30.4.06

Plögg og afmæliskveðja


Stóri dagurinn er að renna upp 1. maí og við í Borgarleikhúsinu :-)"List án landamæra" allir að mæta frítt inn. Hér er dagskráin en nánari upplýsingar um verkin er að finna HÉR
-Leiklistarveisla í Borgarleikhúsinu.
Tími 18:00 – 20:00
- Draumasmiðjan í samstarfi við Hafnarfjarðarleikhúsið
Sýnir brot úr Viðtalinu, s.k.‘’Duff’’ leikrit

- Hreyfiþróunarsamsteypan og danshópur Hins hússins
Sýna frumsamið dansverk.

- Halaleikhópurinn.
Sýnir brot úr leikritinu Pókok e. Jökul Jakobsson


- Hugarafl og nemendur í leiklistaráfanga fyrir lengra komna í MH
Sýna spunann Mismunatengsl

- Perlan.
Sýnir Mídas Konung

- Blikandi stjörnur.
Sýna atriði úr söngleikjum


Frosti mágur (sambýlismaður Palla) á afmæli í dag til hamingju með daginn Frosti minn. Setti hér inn mynd sem lýsir honum nokkuð vel enda frábær kokkur og veisluhaldari. Vonast til að geta kíkt inn til hans í Pönnsur milli anna í dag.

Gærdagurinn fór í veisluhöld, fyrst var 40 ára afmælisveisla Hússjóðs Öryrkjabandalagsins frábær veisla sem mikill sómi var af. Takk fyrir mig.

Fórum svo í göngutúr um Fossvoginn í sól og blíðu. Verst var að ég tók símann með hann hringdi nokkuð oft. Svona er að vera með mörg járn í eldinum. Tók líka myndavélina með og tók skemmtilegar myndir af mosavöxnum trjám í Svartaskógi sem ég lofa að setja inn í vikunni.

Fórum svo í matarboð í Blikahólana þar sem Hekla sýndi okkur listir sínar á nýja hjólinu tók líka mynd af því. Frábær matur í besta félagsskap í heimi fjölskyldunni. Takk fyrir mig krakkar

Bleikar gardínur flögra um Laugaveginn

Held það sé að grípa mig bloggleti aftur og kannski maður bara hætti og þó. Er frekar andlaus í skrifum þessa dagana.

Merkilegt því í dag hringdi í mig maður og bað mig að taka að mér stórt og mikið verkefni þar sem reynir verulega á rithæfileikana. En ég var nú ekki tilbúin að taka það að mér tel að í það stóra verk þurfi að minnsta kosti sagnfræðing og ekki er það nú alveg mín deild. En maðurinn gaf sig ekki og taldi upp kosti mína og tókst næstum að sannfæra mig um hversu frábær penni ég væri. En ég náði andanum eftir allt hrósið og sagði nei takk.

Reyndar merkilegt þessi merki maður og vinur minn hefur komið mér til að taka að mér hin ólíklegustu verkefni gegn vilja mínum og mörg stór skref hef ég stigið fyrir tilstuðlan orða hans. En þetta var to much svo maður bregði fyrir sig útlenskunni sem ég er svo góð í eða hitt þó.

Annars leið þessi dagur áfram í tómri sælu þrátt fyrir að byrja heldur seint sökum lítils nætursvefns eftir gott Halapartý fram eftir nóttu.

Við hjónakornin drifum okkur á aðalfund Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðin sem gekk stórvel og félagið í góðum gír. Var skellt í talningu atkvæða, fer að verða sérfræðingur í atkvæðatalningu með þessu áframhaldi. Á heimleiðinn var komið við hjá Bleika grísnum og fylltir nokkrir gulir pokar af góðgæti.

Mætti dótturinni og tengdasyninum í dyrunum heima ásamt prinsessunni sem var alsæl enda voru þau að koma frá því að kaupa flunkunýtt hjól 20" 6 gíra með alls kyns aukabúnaði. Gamla hjólið bar sitt barr ekki eftir áreksturinn við steinvegginn í fyrra sumar. Og kjarkurinn hjá þeirri stuttu að lagast enda þrjósk eins og amman.

Hekla var ekki í rónni fyrr en hún fékk pabba sinn til að setja það saman hjá okkur svo hún gæti farið út með afa á skutlunni til að prófa nýja gripinn. Auðvitað dreif Bjarni bara í þessu og það tók sinn tíma, svo við mæðgurnar redduðum bara Pitsuveislu fyrir alla fjölskylduna meðan Bjarni skrúfaði og skrúfaði.

Hvað er betra en góð stund með familíunni ;-)

En amma gamla er með leiklistarbakteríu á háu stigi svo ég stakk af úr öllu geiminu og gleðinni og fór í leikhús að sjá Systur hjá Hugleik með Labba og Stebbu. Lenti í merkilegri reynslu á leiðinni. Lögðum fyrir framan TR og gengum yfir götuna sé þá konu stökkva út úr bíl og grípa gardínur sem lágu í hrúgu ofan á kommóðu á miðjum laugaveginum og henda þeim inn í bíl og bruna í burtu. Þetta var einhvern veginn svo óraunverulegt í henni Reykjavík.

En þegar betur var að gáð var heil hrúga af ýmsu dóti á gangstéttinni (alveg eins og í útlandinu) og miði á vegg sem stóð gefins. Það var víst að hætt þarna antikbúð. Við Stebba förum að kíkja á þetta og sjáum að ma. var þarna hellingur af bleikum velúr gardínum af flottustu sort. Við gripum gæsina og skelltum þeim í skottið, kæmi mér ekki á óvart að þessi fínu tjöld ættu eftir að verða að glæsilegum leiktjöldum.

Þrátt fyrir fögur loforð var familían svo upptekin af hjólinu að það gleymdist að mynda fyrstu hjólaferðin á fína gripnum en ég bæti úr því seinna. Reikna með að sú stutta mæti hér með hjólið innan skamms. Það er að segja ef hún verður ekki strokin að heiman en hún gerði víst heiðarlega tilraun til þess í morgun þar sem henni fannst foreldrarnir ekki alveg nógu góðir. Pakkaði niður og smurði nesti en gafst svo upp og borðaði nestið úti á svölum ;-) Ef hún er ekki skild mér þá veit ég ekki hvað. Held samt örugglega að hún hafi sofnað sæl í kvöld eftir að foreldrarnir splæstu í hjólið.

27.4.06

Margir hnútar hnýttir

Í gær tóks mér loks að hnýta marga hnúta. Eins og alþjóð veit er ég félagsmálafrík og í gær held ég ég hafi hnýtt einhvern hnút í nánast allar nefndir og verkefni sem ég tek þátt í þetta árið nema sundleikfimina. Haldiði að ég hafi ekki gleymt henni. Fussum svei og skamm.

Dagurinn byrjaði í mikilli tölvuvinnu þar sem ýmsir hnútar voru hnýtti td. varðandi kynningarmálin fyrir 1. maí ofl. ofl. Heyrði í Villa mínum á msn sem var önnum kafinn en glaður í bragði og biður að heilsa öllum. Vonandi fer ég nú að fá að sjá kallálftina.

Þá brunaði ég niður á mitt annað heimili þessa dagana Sjálfsbjargarhúsið með ársreikninga fyrir Stínu sem situr sveitt yfir bókhaldinu enda farið að styttast í aðalfund og nú er leitað um allt að góðu formannsefni en það hlýtur að sleppa fyrir horn eins og annað.

Hitta fullt af Sjálfsbjargarfélögum og Hölum þar sem hin ýmsu mál voru reifuð fram og til baka. Fundaði svo smá með Grétar Pétri vegna Stokkseyrarferðar sem við erum að skipuleggja fyrir Samveru og súpu hópinn okkar á þriðjudögum. Nokkrir hnútar hnýttir í viðbót.

Brá mér þá niður í Vin en þar er ég ásamt félögum úr ferðafélaginu Víðsýn á fullu að skipuleggja fjáröflunarBINGÓ 3 maí nk. Fullt af flottum vinningum hafa safnast og nú er þetta allt að komast á fullt skrið. Lenti svo á planfundi þar sem farið ver yfir verkefnin sem framundan eru hjá Vin.

Þar er eitt spennandi kynningarverkefni sem ég ætla að taka fullan þátt í en það felst í að fara inn á Geðdeildar og kynna starfsemi Vinjar og fyrir hvað hún stendur. Fyrirhugað er að stofna sjálfboðahóp innan RKÍ utan um þessa vinnu sem ég of fleiri höfum svo sem sinnt í mörg ár ne nú eftir að notandi var ráðinn sem umboðsmaður þá lítur þetta allt miklu miklu betur út. Hitti hann á föstudaginn. Sjá nánar um það á heimasíðu Hugarafls

Gaf mér svo smá tíma í kaffispjall heima með Labbakútunum þar sem atvinnumál voru efst á baugi og partýundirbúningur. Já það stefnir allt í Halapartý á föstudagskvöldið og svo ætlum við á 3 systur hjá Hugleik á laugardaginn. Spennnandi helgi framundan.

Heyrði í Kristjáni Líndal sem rekur stórmerkilegt Minjasafn í Hveragerði, safninu var næstum því lokað vegna fjáreklu en nú slapp það fyrir horn. Safnið er aðgengilegt og mjög skemmtilegt. Mæli hiklaust með heimsókn þangað. Það voru aldeilis góðar fréttir og óska ég Kristjáni góðs gengis í framtíðinni.

Hnýtti svo ýmsa hnúta varðandi félagsmálanefndina enda þing að fara að koma.

Svo var stóri dagurinn í gærkvöldi Halaleikhópurinn fór í Borgarleikhúsið og var með sína fyrstu æfingu þar fyrir 1. maí. Allt gekk smurt eins og vél þannig að við erum tilbúin fyrir átökin og hlökkum mikið til. Sýningin verður kl. 18-20 við erum 3 á dagskránni síðust fyrir hlé.

Eftir að heim kom loks seint í gærkveldi voru svo enn fleiri hnútar hnýttir í tölvupóstsamskiptum. Og þreytt en sæl kona sem skreið inn í rúm að verða 2 í nótt.

Nú er ég á leið á fund niður á BÍL þar sem fleir hnútar verða hnýttir varðandi Stuttverkahátiðina Margt Smátt.

26.4.06

Áframhaldandi annir

Dagbókin:

Vaknaði við að tærnar á mínum heittelskaða kitluðu mig í lærið URRAÐI af bræði og það áður en ég vaknaði. Grey kallinn sagði bara fyrirgefðu og sneri sér á hina

Dreif hann samt á fætur og brunaði niður í Sjálfsbjörg í Samveru og súpu fékk þessa fínu Aspassúpu, ætlaði að funda smá en ekki gafst tími til þess

Við Sóley drifum okkur á málþing upp í Orkuhúsi um List án landamæra merkilegar umræður og stórmerkileg dagskrá þessa fram til 13 maí. Ýmislegt áhugavert í gangi sem ég á örugglega eftir að taka þátt í. Allavega erum við að fara að sýna í Borgarleikhúsinu 1. maí en nánar um það síðar HÉR er slóð á bækling með dagskrá hátiðarinnar

Heim þar sem Labbi sat í kaffi og spjalli um daginn og veginn

Ingimar eldaði svo fyrir okkur hjónin takk elskan

Fór svo í saumaklúbb í kvöld þar sem ég saumaði og saumaði og er næstum búin með bútasaums dúkinn sem ég byrjaði á fyrir 3 árum :-)

Þegar heim kom tók svo við heimasíðugerð og tölvupóstsamskipti vegna fjölmargra verkefna sem eru fyrirliggjandi

Svaraði svo símanum örugglega 20 sinnum út af einu og öðru meðal annars miðasölu á Pókók nú er orðið uppselt 7. maí og lífið er ljúft

Allt stefnir í að um helgina verði Halapartý og leikhúsferð pantaði miða á Þrjár Systur hjá Hugleik á laugardagskvöldið, ef fleiri hafa áhuga á að koma með bara panta miða, sjáumst hress. Möguleikhúsið er víst aðgengilegt nema klósettið.

Á morgun er svo æfing í Borgarleikhúsinu fyrir 1. maí. Setti í gærkvöldi inn myndir í albúm frá Reykjaskóla veturinn 1974 -1975 það má kíkja á það HÉR Góða skemmtun

24.4.06

Meiri myndir



Þessi jólin varð Villi hamingjusamur fékk draumadúkkuna sína.



Hér er mamma með Villa, Stebba og Palli sennilega upp í Heiðmörk eða á Þingvöllum í sunnudagsbíltúr alltaf var sól í þá daga.



Hefðbundin jólauppstilling áður en við fórum að standa í fínu röðinni en það kom sennilega ekki til fyrr en Palli var fæddur og farinn að geta staðið



17 júni líklega þetta er Villi í Matrossufötunum sennilega 4 ára og Palli í fínu útprjónuðu peysunni frá Sveinsínu ömmu Sigrúnar Jónu. Frábært handverk því miður er þessi peysa ekki til lengur var orðin morkin þegar ég ætlaði að fara að setja Ingimar Atla í hana.

Til hamingju með afmælið Villi

Elsku besti bróðir í heimi (jú jú hinir eru ágætir líka) Til hamingju með afmælið í dag. Vonandi verður þú ekki hlekkjaður við eldavélina eða kassann í Greyton í dag. Fór með aðra lúkuna ofan í stóra myndakassann og skannaði inn nokkrar myndir og set hér til skemmtunar.



Þetta er mynd tekin í útilegu við Hafravatn sem við félagarnir í Leynifélaginu Kátir Útlagar fórum í. Þetta var mjög öflugt leynifélag sem við vorum fjögur í ég Villi, Skúli og Guðbjörg. Við funduðum reglulega inní súðaskáp, saumuðum á okkur búninga og ferðuðumst mikið upp að Silungarpolli þar sem við áttum eyju sem við skýrðum Útlagaeyju upp úr Miranda. Já það voru ljúfir dagar. Sennilega hefur Skúli tekið myndina því hann vantar. Jú við vorum tæknivædd og áttum myndavél á þessum tíma, sennilega er þetta kringum 1968-9.



Þessi mynd er tekin í miklum gleðskap sennilega kringum 1997 þegar Sigrún Jóna og Steen komu til Íslands og líka Stebbi og vinur hans Salya og voru hjá mér í dálítinn tíma þá var sko skvett úr klaufunum eins og sjá má.



Villi hefur alltaf verið uppátækjasamur og eitt árið fór hann á floater niður laugaveginn í fullum herklæðum á víkingaskipi á Gaypride



Þessi er greinilega tekin af okkur systkinunum árið sem Palli fermist 1976 þarna tók Villi mikinn vaxtakipp eins og sjá má á apahöndunum



Þessi er tekin af þeim hjónakornunum á fertugsafmæli Villa fyrir stuttu síðan eða eru árin orðin 7 mikið er tíminn fljótur að líða



1999 var slegið til brúðkaups hér eru þeir Villi og Guðmundur og pabbi að staupa sig held þetta sé rétt áður en pabbi hélt víðfræga ræðu og sló eftirmynnilega í gegn. Verst er að ég man hana ekki almennileg rétt til að hafa hana eftir en endilega Villi og Guðmundur kommentið um ræðuna.



Villi og Lovísa Lilja á brúðkaupsdegi Villa 27. 7. 1999



Þetta er heim á Grettisgötunni í penthousinu á Tower einhvern Gaypride daginn. Daginn sem við fengum að sjá Frosta í fyrsta sinn :-)



Þessi fjölskyldumynd er tekinn 1994. Þegar mamma er enn heima en greinilega orðin mjög lasin. Á myndina vantar Sigrúnu Jóna minnir að þessi myndataka hafi verið fyrir ættfræðirit eða eitthvað svoleiðis, alger hryllingsmynd en svolítið fyndin líka krakkarnir að vaxa hvorki börn né fullorðin

Fleiri myndir vildu ekki inn núna en lofa fleirum næstu daga.

22.4.06

Martröð sýningarstjórans

Í gær var skelfilegur dagur í lífi mínu sem sýningarstjóri. Ég skil ekkert í mér að hafa tekið þetta að mér enn einu sinni. Fyrir 4 árum var ég lóðsuð inn í þetta án þess að hafa nokkra hugmynd um hvað það væri. Síðan hefur eitt leitt einhvern veginn af öðru og í ár er ég sýningarstjóri hjá Halaleikhópnum fjórða árið í röð. Þvílík della, aldrei lærir maður af reynslunni. Hnippið í mig á næsta ári í janúar 2007 og minnið mig á 21. apríl 2006.

Sýningarstjóri ber ábyrgð á sýningunni að allir mæti sem koma að sýningunni og geri það sem fyrirfram hefur verið ákveðið, ss. leika, lýsa, aðstoða, miðasala osfrv. Einnig að grípa inní ef eitthvað fer úrskeiðis og leysa mál sem koma uppá hvað svo sem það er. Passa að sýningin gangi eðlilega fyrir sig, byrji á réttum tíma og þess háttar. Auk ýmissa fleiri atriða sem ég er alltaf að gera mér betur og betur grein fyrir með reynslunni.

Á ýmsu á maður von í þessu starfi og undarlegar eru sumar reddingar sem maður hefur farið í en ekki átti ég von á aðaluppákomu gærdagsins.

Ég vissi að einn af okkar bestu leikurum var búinn að vera veikur og raddlaus svo við tók strang bænahald um að röddin og heilsan verði með þeim hætti að hann gæti leikið. Frétti um morguninn að hann hefði lítið sofið um nóttina vegna hósta svo ekki lofaði það góðu. En um hádegi ræddum við saman og hann var ansi rámur en ætlaði að reyna. Heyrði aftur í honum seinna um daginn þar sem hann staðfesti komu sínu. En ekki leist mér of vel á röddina. En treysti mínum manni enda stóð hann sig frábærlega í sýningunni þrátt fyrir að vera sárlasinn.

Við vorum með fullt hús í gær sem alltaf er gleðilegt sérstaklega á tímum hinnar miklu samkeppni þegar verið er að leika í öllum húsum bæjarins.

Það er regla hjá okkur að allir mæti 2 tímum fyrir sýningu nema um annað sé samið og það hefur gengið eftir, stundum hafa sumir verið pirraðir yfir þessu en eitt verður yfir alla að ganga eða svo höfum við haft það. Í gær varð mér ljóst mikilvægi þessarar grundvallarreglu.

Sumir hafa fengið að teygja tímann vegna vinnu og annars og allt í lagi með það enda allt undir kontról. Í gær mættu allir nema tveir á umsömdum tíma þegar klukkutími var í sýningu fór ég að ókyrrast ekki það að ég treysti þessum leikurum ekki til að skila sér heldur bara svona einhver hugboð. Sendi sms á þá og annar birtist fyrir horn en í hinum heyrðist ekki neitt.

Stressið fór að taka völdin hjá mér og ég hringdi í kauða en það var slökkt á símanum. Fór að sinna ýmsu öðru og fékk aftur stresskast og hringdi aftur sama slökkt á símanum. Hringdi í heimsímann náði tali af móður hans hún var búin að leita af honum í tvo tíma og búin að hringja um allt að leita af honum. Úbs nú fór maginn í hnút áhorfendur að streyma í hús og leikarinn týndur.

Leikarahópurinn fór líka að ókyrrast verulega. Ég reyndi að halda andliti hafði ekki guðmund um hvað ég ætti eiginlega að taka til bragðs. Gat eiginlega ekki talað við formanninn sem var inn í förðun og gjaldkerinn var á tali við áhorfendur. Milljón hugsanir streymdu um hugann. Hvað gerir maður í þessum aðstæðum.

Sendi sms á tvo vini hans, ekkert svar. Hringdi á vinnustað hans og fékk samband áfram og það slitnaði, þetta skeði þrisvar. En símastúlka fullvissaði mig um það sem ég svo sem vissi að hann ynni ekkert svona lengi. Bað samt um í örvæntingu minni að það yrði leitað að honum á vinnustaðnum og hann beðinn að hringja í mig. Eitthvað hefur ég hljómað undarlega því það var gert og þetta er sko ekki vinnustaður þar sem spáð er í svona hluti.

20 mín í sýningu og ég úti á plani bak við hús í símanum að hringja í allar áttir að leita andskoti leið mér illa. Tek ákvörðun um að hleypa áhorfendum í salinn og fer að hugsa um hvern andsk ég geti sagt við fólkið. Næ í rassgatið á gjaldkeranum og dreg hana út mér á trúnó um málið við hárreittum okkur og hugsum saman í marga hringi og komumst að engri niðurstöðu.

Fer inn og ræði aðeins við leikarana og þar voru komnar upp ýmsar hugmyndir um afdrif kauða og lausnir á málinu. Þó ekkert nothæft í hvelli. Já ef loftið í Halanum var ekki rafmagnað þessar mínútur þá veit ég ekki hvað. Alveg gleymdi ég og Stebba að setja plöntur í blómavasann í leikmyndinni og ýmislegt fleira smálegt gleymdist í spennunni.

12 mín í sýningu kom sms: kem eftir 5............

Hjúkk þvílíkt adrenalínsflæði. Kauði hafði bara ruglast á dögum og verið með slökkt á símanum en var á vinnustaðnum enn og kom brunandi í taxa 5 mín fyrir sýningu. Knúsaði hann bara og sagði Gleðilegt sumar. Já skil ekkert í mér að taka þetta að mér. Svo ég treysti bara á að þið minnið mig á þetta í janúar 2007.

En eftirá ræddum við saman leikarahópurinn og ýmsar fyndnar hugsanir komu í ljós hugurinn er svo merkilegt fyrirbrigði og frjósemi hugsana fór í hámark á ýmsum stöðum og örugglega mætti skrifa heilt leikrit um það sem fór fram í huga þessa hóps sem stóð að þessari sýningu sem byrjaði aðeins 3 mín of seint og tókst bara mjög vel. Þrátt fyrir allt adrenalínið og loftleysið ég gleymdi nefnilega í hamaganginum fyrir sýningu að kveikja á annari viftunni sem sér um súrefnisflæði í salnum og svo var logn og blíða úti sem er ekki uppáhaldsveður okkar á sýningarkvöldum.

En allt er gott sem endar vel og í dag birtist svo langþráð gagnrýni um sýninguna í Mogganum og er ég bara nokkuð glöð í bragði og stolt af mínu fólki eftir lesturinn. Það var svolítið langt síðan gagnrýnandinn kom og ég fór að grúska í því í vikunni hvers vegna þetta kæmi ekki og frétti að það stæði á birtingu í Mogganum það hefur verið einhver stífla það og ég átti ansi furðulegt samtal við starfsmann mbl um birtingar en hvað um það kannski ýtti það við allaveg kíkið í Moggann í dag og ef einhver á eftir að koma á sýningu þá eru síðustu forvöð sýningum fer að ljúka.

19.4.06

Blóm í tilefni dagsins

Ég segi bara Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn og sendi ykkur blóm í tilefni dagsins, of þreytt eftir strangan dag til að blogga en það kemur, mikið að gerast.

18.4.06

Með lífið í lúkunum

Ég fékk stóran hnút í magann í dag og vissi að ég yrði nú að taka á honum stóra mínum. Já það getur stundum verið erfitt að vera foreldri jafnvel þótt börnin séu löngu vaxin úr grasi.

Sonurinn náði sem sagt þeim stórmerkilega áfanga í dag að taka bílpróf með glans að sjálfsögðu. Ég er nú nokkuð stolt af honum og segi bara til hamingju Ingimar minn.

En þá kom að martröð allra foreldra þegar litla barnið manns sest undir stýri á fjölskyldubílnum. Úff það var sko stessandi og ég í aftursætinu. Veit ekki hvort okkar foreldragerpanna var hræddari en létum sem ekkert væri og létum strák keyra okkur upp í Breiðholt og til baka aftur og meira segja leggja í þrönga stæðið í bílageymslunni.

Auðvitað stóð minn strákur sig eins og hetja og á eflaust eftir að verða afbragðsbílstjóri eins og mamman......

Annars hafa páskarnir verið ansi rólegir og notalegir. Fórum í afmæli til Hönnu og skvettum aðeins úr klaufunum á miðvikudaginn. Vorum svo með hrygg og alles á skýrdag og krakkana í mat. Það er alltaf svo notaleg.

Lágum svo bara í leti og lásum og lásum og slöppuðum af, fórum aðeins að viðra Viktoríu og kanna Fossvoginn aftur eftir vetrarfrí. Á páskadag var okkur svo boðið í Páskalambið til Steina mágs. Það klikkaði ekki frekar en vanalega. Takk Steini.

Í gær fórum við aðeins upp í Krika til að kanna aðstæður og máta okkur á pallinum með hitabrúsa og teppi. Áttum fína stund sem lofar góðu fyrir komandi sumar.

14.4.06

Meiri uppfræðsla


Á föstudaginn langa var Jesús krossfestur á Hausaskeljarstað (Golgata) ásamt tveim ræningjum sér til sitthvorar handar.

Nei nei ekkert að tapa mér í trúmálunum bara......

Annars liggjum við skötuhjúin bara í leti allavega þar til annað verður ákveðið.

Spurningin hvað á að gera í sumar er að verða ansi ágeng

Af hverju þarf maður alltaf að gera eitthvað á sumrin og tala um það í marga mánuði?

Engin plön tóm óvissa

Krikinn heillar

Hekla spyr um hina árlega Akureyrarferð, en æ stundum þarf að brjóta upp vanann

Það er ekki eins auðvelt að fara í óvissuferðir og áður eins og ég elska þær nú mikið, nú stjórnar aðgengi öllu og merkilegt er að það er miklu miklu miklu dýrara að ferðast þar sem aðgengi er gott fyrir hjólastóla td. í gistingu en annarstaðar. Fúlt og ekki á öryrkjaprísum.

Það er liðin sú tíð að maður hendi tjaldi og svefnpoka í skottið og fari bara þangað sem hugurinn ber mann án umhugsunar. Nú þarf að skipuleggja í hörgul og það er ekkert skemmtilegt og ógeðslega dýrt.

Já held að Krikinn heilli bara mest eins og er en koma tímar koma ráð.

Bara svona til að minna á

Í tilefni dagsins (úbs kominn annar dagur) set ég hér inn eina af uppáhaldsmyndunum mínum. Dreymir um að eiga eina svona stóra og litríka hangandi í fínu borðstofunni minni fyrir ofan antik borðstofusettið mitt. Ó það er svo gott að láta sig dreyma .....



Annars minnir þessi mynd mig orðið endalaust á uppáhaldsbókina mína Da Vincy lykilinn ef þið eruð ekki búin að lesa hana þá er núna tækifærið um páskana.

Nú og fyrir trúleysingjana sem eru ekki vissir um hvers vegna skírdagur er yfir höfuð til þá upplýsist hér með að þann dag fyrir um það bil 2000 árum borðaði
Jesú síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinum sínum og þvoði fætur þeirra. Gamla sögnin ,,að skíra" merkir að þvo eða gera hreint (sbr. skíra gull). Af því er nafn þessa dags komið, skírdagur.

11.4.06

Survivor var leiðinlegur. Fylgist sennilega ekki nógu oft með þetta tímabilið.

Fór bara í rúmið snemma að lesa Ísfólkið, magnaðar bækur sem hægt er að lesa aftur og aftur.

Skrítið að vera ekki að fara neitt alla páskana ekki einu sinni fyrirhuguð fjöldkylduboð eins og alltaf hefur nú verið báðum megin en mín fjölskylda er flúin land einu sinni enn og veit ekki með hina familíuna en nýafstaðin glæsileg ferming.

Kannski maður þurfi að gera eitthvað í þessu sjálfur, en letin er að drepa mig, eða ég er bara loks að slaka á eftir törn síðust mánaða, var lang lang þreytt.

Ætla í hádeginu að fá mér súpu og spjall hjá Sjálfsbjörg.

Er að skilpuleggja fjárölfunarbingó 3 maí fyrir Víðsýn, munið að taka þann dag frá nánari uppl. síðar.



Fékk skemmtilegan tölvupóst í gærkvöldi, Reykjaskólamót í júní en þar var ég veturinn 1974 til 1975 og tók tvö merkileg próf, bílpróf og gagnfræðaskólapróf. Held ég mæti pottþétt, kannski ég fari að grafa eftir gömlum myndum og skelli inn. Þessi er af skólaspjalinu. Þekktuð þig mig á myndinni ?

10.4.06

Meiri stiklur

Enn fullt af drasli á skrifborðinu mínu, tými ekki að eiga við það

Full óhreinataukarfan

Gólfin hrein og hreint utan á hjónarúminu

Réttur hússins í kvöldmatinn

Hreinsaði lyklaborðið mitt áðan orðið eins og nýtt

Það leiðinlega við að vera ekki í skóla lengur er að það kemur ekkert páskafrí !!!

Held ég fari bara að fylgjast með Survivor eða sauma eða

5.4.06

Myndir frá hundasýningunni

Þetta var hreint út sagt gargandi snilld þessi kynning á hjálparhundum fatlaðra set hér inn örfáar myndir að þessum elskum


Þetta er töfri sem sýndi okkur nokkur dansspor. Hann kann að dansa við Silvíu Nótt lagið ma.



Þetta er Tryggur og Auður Björnsdóttir amma hans hér er Tryggur orðinn leiður á þessu spurningaflóði sem dundi yfir og fer að láta vel að ömmu sinni



Hér er Erró blindrahundur sem kom að fylgjast með ásamt eiganda sínum en auðvitað vildum við líka sjá snilld hans



Hér klæðir Tryggur Auði úr sokkum

4.4.06

Hundadans :-)


Kynning á hjálparhundum


Hér á landi er ekki algeng sjón að sjá fatlað fólk með hjálparhunda. Þjónustuhundar, eins og þeir eru kallaðir, hafa verið þjálfaðir af Auði Björnsdóttur, sem er ein af fáum íslendingum sem hefur menntað sig til þess að þjálfa slíka hunda.

Miðvikudaginn 5. apríl næstkomandi mun Auður kynna hlutverk hjálparhunda í Halanum í húsi Sjálfsbjargar Hátúni 12 (norðan megin) kl. 17:00 með aðstoð Tryggs, en auk þess mun hundurinn Töfri dansa fyrir áhorfendur.

Við hvetjum alla þá sem hafa áhuga á að kynna sér mismunandi hlutverk þjónustuhunda að mæta á fundinn!

2.4.06

og svo

Meira ....

Hef ekki orðið yfir það

Góð helgi

Sýningin gekk mjög vel

Þvoði gluggana að utan í sólinni í morgun

Bauð vini mínum upp á kaffisopa og spjall

Þvoði og þurrkaði 2 vélar af þvotti

Visiteraði í familíunni

Skilaði ömmustelpunni

Keypti hóstamiktúru

Sunnudagssteikin er komin í ofninn

Síminn hefur ekkert hringt í dag

Engin heimasíðugerð í dag

Enginn fundur í dag en tveir á morgun

Ferming um næstu helgi

Drasl á skrifborðinu mínu sem ég nenni ekki að taka til í

Kalt úti í sólinni

Hekla fór í póstkassann fyrir hádegi

Sonurinn farinn í sturtu

Kallinn kominn í bridge við tölvuna

Kannski ég kíki í blöðin og setji tærnar upp í loft meðan steikin kraumar í ofninum og gratíneruðu kartöflurnar

Já er það ekki bara ágætis hugmynd