallgrími niður á Austurvöll í skítsæmilegu veðri en blautu. Fjölmiðlar segja að það hafi verið um 400 manns í göngunni hef ekki hugmynd um það en það var mjög góð stemming og spjöldin virkuðu fínt. Örn fór í nýja hjólastólnum og kom hann bara vel út. Lagði ekki í að fara á Viktoríu vegna tvísýns veðurútlits. Fundurinn gekk líka mjög vel þrátt fyrir úrhelli. Hekla tók þátt í þessu stússi gamla settsins af mikilli einbeitingu en trúir því nú að hagur öryrkja fari batnandi fyrst Davíð ræður ekki lengur.
Á föstudagskvöldið skelltum við Hekla okkur svo á Jólaævintýri Hugleiks í Tjarnarbíói. Þar áttum við frábæra kvöldstund með þessum skemmtilega leikhóp. Við hrifumst báðar upp úr skónum. Mæli hiklaust með þessari sýningu fyrir fólk á öllum aldri. Keyftum líka geisladisk með lögum úr sýningunni sem er búinn að vera á fóninum síðan. Mikið gaman og þjóðleg stemming. Heklu fannst merkilegt hvað þau notuðu ljót orð og átti ekki orð yfir þennan dónalega orðaforða sumra leikara og á geisladisk líka. Fussum svei en hafði samt gaman af. Stundum á spennandi augnablikum var gripið í hendina á mér og haldið fast gegnum sumar draugasenur.
Sú stutt var svo hrifin þegar hún kom út að hún neitaði að fara lengra en út í bíl fyrr en hún væri búin að hringja í báða foreldra sína til að tjá þeim hrifningu sína. Já þetta er sko eins skemmtilegt og Harry Potter bara öðruvísi. Það er sko stórt hrós frá minni ömmustelpu. Henni fannst líka merkilegt að þau væru búin að stela grímunum frá Halaleikhópnum. En amma leiddi hana í allan sannleikann með grímurnar.
Undur og stórmerki gerðust á föstudagsmorguninn ég fékk nýja bakaraofn eftir 8 ára bið. Þolinmóð kona. Já góðir hlutir gerast hægt. Á laugardag var hann svo vígður með Pavlóvinni góðu. Og vitir menn hún tókst æðislega. Í dag sunnudag var svo skellt í Piparkökur og jólastemmingin í algleymingi. Sigrún Ósk kom og hjálpaði okkur við að fletja deigið út við erum orðin svoddans hró í höndunum. Þetta var yndisleg stund.
Annars mátti Hekla ekkert of mikið að vera að þessu hún þurfti jú að lesa Harry Potter. Hún liggur í henni nótt og dag og þrælast í gegnum þessar 740 bls. með hjálp en er farin að lesa heilmikið sjálf alveg dottin í bókaorminn eins og hún á kyn til. Við erum ansi stolt af henni enda er þessi bók ansi þung leslega séð og líka í kílóum mesta furða hvað prinsessan puðar. Meðan á bakstri Pavlovunnar stóð fannst Hekla inni í búri á stól að lesa. Hún sem veit ekkert skemmtilegra en baka.
Á laugardagskvöldið fór ég með Villa lýsing í Þjóðleikhúsið að sjá Halldór í Hollivúdd, þvílíkt flopp sýningin var ömurleg sagan var alls ekki að gera sig. Sviðsmynd og búningar voru flott en annað bull. Ekki fleiri orð um það.
Palli og Frosti komu í Pavlovu og Piparkökur í dag og var Palli þá gripinn í að setja upp hilluseríurnar ásamt Sigrúnu. Takk fyrir hjálpina bæði tvö :-)
Sigrún Jóna systir er 59 ára í dag og bjölluðum við í hana hún var hress og biður að heilsa öllum. Ég heyrði líka í Stebba bróðir og Villa um helgina og allir eru hressir og kátir og biðja að heilsa öllum.
En lífið er ekki tómt gaman, dauðinn stígur dans í kringum mig þessa dagana og það stefnir í mikla jarðafaraviku næstu dagana. Pálmi Ólafsson Holti lést í síðustu viku. Fyrir þá sem ekki þekkja sögu mína þá var hann eitt sinn það sem kallaðist fósturafi minn, sem sagt faðir fósturmóður minnar. Pálmi var fínn karl og reyndist mér alltaf mjög vel. Það veltur svo á því hvaða dag hann verður jarðaður hvort ég fer norður eða ekki. Því það á líka að jarða Helga Jósefsson lærimeistara minn í vikunni.
Ég tók þá ákvörðun fyrir nokkrum árum að slíta sambandi við þessa fjölskyldu að mestu vegna hluta sem ég réð ekki við þá. Nú er kominn tími til að horfast í augu við sjálfan sig og vona hið besta. Allavega býst éf við að fara ef það verður ekki sama dag og hin jarðaförin og veður og færð leyfa langferðir.
11.12.05
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli