31.1.05

Vinnuhelgin mikla

Þessi helgi varð mikil vinnuhelgi en ekki fríhelgi í Halaleikhópnum eins og áætlað var eða þannig. Bæði laugardag og sunndag var sniðið og saumað af kappi. Margir komu og hjálpuðu til og allir voru settir í einhver verk. Nú er saumaskapurinn kominn vel á veg búið að sníða niður öll efni og skipulagning á hinum ýmsu öðrum málum kringum Kirsuberjagarðinn kominn í ákveðinn farveg. Enda nú bara mánuður í frumsýningu. Ég ætlaði nú ekki að vera báða dagana en auðvita var ég mætt um leið og ég kom á fætur bæði laugard og sunnud. Það var mikil stemming og gaman sem er ekki minnstur partur af þessu ferli.

Á laugardagskvöldið enduðum við 13 Halar á HardRokk að borða og svo héldu einhverjir áfram niðrí bæ en ég hrundi niður í sófa heima alveg búin á því.

Ekkert var lært þessa helgina en í morgun fékk ég fyrsta stóra verkefnið mitt í skólanum ég á að gera vef fyrir Gistiheimili á ensku taka myndirnar sjálf og allt. Við eigum að vinna þetta tvö og tvö saman og verð ég með Kidda III í verkefninu.

29.1.05

Ef ég ætti eina ósk


Ef ég ætti eina ósk væri úr vöndu að ráða. Stundum finnst manni að lífið sé ekki sanngjarnt og þá væri nú gaman að geta bara óskað sér einhvers og allt færi á besta veg. En því miður er lífið ekki svoleiðis, en alltaf er þó gott að halda í vonina. Hvaða lífeyrisþegi gæti til dæmis ekki þegið að hafa lífeyrisréttindi á við ráðherra og fl. Hver óskar sér ekki þess að börnin manns komist til manns án áfalla.

Allir vilja hafa góða heilsu og enginn vill eiga lögheimili á stofnum.
1. des sl. áttu 102 einstaklingar lögheimili á Landspítalanum háskólasjúkrahúsi. Það finnst mér óþolandi í okkar velferðarþjóðfélagi.

Hver vil stríð? og svona má lengi telja en annars bara fannst þessi mynd svo krúttleg. Óska þess að þið hafið það öll gott og elskið hvort annað.


27.1.05

Sjálfboðaliðar óskast

Lífið snýst um Kirsuberjagarðinn og skólann þessa dagana.

Ég er á fullu í Veftækninni og þar er mikið af áhugaverðu efni og bara gaman. Ætli maður sé ekki smá saman að breytast í tölvunörd........

Æfingar ganga vel á Kirsuberjagarðinum og mikið stuð oft á kvöldin hjá okkur í Halaleikhópnum. Ég fór og keypti 200 metra af efnum í dag í leiktjöld og nú á að nota helgina til að sníða og sauma. Vona bara að sem flestir kíki við á laugardaginn niður í Hala og vonandi einhver með saumavélar. Ef einhvern sem les þetta langar að vera með þá byrjum við kl. 14.00 á laugardaginn og verðum eitthvað fram eftir. Allri sem vettlingi valda velkomnir. Hátún 12 að norðanverðu.

26.1.05

Stresskast

Merkilegt hvernig stress getur farið með mann. Ég er með allan hugann við Kirsuberjagarðinn þessa dagana. Leikmyndin verður í formi leiktjalda og ég hef verið að útrétta vegna þess. Ég hélt við værum í góðum málum búin að finna ódýr efni og skundaði að ganga endanlega frá pöntuninni. Þá kom í ljós að efnin voru ekki til í nægu magni. Upphófst þá mikil leit um Reykjavík, Kópavog, Hafnarfjörð og Hveragerði án mikils árangurs en sennilega leysist þetta vandamál nú fljótlega.

En það er merkilegt hvað stress getur haft mikil áhrif á líkamann og hugann. Í tvo daga hef ég verið með öran hjartslátt, sveitt og geðvond með afbrigðum allt út af einhverjum tuskum. Ég er svo mikil öfgamanneskja að ég á það til að verða heltekin af málefnum sem ég er að sinna og linni ekki látum fyrr en í fulla hnefana. Allt annað víkur. Bölvuð vitleysa en svona er ég bara og er að reyna að slappa af og sleppa tökum á þessum leiktjöldum í bili.

Næsta verkefni er svo að fá einhverjar fínar saumakonur til að sauma úr þeim 200 metrum sem þegar er búið að panta inn. Kannski einhver annar taki það að sér.

Ég hef þó líka verið að sinna skólanum. Var að klára banner og hnappa á nýju heimasíðuna set slóðin inn þegar ég verð lengra komin.

Svo er það hljóðtækninámskeiðið á morgun. Skil það nú ekkert of vel en það hlýtur að koma.

23.1.05

Ljóðastund

Ósk

Geti ég tekið gleði þína
í hægri hönd
og sorg þína í vinstri,
fæ ég að líta
inn í hjarta þitt

Geti ég tekið reiði þína
á hægri öxl
og áhyggjur þá vinstri,
mun ég faðma
sálu þína að mér

Ósk mín þögul
djúpt í brjósti


Toshiki Toma

22.1.05

Viðvörun

Nú eru tveir sem ég er með link á hér á síðunni alveg að detta út sökum REGLU 1 sem er að ef ekki er uppfært í mánuð fer linkurinn út þar til hann hefur verið uppfærður.

Annars er flensan að herja á mig og lítið stuð á frídeginum sem auðvita var ekkert frí var eins og hundspýtt roð að leita að propsi og efnum í tjöld fyrir Kirsuberjagarðinn gekk eiginlega ekkert og endaði á læknavaktinni.

20.1.05

Englar

Vertu nú yfir og allt um kring

Með eilífri blessun þinni

Sitji guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni



Ég var spurð að því um daginn hvað þetta þýddi með englana. Ég segi stundum við fólk ég sendi englana mína til þín. Ástæðan er sú að eins og þeir vita sem mig þekkja þá hefur æfi mín ekki alltaf verið dans á rósum og þá hefur þessi bæn ásamt æðruleysisbæninni verið mér styrkur. Sem unglingur gekk ég í gegnum erfiða tíma þá lá ég stundum uppí rúmi á nóttinni og grét. En smá saman tókst mér að ýminda mér að góðir englar sætu í hring yfir rúminu mínu eða þar sem ég var, oft sat ég upp við vörðu sem var nálægt þar sem ég bjó sem unglingur. Mér fannst ég vera örugg ef ég hafði englana í kringum mig og náði þannig að vinna úr því sem erfitt var og ná í gleði og orku til að halda áfram lífinu.

Seinna á æfinni var einn af mínum nánustu í neyslu og í stöðugri lífshættu. Ég var auðvita á barmi örvæntingar í nokkur ár eða þar til mér tókst eftir eina hræðilegu nóttina þar sem óvissan og skelfingin voru sem verst að senda englaskarann minn yfir til hans. Við það fékk ég ró í mína sál og seinna hætti viðkomandi í neyslu. Þökk sé englunum komum við ósködduð í gegnum þetta.

Siðan hef ég notað þetta mikið ef ég veit af einhverjum þá sendi ég englaskarann af stað. Það er nóg til af englum trúi ég og þetta er mín aðferð við að vinna mig út úr erfiðustu tímabilunum.

17.1.05

Kraftaverkin gerast enn....



Eins og mætti kannski skilja á skrifum mínum um daginn þá er ég alls ekki búina að segja upp alveg húsmóðurstörfunum á heimilinu. Fékk ansi mörg skot um það. Merkilegt hvað þetta er sterkt í fólki enn árið 2005 að konan eigi að vera hlekkjuð við eldavélina og kallinn að fá allt fært í hægindastólinn. En svoleiðis hefur það ekki verið á mínu heimili. Jú ég ólst upp við þann stíl en mamma fór á Dale Carnegi námskeið 1974 og þá breyttist allt á þeim bæ. En þá var ég nú flutt frá henni og búin að krækja mér í nýja fjölskyldu sem kenndi mér all ítarlega öll húsverk og flest bústörf líka eiginlega þannig að ég kann þetta nú alveg. Það eru ekki allir svo heppnir að hafa átt tvenn pör af uppalendum.

Ég semsagt fór í húsmóðurleik um helgina. Náði í barnabarnið á föstudag og var með hana fram á sunnudag. Ömmuhelgi umm umm notalegt. Nema hvað Prinsessan mín rauk upp í hita þannig að ég gerðist hjúkka líka. En ég tók loks (segja sumir) niður jólatréð og og allt jólaskrautið og fékk ljúflinginn minn til að aðstoða mig við að fara með það allt niður í geymslu. Ég þori ekki að segja hvað það eru margir kassar, enda varð Ingimar á orði "Hvar var þetta allt saman mamma". Skildi reyndar seríuna eftir út á svölum og ætla að hafa hana þar út janúar að minnsta kosti.

Svo var farið að baka á sunnudagsmorgun og bjóða fólki í kaffi. Já mér finnst ég hafa verið mjög myndarleg húsmóðir þessa helgina alla vega. Enda frí sunnudag og mánudag frá Kirsuberjagarðinum. Eða hvað finnst ykkur.

Svo eru það aðalfréttirnar...........
Kíkið á http://www.blog.central.is/palinab/ Kraftaverki gerast enn árið 2005

12.1.05

Eldist maður mis hratt?

Þegar ég vaknaði í morgun eftir frekar erfiða nótt fannst mér eins og ég hefði elst um mörg ár í einu. Gigtin hafði sem sagt ákveðið að hennar tími væri nú kominn en ég er nú ekki tilbúin að hleypa henni að. En mikið var allt eitthvað erfiðara í dag en í gær líkaminn allur stirður og verkir hér og þar ef ekki bara allsstaðar. Langaði helst að vera bara undir sæng og sofa en auðvita gekk það ekki, fór í skólann og sat fyrir framan tölvu í 5 tíma, bilun en ansi gaman. Hrundi svo í rúmið þegar heim var komið og dottaði þar í klst eða svo reif mig þá upp með ofurmannlegum krafti til að fara í sundleikfimina sem var að byrja eftir jólafrí. Hrikaleg var ég nú stirð það brakaði í öllum liðum með tilheyrandi verkjum og leið eins og ég væri orðin 85 ára eða svo. Þurfti svo að læra smá áður en ég hrundi aftur í rúmið yfir fréttunum. Dreif mig svo á æfingu í Halaleikhópnum það var aðeins léttar kannski kastið sé að ganga yfir allavega er ég komin heim aftur og í tölvuna en ekki rúmið. Merkilegt hvað maður getur oft verið hress síðla kvölds eða snemma nætur eftir hvernig á það er litið.

En sem sagt æfingar á Kirsuberjagarðinum eru komnar á fullt skrið og mikið fjör og galsi í mannskapnum. Í gærkvöldi kom það í ljós að í fyrsta þættinum er ansi mikið af kossum og knúsum að rússneskum hætti minnst tveir kossar í hverju faðmlagi. Það er alltaf skondið þegar byrjað er að æfa svoleiðis. Fólk er mismikið fyrir kossa og vill síður kyssa þennan eða hinn, sumir eru snertifælnir en allavega varð mikið gaman úr þessu öllu og alveg ljóst að við verðum öll vel kysst þegar þessu æfingatímabili líkur. Svo ef við Kirsuberin rjúkum á ykkur og kyssum í bak og fyrir þá er það bara til að halda okkur við milli æfinga. Verið bara þolinmóð við okkur.

10.1.05

Allt að komast í fastar skorður


Fann þessa fallegu mynd af Kirsuberjatré á netinu.

Nú er jólastússið að renna af mér en er þó enn með allt jólaskrautið uppi. Skólinn er að komast á fullt skrið þessa vikuna og allt námsefni er svo nýtt fyrir mér að ég get ekki einu sinni útskýrt hvað ég er að læra. Það er lítil heimavinna enn þá, en fyrir vikulok á ég að tilnefna besta íslenska vefinn, besta fyrirtækjavefinn, besta afþreyingarvefinn, besti útlist - og viðmótsvefurinn og besti einstaklingsvefurinn. Ég á sem sagt að vafra um netið og leggja mat á þær heimasíður sem ég fer á. Ég hef nú ekki mikið vit á þessu en allar ábendingar eru vel þegnar frá ykkur kæru lesendur.

Kirsuberjagarðurinn er kominn á fullt skrið búið að skipa í flest öll hlutverk og tómt gaman, fyrsta Halapartý ársins var svo haldið með mjög skömmum fyrirvara á afmælisdegi Elvis Aron Prestleys og auðvitað bara spiluð Elvislög af nægu er að taka þar. Minnti mann svolítið á dánardag Presley en þann dag var ég í Klúbbnum sem þá stóð við Borgartún, þá gengu menn með sorgarborða á upphandleggnum og drekktu sorgum sínum yfir lögunum hans. En í Halapartýinu var að sjálfsögðu engin sorg bara tóm gleði og hamingja yfir að vera komin á fullt skrið aftur.



8.1.05

Handlagna húsmóðirin og dóttir mín

Ég stóð í þeirri trú að ég væri frekar handlagin en það afsannaðist í dag rækilega. Þar sem ég og Ingimar verðum ansi upptekin í skólanum í vetur réðum við Örn til að elda ofan í okkur þegar við komum þreytt heim með hausinn fullan af lærdóm. En þar sem hann er frekar stuttur í annan endann og á erfitt með at teygja sig uppávið mikið ákvað ég að tími væri kominn til að færa kryddin úr efriskápnum fyrir ofan viftuna og finna betri stað fyrir þau. Ég mundi að innst í geymslunni minni ætti ég forláta kryddhillu frá Þórufellinu. Ákvað nú að mála hana og gera fína og setja svo upp við hlið eldavélarinnar. Er svo búin að dunda við það síðustu daga að mála hana og gera svakalega fína, dreymir á meðan um alla fínu réttina sem Öddi mallar ofaní okkur skólakrakkana, fulla af framandi kryddblöndum..... Þá kom að því að setja hana saman........ Eitthvað varð það stíft eftir alla málninguna svo ég náði í stóra hamarinn minn og réðst mjög mjúklega á hana (með bók á milli) til að rispa nú ekki nýju málninguna og klikk önnur hliðin sprakk. Ok læt það bara snúa í hornið sést ekkert hélt áfram og braut hina hliðina líka......... Er bara ekkert handlagin og sný mér að prjónaskap það liggur betur fyrir mér og vefvinnu. Heklu vantar víst vettlinga og hosur.

Jæja en var að spá í hvort ég ætti að taka niður jólaskrautið en tími því ekki strax ætla að hafa seríuna á svölunum allavega út janúar ef nágrannarnir kvarta ekki mikið. Keypti perur í hana í dag. Leit svo aftur yfir þau fjölmörgu jólakort sem við fengum og set hér inn eina mynd af dóttir minni sem skreytti eitt jólakortið

7.1.05

Sitt lítið af hverju

Náttúruhamfarirnar í Asíu og eftirleikur þeirra hefur farið eitthvað snúið ofan í mig. Skil ekki hvernig hægt er að safna of miklum peningum og stjórnunina á þessu öllu. En vonandi lagast það nú. Svona er að vera viðkvæmur og mega ekkert aumt sjá þá ýfist maður stundum meira en góðu hófi gegnir sérstaklega þegar eitthvað er sem réttlætiskennd mín ekki gúdderar en svona er það nú og ætla ég að reyna að láta þetta ekki hertaka hug minn.


Skólinn er byrjaður. Ég fékk ágætis stundatöflu sem á lítið eftir að breytast og verð vonandi ekki með nein göt sem er frábært. Námsefnið sem ég tek núna er ansi mikið og allt á vefnum þannig að það er hætt við að nú fyrst verði maður tölvunörd.

Tölvan mín fór í extreame makeover meðan ég lá í flensunni og er óðum að jafna sig, er enn að bæta inn forritum og dóti en vantar enn púkann við wordið svo þið verðið bara að hafa þolinmæði með stafsetningunni. Sum hjálpartæki eru mikilvægari en önnur og tvö eru mér mikilvæg í tölvunni og það er blessaður púkinn og svo ensk-íslenska orðabókin sem er komin inn.

Halaleikhópurinn er byrjaður æfingar á fullu á Kirsuberjagarðinum og lofar bara góðu. Leikritið allt að lifna við. Nú er mikil spenna því Guðjón ætlar að setja í einhver hlutverk á laugardaginn kl.14.00. Það er alltaf mikil tilhlökkun að fá að vita hver verður í hvað hlutverki. Og hvaða hlutverk maður sjálfur fær (ætla ekki að leika) Enn skilst mér að vanti karla til að leika og svo fullt af aðstoðarfólki af ýmsum toga þannig að þetta verður bara stuð. Hópurinn lofar góðu.

5.1.05

Dauðsföll vegna náttúruhamfara og dauðsföll af völdum styrjalda

Það kom að ritstíflunni ekkert skrifstuð á minni en vil samt benda á grein eftir Einar Ólafsson skáld á friður.is Dauðsföll vegna náttúruhamfara og dauðsföll af völdum styrjalda sem mér finnst ansi athygliverð lesning sem ég vil endilega deila með ykkur en hann er eiginmaður Guðbjargar Sveinsdóttur sem hefur nokkrum sinnum verið minnst á hér. Hér er svo slóð af korti af Aceh þar sem hún er nú hetjan mín og vonandi okkar allra

2.1.05

Farsóttin breiðist hratt út

Nú er sonurinn búinn að taka bloggsóttina líka og verður spennandi að fylgjast með þeim skrifum. Held að hann sé ansi góður penni ef hann bara nennir að skrifa. Þegar hann var yngri kölluðum við hann oft heimspekinginn í fjölskyldunni og sendum hann á heimspekinámskeið til að mennta hann enn frekar í þeim fræðum. Og víst er hann það þó hann sé ekki mikið gefinn fyrir að tjá sig ólíkt öðrum fjöskyldumeðlimum. Kannski komst hann bara aldrei að hann er yngstur!!! Jæja en nú er hann sem sagt að byrja að blogga og ætti að fá nægt rými þar. Til Hamingju Ingimar Atli

Annars er heilsan öll að komast í lag enda ekki seinna vænna fyrir stóru átökin annaðkvöld þegar æfingar á Kirsuberjagarðinum eftir Anton Tsjekhov hefjast. Allir eru velkomnir æfingin hefst kl. 20.00 í Halaleikhúsinu Hátúni 12 í Rvík að norðanverðu. Halaleikhópurinn er opinn leikhópur sem hefur það að markmiði sínu að iðka leiklist fyrir alla. Nýjir félagar eru ávallt velkomnir. Það eru mörg handtökin sem þarf til að koma heilli leiksýningu í gang og verksviðin eru mörg auk leikaranna. Ef þú lesandi góður hefur gaman að vera með skemmtilegu fólki næstu mánuðina þá ertu hjartanlega velkominn.

1.1.05

Missti af áramótunum en á vinkonu sem er HETJA

Eins og jólin voru nú yndisleg hefur tíminn síðan þá verið frekar dapurlegur hér á heimilinu. Á annan í jólum vaknaði sonurinn með gubbupest, niðurgang, beinverki og hausverk ofl. daginn eftir tók svo Öddi við og nóttina fyrir gamlársdag veikist ég svo. Strákarnir eru að ná heilsu og ég aðeins að skríða saman. Við gömlu partýanimölin misstum sem sagt af áramótastússinu. En ég er ekkert að kvarta verð þá vonandi orðin hress áður en Kirsuberjagarðsævintýrið hefst af fullum krafti.

Ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu sem sendu okkur jólakort, sms, e-mail og ég veit ekki hvað. Maður er svo sannarlega heppin að svona margir muni eftir manni. Af öllum kveðjum ólöstuðum þótti mér vænst um kveðjurnar sem Gugga vinkona mín sendi mér fyrst frá flugvellinum í kaupmannahöfn og svo frá flugvellinum í Singapur þar sem hún er á leið til Súmötru til hjálparstarfa. Ef Guðbjörg Sveinsdóttir er ekki hetja þá veit ég ekki hvað. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún fer hún var í jan sl. í Bam í Íran eftir jarðskjálftana þar á vegum Rauða krossins. Í maí til júlí 2003 fór hún til Írak og 1999 fór hún á vegum ÖSE til Kosovo og Makedóníu. Ég er svo stolt af henni að ég á bara ekki orð yfir það. Húrra fyrir Guggu.

Já svo hefur einn fjölskyldubloggari bæst í hópinn Bjarni tengdasonur minn hefur opnað Bjarnaland Til hamingju Bjarni að lokum vil ég benda á svar við fyrirspurn í kommentunum síðust vegna bannera á central.is

Að lokum Ingi Hans til hamingju með afmælið