9.12.06

Róleg vika

Já það er lítið jólastress á þessu heimili þetta árið. Var á msn að ræða við vinkonu mína í gærkvöldi og hún var að spyrja hvað ég ætlaði að afreka um helgina. Hún varð hálf hvumsa þegar ég sagðist aðallega hafa þau plön að liggja í leti og bara gera það sem mig langaði til.

Mér finnst ekkert atriði að mæta á allar uppákomur sem eru í auglýsingaskyni að mestu út um allan bæ. Er bara búin að kaupa eina jólagjöf og pollróleg með restina. Ekki það ég gef mjög fáar jólagjafir og bara til allra allra nánustu fjölskyldumeðlima.

Við Hekla, Stebba, Labbi og Ásdís fórum á fimmtudagskvöldið í Þjóðleikhúskjallarann á jólabónusdagskrá Hugleiks og var það hin besta skemmtun, þó verkin væru misvelheppnuð. Söngurinn var frábær og greinilega miklir hæfileikar meðal Hugleiksfélaga.

Þjóðleikhúsið stóð sig aftur á móti ekki eins vel. Okkur var sagt það væri komin þessi fína lifta niður í kjallarann og ekkert vandamál með aðgengið. Raunin varð önnur. Áður en við lögðum af stað hringdi ég í starfsmann sem ég þekkti og spurði hvar við ættum að fara inn. Jú jú bara gamla innganginn næst Þjóðmenningarhúsinu. Ok við mættum þangað ekkert nema tröppur. Líka hinum megin þar sem skábraut er þegar verið er að sýna uppi. Ég fór inn að spyrjast fyrir, enginn vissi neitt og enginn starfsmaður Þjóðleikhússins tiltækur. Við fórum að þreyfa okkur áfram fundum lyfturnar 2 mjög fínar. Ok ekkert mál strákarnir kippa þeim sem eru í hjólastólum upp útitröppurnar. En þá tók nú ekki betra við stóra fína lyftan virkaði bara alls ekki. Fjöldi stráka kom og reyndi að ýta á alla takka en ekkert gekk. Á endanum varð að bera stólana niður og upp aftur. Lyftan niður í salinn var aftur á móti fín en reyndar aðeins bakdyramegin týbískt. Mér finnst þetta skömm fyrir Þjóðleikhúsið að hafa þetta ekki í lagi og mann á svæðinu sem getur sett út skábrautir og annað sem til þarf. En Hugleikur var frábær.

En sem sagt framundan er enn sem komið er róleg helgi. Ætla reyndar að kíka á Jólaperu – helgileikinn um Jósef frá Nasaret á Grand rokk á sunnudagskvöldið þar sem Villi ljósálfur er að leikstýra.

Engin ummæli: