10.3.06

Allt er þegar þrennt er

Já ég vona að það sé mikill sannleikur fólginn í þessu orðatiltæki. Allavega eru þrír meðlimir Pókóksliðsins núna fjarverandi vegna alvarlegra veikinda. Fyrst veiktist ein leikkonan og mun ekki geta verið með okkur næstu mánuðina, svo fótbrotnaði miðasölustúlkan og í dag fékk minn heittelskaði eiginmaður og leikari bráðasýkingu og mun ekki geta verið með næstu daga alla vega.

Og generalprufa í kvöld og frumsýning á MORGUN !!!

Já ég varð svolítið trekt verð að viðurkenna það. Milljón hugsanir þjóta gegnum hugann og ekkert stopp á flæðinu í heilabúinu, vantar allar umferðarstjórnum á þann bæ.

En það kemur alltaf maður í manns stað og sem betur fer hefur Halinn á að skipa miklu af úrvalsfólki sem leysir vandamálin en dettur ekki um þröskuldana. Einn gamall og reyndur leikari datt inn í dag og Villi leikstjóri greip hann á staðnum. Já Jóndi ætlar að leysa Ödda minn af og gerir það eflaust vel.

Töfrarnir eru að skapast í leikhúsinu enn eru hvöss horn hér og þar en þetta verður örugglega fínslípað á laugardagskvöldið enda mikið af úrvalsleikurum með okkur þetta árið eins og ævinlega. Ég hef alla vega tröllartrú á mannskapnum held að hann geti vel unnið saman sem ein heild. Hlakka til frumsýningarinnar.

En tröllatrú mín á heilbrigðiskerfinu er ekki eins mikil. Þegar kom í ljós að við þyrftum að láta athuga fótinn á kalli hringdi ég upp á slysó til að athuga hvert ég ætti að fara með hann, jú jú komdu en það er 2 tíma bið og ekki hægt að skrá sig í röðina gegnum síma þó maður væri staddur í næsta húsi.

Og það varð raunin eftir innskráningu sagðist stúlkan hleypa honum framfyrir þar sem ástandið á honum var svona slæmt. En við biðum samt í tvo tíma á biðstofunni og svo inni líka langa stund áður en doksi kom. Jú jú bráðasýking þarf að fara í ræktun og fá sýklalyf í æð á 8 tíma fresti í einhvern tíma. Þurfi að vera með lyf í poka að leka inn í klukkutíma.

Svo kom rúsínan í pylsuendanum. Það er ekkert pláss á spítalanum fyrir hann allt fullt og enga heimahjúkrun að fá það er svo mikið að gera hjá þeim. Nei nei hann fárveikur maðurinn þarf að koma á 8 tíma fresti á spítalann til að fá lyf í æð og fara heim á milli. Hvað er eiginlega að í þessu kerfi ? ? ? ? ?

Við erum að tala um mann með gerfifót (sem hann nota bene má ekki nota í bili) og í hjólastól. Æ það er gott það er ekki langt að fara.

1 ummæli:

BuRgErQuEeN sagði...

Hæ hæ
Það er naumast að gengur á! Vonandi gengur sýkingin yfir sem allra fyrst hjá Ödda. Allt gott að frétta úr Afríkuni, er að bíða eftir pabba og Guðmundi frá flugvellinum.

"break a leg" á frumsýningunni.
Kveðja Lovísa