28.4.07

Allir saman nú

Hjúkk gleymdi næstum að plögga um sjálfa mig er það ekki dæmigert.

Sem sagt milli 13 og 17 í dag laugardag verð ég í Hinu húsinu að selja skartgripina mína á handverksmarkaði sem er í tengslum við List án landamæra. Allir að kíkja á mig og Hönnu Margréti og Stebbu. Perluvinkonurnar allar að reyna að hala uppí kostnaðinn við skemmtilega hobbýið okkar.

Ég mæli með allir taka höndum saman og skelli sér niður á tjörn rétt fyrir kl. 13.00 og taki þátt í gjörningnum TÖKUM HÖNDUM SAMAN lalli sér svo út í Hitt hús og fari á geðveikt kaffihús og kíki á perluvinkonurnar í leiðinn.

26.4.07

Til hamingju með afmælið Gabríel Temitayo

Þessi fallegi drengur er 5 ára í dag 26. apríl. Til hamingju Gabríel minn. Alltaf þegar blessuð börnin bæta við árinu skilur maður ekkert hvað tíminn líður hratt. Gabríel er sonur Lovísu Lilju dóttur Villa bróður. Ætla að reyna að kíkja við hjá honum á laugardaginn en þá ætlar hann að hafa veislu.

Já það verður annasamur laugardagur og einn af þessum dögum sem maður vill helst geta klónað sig. Skemmtilegt að hafa mikið að gera en leiðinlegt að geta ekki sinnt öllu. Eyjólfur vinur minn er að sýna í Ráðhúsin hlakka til að kíkja á það.

Það var aðalfundur í Trimmklúbbnum Eddu áðan þar er 20 ára afmæli í uppsiglingu og sundleikfimin búin í vetur og göngurnar að hefjast, hlakka til að komast í göngurútínuna aftur.

24.4.07

Hamingjusamt ævikvöld


Dreif mig á pólitískan fund í kvöld og hlustaði á það sem fulltrúar allra flokka í framboði höfðu til málanna að leggja í velferðarmálunum. Ef trúa á öllu því sem þeir sögðu þá munu strax í sumar hækka allur lífeyrir til verulegra muna, og nánast enginn skattur vera greiddur af honum. Tengingin við laun/lífeyrir maka hverfa. Tryggingakerfið verður einfaldað svo allir skilji það. Skerðingum aflétt á flestum sviðum (eins og það sé ekki nóg að búa við líkamlega eða andlega skerðingu).

Ég mun fá vinnu við mitt hæfi án þess að lífeyrir skerðist. Stjórnvöld muna mótivera atvinnuveitendur svo þeir taki við öryrkjum í vinnu á sömu kjörum og "aðrir". Hægt verður að fá tannlæknaþjónustu á viðráðanlegu verði, gleraugu og heyrnartæki, allt greitt af almannatryggingakerfinu. Meira að segja verður hægt að fá niðurgreidda sálfræðiþjónusut. Börnin á biðlistanum hjá Bugl eiga góða daga í vændun, listanum verður eytt með því að færa alla þjónustuna á heilsugæslustöðvarnar þar sem verður topp þjónusta.
Nægur mannskapur fæst í umönnunarstörfin og aðbúnaður þeirra allur bættur til muna svo störfin verða eftirsótt. Ég mun fá alla þá persónulega aðstoð sem ég þarf heim til mín sérsniðna að mínum þörfum. Fötluðum verður tryggð menntun við hæfi upp öll skólastig. Ég mun ekki hætt að vera öryrki daginn sem ég verð 67 ára.
Og það merkilega við þetta allt saman þá mun líka ríkið græða á þessu öllu saman því þetta skilar sér allt aftur í vasa ríkisins í formi skatta af launatekjum sem verða þó ekki skattlagðar fyrr en eftir að 1.000.000 krónu markinu er náð á ári.
Á maður að trúa þessu öllu saman.......................................?

23.4.07

Til hamingju með afmælið Villi

Hann á afmæli í dag
hann á afmæli í dag
hann á afmæli hann Villi
hann á afmæli í dag.
Hann er 47 ára í dag hann Villi


Ætti ég að hringja í hann til afríku og syngja með minni íðilfögru röddu afmælissönginn ? :-)

Í tilefni dagsins ætla ég að taka vaktina í Samverunni og súpunni og lofa að það verði góð súpa í tilefni dagsins. Endilega kíkið við milli 11.30 og 13.30 hjá Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu. Hátúni 12.

Mátti til með að setja inn mynd af hinum fjórum fræknu systkinum sem af undarlegum orsökum hefur tekist að smala öllum nema Sigrúnu Jónu í stofusófann og það í sparifötunum.

(Ok afmælið er ekki fyrr en eftir klukkutíma en ég hef nú alltaf bráðlát verið. Verð líka að fara að sofa fyrir miðnætti svo ég vildi setja þetta inn áður bara svo enginn missi nú af þessu af næturgöltunum.)

22.4.07

Fermingarmyndin :-)

Hér kemur fermingarmyndin af Bryndísi. Er hún ekki gullfalleg þessi stúlka :-) Fleiri myndir eru á heimasíðu Blikabúa en hún er víst læst svo þið sendið bara email og fáið eflaust lykilorð. Önnur stúlkan er víst eitthvað spéhrædd þessa dagana og vill ekki að hver sem er sé að skoða myndirnar sem mamma hennar skellir inn reglulega :-)

21.4.07

Allra síðustu forvöð

Var að koma heim eftir frábært kvöld. Vorum að sýna næst síðustu sýningu á Batnandi manni fyrir frábæra áhorfendur. Sem voru þakklátir og glaðir sem vermir manni alltaf um hjartað. Það er nú þess vegna sem maður er að þessu.

En nú er síðasta tækifæri á morgun sunnudag 22. apríl kl. 17.00 til að sjá þessa stórskemmtilegu sýningu. Skora ég á þá sem ekki hafa enn komið að drífa sig nú, lofa góðri skemmtun. Sjá nánar á www.halaleikhopurinn.is

Ekki það að það setur að manni ákveðinn trega þegar sýningartímabilinu er að ljúka og séð fyrir endann á því. Maður er búin að leggja alla sína orku og sál í þetta verkefni og því viðbúið að ákveðið tómarúm myndist.

En ekki vantar verkefnin og enn vildi ég stundum geta verið á tveimur stöðum á sama tíma enda margt skemmtilegt framundan. List án landamæra hefst um næstu helgi og þar er ýmislegt skemmtilegt sem ég mun taka þátt í. Við förum með brot úr sýningunni og sýnum í Borgaleikhúsinu 30. apríl og líka brot úr Þjóðarsálinni það verður mikið gaman að hitta þann hóp aftur.

Svo eru nokkrir fundir hjá Sjálfsbjörg og ferðalög því tengt vestur og austur um land. Og svo norður líka. BÍL aðalfundur á Hallormstað sem alltaf er gaman að koma á og hitta það kraftmikla fólk.

Svo á að fara að koma sér á framfæri með skartgripina og vonandi selja smá uppí kostnað :-)

Nú og mér skilst að vinnan uppí Krika sé um það bil að hefjast, gaman verður að sjá hvað kemur út úr því, og hversu langt peningarnir duga.

Afmælisár Halaleikhópsins heldur svo áfram og fullt af skemmtilegum hugmyndum í gangi.

Já ég verð að segja það að ég er glöð í sinni í kvöld vonandi þið líka :-)

19.4.07

Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar öll sömul sem lesið þetta blogg og takk fyrir veturinn.
Mátti til að setja hér inn sumarmynd af mér síðan ég var 6 ára. Minningin segir mér að við höfum alltaf getað verið svona léttklædd öll sumur í bernsku. Þarna erum við Villi mjög líklega á Þingvöllum en þangað fórum við ansi oft í sunnudagsbíltúr á sumrin og svo í kaffi á Stokkseyri til ömmu Regínu.

Vonandi verður þetta sumar gott allavega byrjar veðrið á því að gefa góðan tón. Þó svo öll birtan þessa dagana fara hrikalega í mígrenið mitt þá jafnar það sig þegar á líður. Ég fékk þær fréttir í gær að vinnu uppí Krika utanhúss lyki 1. maí og hlakka ég mikið til að koma þangað aftur, þó ekki sé nú enn á planinu að vera þar allt sumarið eins og í fyrra. En kemur bara í ljós.

Njótið sumarsins á Íslandi fegursta landi heims :-) Þar sem veðrið hefur karakter. Njótið landsins og verum kát í sumar.

16.4.07

Fallegar stúlkur og gjörningur

Eru þær ekki fallegar systurnar Bryndís og Hekla :-) Svona prúðbúnar og glaðlegar. Fermingin tókst sem sagt stórvel og er öllum til mikils sóma og fermingarbarnið og aðstandendur allir glaðir. Bara varð að setja mynd af þeim inn, kemur örugglega betri mynd seinna hafði bara ekki aðra við hendina. Nú og svo langar mig að vekja athygli á grein sem Kolbrún Dögg skrifar á blogsvæði Listar án landamæra um tilurð fyrirhugaðs gjörning við tjörnina 28. apríl nk. Flott skrif hjá Kolbrúnu Dögg sjá hér: Gjörningur

14.4.07

Elli og Gróa

Tíminn er fljótur að líða nú eins og endranær. Á morgun mun Bryndís hans Bjarna fermast. Mér finnst nú ekki langt síðan hún kom hér fyrst í heimsókn með ljósu lokkana, fallegu augun og brosið sitt fína. Ég held ég eldist ekki svona hratt, finnst soldið skrítið að dóttir mín sé að ferma, virkar eitthvað ellilegt á mig eða hvað ?

Alla vega er nú stórt högga á milli fjölskyldunni, Hannes og Priscela giftu sig á þriðjudaginn og óska ég þeim innilega til hamingju og vona að þau eigi bjarta og hamingjuríka framtíð saman. Þau giftu sig hjá sýslumanni og ætla að halda brúðkaupsveislu á sumardaginn fyrsta. Það verður gaman að sjá fjölskyldu hennar.

Á miðvikudaginn fylgdum við móðursystur Ödda til grafa Torfhildi Hannesdóttur mikilli sómakonu sem er nú gengin sinn veg. Mikil veisla þar í erfidrykkjunni og sjaldgæft orðið að hitta fólkið þeim megin í familýunni.

Sem sagt nóg búið að vera að gera og nóg framundan, manni ætti allavega ekki að leiðast þessa dagana. Samt er mikil depurð í mér. Já hef mikið velt fyrir mér hvort ég eigi að tjá mig um það mál hér en ætla samt að gera smá.

Þannig er mál með vexti að ég hef heyrt síðustu mánuði mikið baktal um mig og það frá manneskju sem ég taldi á meðal minna vina. Ég veit ekkert hvernig ég á að höndla þetta og finnst þetta allt að ósekju. Ekki hef ég gert þessari manneskju neitt en hún yfirfærir hin ýmsu vandamál á mig og hluti mér tengda.

Gróa á leiti er erfiður fylginautur og fer mjög illa í mína heilsu. Gigtin hefur sjaldan verið verri og ýmis gömul einkenni sem ég hef verið að mestu laus við nema dag og dag eru nú daglegir gestir og ekki síst á nóttunni sem orsakar svefnleysi og skapar vítahring sem erfitt er að rjúfa.

Ekki hef ég enn treyst mér til að ræða þetta beint við manneskjuna sem eflaust væri réttast en ég er kikken þegar kemur að því að verja mig sjálfa. Og er alveg ráðþrota í þessu máli. Eru einhverjar tillögur?

En að öðru þá ganga sýningar vel og margt skemmtilegt framundan í leiklistinni. List án landamæra nálgast óðfluga og þá hittist Þjóðarsálarhópurinn aftur það verður held ég mikið fjör.
En nú er hver að verða síðastur að sjá Batnandi mann sennilega síðustu sýningar um næstu helgi sjá hér. Nú svo ætlum við skartgripavinkonurnar að taka þátt í handverksmarkaði þann 28. apríl vonandi tekst það, tíminn er eitthvað naumur vegna æfinga í Borgarleikhúsinu.

5.4.07

Til hamingju með afmælið Bryndís mín

Já tíminn er fljótur að líða þessi mynd var tekin sumarið 2004 þegar við fengum Bryndísi lánaða með okkur í sumarbústaðaviku. Hér erum við í göngunum í Skálholti.
Í dag er skvísan orðin 14 ára og ég óska henni hjartanlega til hamingju með daginn. Svo á hún að fermast þann 15. apríl nk. svo mikið er um að vera hjá henni.

Hver er Bryndís spyr kannski einhver, hún er skáömmubarnið mitt eða þannig jú hún er stóra systir hennar Heklu minnar samfeðra. Algert gull eins og pabbinn.

Gleðilega páska


Loksins komið páskafrí eftir annir síðustu mánaða. Merkilegt hvað maður hefur mikið að gera alla daga, það leggst alltaf eitthvað til skipulagt eða bara kemur af himni ofan. Hef verið í félagsmálastússi, ráðstefnum og alls kyns útréttingum vegna hinna fjölda verkefna sem ég virðist vera farin að taka þátt í.

Alla vega nú ætla ég að reyna að hafa rólega páska með fjölskyldunni svo reikna ég með að allt detti í veisluhöld eftir það allavega ferming og brúðkaup í fjölskyldunni í sömu vikunni svo kannski verða rólegheiti ekki svo mikil og þó.

En alla vega segi ég bara Gleðilega páska og hafið það gott yfir hátíðarnar.