22.4.06

Martröð sýningarstjórans

Í gær var skelfilegur dagur í lífi mínu sem sýningarstjóri. Ég skil ekkert í mér að hafa tekið þetta að mér enn einu sinni. Fyrir 4 árum var ég lóðsuð inn í þetta án þess að hafa nokkra hugmynd um hvað það væri. Síðan hefur eitt leitt einhvern veginn af öðru og í ár er ég sýningarstjóri hjá Halaleikhópnum fjórða árið í röð. Þvílík della, aldrei lærir maður af reynslunni. Hnippið í mig á næsta ári í janúar 2007 og minnið mig á 21. apríl 2006.

Sýningarstjóri ber ábyrgð á sýningunni að allir mæti sem koma að sýningunni og geri það sem fyrirfram hefur verið ákveðið, ss. leika, lýsa, aðstoða, miðasala osfrv. Einnig að grípa inní ef eitthvað fer úrskeiðis og leysa mál sem koma uppá hvað svo sem það er. Passa að sýningin gangi eðlilega fyrir sig, byrji á réttum tíma og þess háttar. Auk ýmissa fleiri atriða sem ég er alltaf að gera mér betur og betur grein fyrir með reynslunni.

Á ýmsu á maður von í þessu starfi og undarlegar eru sumar reddingar sem maður hefur farið í en ekki átti ég von á aðaluppákomu gærdagsins.

Ég vissi að einn af okkar bestu leikurum var búinn að vera veikur og raddlaus svo við tók strang bænahald um að röddin og heilsan verði með þeim hætti að hann gæti leikið. Frétti um morguninn að hann hefði lítið sofið um nóttina vegna hósta svo ekki lofaði það góðu. En um hádegi ræddum við saman og hann var ansi rámur en ætlaði að reyna. Heyrði aftur í honum seinna um daginn þar sem hann staðfesti komu sínu. En ekki leist mér of vel á röddina. En treysti mínum manni enda stóð hann sig frábærlega í sýningunni þrátt fyrir að vera sárlasinn.

Við vorum með fullt hús í gær sem alltaf er gleðilegt sérstaklega á tímum hinnar miklu samkeppni þegar verið er að leika í öllum húsum bæjarins.

Það er regla hjá okkur að allir mæti 2 tímum fyrir sýningu nema um annað sé samið og það hefur gengið eftir, stundum hafa sumir verið pirraðir yfir þessu en eitt verður yfir alla að ganga eða svo höfum við haft það. Í gær varð mér ljóst mikilvægi þessarar grundvallarreglu.

Sumir hafa fengið að teygja tímann vegna vinnu og annars og allt í lagi með það enda allt undir kontról. Í gær mættu allir nema tveir á umsömdum tíma þegar klukkutími var í sýningu fór ég að ókyrrast ekki það að ég treysti þessum leikurum ekki til að skila sér heldur bara svona einhver hugboð. Sendi sms á þá og annar birtist fyrir horn en í hinum heyrðist ekki neitt.

Stressið fór að taka völdin hjá mér og ég hringdi í kauða en það var slökkt á símanum. Fór að sinna ýmsu öðru og fékk aftur stresskast og hringdi aftur sama slökkt á símanum. Hringdi í heimsímann náði tali af móður hans hún var búin að leita af honum í tvo tíma og búin að hringja um allt að leita af honum. Úbs nú fór maginn í hnút áhorfendur að streyma í hús og leikarinn týndur.

Leikarahópurinn fór líka að ókyrrast verulega. Ég reyndi að halda andliti hafði ekki guðmund um hvað ég ætti eiginlega að taka til bragðs. Gat eiginlega ekki talað við formanninn sem var inn í förðun og gjaldkerinn var á tali við áhorfendur. Milljón hugsanir streymdu um hugann. Hvað gerir maður í þessum aðstæðum.

Sendi sms á tvo vini hans, ekkert svar. Hringdi á vinnustað hans og fékk samband áfram og það slitnaði, þetta skeði þrisvar. En símastúlka fullvissaði mig um það sem ég svo sem vissi að hann ynni ekkert svona lengi. Bað samt um í örvæntingu minni að það yrði leitað að honum á vinnustaðnum og hann beðinn að hringja í mig. Eitthvað hefur ég hljómað undarlega því það var gert og þetta er sko ekki vinnustaður þar sem spáð er í svona hluti.

20 mín í sýningu og ég úti á plani bak við hús í símanum að hringja í allar áttir að leita andskoti leið mér illa. Tek ákvörðun um að hleypa áhorfendum í salinn og fer að hugsa um hvern andsk ég geti sagt við fólkið. Næ í rassgatið á gjaldkeranum og dreg hana út mér á trúnó um málið við hárreittum okkur og hugsum saman í marga hringi og komumst að engri niðurstöðu.

Fer inn og ræði aðeins við leikarana og þar voru komnar upp ýmsar hugmyndir um afdrif kauða og lausnir á málinu. Þó ekkert nothæft í hvelli. Já ef loftið í Halanum var ekki rafmagnað þessar mínútur þá veit ég ekki hvað. Alveg gleymdi ég og Stebba að setja plöntur í blómavasann í leikmyndinni og ýmislegt fleira smálegt gleymdist í spennunni.

12 mín í sýningu kom sms: kem eftir 5............

Hjúkk þvílíkt adrenalínsflæði. Kauði hafði bara ruglast á dögum og verið með slökkt á símanum en var á vinnustaðnum enn og kom brunandi í taxa 5 mín fyrir sýningu. Knúsaði hann bara og sagði Gleðilegt sumar. Já skil ekkert í mér að taka þetta að mér. Svo ég treysti bara á að þið minnið mig á þetta í janúar 2007.

En eftirá ræddum við saman leikarahópurinn og ýmsar fyndnar hugsanir komu í ljós hugurinn er svo merkilegt fyrirbrigði og frjósemi hugsana fór í hámark á ýmsum stöðum og örugglega mætti skrifa heilt leikrit um það sem fór fram í huga þessa hóps sem stóð að þessari sýningu sem byrjaði aðeins 3 mín of seint og tókst bara mjög vel. Þrátt fyrir allt adrenalínið og loftleysið ég gleymdi nefnilega í hamaganginum fyrir sýningu að kveikja á annari viftunni sem sér um súrefnisflæði í salnum og svo var logn og blíða úti sem er ekki uppáhaldsveður okkar á sýningarkvöldum.

En allt er gott sem endar vel og í dag birtist svo langþráð gagnrýni um sýninguna í Mogganum og er ég bara nokkuð glöð í bragði og stolt af mínu fólki eftir lesturinn. Það var svolítið langt síðan gagnrýnandinn kom og ég fór að grúska í því í vikunni hvers vegna þetta kæmi ekki og frétti að það stæði á birtingu í Mogganum það hefur verið einhver stífla það og ég átti ansi furðulegt samtal við starfsmann mbl um birtingar en hvað um það kannski ýtti það við allaveg kíkið í Moggann í dag og ef einhver á eftir að koma á sýningu þá eru síðustu forvöð sýningum fer að ljúka.

Engin ummæli: