16.2.07

Fyrirgefið öll sömul

Nú er rétt vika í frumsýningu á Batnandi maður og dagarnir því ansi langir í annan endann þessa dagana. En flest allt gengur eins og best getur orðið. Miklir álagspunktar hafa verið undanfarna daga og það hefur komið fyrir, sem á alls ekki að gerast að ég hafi misst mig í geðillsku. Stundum við þá sem síst eiga það skilið og bið ég þá hér með opinberlega afsökunar á því og lofa að reyna að hemja mig. Nú svo hafa aðrir sleppt sér algerlega yfir mér og er þeim fyrirgefið. Þetta er mikil tilfinningavinna og reynir á alla þætti mannlegs atferlis.

Já að vera aðstoðarleiksktjóri er margbrotið starf og margir endar að halda í og aðrir sem maður þarf að reyna að sleppa þar sem aðrir eiga að halda í þá. Meðalvegurinn er vandrataður. En ég er afar stolt af leikhópnum mínum þessa dagana. Leikararnir kunna flestir textann sinn upp á 10 og stöðurnar eru að skýrast. Ekki síður er ég stolt af öllu fólkinu sem lagt hefur okkur lið á einn eða annan hátt í sjálfboðavinnu eftir vinnudag hjá sér.

Fólk er búið að þeytast um alla bæ að redda hinu og þessu. Það er búið að smíða, mála, sauma, tengja, bora, þrífa og finna út úr öllum mögulegum og ómögulegum hlutum svo fátt eitt sé talið. Allir eins og ein stór fjölskylda með bros á vör. Ef það eru ekki forréttindi að vinna með svona fólki þá veit ég ekki hvað.

Í gærkvöldi kom smíðaflokkur og lagaði áhorfendapallan okkar og ég hef grun um að þegar ég kem á svæðið í dag verði líka búið að teppaleggja þá með spánýju teppi.

En stærstu fréttirnar eru samt eflaust sá stóri sigur í sögu Halaleikhópsins að við erum að sjá fram á að geta keypt það sem okkur hefur dreymt um lengi, lengi tölvustýrt ljósaborð. Sem hópurinn ætlar að gefa sjálfum sér í 15 ára afmælisgjöf. Loksins aðgengilegt ljósaborð þannig að nú höfum við fleiri möguleika fyrir tæknimennina okkar sem hafa unnið hörðum höndum, jú hef líka grun um að þegar ég kem í dag sé verið að setja upp ljóskastara um öll loft. :-)

Engin ummæli: