26.10.06

Lífið er leiklist......líka eftir 50 ára aldur

Jæja þá er maður orðinn 49 ára. Finnst það ekkert merkilegt og þó þá er svolítið merkilegt að maður skuli tóra enn, miðað við allar orusturnar í lífsins ólgusjó. Já þær hafa verið frekar margar og sumar ansi harðar í þessu lífi. En ég er sátt.

Var spurð að því áðan hvort ég héldi ekki upp á síðasta afmælisdaginn áður en ég yrði 50 ára. Það er nú ekki eins og ég ætli mér að leggjast í kör við 50 ára aldurinn. Annars hefur það nú verið þannig að ég hef alltaf verið frekar lítið fyrir að halda upp á mín eigin afmæli en samt hafa alltaf komið einhverjir í heimsókn úr familíunni og vinir og maður átt eitthvað með kaffinu. En núna nennti ég því ekki, átti að vera á leiklistarnámskeiði í kvöld og fór og naut þess er með strengi í maganum ég hló svo mikið. Hvað er betra en það.

En kannski ef ég nenni skelli ég í eitthvað gummulaði um helgina eða ekki. Kemur í ljós. Á morgun er stjórnarfundur í Víðsýn þar sem við ætlum að taka stefnuna fyrir ferðalög næsta árs. Miklar pælingar þar í gangi. Svo er sýning á Þjóðarsálinni föstdagskvöld og sunnudagskvöld og eitthvað partý í uppsiglingu. Svo það er nóg við að vera svo sem. Það var saumaklúbbur í gær og mikið gaman eins og venjulega. Fékk þessar fínu hugmyndir fyrir næstu verkefni og hugsanlega jólagjafir ef ég verð dugleg ;-)

Hekla mín kom og gladdi mig í dag. Við skelltum okkur á kaffihús og nutum dagsins, komum við í búð þar sem ég lét minn heittelskaða gefa mér nýjan jakka :-) Sigrún kom svo og færði mér blóm áður en ég rauk í leiklistina.

Ég þakka öllum sem sendu mér kveðju í dag. SMS rigndi inn það fyrsta rúmlega 8 í morgun mér fannst það nú samt full snemmt en hefði átt að hafa vit á að slökkva á símanum áður en ég fór í bólin mjög seint eins og oftast þessa dagana.

22.10.06

Leiklistin tekur af manni skarið

Já það er óhætt að segja að lífið snúist um leiklist og meiri leiklist þessa dagana. Er að leika með Einleikhúsinu nokkur kvöld í viku, leiklistarnámskeið hin kvöldin og tölvuvinnsla í sambandi við Halaleikhópinn í frítímum. Skemmtilegt líf.

Í gær fór ég svo á námskeið hjá Leikfélagi Selfoss þar sem var verið að taka fyrir hvernig er hægt að nota ljós í leikhúsi. Farið í alls kyns lýsingar, tæki og tól. Frábært námskeið sem eflaust á eftir að nýtast vel, vel utan um það haldið og allt tipp topp. Til hamingju Leikfélag Selfoss og takk fyrir mig.

Bjarni kom áðan og reddaði hillumálunum í búrinu svo nýji fíni frystisskápurinn fær sitt fína pláss án þess að taka allt búrið. Takk Bjarni minn veit ekki hvernig ég kæmist af án þín kæri tengdasonur. Svo ætlar hann líka að smíða sökkul undir nýja fína ísskápinn minn. Svo allt fer að verða tipp topp og jólaundir búningur má bara fljótlega fara að fara í startholurnar. Ekki það við Hekla perluðum smá jólaskraut í vikunni, já það var svo margt sem kom í ljós þegar tekið var til í búrinu.

En er rokin á leiklistarnámskeið.......

21.10.06

Yfirlýsing

Ég er hlynnt hvalveiðum og fagna því að Hvalur 9 skuli hafa veitt fyrsta hvalinn í dag.

18.10.06

Still a live ;-)

já bara hef ekki haft neina löngun til að tjá mig hér síðustu daga. Ekki það sé ekkert að gerast, jú heldur betur allt á fullu as usual.

Það kom þrýstingur á mig utanfrá til að tjá mig um tvenn óskyld málefni. Þar sem ég er með eindæmum þrjósk og sérvitur, þá fór það í andstæðu sína ég hætti að tjá mig opinberlega um þau málefni í bili. En nota bene hef rætt málin út, við þrýstingsaðilana.

Annars bara allt í jolly. Er að leika á fullu og mjög stolt af þeirri sýningu. Er á kafi í félagsmálunum og á leiklistarnámskeiði. Á leið á ljósanámskeið og kannski annað til sem greint verður kannski frá síðar.

Sá flík sem mig langar óskaplega í og plataði kallinn til að gefa mér hana í næstu viku ;-)

Aðalfundur ÖBÍ var mestan part dagsverkið í dag og á morgun. Lítur svo vel út með að ég fái að sjá Prinsessuna mína næstu daga, þar sem hún er í samræmdum prófum (9. ára finnst ykkur þetta hægt?) og verður með stuttan skóladag. Hún er núna annars önnum kafin við að semja jólalagið í ár fyrir okkur. Já við erum báðar jólastelpur :-)

12.10.06

Á kafi í öllu mögulegu

Já það er ekki hægt að segja annað en það séu búnir að vera annasamir dagar hjá mér undanfarið. Hef ekki einu sinni haft tíma til að skrifa um það hvað þá meira.

Komin út úr skápnum, er sem sagt formlega orðin leikkona í leyniatriði í leiksýningu í næsta bæjarfélagi. Frumsýndum á sunnudaginn eftir að vera búin að vera með 2 forsýningar. Allt gekk upp og svo var náttúrulega frumsýningarpartý með tilheyrandi bravör. Ég er mjög stolt af vinnu okkar vinanna í þessu verki en eitthvað fór það illa í gagnrýnanda Morgunblaðsins sem finnst við vera að láta misnota okkur í áhættuatriðum og að fatlaðir séu hafðir að sýningargripum. Ófaglegri gagnrýni hef ég aldrei lesið áður á síðum þessa virta blaðs. En fjöldi vina minna og vandamanna er þegar búin að sjá herlegheitin og er glatt með sýninguna svo ég er sæl en skora bara á ykkur hin að kíkja. Allar upplýsingar HÉR (nema um mig)

En nóg um það í bili allavega. Fór í saumaklúbbinn minn á mánudaginn og kláraði loksins alveg jólalöberinn sem ég hef verið að vinna að í 3 ár. Set inn mynd seinna.

10. okt. á alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn fór ég svo á ráðstefnu um geðheilbrigðismál þar var alger dýnamík í gangi allt vitlaust vægast sagt út af umræðunni um lyfjamálin. En merkilegir hlutir gerast ótrúlegustu lyfjasinnar viðurkenna að hafa ekki skoðað nægilega aðrar hliðar meðferðar. Hef svo verið að funda um þau mál öllsömul og kynna Vin uppi á geðdeildum.

Nú svo hófst leiklistarnámskeiðið í Halanum á þriðjudaginn og þar var mikið fjör. Á morgun verður svo félagsfundur í Víðsýn þar sem næsta ár verður skipulagt. Mikið gaman og mikið fjör.

Ískápurinn minn gaf upp öndina í öllum þessum ósköpum. Kostar um 40 þús að gera við hann. Og ekki garanterað að það endist mörg ár. Svo við tókum ákvörðun um að endurnýja bara. Uppdata. Eftir miklar vangaveltur og margar búðir enduðum við á að fjárfesta aðeins meira en upphaflega var lagt upp með. Keyftum ísskáp og frystiskáp og DVD spilara með hörðum disk sem hægt er að taka uppá.

Framundan er sem sagt félagsfundur, námskeið, breytingar í búri og eldhúsi (hjálp óskast föstudagskvöld), ráðstefna laugardag, fullt af sýningum framundan og svo þarf víst líka að þvo uppúr óhreinatauskörfunni og margt margt fleira. En svona líkar mér lífið best.

7.10.06

AAADD

Mikið gengur nú illa að taka það rólega á mínu heimili. Ætlaði að nota föstudaginn í rólegheit en afrakstur dagsins voru þessar fínu doppóttu gardínur sem ég saumaði fyrir hana Heklu mína, stytti blússu og ýmislegt fleira á saumavélinni. Fór svo í göngutúr með Labbakútunum.

Kvöldið fór svo í æfingu á leyniverkefninu mínu, allt gekk vel og allt að smella svo bráðum verður farið að plögga. Þegar heim var komið seint og um síðir var svo skellt í Scrabbl fram eftir nóttu. Já svona fór nú um þau rólegheit.

Í dag var ég svo að sinna sjálfboðaverkefninu okkar í Vin og stóð ég í bás í Ráðhúsinu í allan dag og var að kynna Vin. Fór í snúninga vegna stuttbylgjuútvarps og er á leið á generalprufu.

Kannski er að verða eins komið fyrir mér og konunni sem sendi mér eftirfarandi pistil :

Á þetta við þig ???


Mér fannst alveg ótrúlegt að lesa svona nákvæma lýsingu á degi í lífi mínu en var samt alveg ótrúlega ánægð með að fleiri þjáðust af þessu sama. ...... Ég sendi ykkur þetta og bið ykkur að hafa það í huga þegar þið undrið ykkur á því hvað ég hef sjaldan samband - ég er full af vilja en það verður því miður minna úr verki !

Ég hef á seinni árum verið plöguð af alvarlegum sjúkdómi sem nýlega hefur fundist greining á, en engin lækning við, enn sem komið er. Eftirfarandi er lýsing á dæmigerðum degi þegar einkennin blossa upp : Ég ákvað einn daginn að þvo bílinn og hélt áleiðis að bílskúrnum, en tók þá eftir að bréf höfðu borist inn um lúguna. Ég tók bréfin og ákvað að fara í gegnum póstinn áður en ég færi að þvo bílinn. Sorteraði póstinn og ákvað að henda ruslpóstinum en tók þá eftir að ruslafatan var orðin full og lagði því reikningana sem höfðu borist, frá mér á eldhúsborðið og ætlaði út með ruslið, en ákvað þá að fara og borga þessa reikninga, fyrst ég yrði við bílinn hvort eð er. Fór inn í herbergi til þess að ná í veskið og bíllyklana en sá þá ný e-mail í tölvunni og ákvað að svara þeim strax svo ég gleymdi því ekki. Ákvað að ná mér í kaffibolla fyrst. Á leið inn í eldhús tók ég eftir því að blómið í borðstofunni var orðið heldur þurrt. Hellti nýlöguðu kaffi í bolla og ákvað að vökva blómið áður en lengra væri haldið. Náði í blómakönnuna og ætlaði að fylla hana með vatni þegar ég tók eftir því að fjarstýringin af sjónvarpinu lá á eldhúsborðinu. Ákvað að fara með hana á sinn stað í sjónvarpsherberginu fyrst, svo ég fyndi hana örugglega um kvöldið þegar ég settist fyrir framan sjónvarpið að horfa á uppáhaldsþáttinn "Sex in the City". Á leið í sjónvarpsholið rakst ég á handklæði sem ég ætlaði að setja í þvottavélina sem beið full af þvotti. Fór þangað og setti í vélina en fann þá gleraugun sem ég hafði verið að leita að fyrr um morguninn. Lagði fjarstýringuna frá mér í þvottahúsinu og fór með gleraugun inn í svefnherbergi þar sem ég ætlaði örugglega að finna þau þegar ég færi í rúmið að lesa uppáhaldsbókina mína......ef ég finn hana. Stoppaði í svefnherberginu þar sem dagurinn hófst og mundi ekki lengur hvað ég ætlaði upphaflega að fara að gera !!! Í lok dags hafði ég því hvorki þvegið bílinn né borgað reikningana, ekki vökvað blómin eða þvegið þvottinn, ekki farið út með ruslið, heldur ekki svarað e-mailunum og var auk þess búinn að týna fjarstýringunni, bíllyklunum og veskinu og kaffið beið kalt á eldhúsborðinu.

Ég skildi ekkert í þessu því ég hafði verið á fullu allan daginn í ýmsum snúningum. Ég hef nú uppgötvað að þetta er alvarlegt vandamál sem ég ætla að leita mér hjálpar við. Þessi sjúkdómur kallast á fagmáli AAADD eða "Age Activated Attention Deficit Disorder", á íslensku "Aldurstengdur athyglisbrestur".

5.10.06

Rólegur dagur

Hér á bæ hef ég hamast við að taka því rólega og vera skynsöm. Það er ekki alveg mín deild, en eitthvað verður að gera til að losna við hægri slagsíðuna. Pantaði tíma loksins í sjúkraþjálfun, bókaði mig næstu 8 vikurnar. Kvíði ferlega fyrir fyrsta tímanum, veit alveg hvað þarf að gera til að rétta mig við og það er svo sársaukafullt. Svitna við tilhugsunina og gengur illa að hugsa ekki um það. Bilun.

Hekla mín kom í dag og dreifði huga mínum, hjálpuðumst við að læra á metrakerfið, það sem þessi stúlka er klár. Ó ég er svo stolt af henni og veit að þetta er ekki sjálfgefið og er afar þakklát fyrir hversu vel henni gengur að læra. Hún er með alla hugsanir um bækur, bókaormur á háu stigi eins og hún á kyn til þessi elska. Trúði mér fyrir því í dag að það besta sem hún gerði væri að liggja uppí rúmi og lesa góða bók með tónlist á. Mér finnst það æði, þó ég geri mér fulla grein fyrir því að það eru aðrir hlutir sem ekki gengur eins vel á, eða mættu vera framar á hæfnislistanum. En við erum nú bara svona í þessari fjölskyldu.

Fór í kvöld og fræddi sjálfboðaliða RKÍ á 1717 símanum um Vin og geðveikina ásamt Guggu í Vin og Garðari Sölva vini mínum sem brilleraði í Kastljósinu í kvöld . Skora á ykkur að kíkja á það. Merkur maður hann Garðar Sölvi.

Jú jú í sama Kastljósi má ef vel er gáð sjá eina vísbendingu enn í leyniverkefninu.

Bykoblaðið rokkar

Lá uppí sófa í gær og las allt sem ég komst yfir, gat varla hreyft mig fyrir verkjum. Þegar ég fór að flétta Byko auglýsingablaðinu eins og ég væri að fara að byggja. Fékk líka þetta rosa hláturskast sem var sársaukafullt, en þetta var svo fyndið. Það var verið að auglýsa " klósettsetu með dempurum ". Hafiði séð svona er þetta kannski í öðru hverju húsi þó það hafi alveg farið fram hjá mér. Skyldi líka fást klósettsetur sem eru sjálfhreinsandi, já og kannski upphitaðar.

Á mínu klósetti er sem sagt bara hvít plain öryrkjaseta og virkar vel.

Dóttirin er að tapa sér í kommentunum. Ja við getum alveg haft hesta sem 3. vísbendingu. Ætlaði samt að hafa það randir........

3.10.06

3. okt. og jólin ekki að nálgast mjög hratt

Hjá mér eru jólin ekki alveg í augsýn, þrátt fyrir að ég sé mikið jólabarn í mér svona flest ár, það er að segja þegar geðheilsan leyfir. En í dag sá ég jólaljós komin í stofuglugga hér í nágrenninu og tvö tré komin með jólaljós í Kópavogi. Mér finnst þetta of snemmt svo vægt sé til orða tekið.

Jæja svo er ég stolt af sjáfri mér, tókst að segja NEI við stórri áskorun ;-)

Næsta hint í leyndóinu er rafmagnskefli.

2.10.06

Frábær helgi og slagsíða til hægri !!!

Ég var ásamt fimm félögum úr Halaleikhópnum og fullt af öðrum áhugaleikhúsfólki á haustfundi BÍL á Selfossi alla helgina. Ég held ég verði að segja að þetta sé með bestu fundum sem ég hef verið á lengi. Vandamálin krufin og lausnir við öllu á borðinu eftir helgina.

Föstudagurinn fór í snöggsoðið stjórnarnámskeið sem gagnaðist mér helling og mínu félagi, þó svo við séum nú frekar félagslega sinnuð, þá er svo margt sem snýr að BÍL og hin praktísku atriði við stjórnun leikfélaga.

Á laugardeginum vaknaði ég öll skökk og snúin, með herlega verki í hægri síðunni sem lituðu helgina fyrir mér, því miður en svona er það þegar vefjargigtin gerist líka félagslega sinnuð, verst fannst mér nú samt að hún gerðist hægrisinnuð í þetta skiftið.

En sem sagt á laugardaginn var svo mikið málþing um framtíðarsýn fyrir Leiklistarskóla BÍL. Það var mjög áhugavert og margt skemmtilegt kom fram. Best þótti okkur Halafélögum þó að heyra, að loksins virðist vera að allir séu að ná þessu með það að aðgengið þurfi að vera í lagi. Meira að segja höfuðandstæðingurinn (nefni engin nöfn) hafði umpólast í þeim efnum. Óvíst er um framtíðarhúsnæði en nokkrir fýsilegir kostir sem fara í athugun hjá staðarvalsnefnd. Mikill dýrðarljómi er yfir öllum sem hafa farið á lengri námskeiðin á Húsabakka, hreint eins og fólk hafi gengið í sértrúarsöfnuð og frelsast. Það er frábært, sérstaklega þar sem fólk er farið að átta sig á að skólinn býr í hjarta nemandanna en ekki steinsteipunni og dalnum. Flott var að heyra að þau félög sem hafa verið duglegust að senda nemendur í skólann eru að verða sjálfbær vonandi fáum við nú tækifæri til að fara að mennta okkur þegar skólinn verður kominn í aðgengilegt húsnæði.

Á laugardagskvöldið var svo haldið í Tryggvaskála það fína og fræga hús til hátíðarkvöldverðar í boði Leikfélags Selfoss. Þar var mikið fjör og gaman, góður matur og fín skemmtiatriði. Höfðinglegar móttökur. Hægri síðan rak mig samt í rúmið um miðnætti en þá var ball að hefjast á hótelinu.

Á sunnudagsmorgninum var svo haldið áfram að funda og sett upp skyndihjálparnámskeið fyrir leikfélög í dauðateygjunum og fjallað um hvað eina sem snýr að rekstri leikfélaga. Framtíðin skipulögð og ákveðið að á íslandi skildi halda alþjóðlega leiklistarhátíð 2010. Frábær fundur og mjög gagnlegur.

Var ansi þreytt eftir helgina og slagsíðuna, tók það rólega í dag. Fékk ansi stóra áskorun í dag varðandi 10 okt. veit ekki hvort ég á að hrökkva eða stökkva. Sef á því í nótt. Stundum verður maður nú að segja nei er það ekki?

Í kvöld var svo æfing í leyniverkefninu mínu. Meira um það fljótlega. Fyrsta hint : tengist fánalitunum ;-)