22.2.05

Annasamir dagar

Þið fyrirgefið þó ekki sé mikið bloggað þessa dagana. Allt er á suðupunkti á æfingum og galdurinn að koma betur og betur í ljós. Mjög spennandi fæðing þetta árið. Ég er sem sagt nánast allann minn frítíma frá skólanum í einhverju stússi kringum Halaleikhópinn. Ef ekki á æfingum þá saumaskap, fundum eða ýmsum reddingum tengdan Kirsuberjagarðinum. Leikhúsið okkar hefur fengið alveg nýtt yfirbragð með öllum þessum leiktjöldum sem enn er ekki búið að sauma öll.

Svo var ég á útgáfu fundi í gær vegna bókar um notendaáhrif sem við í Vin erum að fara að gefa út, bók sem við erum að láta þýða úr sænsku. Mjög spennandi verkefni sem hefur verið í gangi síðan ég fór til Svíþjóðar fyrir rúmu ári á ráðstefnu um þessi mál.

Nú svo er ferðafélagið okkar Víðsýn að detta inn í aðalfund og hef ég verið að gera félagsskýrteini og ýmislegt stúss kringum það.

Nú svo má ekki gleyma félagsmálanefndinni hjá Sjálfsbjörg lsf. sem er öll að færast í fangið og fá loft undir vængina, fundur þar á föstudaginn.

Jú ég hef aðeins sinnt fjölskyldunni tók mér frí á sunnudaginn til að fara í 50 ára afmæli til hennar Ollu systir Ödda. Það var mikil veisla eins og hún ein getur töfrað fram. Hún er mjög merk manneskja og yndisleg. Olla mín takk fyrir að vera til fyrir mig.

Jú aðeins hef ég sinnt barnabarninu aðalega í formi þess að skutla henni milli staða milli þátta hjá mér á daginn. Börnunum mínum hef ég ekki sinnt nema í gegnum msn en þau vita það nú blessuð að ég er ekki viðræðuhæf um annað en Halaleikhópinn á þessum árstíma og halda sig til hlés. Fæ stundum sms frá syninum þar sem hann spyr hvort við séum ekki örugglega á lífi :-) Alltaf sama umhyggjan. Bæti þeim það upp seinna.

Karlinn hef ég bara með mér í öllu leiklistarstússinu enda leikur hann góða rullu þar. Öðru vísi gengur það ekki upp í svona starfi, þetta er svo ströng vertíð.

Saumaklúbbinn dreif ég í tjaldasaum í gærkveldi Takk kellur.

Mig hlakkar mikið til morgundagsins í fyrsta lagi byrjar Heiða Björk að kenna textameðferðina í veftækninni og ýmislegt fleira, síðan fæ ég þann heiður að fara í búningageymslu Þjóðleikhússins með leikhússtjóranum okkar honum Kristni Guðmunds og Guðjóni leikstjóra :-)

Engin ummæli: