4.6.07
Vistaskipti
Nýja slóðin er http://ormurormur.blog.is/ svo endilega kíkið þangað. Þar er ég líka komin með myndaalbúm með skartgripunum sem ég er að dúlla mér við.
31.5.07
Perluæði
Það fór sem mér datt í hug. Ég fékk grænan miða á bílinn. Pústið var ekki nógu þétt til að hægt væri að mengunarmæla hann. Mátti svo sem vel vita það. Mig vantar að vinna í lottó á morgun svo ég geti keypt draumabílinn með lyftu fyrir hjólastólinn.......
Annars fór dagurinn meira og minna í stærðfræði með Heklunni minni. Verð að finna annan tíma fyrir Gambíusöfnunina. Smá félagamálastúss en aðallega heilabrot. Það er erfitt að hjálpa krökkum í dag í stærðfræði þar sem ekki má nota gömlu aðferðirnar sem hafa dugað síðustu kynslóðum. En vonandi gengur henni vel á morgun hef svo sem ekki trú á öðru enda vel gerð stúlka og samviskusöm.
Er enn að prófa mig áfram með moggabloggið, bætti við nokkrum tenglum
bloggspekuleríngar
moggabloggið mitt er www.ormurormur.blog.is
Fann meira að segja stórvin minn Grétar Pétur sem er farinn að blogga þar.
29.5.07
Vorferðalag
Hátúnshópurinn minn skellti sér með rútu í vorferðalag austur í Fljótshlíð og Emstur. Við fengum einmana veðurblíðu og nutum dagsins og útsýnisins. Að sjálfsögðu fengum við okkur súpu eins og alla aðra þriðjudaga. Stoppuðum í Kaffi Langbrók þar sem sannur víkingur og hans frú tóku á móti okkur með þessarri dásamlegu kjötsúpu.
Hann flutti okkur svo rímur og ýmsan kveðskap meðan við snæddum. Fórum svo og skoðuðum með honum hof sem hann er að byggja að gömlum sið. Þrír fallegir minkahundar heilluðu okkur alveg og ekki síst Stefaníu.
Góður dagur í góðum félagsskap :-)
28.5.07
Ferming
Fór í gær norður á Hvammstanga í fermingu hjá honum Helga Jóhannssyni. Syni Jóhanns Indriða Kristjánssonar sem er sonur hennar Auðar Jónsdóttir sem er dóttir Iðunnar heitinnar Bjarkar sem var systir hans Ödda míns.
Já eitthvað er ættfræðin nú flókin en hann Jói er nú einn af okkar nánustu fjölskyldumeðlimum þó blóðið segi nú kannski eitthvað fjarlægara. Þetta var stórglæsileg fermingarveilsla í safnaðarheimilinu. Og ekki skánaði nú ættartengslin þegar maður fór að spá í hver væri skyldur hverjum. Hann Helgi minn er ríkur strákur á 7 systkini og tvenn pör af foreldrum, fóstursystkini og ættingja úr öllum áttum. Sem sagt íslensk stórfjölskylda eins og hún gerist best. Og allir í sátt og samlyndi eins og það á að vera.
Það var æðislegt að fá loks að hitta norðurlegg fjölskyldunnar, hittumst alltof sjaldan hin seinni ár. Ekki spillti veðrið deginum og ánægujulegt ferðalag. Fleiri myndir úr fermingunni má sjá hér.
26.5.07
Kleppur er víða
Þeir héldu m.a. tveggja daga ráðstefnu stórglæsilega á Grand Hóteli með mikið af merkum fyrirlesurum. En árið er 2007 og það er eins og þeir sem eru í þessari afmælisnefnd hafi ekki verið með í þjóðfélaginu síðustu kvartöldina eða svo. Jú kíkið á auglýsinguna fyrir ráðstefnuna http://www4.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/htmlpages/index2.html#frettir_3863 og lesið neðst. "Starfsfólk geðsviðs og fagfólk utan LSH velkomið" !!!
Hvað með notendur og aðstandendur. Þeir eru ekki velkomnir eftir þessari auglýsingu að dæma, reyndar sé ég í mogganum í dag að eitthvað eru þau farin að skammast sín og þar segir á öðrum degi ráðstefnunnar að allir séu velkomnir.
Ef þetta eru ekki fordómar þá veit ég ekki hvað og verð að segja að ég er mjög móðguð fyrir hönd okkar notenda og okkar sem hafa staðið í baráttunni síðasta áratuginn.
Ég var samt á Kleppi (ekki Grand) í dag í glæsilegri afmælisveislu sem öllum var boðið velkomið að koma. Ég var með kynningarbás að kynna Vin. Fór svo á málþing um fordóma. Flott málþing en einhvernveginn ekki í takt við það sem aðrir á spítalanum eru að gera.
Ég segi bara Kleppur er víða og það fyndna við þetta er að yfirskrift Grandráðstefnunnar er Kleppur er víða.
25.5.07
Cusco
Palli og Frosti biðja að heilsa frá Cusco í Perú. Þeir eru búnir að fá háfjallaveiki og drullu :-) En eru orðnir góðir og skemmta sér vel. Iss held þeim hefði verið nær að vera bara á Fróni
Æ nei meinti það ekki.
Allir að mæta í 100 ára afmæli Klepps á morgun
24.5.07
Kveðja frá s. Afríku
Palli er í Perú, Stebbi í Noregi og Sigrún í Danmörk. Meiri heimshornaflakkararnir þessi systkini mín. Ég fór þó út úr bænum í kvöld alla leið í Kópavog á fína tónleika hjá Samkór Kópavogs þar sem Olla mágkona var að syngja. Þar frétti ég að hún hefði verið að kaupa hús í Mosó í dag tilbúið undir tréverk. Næg verkefni framundan á þeim bæ.
Hannes og Prisella eru búin að koma sér fyrir í Hátúninu og hlakka ég til að kíkja til þeirra.
Allt stefnir í að ég fari í fermingu á Hvammstanga um helgina :-) Hann Helgi hans Jóa á að fermast.
Svo ætla ég að stefna á vinagrill um helgina líka og kannski mikla spilamennsku líka. hver veit hvernig það endar.
22.5.07
Dóttirin í ham
Ekki leiðinlegt að eiga svona skemmtilega mömmu :-)
Búin að uppfæra tengilinn
Ekki nóg með það heldur er sonurinn búinn að breyta um ham orðinn svo sólbrúnn og sæll í nýju útivinnunni sinni að mér stórbregður alltaf þegar ég sé hann. Svo er hann líka orðinn félagslyndur hringdi heim í dag og tilkynnti mér að hann ætli að hafa fund heima í kvöld..........
Ég bara lokaði mig inní herbergi og horfði á pólitíkina gossa
Fékk þetta sent í tölvupósti
1. Það eru að minnsta kosti tvær manneskjur í þessum heimi sem þú myndir deyja fyrir.
2. Það eru að minnsta kosti 15 manns í þessum heimi sem elska þig á einhvern hátt.
3. Eina ástæðan fyrir því að einhver hati þig er, viðkomandi vill vera eins og þú.
4. Bros frá þér getur fært einhverjum hamingju, jafnvel þótt viðkomandi líki ekki við þig.
5. Á hverju kvöldi, hugsar EINHVER til þín áður en viðkomandi fer að sofa
6. Þú ert himinn og jörð hjá einhverjum.
7. Þú ert einstök og sérstök í þessum heimi
8. Einhver sem þú þekkir ekki, elskar þig.
9. Jafnvel þegar þú klúðrar málunum, verður eitthvað gott úr því.
10. Þegar þér finnst heimurinn hafa snúið í þig baki, líttu aftur á.
11. Mundu alltaf eftir hrósum sem þú færð. Gleymdu dónalegum hreytum.
Ákvað þar sem bloggletin er alsráðandi hjá mér að setja þetta hér inn.
Já og mundu………þegar lífið afhendir þér Sítrónu /Lime, biddu þá um Tequila og salt!
15.5.07
Stærðfræði getur verið höfuðverkur
14.5.07
timarit.is
11.5.07
Til hamingju með afmælið elsku Öddi minn
Já veit að það er komið miðnætti og hálftími betur bara var að sinna húsmóðurverkum eftir Eurovision. Og skellti svo í tvær brauðtertur.......
Í fyrsta skipti í mörg ár er ég alveg viss hvað ég á að kjósa í kosningum merkilegt.
Annars var þetta ánægjulegur dagur í meira lagi og ábatasamur fyrir þau félög sem næst mér standa í félagsmála stússi mínu öllu. Fór fyrir hönd Ferðafélagsins Víðsýn að sækja styrk upp á 300 þús kr til heilsutengdra ferðalaga. Um leið fékk Halaleikhópurinn líka 300 þús. kr, Sjálfsbjörg fyrir Krika 500 þús. kr. og HH Hátúnshópurinn sem er samveru og súpu verkefnið mitt gamla góða 200 þús. kr. Frábært og mörg góð og verðug málefni önnur fengu úthlutun svo ég hætti að hafa móral yfir pokanotkun. Þó ég viti vel að þeir eru ekki umhverfisvænir en hvað um það sný mér að umhverfismálunum á annan hátt.
10.5.07
Mér tókst það
Það sem ég hef mér til málsbóta er að ég skemmti mér vel ;-)
Mæli samt ekki með þessu öllu á 6 dögum. Er nú að reyna að púsla mér saman fór samt á einn fund í dag. Og er nú að gera máttlausa tilraun til að taka til á skrifstofunni minni, skil ekki hvernig er hægt að drasla svona til. En þegar maður er í félagstússi á mörgum sviðum og nefndum í einu á sama tíma að perla og í fatasaum að auki þá fylgir þessu öllu alls kyns hlutir verkfæri og pappírsstaflar.
En ilmurinn úr eldhúsinu er indæll. Minn heittelskaði sem á afmæli bráðum er farinn að baka ;-) Kannski ég bara loki herberginu og taki til frammi ekki dugir lengur bara að kveikja á kertum það er orðið svo bjart úti.
2.5.07
gamlir taktar
Vin er staður sem hefur oft fleytt mér yfir margan hjallan og gefið mér orku til að taka á vandamálum hins daglega lífs. Þar er ávallt hægt að fá eyra til að skrafa í, holl ráð og áttavita eins og ég kalla það. Það er þegar maður fer að tjá sig og fær lausn vandans við tjáninguna. Ætla að vera duglegri að fara þangað á næstunni.
Fór svo á langan og duglegan stjórnarfund í Halanum, ariseraði ýmsu um austurferðina fyrir Sjálfsbjörg og skellti mér svo í leikhús nema hvað. Sá Bingó í hjáleigunni hjá leikfélagi Kópavogs og Hugleiks. Skemmti mér bærilega en var ekki alveg að ná samt leikritinu var of súrrealískt fyrir minn smekk. En leikararnir stóðu sig með mikilli prýði og öll umgerð skemmtileg.
Var að leita mér að buxum í vikunni og finn engar sem eru nógu stórar eða nógu litlar eða bara passa á mig. Gafst upp nennti þessu ekki og fór og keypti mér efni í tvennar buxur. Bjó svo snið áðan eftir uppáhaldsbuxunum mínum. Gömlu taktarnir alls ekki gleymdir. Sníð á morgun og sé til hvað tíminn leyfir þarf víst að skreppa aðeins upp á Akranes í embættiserindum :-)
Vorið er komið fuglarnir syngja við gluggan minn í kapp við verkamenn sem eru að byrja að athafna sig fyrir neðan svefnherbergisgluggann minn. Sá líka fífil í gær svo vorið er örugglega komið. Langar í sumarjakka......................
misnotkun á börnum
Hvað er í gangi eiginlega. Sá börn í dag með strokk um höfuðið greinilega merkta stjórnmálaflokki. Mér líst mjög illa á þetta svo ekki sé meira sagt.
Verndum börnin okkar og virðum þau sem manneskjur. Börn hafa ekki þann þroska sem þarf til að mynda sér skoðun á stjórnmálum
Næstum búin að gera sömu mistökin aftur
Ætlaði bara að bera ykkur öllu sérstaklega Hölum og fjölskydunni kærar kveðjur frá Villa í south afríku. Þegar ég sagði honum hvað leikrit slúðrið væri helst að tala um sagði hann nú bara að það lægi við að hann færi að reka á eftir sölunni og koma leika í því stykki..................
Nú er leiklistin að komast í frí eða þannig eftir á að ganga frá eftir sýninguna og halda lokapartý, en það er allt í vinnslu. Stjórnarfundur í dag. Og svo saumaklúbburinn beint á eftir.
Á fimmtudag er líka annríki þarf að pakka niður fyrir okkur hjónin, þvo upp úr körfunni og klára að gera fyrirlesturinn sem ég flyt með Sjálfsbjörg á Neskaupstað á sunnudaginn.
Þarf svo um kvöldið að skreppa á fund upp á Akranes með félagasmálanefndinni.
Um helgina á svo að fljúga austur á Hallormstað á aðalfund BÍL ásamt Erni og Hönnu Margréti þar verður örugglega mikil vinna og fjör.
Þaðan brunum við svo á Neskaupstað ásamt Leif og Stefáni og fulltrúa TR.
Svo er ekkert meira áríðandi á dagskrá svo ég get farið að huga að þeim verkefnum sem hafa hlaðist upp á sýningartímanum. Sinna ýmsu varðandi Víðsýn sennilega fara á námskeið í næstu viku. Klára heimildarvinnuna kringum vef Halaleikhópsins sem er ærið starf þar sem mjög illa gengur að fá fólk til samstarfs. Svo er ég að smíða annan vef um leyniverkefnið. En mest af öllu hlakkar mig til þegar KRIKI verður kominn með reglulegar opnanir.
Óleyst er líka bílamálið sem liggur þungt á mér þessa dagana enda bíllinn okkar búinn að vera bílaður á aðra viku. Ég verð að kaupa nýrri bíl helst nýjan en hef ekki efni á því. Þarf að fara í endurfjámögnun eða eitthvað svo endar nái saman þar til stjórnmálaflokkarnir fari að uppfylla öll l0forðin sín.
1.5.07
Detti úr höfði mér allar dauðar lýs
Mér er algerlega ómögulegt að skilja þetta, er alveg viss um að þetta var ekki draumur því ég photoshoppaði mynd af okkur perluvinkonunum og setti inn og hún er hér í sinni möppu.
??????????????
Meðan ég skrifaði þetta datt ég niður á lausnina. Ég birti hana á annari bloggsíðu sem ég er með í vinnslu :-) Meira um það seinna, svona getur maður verið ruglaður. Svo ég bara kópíera hana og hér sem sagt kemur hún:
Mátti til að skella þessari fínu mynd af okkur perluvinkonunum þar sem við vorum að reyna að selja skartgripina okkar á handverksmarkaði í Hinu húsinu. Þetta var skemmtilegur dagur en salan dræm. Svo nú verður gripið til annara ráða til að fjármagna þetta skemmtilega hobby okkar. Allt í vinnslu.
Leiklistarveislan í Borgarleikhúsinu í gær gekk vonum framar, fullt hús og mikið fjör. Allt gekk upp í báðum verkunum sem Halinn tók þátt í og nú er ég sem sagt búin að ná þeim áfanga að stíga á svið í Borgarleikhúsinu og leika þar :-) Ekki það að ég ætli að leggja leik fyrir mig alls ekki.
Þetta Þjóðarsálarverkefni var bara svo skemmtileg og frábær hópur sem gat smækkað atriðið úr reiðhöllinni og á Nýja sviðið. Svo var partý á eftir sem Sigrún Sól bauð uppá í forsalnum. Mikið sungið og haft gaman af.
Í dag ætla ég svo í afmæli hjá mínum ástkæra mág Frosta sem bíður í pönnsur og kakó og leiklestur m.m. Til hamingju með daginn Frosti minn.
28.4.07
Allir saman nú
Sem sagt milli 13 og 17 í dag laugardag verð ég í Hinu húsinu að selja skartgripina mína á handverksmarkaði sem er í tengslum við List án landamæra. Allir að kíkja á mig og Hönnu Margréti og Stebbu. Perluvinkonurnar allar að reyna að hala uppí kostnaðinn við skemmtilega hobbýið okkar.
Ég mæli með allir taka höndum saman og skelli sér niður á tjörn rétt fyrir kl. 13.00 og taki þátt í gjörningnum TÖKUM HÖNDUM SAMAN lalli sér svo út í Hitt hús og fari á geðveikt kaffihús og kíki á perluvinkonurnar í leiðinn.
26.4.07
Til hamingju með afmælið Gabríel Temitayo
Já það verður annasamur laugardagur og einn af þessum dögum sem maður vill helst geta klónað sig. Skemmtilegt að hafa mikið að gera en leiðinlegt að geta ekki sinnt öllu. Eyjólfur vinur minn er að sýna í Ráðhúsin hlakka til að kíkja á það.
Það var aðalfundur í Trimmklúbbnum Eddu áðan þar er 20 ára afmæli í uppsiglingu og sundleikfimin búin í vetur og göngurnar að hefjast, hlakka til að komast í göngurútínuna aftur.
24.4.07
Hamingjusamt ævikvöld
23.4.07
Til hamingju með afmælið Villi
Ætti ég að hringja í hann til afríku og syngja með minni íðilfögru röddu afmælissönginn ? :-)
Í tilefni dagsins ætla ég að taka vaktina í Samverunni og súpunni og lofa að það verði góð súpa í tilefni dagsins. Endilega kíkið við milli 11.30 og 13.30 hjá Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu. Hátúni 12.
Mátti til með að setja inn mynd af hinum fjórum fræknu systkinum sem af undarlegum orsökum hefur tekist að smala öllum nema Sigrúnu Jónu í stofusófann og það í sparifötunum.
(Ok afmælið er ekki fyrr en eftir klukkutíma en ég hef nú alltaf bráðlát verið. Verð líka að fara að sofa fyrir miðnætti svo ég vildi setja þetta inn áður bara svo enginn missi nú af þessu af næturgöltunum.)
22.4.07
Fermingarmyndin :-)
21.4.07
Allra síðustu forvöð
En nú er síðasta tækifæri á morgun sunnudag 22. apríl kl. 17.00 til að sjá þessa stórskemmtilegu sýningu. Skora ég á þá sem ekki hafa enn komið að drífa sig nú, lofa góðri skemmtun. Sjá nánar á www.halaleikhopurinn.is
Ekki það að það setur að manni ákveðinn trega þegar sýningartímabilinu er að ljúka og séð fyrir endann á því. Maður er búin að leggja alla sína orku og sál í þetta verkefni og því viðbúið að ákveðið tómarúm myndist.
En ekki vantar verkefnin og enn vildi ég stundum geta verið á tveimur stöðum á sama tíma enda margt skemmtilegt framundan. List án landamæra hefst um næstu helgi og þar er ýmislegt skemmtilegt sem ég mun taka þátt í. Við förum með brot úr sýningunni og sýnum í Borgaleikhúsinu 30. apríl og líka brot úr Þjóðarsálinni það verður mikið gaman að hitta þann hóp aftur.
Svo eru nokkrir fundir hjá Sjálfsbjörg og ferðalög því tengt vestur og austur um land. Og svo norður líka. BÍL aðalfundur á Hallormstað sem alltaf er gaman að koma á og hitta það kraftmikla fólk.
Svo á að fara að koma sér á framfæri með skartgripina og vonandi selja smá uppí kostnað :-)
Nú og mér skilst að vinnan uppí Krika sé um það bil að hefjast, gaman verður að sjá hvað kemur út úr því, og hversu langt peningarnir duga.
Afmælisár Halaleikhópsins heldur svo áfram og fullt af skemmtilegum hugmyndum í gangi.
Já ég verð að segja það að ég er glöð í sinni í kvöld vonandi þið líka :-)
19.4.07
Gleðilegt sumar
Mátti til að setja hér inn sumarmynd af mér síðan ég var 6 ára. Minningin segir mér að við höfum alltaf getað verið svona léttklædd öll sumur í bernsku. Þarna erum við Villi mjög líklega á Þingvöllum en þangað fórum við ansi oft í sunnudagsbíltúr á sumrin og svo í kaffi á Stokkseyri til ömmu Regínu.
Vonandi verður þetta sumar gott allavega byrjar veðrið á því að gefa góðan tón. Þó svo öll birtan þessa dagana fara hrikalega í mígrenið mitt þá jafnar það sig þegar á líður. Ég fékk þær fréttir í gær að vinnu uppí Krika utanhúss lyki 1. maí og hlakka ég mikið til að koma þangað aftur, þó ekki sé nú enn á planinu að vera þar allt sumarið eins og í fyrra. En kemur bara í ljós.
Njótið sumarsins á Íslandi fegursta landi heims :-) Þar sem veðrið hefur karakter. Njótið landsins og verum kát í sumar.
16.4.07
Fallegar stúlkur og gjörningur
14.4.07
Elli og Gróa
Alla vega er nú stórt högga á milli fjölskyldunni, Hannes og Priscela giftu sig á þriðjudaginn og óska ég þeim innilega til hamingju og vona að þau eigi bjarta og hamingjuríka framtíð saman. Þau giftu sig hjá sýslumanni og ætla að halda brúðkaupsveislu á sumardaginn fyrsta. Það verður gaman að sjá fjölskyldu hennar.
Á miðvikudaginn fylgdum við móðursystur Ödda til grafa Torfhildi Hannesdóttur mikilli sómakonu sem er nú gengin sinn veg. Mikil veisla þar í erfidrykkjunni og sjaldgæft orðið að hitta fólkið þeim megin í familýunni.
Sem sagt nóg búið að vera að gera og nóg framundan, manni ætti allavega ekki að leiðast þessa dagana. Samt er mikil depurð í mér. Já hef mikið velt fyrir mér hvort ég eigi að tjá mig um það mál hér en ætla samt að gera smá.
Þannig er mál með vexti að ég hef heyrt síðustu mánuði mikið baktal um mig og það frá manneskju sem ég taldi á meðal minna vina. Ég veit ekkert hvernig ég á að höndla þetta og finnst þetta allt að ósekju. Ekki hef ég gert þessari manneskju neitt en hún yfirfærir hin ýmsu vandamál á mig og hluti mér tengda.
Gróa á leiti er erfiður fylginautur og fer mjög illa í mína heilsu. Gigtin hefur sjaldan verið verri og ýmis gömul einkenni sem ég hef verið að mestu laus við nema dag og dag eru nú daglegir gestir og ekki síst á nóttunni sem orsakar svefnleysi og skapar vítahring sem erfitt er að rjúfa.
Ekki hef ég enn treyst mér til að ræða þetta beint við manneskjuna sem eflaust væri réttast en ég er kikken þegar kemur að því að verja mig sjálfa. Og er alveg ráðþrota í þessu máli. Eru einhverjar tillögur?
En að öðru þá ganga sýningar vel og margt skemmtilegt framundan í leiklistinni. List án landamæra nálgast óðfluga og þá hittist Þjóðarsálarhópurinn aftur það verður held ég mikið fjör.
En nú er hver að verða síðastur að sjá Batnandi mann sennilega síðustu sýningar um næstu helgi sjá hér. Nú svo ætlum við skartgripavinkonurnar að taka þátt í handverksmarkaði þann 28. apríl vonandi tekst það, tíminn er eitthvað naumur vegna æfinga í Borgarleikhúsinu.
5.4.07
Til hamingju með afmælið Bryndís mín
Í dag er skvísan orðin 14 ára og ég óska henni hjartanlega til hamingju með daginn. Svo á hún að fermast þann 15. apríl nk. svo mikið er um að vera hjá henni.
Hver er Bryndís spyr kannski einhver, hún er skáömmubarnið mitt eða þannig jú hún er stóra systir hennar Heklu minnar samfeðra. Algert gull eins og pabbinn.
Gleðilega páska
28.3.07
luðra og hamingja
Geðbókin var lánuð út þrisvar sinnum til hópa úr 8 bekk og þau spurðu mig í þaula stóðu sig mjög vel. Þetta er ansi skemmtilegt verkefni hjá þeim.
Fór svo og verslaði í Krónunni upp á höfða, kom út með 6 innkaupapoka :-) Voða gaman að fara í aðrar búðir en Bónus svona á milli.
Þegar heim kom var ég þreytt og slæpt og alveg tóm í hausnum. Fattaði rúmlega fimm að ég átti að vera á námskeiði hjá Auði Eir ;-( Hrikalega spæld að missa af því og súr út í sjálfa mig að klikka á þessu.
Við drifum okkur svo eftir soðninguna á félagsfund hjá Sjálfsbjörg þar sem stjórnmálaflokkarnir komu og kynntu áherslumál sín fyrir næsta kjörtímabil. Ekki tókst nú neinum þeirra að sannfæra mig um að best væri að kjósa sig. Sama staglið og rausið um hluti sem maður veit allt um efndir á.
Á miðjum fundinum fattaði ég að ég ætti eftir að skila inn skattframtalinu fyrir miðnætti. Fylltist af stressi og rauk í það þegar heim kom og gekk illa að færa upplýsingar úr heimabankanum yfir en fattaði svo að ég ætti ekki að skila fyrr en 29 svo ég gat slakað á.
Eða hefði átt að geta það en einhvernveginn tókst mér ekki að slaka á var orðinn full að stressi og allrahanda vanlíðan og sofnaði ekki fyrr en rúmlega 4 í nótt.
Ekkert of hress í dag og er búin að átta mig á ástæðunni og vonandi bara lagast það nú eins og ætið fyrr.
Í dag var svo reynt að taka því frekar rólega, fór niður í Vin að undirbúa smá fyrirlestur sem ég verð að hjálpa Guggu með á ráðstefnu á föstudaginn. Sóttum svo Heklu og dúlluðum okkur fram eftir degi.
Og ekki má gleyma aðalfréttunum GIFTING í uppsiglingu í familýunni veit ekki hvort ég má segja meir á þessu stigi málsins. Svo bara fylgist með þegar málin skýrast. Alltaf skemmtilegt þegar tvo hjörtu slá í takt og bara mjög spennandi allt saman.
25.3.07
Af hauslausum kanínum tyggjandi gulrætur.
Við Hekla skelltum okkur í Þjóðleikhúsið í dag með Labba og Stebbu og sáum Sitji guðs englar. Stórgóð sýning og frábær leikmynd og umgjörðin öll. Hekla var að koma í fyrsta sinn í Þjóðleikhúsið og það var gaman hjá okkur. Þarf að vera miklu duglegri að taka hana með í leikhús. Mæli með þessarri sýningu.
Við vorum alls ekki búnar að fá nóg og skelltum okkur á aðra sýningu hjá Leikfélagi Kópavogs strax á eftir. "Allt og ekkert" heitir hún og er einskonar sögustund. Frábært hjá þeim. Leikmyndin var sófar, stólar og borð og allt stillt upp eins og um kaffiboð væri að ræða enda var þetta kaffiboð, boðið uppá kaffi og með því heimabakað bakkelsi og ávextir með súkkulaði fondú nammi namm Æði.
Við vorum 10 Halar sem fórum saman og settumst hér og þar um sviðið. Leikendur komu svo og sátu milli okkar. Mjög heimilislegt og kósý. Svo byrjuðu þau á að spjalla og ég geri mér ekki fulla grein fyrir hvar sýningin hófst, en einn af öðrum sögðu þeir okkar alls kyns sögur mis skemmtilegar en athyglisverð leið til að ná til áhorfenda. Maður var þátttakandi en samt ekki. Eftir hlé dofnuðu ljósin og sögurnar fóru að vera meira myrkrasögur vel gert hjá þeim. Maður lifði sig vel inní þetta og hreifst með.
Skemmtilegt atvik var hjá mér þegar allt var orðið myrkt og hljótt, lág músik og rómantík í gangi og við vorum að melta sögurnar í rólegheitum, þá fékk Hekla sér gulrót og fór að bryðja hana með miklum látum í þögninni. Veit ekki hvort neinn annar en ég heyrði það enda sátum við þétt saman í myrkrinu. Málið var að fyrr í sýningunni var búið að tala mikið um kanínur og hauslausa kanínu sem var jörðuð í tuppperver boxi svo sálin komst ekki til himna ..... eða eitthvað í þá áttina og það flaug í gegnum huga mér að kanínusálin væri komin hér mér við hlið.
Allavega Takk fyrir kærlega Leikfélag Kópavogs fyrir þessa dásamlegu dagsstund og skemmtun. Ég hvet alla til að drífa sig á sýninguna hjá þeim. www.kopleik.is
15.3.07
Nýtt met ;-)
Leiklistin á hug minn allan og alls kyns stúss. Er líka búin að vera dugleg í perlinu og var með saumaklúbb í vikunni.
Fór líka á námskeið í að vera yndisleg hjá mínum uppáhaldspresti henni Auði Eir.
Bara er ekki í skriftarstuði þessa dagana. Er með hóstakjölt og slappleika sem ekki vill víkja þrátt fyrir miklar tedrykkjur með hunangi og alls kyns húsráðum.
Fram undan ströng helgi, var að koma af æfingu svo eru sýningar bæði föstudag og laugardag. Hekla mín ætlar að vera hjá okkur alla helgina. Foreldrarnir ætla upp á heiði í skátaútilegu. A la Hafernir.
Ingimar er kominn í nýja vinnu, byrjaði að forkælast svo nú hóstum við í kór.
Jú jú svo fengum við hjónakornin kast um síðustu helgi og keyptum okkur borðstofustóla þá fyrstu í okkar 30 ára búskap, var ekki kominn tími til. Strákarnir hafa svo verið ófáar stundir að setja þá saman sem gekk ekki alveg þrautalaust. Endaði með að ég fór og keypti handa þeim rafmagnsskrúfjárn svo nú erum við að verða svaka forfrömuð.
Hver veit svo hvenær fyrst matarboðið verði til að vígja herlegheitin. Maður er aldrei orðið heima á matartímum. Í dag var svínasteik á borðum kl. 5. Svona fer leiklistarbakterían með okkur.
4.3.07
Mars kominn :-) og strengd heit
Nú er bara að forgangsraða og að muna að hvíla sig. Ég strengi þess hér með heit að fara í rúmið fyrir miðnætti alla þessa viku. Ég er orðinn hinn mesti næturgöltur og veit að það er mjög svo skaðlegt heilsu minni. Svo fremst á forgangslistanum þessa viku verður að koma sér í rúmið fyrir miðnætti. Sjáum hvernig það gengur.
Vorið er finnst mér vera á næsta leiti og hugurinn hefur leitað upp í Krika í róleg heitin þar. Hver veit hvað þetta sumar ber í skauti sér.
27.2.07
Mesta álagið yfirstaðið
Einn áhorfandi bloggaði smá um sýninguna hér
Frumsýningarpartý var svo á eftir fram á rauða nótt og sló næluleikurinn þar enn einu sinni í gegn. Mikið gaman og mikið stuð.
Hjá mér hafa safnast upp verkefni meðan á törninni stóð en einhvern veginn er erfitt að vinda sér í þau. Það kemur. Fór þó að sinna stjórnarstörfum í Víðsýn í gær og tókum við Bjögga góða törn þar enda Bingó framundan á laugardaginn kl. 14.00 og svo er farið að styttast í aðalfundinn.
Ruslið á skrifstofunni minni má bíða en tek samt lag og lag og geng frá. Reyni líka að hvíla mig því þetta gríðarlega álag ofan í heilsuleysi hefur tekið sinn toll frá mér. En svona er það bara þegar það er gaman og það er það sem mér finnst skipta máli. Gleðin
20.2.07
Ég á ekki orð :-)
Annars er það helst af henni að frétta fyrir utan þetta að hún er farin að leika aftur með Halaleikhópnum. Leikur Sunnu Ólafsdóttir litla stúlku sem er í hjólastól eftir að hafa lent í bílslysi. Í leikritinu Batnandi maður eftir Ármann Guðmundsson. Og sú er nú að tækla það ekki að spyrja að því.
Nú nú svo fór hún í klippingu og stytti hárið mikla og síða um helming og það klæðir prinsessuna bara ljómandi vel. Hún ætlar svo að vera púki á öskudaginn. Hlakka til að sjá þá munderingu. Engin Silvía Nótt í ár.
Af 0kkur gömlu skötuhjúunum er lítið að frétta utan leiklistar, við eyðum orðið meiri hluta sólahringsins niðurfrá og höfum gaman af. Þó það braki í gömlum beinum og fólk sé lúið þá er uppskeran smá saman að sýna sig og frumsýning á laugardaginn :-)
16.2.07
Fyrirgefið öll sömul
Já að vera aðstoðarleiksktjóri er margbrotið starf og margir endar að halda í og aðrir sem maður þarf að reyna að sleppa þar sem aðrir eiga að halda í þá. Meðalvegurinn er vandrataður. En ég er afar stolt af leikhópnum mínum þessa dagana. Leikararnir kunna flestir textann sinn upp á 10 og stöðurnar eru að skýrast. Ekki síður er ég stolt af öllu fólkinu sem lagt hefur okkur lið á einn eða annan hátt í sjálfboðavinnu eftir vinnudag hjá sér.
Fólk er búið að þeytast um alla bæ að redda hinu og þessu. Það er búið að smíða, mála, sauma, tengja, bora, þrífa og finna út úr öllum mögulegum og ómögulegum hlutum svo fátt eitt sé talið. Allir eins og ein stór fjölskylda með bros á vör. Ef það eru ekki forréttindi að vinna með svona fólki þá veit ég ekki hvað.
Í gærkvöldi kom smíðaflokkur og lagaði áhorfendapallan okkar og ég hef grun um að þegar ég kem á svæðið í dag verði líka búið að teppaleggja þá með spánýju teppi.
En stærstu fréttirnar eru samt eflaust sá stóri sigur í sögu Halaleikhópsins að við erum að sjá fram á að geta keypt það sem okkur hefur dreymt um lengi, lengi tölvustýrt ljósaborð. Sem hópurinn ætlar að gefa sjálfum sér í 15 ára afmælisgjöf. Loksins aðgengilegt ljósaborð þannig að nú höfum við fleiri möguleika fyrir tæknimennina okkar sem hafa unnið hörðum höndum, jú hef líka grun um að þegar ég kem í dag sé verið að setja upp ljóskastara um öll loft. :-)
12.2.07
Til hamingju með afmælið Lovísa Lilja
Þessar myndir voru teknar í ágúst í fjölskylduboði varð bara að láta fljóta með þessa sætu mynd af ungviðunum í þessari fjölskyldu.
Gabríel Temitayo og Hekla. Eru þau ekki falleg ? eins og ættin ;-)
9.2.07
Sorg í huga skátanna
8.2.07
Vin til hamingju með daginn
Jú jú en ég er ekki alveg hætt með þessa síðu bara smá lægð í skrifunum sem gerist alltaf reglulega. Ekki það að ég hafi ekki nóg að skrifa um. Jú jú en bara hef ekki haft þörf fyrir að koma því hér inn undanfarið.
Lífið gengur sinn vanagang. Leiklistin í forgangi svona flesta daga ekki þó alveg. Heilsufar hefur truflað aðeins og ekkert markvert finnst út úr því. Maður er bara með erfiða vinstri slagsíðu eins gott að það var þó til vinstri. Þá er hægt að lifa með því skammlaust ;-) Sjúkraþjálfarinn ætlar að fara að skifta um aðferð á hryggnum á mér svo kannski réttist þetta. En til hvaða ráða hann grípur vekur hjá mér ótta, því hann á í sínum ráðabanka mikið að sársaukafullum aðferðum........................Hitti hann á eftir og hlakka alls ekki til.
31.1.07
Kjaftaskurinn kominn á kreik á ný :-)
Annars er allt gott að frétta héðan. Leiklistin er allsráðandi í lífinu þessa dagana, stífar æfingar flest kvöld og ýmiss undirbúningur og stjórnarstörf á fullu. Mörg eru handtökin og enn fleiri hugsin.
Handboltinn er að gera mig vitlausa, ég er svo mikill antisportisti að ég þoli ekki hvað hann hefur sett öll plön úr skorðum. En maður reynir að sína fíklunum þolinmæði og bítur á jaxlinn :-)
Fyrsti vísir af propslista er kominn á Halavefinn endilega kíkið á það og verið í bandi ef þið getið aðstoðað við að útvega þá hluti sem vantar. Annars er leikmyndin að rísa og byrjað að mála það sem komið er.
Mér er boðið í 80' partý á laugardaginn og klóra mér stíft í hausnum um það hvað ég eigi að fara í. Einhverjar hugmyndir? Ég er löngu búin að henda öllum flíkum svo gömlum enda hefði ég eflaust ekki passað í þær lengur :-) Hvað gerir maður í svona málum?????????
24.1.07
Og næstsætastur er......
Annars er bara allt fínt að frétta héðan úr húsinu á Sléttunni. Halinn hefur að mestu hertekið okkur skötuhjúin og okkur leiðist það alls ekki :-)
Skrapp þó aðeins í saumaklúbb í gærkvöldi og saumaði nokkuð marga krossa í Drottinn blessi heimilið myndina. Hafði ekki orku í saumavélina.
Var í læknastússi í morgun og ekki orð um það meir.
Æfingar ganga framar vonum á nýja leikritinu okkar og nú er að fara á fullt leit að búningum og leikmunum. Þannig að ekki vera hissa þó hér komi fljótlega listi inn.
Annars ber það helst til tíðinda á þessum bæ antisportistanna að nú er horft á handbolta enda raskar hann öllum æfingaplönum þessa dagana. Meira að segja ég horfði á fyrri hálfleik í dag og tapaði mér alveg yfir þjóðsöngnum. Önnur eins misþyrming á honum ég bara varð mjög hneyksluð og eins og þið vitið vonandi flest þá kemur það ekki oft yfir mig. Hélt þetta mætti bara alls ekki. Skyldi Ólafur Ragnar ekki vita af þessu. ...................
21.1.07
Hekla mín er ljúfust allra
19.1.07
ýmislegt í gangi
Æfingatímabilið í Halaleikhópnum fór af stað á fullu strax eftir áramót og fljótlega kom í ljós að mér var falið að vera aðstoðarleikstjóri surprise surprise hélt að allir væru löngu orðnir hundleiðir á stjórnseminni í mér. En Ármann bað um þetta og ég sem sagt sagði já.
Minn heittelskaði fékk hlutverk Dr. Bjarngeirs svo nú erum við hjónakornin meira og minna með hugann niðrí Hala ef við erum þá ekki þar.
Allt fór vel af stað og frekar hefðbundið, nokkrir byrjuðu og hættu við, það vantaði lengi leikara í ákv. hlutverk en þetta hafðist allt. Mér tókst að landa einum af bensínstöðinn sem hafði verið með mér á leiklistarnámskeiði hjá Helgu Völu. Svo nú lítur þetta allt vel út.
Stjórnin er full af reynsluboltum svo ég vona að nú lendi ekki allt í stressi síðustu vikurnar. Við erum að reyna að skipuleggja allt mjög vel, vonandi ekki þó um of :-)
Leikritið heitir sem sagt Batnandi maður og er frumsamið fyrir okkur af Ármanni Guðmundssyni sem leikstýrir okkur líka.
Þess á milli er ég búin að vera heltekin af skartgripagerð síðan í desember og finnst það bara gaman. Hér fæðast nýjir og nýjir eyrnalokkar næstum daglega og stundum hálsfestar er ekki komin á fullt skrið með þær enn.
Heilsan hefur ekki verið góð en reynt eftir fremsta megni að láta hana ekki stjórna hvernig lífinu er hagað.
Nú og ekki má gleyma félagsmálunum. Félgasmálanefnd Sjálfsbjargar er að hrinda af stað mjög spennandi verkefni sem ég vona að ég verði virkur þátttakandi í. Allt stefnir í ferðlög á þeim bæ.
Ferðafélagið Víðsýn er svo komið á fullt skrið, búið að ákveða að skreppa til London í lok maí og í hressingar og hvíldardvöl að Sólheimum í Grímsnesi í ágúst. Þar er allt að fara á fullt að undirbúa hið árlega fjáröflunarbingó sem verður þann 3. mars n.k. Munið að taka daginn frá :-)
Ekki má svo gleyma fjölskyldunni sem ég reyni að sinna líka, kjötsúpufjölskyldukvöld í kvöld.
Verð vonandi duglegri að blogga á næstunni.
17.1.07
Takk Takk Takk
Nokkrir höfðu samband og vildu commenta en kunnu það ekki svo hér koma leiðbeiningar:
Neðst undir hverjum pistli kemur nafnið mitt og tímasetningar á blogginu,
í næstu línu þar fyrir neðan kemur comment undirstrikað klikkið á það þá kemur upp það sem þegar hefur verið commentað á viðkomandi pistil neðstí í því er aftur undirstrikað post á comment klikkið á það, þá kemur gluggi sem með kassa hægra megin þar sem þið skrifið inn það sem þið viljið og endilega setjið nafnið ykkar í það líka Mjói kassinn fyrir ofan er ef þið viljið setja inn fyrirsögn. Fyrir neðan kassann er lína sem segir goggle bloggar / other / anonyminus
þar þarftu að velja milli ef þú er bloggari hjá blogspot eða gmail.com merkiðu í þá reyti en ef þú ert ekki bloggari í viðkomandi kerfum Hakarðu við other og þarf ekkert að hugsa um username og password heldur ferð bara beint í appelsínugula kassann sem á stendur publish your comment og klikkar á hann og það er nú allt of sumt. Þá ætti kommentin að vera komið á vefinn. Vonandi hafið þið gagn af þessu leiðbeiningum þvi það er svo gaman að fá öðru hverju comment. Líka svo maður hafi einhverja hugmynd um hverjir koma á þessa síðu.
12.1.07
Þekkir þú mig ?
1. Hver ert þú?
2. Erum við vinir?
3. Ef þú þekktir mig ekki, og mættir mér eitthversstaðar, myndirðu halda að ég væri á föstu eða lausu?
4. Hversu vel telurðu þig þekkja mig?
5. Láttu mig hafa gælunafn og útskýrðu afhverju þú valdir það.
6. Lýstu mér í einu orði.
7. Hvað er mest einkennandi við mig?
8. Hvaða búðir elska ég að fara í?
9. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?
10. Þegar þú hugsar til mín hvaða fimm hlutir detta þér fyrst í hug?
11. Hvernig stelpa er ég, og í hvaða týpu flokkarðu mig?
12. Hvað minnir þig á mig?
13. Ef þú gætir gefið mér eitthvað hvað myndi það vera?
14. Hversu vel þekkiru mig?
15. Hefur þig einhvern tímann langað til að segja mér eitthvað en ekki getað það?
16. Ætlarðu að setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?
17. Lokaorð til mín?
11.1.07
Fyllist depurð
4.1.07
Stóra stundin er alveg að fara að renna upp
Þetta leikrit leggst vel í mig allavega er ég búin að hlægja mikið af þeim pörtum af handriti sem ég hef þegar séð. Svo nú er bara að sjá til hvort maður fái einhver verkefni í kringum leikritið eða hvort maður er úti í kuldanum...........
Allavega vona ég að fjölmenni mæti á fyrsta samlesturinn sem byrjar kl. 20.00 í kvöld. Hlakka til að hitta alla Halana og kannski einhverja nýja. Enda eru allir velkomnir næg eru handtökin sem þarf að manna.
Gaman gaman sem sagt í dag.
3.1.07
Til hamingju með afmælið Ísak Orri og Svavar og Rebekka og Auður
Stórfjölskyldunni já Svavar mágur er þar líka en hann á afmæli á morgun. Til hamingju Svavar minn vonandi hafið þið það gott á Kanarí.
Rebekka Bjarnadóttir vinkona mín og ferðafélagi verður 60 ára þann 6. jan. nk. Við höfum ferðast mikið saman og leitast við að fá að vera saman í herbergi ef þess er nokkur kostur. Við erum líka saman í stjórn Víðsýnar og í sjálfboðaliðahóp RKÍ sem sér um kynningar á geðdeildum. Góð kona og merkileg. Hér er hún uppstríluð að fara í kvöldmat á fína hótelinu í Malaga í fyrravetur. Til hamingju með daginn Rebekka mín.
Auður uppeldissystir hans Ödda og frænka verður svo 50 ára þann 8. janúar nk. við vorum í svaka flottir fjölskylduveislu hjá henni á gamlárskvöld nú er hún á Kanarí. Hér er hún með yngsta barnabarnið í fanginu hann Almar Leó bróðir hans Ísaks. Til lukku Auður mín.
Jæja nóg af afmæliskveðjum þennan mánuðinn, sé til hvort ég nenni að setja inn áramótamyndirnar. Annars er að helst að frétta fyrir utan leikhúslífið að ég stútaði myndavélinni minni góðu á gamlársdag mér til mikillar hrellingar. Hún er búin að reynast mér vel og hefur verið mér einkar kær. Það á eftir að koma í ljós hvort það er hægt að lagfæra hana. Og hvort það borgar sig. .......