25.11.06

Allt að róast

Jæja þá fer að róast hjá mér aftur eftir verkefni haustsins.

Föstudagurinn hófst með mikilli baráttustöðu fyrir utan ráðherrabústaðinn. Þar sem við komum saman meðan ríkisstjórnarfundur var og mótmæltum svikum menntamálaráðherra við Fjölmenntina á Túngötunni. Mikil stemming var og gaman, allir ráðherrar fengu afhenta ályktunina frá baráttufundinum á miðvikudag og útprent af mbl.is, þar sem menntamálaráðherra lofaði að tryggja málefninu nægt fjármagn. Við vorum nú að hugsa sum meðan við stóðum þarna fyrir utan undir eftirliti lögreglu að ekki þyrftum við nú meira fjármagn en sem næmi tveimur ráðherrabílum sem stóðu þarna svartir og gljáfægðir á meðan.

Skunduðum svo á Alþingi þar sem setjast átti á þingpalla meðan atkvæðagreiðsla um fjárlögin stæðu yfir. En lýðræðið er nú skrítið þar núna ekki má hleypa meir en 28 upp þar sem ekki eru fleiri sæti. Man nú vel þá tíð ekki fyrir margt löngu að maður stóð þarna í stöppu að fylgjast með. Kannski erum við orðin svo hættulegur flokkur öryrkjaskríllinn að ekki sé þorandi að leyfa okkur að sitja á þingpöllunum. Allavega var okkur úthýst.

Í gærkvöld var svo lokasýning á Þjóðarsálinni frábær sýning og skemmtilegt samstarf sem nú er lokið. Mikill tregi í gangi. Flott lokapartý með rauðu þema. Ég á eftir að sakna þess hóps þar er á hreinu.

Gallinn við leiklistarverkefni er að þau eru svo krefjandi yfirleitt að maður dettur oftast í tómarúm fyrst á eftir. Í þessu tilviki var þetta kannski ekki svo krefjandi fyrir mig en maður kynntist fullt af fólki sem maður á kannski ekki eftir að hitta svo mikið meir. Snökt snökt.

Í dag dreif ég mig svo á fund hjá Kvennahreyfingu ÖBÍ þar sem minn kæri prestur séra Auður Eir flutti erindi og kom færandi hendi. Alltaf mannbætandi að eiga stund með þeirri konu. Og öllum hinum sem komu.

Stebba kom svo í kaffi og við áttum saman notalegt spjall yfir kaffibolla og skipulögðum ýmislegt og skráðum okkur ma. á námskeið í skartgripagerð ásamt 2 öðrum vinkonum eigum bara eftir að segja þeim frá því :-)

Svo drifum við hjónakornin okkur upp í fjöllin og heimsóttum dóttur okkar og fjölskyldu þar sem okkur var boðið upp á dýrindis marenstertu og notalegheit.

Ætla nú að kveikja á kertum og hafa það kósi áfram það sem eftirlifir dags.

Engin ummæli: