2.11.06

Næturævintýri

Var að koma úr 40 ára afmæli hjá Samkór Kópavogs, frábærir tónleikar. Takk fyrir Olla mín.

Er annars hálf beygluð öll í dag. Fann fyrir ellinni einhvernveginn. Rifbeinin eru búin að vera í stuði síðustu daga og kvalirnar mig lifandi að drepa, en ég læt það svo sem ekkert aftra mér. Ég er mjög meðvituð um að leyfa ekki verkjum og vanlíðan ná tangarhaldi á lífi mínu. Þau eru búin að fá sinn tíma og nú er minn tími.

Veit ekki hvort þið skiljið hvað ég er að fara. En það er þannig að maður er líkami og sál og það er hægt að skilja að líðan á þessum tveimur sviðum, þó þau séu nátengd eins og ég veit best sjálf. Þegar ég á svona daga eins og undanfarið þá reyni ég að passa að hafa heilann svo upptekinn að líkaminn komist sem minnst að.

Æ hvaða bull er þetta ég get ekki einu sinni útskýrt það sjálf ;-)

En allavega þá var Hekla hjá okkur í gær og dag enda komin í viku vetrarfrí og múttan flogin til Köben, alltaf jafnindælt að hafa prinsessuna hjá sér. Nema í nótt hún var komin með hita í gærkvöldi og sofnaði snemma. Kl. 2 í nótt reis hún upp í rúminu með látum og vildi á fætur því hún gæti ekki sofið. Þetta er svo ólíkt minni sem er alltaf eins og hugur manns. Sú stutta var bara æst og sjóðheit. Mér tókst að lempa hana og knúsa hana í ró aftur og uppí rúm til okkar kom hún og sættist á að fara að sofa aftur. Eftir smábags með kodda og sængur sofnaði hún öfug í rúminu á milli okkar. Sem sagt höfuðið til fóta.

Ég var rétt að sofna aftur þegar hún byrjaði mikinn stríðsdans með fótunum sem voru rétt við andlitið á mér. Svoleiðis gekk það alla nóttina og svefn minn varð ekki mikill. Komst að því í morgun að ég væri gömul ;-( Er það nema von ég segi ekki annað.

Sú stutta er að hressast og ég líka ;-)

Engin ummæli: