2.10.06

Frábær helgi og slagsíða til hægri !!!

Ég var ásamt fimm félögum úr Halaleikhópnum og fullt af öðrum áhugaleikhúsfólki á haustfundi BÍL á Selfossi alla helgina. Ég held ég verði að segja að þetta sé með bestu fundum sem ég hef verið á lengi. Vandamálin krufin og lausnir við öllu á borðinu eftir helgina.

Föstudagurinn fór í snöggsoðið stjórnarnámskeið sem gagnaðist mér helling og mínu félagi, þó svo við séum nú frekar félagslega sinnuð, þá er svo margt sem snýr að BÍL og hin praktísku atriði við stjórnun leikfélaga.

Á laugardeginum vaknaði ég öll skökk og snúin, með herlega verki í hægri síðunni sem lituðu helgina fyrir mér, því miður en svona er það þegar vefjargigtin gerist líka félagslega sinnuð, verst fannst mér nú samt að hún gerðist hægrisinnuð í þetta skiftið.

En sem sagt á laugardaginn var svo mikið málþing um framtíðarsýn fyrir Leiklistarskóla BÍL. Það var mjög áhugavert og margt skemmtilegt kom fram. Best þótti okkur Halafélögum þó að heyra, að loksins virðist vera að allir séu að ná þessu með það að aðgengið þurfi að vera í lagi. Meira að segja höfuðandstæðingurinn (nefni engin nöfn) hafði umpólast í þeim efnum. Óvíst er um framtíðarhúsnæði en nokkrir fýsilegir kostir sem fara í athugun hjá staðarvalsnefnd. Mikill dýrðarljómi er yfir öllum sem hafa farið á lengri námskeiðin á Húsabakka, hreint eins og fólk hafi gengið í sértrúarsöfnuð og frelsast. Það er frábært, sérstaklega þar sem fólk er farið að átta sig á að skólinn býr í hjarta nemandanna en ekki steinsteipunni og dalnum. Flott var að heyra að þau félög sem hafa verið duglegust að senda nemendur í skólann eru að verða sjálfbær vonandi fáum við nú tækifæri til að fara að mennta okkur þegar skólinn verður kominn í aðgengilegt húsnæði.

Á laugardagskvöldið var svo haldið í Tryggvaskála það fína og fræga hús til hátíðarkvöldverðar í boði Leikfélags Selfoss. Þar var mikið fjör og gaman, góður matur og fín skemmtiatriði. Höfðinglegar móttökur. Hægri síðan rak mig samt í rúmið um miðnætti en þá var ball að hefjast á hótelinu.

Á sunnudagsmorgninum var svo haldið áfram að funda og sett upp skyndihjálparnámskeið fyrir leikfélög í dauðateygjunum og fjallað um hvað eina sem snýr að rekstri leikfélaga. Framtíðin skipulögð og ákveðið að á íslandi skildi halda alþjóðlega leiklistarhátíð 2010. Frábær fundur og mjög gagnlegur.

Var ansi þreytt eftir helgina og slagsíðuna, tók það rólega í dag. Fékk ansi stóra áskorun í dag varðandi 10 okt. veit ekki hvort ég á að hrökkva eða stökkva. Sef á því í nótt. Stundum verður maður nú að segja nei er það ekki?

Í kvöld var svo æfing í leyniverkefninu mínu. Meira um það fljótlega. Fyrsta hint : tengist fánalitunum ;-)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú manst að við vorum að tala um á sunnudaginn hvað ég hefði verið forvitin sem barn. ÉG ER ENNÞÁ SVONA FORVITIN!!! Ég er orðin svo forvitin um þetta leyniverkefni þitt sem þú ert alltaf að blogga um......SEGÐU MÉR!!!
Kv. dóttirin

Ása Hildur sagði...

Ja hérna, mín kæra dóttir. Stund sannleikans bara runnin upp.

Hugsaðu ég er löngu búin að segja þér frá þessu. Ef þú ert búin að gleyma, bjallaðu þá bara í þá gömlu.