Hér mun ekki koma neinn áramótapistill að sinni. En ég vil nota þetta tækifæri og óska lesendum mínum Gleðilegs nýárs og þakka fyrir liðið ár. Sérstaklega vil ég þakka fjölskyldu minni fyrir alla þolinmæðina og umburðarlyndið við mig. Og vinum fyrir vináttuna og kærleikann.
31.12.06
Til hamingju með afmælið Hannes og Pálmi Þór
30.12.06
Til hamingju með afmælið Óskar Örn og Inga Aðils
Ferðafélagi minn hún Inga Aðils á líka stórafmæli í dag, við Inga höfum brallað ýmislegt saman ferðast innanland sem utan og tekið þátt í að safna fyrir geðsjúkrahús í Gambíu, þessi mynd var tekin þegar við vorum að pakka í gám til að senda út síðast. Til hamingju Inga mín.
26.12.06
Jólamyndirnar
Palli bróðir og Frosti voru sem sagt hjá okkur í mat og við borðuðum ma. gamaldags lambahrygg. Vorum svaka ánægð með hann öll sömul. Við vorum svo róleg og afslöppuð að við næstum gleymdum að opna pakkana en það hafðist og ýmislegt skemmtilegt kom úr þeim. Eftir eftirréttin var svo skundað upp í Blikahóla í kaffi til Sigrúnar Óskar og fjölskyldu.










Jóhann Auðunn kom öllum á óvart og dró upp gítar og spilaði og söng fyrir okkur af mikilli innlifun. Frábært hjá honum það vantar ekki hæfileikana á þeim bæ. Takk Jóhann
Annan í jólum var svo næsta fjölskylduboð hjá Palla og Frosta þar sem við vorum og Lovísa og Gabríel. Hér er hann í nýju peysunni sem strákarnir gáfu honum. Mikið er skreytt hjá Palla ma. má sjá að grímurnar á veggjunum fengu jólasveinahúfur.
Gabríel er mikill íþróttaálfur og þurfti mikið að hoppa og sófinn var góður lendingastaður. Hann þurfti að hafa hælana út úr sokkunum svo hann gæti stokkið hærra :-) Hann naut þess að vera eina barnið og fékk alla athyglina.
Hér er hann í peysunni sem Stebbi sendi honum frá Noregi.




Palli fór að rifja upp gamla takta við að setja saman Lego en eitthvað er honum farið að förlast kallinum, en þeir skemmtu sér stórvel við þetta. Lovísa ætlar held ég að taka þetta sundur og setja aftur saman þegar heim kemur. Ég sem hélt þetta væri barnadót :-)
24.12.06
Gleðileg jól

Megi friður vera með ykkur
19.12.06
ýmislegt bilar þegar verst á stendur
Annars er allt í gúddý og rólegheitum hér. Hekla og Ingimar settu upp jólatréð í gær og skreyttu svo það er englaþema í ár ;-)
Jólagjafirnar eru flestar komnar í hús svo nú eru það matarinnkaupin sem eru efst á verkefnalistanum. Annars ætlum við að skella okkur í jólaljósaferð til Reykjanesbæjar seinnipartinn og njóta aðventunnar með góðum hóp af Hátúnssvæðin.
16.12.06
15.12.06
Palli til hamingju með afmælið

Annars er allt gott að frétta þó bloggletin sé viðvarandi þessa dagana. Saumavélin hefur átt hug minn allan. Var að enda við að sauma hárautt utan um allar sessurnar á stólunum mínum og svuntu í stíl. Auk annars tilfallandi.
Nú og ekki má gleyma föndrinu sem er alltaf að ná nýjum hæðum. Fór á námskeið í lampagerð á þriðjudaginn og gerði þennan líka fína jólalampa úr hleðslusteini og servettum. Svo kláraði ég jólakortin í vikunni og setti í póst 54 og öll handgerð. Æ þetta finnst mér svo skemmtilegt.
Nú og svo eru bara 9 dagar til jóla og jólasveinarnir mínir farnir að týnast af fjöllum einn af öðrum. Já ég er jólastelpa og elska þennan árstíma.
11.12.06
Sigrún Jóna 60 ára
10.12.06
Jólapera :-)

9.12.06
Róleg vika
Mér finnst ekkert atriði að mæta á allar uppákomur sem eru í auglýsingaskyni að mestu út um allan bæ. Er bara búin að kaupa eina jólagjöf og pollróleg með restina. Ekki það ég gef mjög fáar jólagjafir og bara til allra allra nánustu fjölskyldumeðlima.
Við Hekla, Stebba, Labbi og Ásdís fórum á fimmtudagskvöldið í Þjóðleikhúskjallarann á jólabónusdagskrá Hugleiks og var það hin besta skemmtun, þó verkin væru misvelheppnuð. Söngurinn var frábær og greinilega miklir hæfileikar meðal Hugleiksfélaga.
Þjóðleikhúsið stóð sig aftur á móti ekki eins vel. Okkur var sagt það væri komin þessi fína lifta niður í kjallarann og ekkert vandamál með aðgengið. Raunin varð önnur. Áður en við lögðum af stað hringdi ég í starfsmann sem ég þekkti og spurði hvar við ættum að fara inn. Jú jú bara gamla innganginn næst Þjóðmenningarhúsinu. Ok við mættum þangað ekkert nema tröppur. Líka hinum megin þar sem skábraut er þegar verið er að sýna uppi. Ég fór inn að spyrjast fyrir, enginn vissi neitt og enginn starfsmaður Þjóðleikhússins tiltækur. Við fórum að þreyfa okkur áfram fundum lyfturnar 2 mjög fínar. Ok ekkert mál strákarnir kippa þeim sem eru í hjólastólum upp útitröppurnar. En þá tók nú ekki betra við stóra fína lyftan virkaði bara alls ekki. Fjöldi stráka kom og reyndi að ýta á alla takka en ekkert gekk. Á endanum varð að bera stólana niður og upp aftur. Lyftan niður í salinn var aftur á móti fín en reyndar aðeins bakdyramegin týbískt. Mér finnst þetta skömm fyrir Þjóðleikhúsið að hafa þetta ekki í lagi og mann á svæðinu sem getur sett út skábrautir og annað sem til þarf. En Hugleikur var frábær.
En sem sagt framundan er enn sem komið er róleg helgi. Ætla reyndar að kíka á Jólaperu – helgileikinn um Jósef frá Nasaret á Grand rokk á sunnudagskvöldið þar sem Villi ljósálfur er að leikstýra.
6.12.06
Ó engin desemberfærsla
Helgin var góð en strembin. Jólabingóið hjá Sjálfsbjörg gekk vel og var bara gaman. Kórinn klikkaði ekki og er ég stolt að mínum manni þar. Svo var farið á jólahlaðborð á Sögu mjög vel heppnað góður matur og félagsskapur sem hélt saman fram eftir nóttu.
Sunnudagurinn hófst svo á heimsókn í Ikea dótturinni fannst þetta ekki tækt að ég hefði ekki komið í nýju búðina svo það var farin fjölskylduferð þangað. Held foreldrarnir hafi verið að reyna að blekkja Heklu til að setja eitt og annað þaðan á óskalistann enda eru þau með eindæmum mikil Ikeafön :-)
Þá var haldið í hið árlega og yndislega smáköku boð hjá Ollu mágkonu sem bakaði ógrynnin öll af smákökum ofl. og bauð allri fjölskyldunni. Þetta er einn af þeim siðum sem mér finnst ómissandi. Takk Olla mín.
Á sunnudagskvöldið var svo haldið úr bænum og við skelltum okkur í leikhús í Mosó og sáum Varaðu þig á vatninu þetta var góð kvöldstund með miklum hlátri. Vel gert hjá mosfellingum. Takk fyrir mig.
Mánudagurinn rann svo upp með fundarhöldum fyrst fyrir Halann í fjáröflunarskyni og svo niður í Vin þar sem við vorum að taka formlega við hinum höfðinglega styrk frá Fons til Ferðafélagsins Víðsýn með kjötbolluveislu. Um kvöldið datt ég svo í jólakortagerð og er búin að handgera góðan bunka ;-)
Í gær var svo jarðaför sem tók daginn að mestu. Mikill heiðursmaður kvaddur. Fór svo í saumaklúbb í gærkvöldi var ekki afkastamikil þar. Komst að því að fjaðrir eru ekki heppilega í vængi á englum ?
Í dag er ég svo á leið úr bænum aftur nú til Reykjanesbæjar með Víðsýn ætlum að skoða bítlasafnið og heimsækja Björgina og fara svo jólaljósarúnt á heimleiðinni.