31.3.05

Öryrkja - fordómar

Fordómar og ekki fordómar. Mikið er talað um kynþáttafordóma í fjölmiðlum þessa dagana og hvernig sé alið á þeim. Ekki ætla ég nú að blanda mér í þá umræðu mikið en.
Fordómar spretta ekki af neinu nema vanþekkingu svo mörg voru þau orð.

Ég ætlaði að lesa Moggann áðan í rólegheitum og slappa aðeins af eftir að vera búin að vera mjög dugleg í dag setti tvo nýja vefi upp í skólanum i dag slóðirnar eru hér ef einhver hefur áhuga Litaverkefni og Siðfræðivefur

Þegar ég kom að bls. 7 þá blasti við mér þessi fyrirsögn Öryrkjum fjölgaði um 812 á síðasta ári og ég fékk reiðikast veit ekki af hverju. Það fer ferlega í taugarnar á mér þessi eilífa tilkynningaskylda og fréttaflutningur af því hversu mikið ríkið þarf að greiða öryrkjum. Og hversu mikið það hefur hækkað milli ára.

Mér finnst vera alið á fordómum gegn öryrkjum með þessu. Nóg er staða þeirra slæm í okkar velferðarþjóðfélagi okkar.

Fyrir þá sem ekki vita þá er ég öryrki og fæ frá ríkinu 59.980- kr á mánuði í laun og 8.153- kr. frá lífeyrissjóðnum mínum. Þetta eru nú öll ósköpin sem eru að setja ríkið á hausinn.

Ekki veit ég um marga sem geta lifað á þessu en víst er að ekki deyr maður af þessu. Ekki það að ég sé neitt að kvarta bara þoli ekki þessa fordóma sem mér finnst birtast í þessum eilífa fréttaflutningi úr hagtölum Tryggingastofnunar.

Það að vera öryrki er eitthvað sem enginn kýs sér svo mikið er víst. Enginn fer heldur á örorku nema að undangengnu örorkumati oft hjá mörgum læknum áður en endanleg niðurstaða fæst. Fyrir fólk eins og mig sem er ekki fætt með fötlun þarf líka að fara í reglulegt endurmat sem tryggir að enginn sem nær heilsu festist inní kerfinu.

Ég mæti oft fordómum bæði vegna þess að fötlun mín er sjaldnast sýnileg og heilsa mín mismunandi milli ára. Oft heyri ég hvers vegna ert þú ekki að vinna þú sem getur...

Eins þar sem ég hef margsinnis komið fram opinberlega og rætt eina af mínum fötlunum geðfötlunina. Þá heyri ég oft maður talar nú ekki um þetta svona.

Fyrir mér er þetta ekkert feimnismál ég er bara svona og fæ því ekki breytt. Hvers vegna þá ekki að lifa bara sátt við sitt hlutskipti og brosa í lífsins ólgu sjó.

27.3.05

Gleðilega Páska



Ég er búin að hafa það mjög gott í páskafríinu, liggja í leti að mestu og ná að hvílast heilmikið. Hef verið að dúlla aðeins með Heklu fórum að föndra eins og við erum vanar og sauma.

Stórfjölskyldan kom svo hingað í mat á föstudaginn langa. Það var ansi notarlegt að fá þau öll til sín, það er að segja þau sem eru á landinu við áttum góða stund saman. En sökum anna í leiklistinni hefur maður ekki sinnt fjölskyldunni sem skildi það sem af er árs.

Í dag förum við svo í páskalamb til Steina mágs þar sem við hittum svo fjöldkyldu Ödda alla. Þannig að þetta verða miklir fjölskyldupáskar.

Vinirnir hafa svo verið að detta inn einn og einn í kaffi og spjall þannig að þetta er ekkert annað en æðislegt frí.

Á fimmtudaginn kom gagnrýnin á Kirsuberjagarðinn loksins í Mogganum og var ég mjög ánægð með hana. Maður var orðinn skíthræddur þar sem birting hennar dróst svona en ég brosi bara hringinn.

Ekki hef ég snert við heimalærdómi allt fríið en það stendur nú til bóta.

Í morgun fékk ég æðislegt símtal frá Noregi Heiða frænka mín hringdi til að leita frétta og mynda af fjölskyldunni. Það símtal gladdi mig mjög mikið við erum systkinabörn og jafngamlar en hún búið lengi í Noregi. Eftir að foreldrar mínir féllu frá þá hefur einhverra hluta vegna rofnað sambandið við þennan anga stórfjöldkyldunnar nú kom hún á sambandi sem við ætlum að reyna að rækta.

Takk fyrir að hringja Heiða :-)

25.3.05

Afslöppunin gengur vel

Fyrir þá sem þjást af vambarpúkaeftirsjá er hér ansi góð grein á Baggalút

Gæt þessa dags!

Því gærdagurinn
er draumur
og morgundagurinn
hugboð
sé deginum
í dag vel varið,
mun gærdagurinn
breytast í
verðmæta minningu
og morgundagurinn
í vonarbjarma.

Gæt því vel þessa dags.

19.3.05

Erfið afslöppun

Já mín bara komin á bloggið dag eftir dag haldiði að það sé munur. Það er svolítið erfitt að ná sér niður eftir törnina.

Vaknaði kl 8 í morgun og minn ofvirki heili fór strax af stað. Gat þú róað mig niður til 10. Fór þá að skrifa Villa og Guðmundi til Afríku. Mikið sakna ég þeirra elsku strákanna minna. Endilega kíkið á bloggið þeirra.

Gat rétt stillt mig um að hringja í Árna hann var nefnilega búinn að hóta að strika alla út af vinalistanum sem hringdu fyrir hádegi. En djöfull langaði mig nú að stríða honum frænda mínum smá. Kíkið endilega á bloggið hans hann er frábær penni.

Eftir hádegi kíktu svo tveir Halar í kaffi, þrátt fyrir góðan ásetning þá var auðvitað ekki rætt annað en yfirstandi sýningu og allt sem því fylgir enda skemmtilegur og frábær hópur að vinna saman. Á ýmsu hefur gengið eins og vill vera þar sem stór hópur vinnur náið saman að krefjandi verkefni. Ég trúi því að þessi mikla vinna skili okkur öllum sem betri einstaklingum að lokum.

Sýningin er orðin mjög góð og slípast við hvert rennsli ef einhver á eftir að panta miða eru enn lausir miðar 1. apríl og 10. apríl miðasölusíminn er 552-9188.

Jæja sem sagt hugurinn er í Kirsuberjagarðinum ennþá. Síðdegis fórum við svo í barnaafmæli og fengum þessar fínu veitingar eins og í fermingarveislu. Takk fyrir mig Sirrý mín.

Kvöldið hefur svo liðið við sjónvarpsgláp og þvottavélamötun.

Og ekkert plan fyrir morgundaginn skildi ég geta slappað af og dinglað mér?

18.3.05

Arkitektastofa Ólafs Þórissonar

Loksins loksins komið PÁSKAFRÍ frábær tilhugsun að geta sofið út og gert bara það sem manni dettur í hug þann daginn.

Í morgun var uppskeruhátið í skólanum þar sem við opnuðum tvo vefi sem bekkurinn var að gera. Ég var í hóp sem gerði vef um ímyndaða arkitektastofu. Við unnum hana þétt réðum okkur framkvæmdastjóra og skiptum liði hver og einn átti þátt í verkefninu eins og gerist í hönnunardeild í alvöru fyrirtæki.

Ég er mjög sátt við útkomuna á mínum vef Arkitektastofu Ólafs Þórissonar. Við fengum góða dóma og það sem gerðar voru athugasemdir við var allt hlutir sem við höfðum velt fyrir okkur og tekið ákvarðanir um sem við stöndum að sjálfsögðu við.

Minn hluti verksins fólst mestmegnis í textagerðinni og Fréttabréfinu sem ég gerði einnig vorum við öll í að fara yfir og koma með hugmyndir, athuga hvað mætti betur fara osfrv. Strákarnir sem ég vann með voru allir sem einn frábærir og duglegir þannig að þetta gekk mjög smurt. Endilega kíkið á vefinn og Fréttabréfið.

Hinn hópurinn gerði vef fyrir bílasölu og leystu það nokkuð vel set slóðina hér.

Annars er allt gott að frétta æfingin í gær á Kirsuberjagarðinum gekk mjög vel sýningin er orðin mjög slípuð og fín. Enn lausir miðar í kvöld kl. 20.00 miðapantanir í síma 552-9188. Næsta sýning er svo 1. apríl og sýningarplanið og nánari upplýsingar á heimasíðu Halaleikhópsins, sem af gefnu tilefni er ekki mitt verk.
Ekki missa af frábærri sýningu

11.3.05

Elsku sófinn

Undarleg tilfinning helltist yfir mig eftir hádegi í dag. Í fyrsta skipta síðan 3. jan. sl. var ég ekki á neinum deadline með nein verkefni hvort sem er í Halaleikhópnum, skólanum, félagslífinu og á heimilinu mínu.

Ég leit á sófann minn fína og ákvað að máta hann þessa elsku, fyrst var ég eins og illa gerður hlutur, hamaðist við að leita í öllum skotum heilatetursins eftir verkefnum sem ég þyrfti að sinna núna. En komst að þeirri niðurstöðu að ég gat bara legið þarna óáreytt og án alls samviskubits.

Yndislegt líf. Lá lengi og hlustaði á Hund í Óskilum og Eyvöru Páls þar til ég kunni ekki við þessa leti lengur. Þarf víst að læra að snúa niður af mér aftur eftir annríki síðustu mánaða.

Framundan er svo helgarferð með saumaklúbbnum austur fyrir fjall þar sem við ætlum að skella okkur á ullarþæfingarnámskeið.

Nú svo er sýning á Kirsuberjagarðinum kl. 20.00 á sunnudagskvöldið miðasala í síma 552-9188 ef einhver á eftir að næla sér í miða

7.3.05

Spennufall á leiðinni

Loksins kom langþráð stund upp á föstudagskvöldið Kirsuberjagarðurinn var frumsýndur með tilheyrandi taugatitringi. Allt gekk mjög vel og leikarar og aðrir sem að sýningunni komu stóðu sig með mikilli prýði. Nú bíður maður bara spenntur eftir að lesa gagnrýnini um sýninguna. Ágæt stemming var í sal þó svo að rúmlega helmingur boðsgesta mættu ekki á svæðið.

Auðvita var svo mikið frumsýningarpartý að hætti Halanna. Þar var mikið skrafað og skeggrætt til morguns. Gaman gaman.

Í gærkvöldi var svo önnur sýning og eins merkilegt og það er þá er gömul álög á Halaleikhópnum að sú sýning gangi ver en aðrar. Í fyrra gekk sú sýning vel þannig að við treystum því að nú færi svo aftur.

Jú nokkrir hnökrar voru en þessu yndislega leikarar björguðu sér alltaf og hvor öðrum. Þannig að það sem ekki var eins og það átti að vera var ekki áhorfendum ljóst. Svo lentum við í miklu basli með loftræstinguna þannið að það var næstum liðið yfir tvo leikara sem er alls ekki gott. En hetjan okkar í gær var Kristin Guðjónsson hann lék fulla sýningu og ekki í neitt litlu hlutverki þrátt fyrir að eiga vera inn á sjúkrahúsi vegna bráða sýkingar sem hann fékk, var bara á sprautum. Já ef hann er ekki hetja þá veit ég ekki hvað.

Ég held ég sé ekki enn komin í spennufall eftir öll þessi ósköp en nú tekur alvara lífsins við fyrsta fríkvöld í margar vikur framundan eftir strangan skóladag.

Næstu sýningar á Kirsuberjagarðinum eftir Anton Tsjekhov í flutningi Halaleikhópsins er sunnudaginn 13. mars nk. Miðasölu síminn er 552-9188. Skora ég nú á alla bloggara að fjölmenna á þessa stórkostlegu sýningu.