25.3.07

Af hauslausum kanínum tyggjandi gulrætur.

Já lífið er leiklist það eru orð að sönnu í lífi mínu þessa dagana. Það voru tvær sýningar hjá okkur um helgina, samt var ég ekki búin að fá nóg af leiklist.

Við Hekla skelltum okkur í Þjóðleikhúsið í dag með Labba og Stebbu og sáum Sitji guðs englar. Stórgóð sýning og frábær leikmynd og umgjörðin öll. Hekla var að koma í fyrsta sinn í Þjóðleikhúsið og það var gaman hjá okkur. Þarf að vera miklu duglegri að taka hana með í leikhús. Mæli með þessarri sýningu.

Við vorum alls ekki búnar að fá nóg og skelltum okkur á aðra sýningu hjá Leikfélagi Kópavogs strax á eftir. "Allt og ekkert" heitir hún og er einskonar sögustund. Frábært hjá þeim. Leikmyndin var sófar, stólar og borð og allt stillt upp eins og um kaffiboð væri að ræða enda var þetta kaffiboð, boðið uppá kaffi og með því heimabakað bakkelsi og ávextir með súkkulaði fondú nammi namm Æði.

Við vorum 10 Halar sem fórum saman og settumst hér og þar um sviðið. Leikendur komu svo og sátu milli okkar. Mjög heimilislegt og kósý. Svo byrjuðu þau á að spjalla og ég geri mér ekki fulla grein fyrir hvar sýningin hófst, en einn af öðrum sögðu þeir okkar alls kyns sögur mis skemmtilegar en athyglisverð leið til að ná til áhorfenda. Maður var þátttakandi en samt ekki. Eftir hlé dofnuðu ljósin og sögurnar fóru að vera meira myrkrasögur vel gert hjá þeim. Maður lifði sig vel inní þetta og hreifst með.

Skemmtilegt atvik var hjá mér þegar allt var orðið myrkt og hljótt, lág músik og rómantík í gangi og við vorum að melta sögurnar í rólegheitum, þá fékk Hekla sér gulrót og fór að bryðja hana með miklum látum í þögninni. Veit ekki hvort neinn annar en ég heyrði það enda sátum við þétt saman í myrkrinu. Málið var að fyrr í sýningunni var búið að tala mikið um kanínur og hauslausa kanínu sem var jörðuð í tuppperver boxi svo sálin komst ekki til himna ..... eða eitthvað í þá áttina og það flaug í gegnum huga mér að kanínusálin væri komin hér mér við hlið.

Allavega Takk fyrir kærlega Leikfélag Kópavogs fyrir þessa dásamlegu dagsstund og skemmtun. Ég hvet alla til að drífa sig á sýninguna hjá þeim. www.kopleik.is

Engin ummæli: