28.9.06

Skrítinn þjóðflokkur

Íslendingar eru alltaf samir við sig, öfgafullir og samtaka eða sundraðir og fallnir. Hver hefði trúað því að 15000 manns kæmu á haustkvöldi saman til að mótmæla Kárahnjúkavirkjun. Eftir allan þennan tíma. Meðan örfáir nenntu að koma og mótmæla dag eftir dag í fyrra á Austurvelli. Aðstæður hjá mér þetta kvöld voru þannig að ég var upptekin í fjölskyldumálunum. En hefði gjarnan vilja vera með. Merkilegt hvernig fólk skiftist í tvo hópa annað hvort er þetta frábært hjá Ómari eða þeir sem segja að þetta sé tóm della. Ég stend með Ómari og ber mikla virðingu fyrir þessum eldhuga og náttúrubarni sem hefur verið ötull í áratugi við að kenna þjóðinni að bera virðingu fyrir landi sínu. Hver man ekki eftir Stiklunum td. eða öllum flugferðunum með myndavélina þegar náttúran lætur á sér kræla. Ég segi bara Áfram Ómar.

Hér er slóð á frábærar myndir sem hann sýndi á breiðtjaldi á Austurvelli. Njótið.

Í kvöld var svo annar eldhugi sem kom því í gegn að það skildi myrkva borgina. Nei þá var samstaðan farin út um þúfur. Ég kom mér fyrir ásamt mínum heittelskaða á frábærum útsýnisstað. Því miður var skýjað en mig langaði að njóta dulúðar myrkursins. Götuljósin slökknuðu eitt og eitt, frábær sjón. En því miður voru fyrirtæki borgarinnar til skammar, þar voru flóðljós sem lýstu í allar áttir og auglýsingaskilti blikkuðu og bílljós út um allt. Hvar var samtakamátturinn þá. Ég vona bara að þetta verði gert aftur og þá markvisst unnið í því að fá atvinnurekendur til að taka þátt.

Engin ummæli: