14.11.05

Fyrsti hluti ferðasögunnar:

Mánudagur: vaknaði um miðja nótt til að fljúga til Köben ömurlegir flugtímar skil ekkert í þessu. Jú auðvita þarf maður sinn tíma í fríhöfninni en come on allavega Nýtti tímann í fluginu með hljóðsnælduna og glósubókina því það er enskupróf á mánudaginn (í dag og gekk bara vel ;-)

Í Kóngsins köben beið okkar rúta sem flutti þennan skemmtilega hóp beint upp á hótel. Þetta er 20 manna hópur frá Vin, athvarfi fyrir geðfatlaða sem Rauði Kross Íslands rekur, gestir, sjálfboðaliðar og staff.

Ekki var nú stoppa lengi við á hótelinu heldur hoppað upp í næsta taxa og beint á Strikið. Um leið og áttum var náð fórum við inn á næstu krá og fengum okkur dansk smurbrauð og öl að sjálfsögðu. Síðan var Strikið arkað með viðkomu í hinum ýmsu búðum og kaffihúsum. H og M skoraði hæst eins og venjulega. Ekki verslaði ég þó neitt af viti. Lét Fanney alveg um það ;-)

Löbbuðum svo í Nýhöfninni í myrkrinu og nutum ljósadýrðarinnar og að vera saman í útlöndum. Þetta kvöld var borðað á hótelinu og svo skellt sér beint á barinn þar sem setið var að sumbli fram eftir kveldi.

Þriðjudagur, líka vaknað fyrir allar aldir og nánast beint út á Kastrup, flugum til Malaga þar sem var líka lært í flugvélinni þrátt fyrir syfju. Þar beið okkar líka rúta sem keyrði okkur til Benalmadena á Puerto Marina Benalmeda Riu hótelið 4 ½ stjörnu hótel. Þvílíkur lúxus þetta var eins og að vera um borð í Titanic. Held enginn okkar hafi áður upplifað annað eins.

Fyrst var fundur með hópnum þar sem farið var yfir stöðuna og málin rædd yfir léttum miðdegisverði. Svo var labbað um næsta nágrenni til að ná áttum. Mjög góð staðsetning 3 mín niður að höfn þar sem skemmtisnekkjur láu í bunkum. 70 metrar á ströndina sem reyndist tilheyra Torrimolinos sem var handan við hornið á okkar splunkunýja hóteli. Frábær staður, allt við hendina og stórmarkaður á hinu horninu ásamt fullt af litlum stöðum og göngugötu rétt ofar með enn fleiri túristabúðum. Við vorum komin í himnaríki og mikil kátína í liðinu. Áttum þó eftir að komast að aðal draumnum á hótelinu.

Allri mættu svo uppáklæddir í kvöldverð á hótelinu sem var innifalinn í gistingunni og þar duttu nú allar dauðar lýs úr okkur Vinjurum. Þvílíkt og annað eins var ekki einu sinni til í okkar villtustu draumum. Við fengum borð sem við héldum allan tímann sem við dvöldum á hótelinu.

Fyrst var haldið á forréttahlaðborð sem var örugglega 10 metra langt beggja vegna með öllu mögulegu á Nammi namm. Auk súpuborðs !!! Svo var annað eins aðalréttaborð heldur styttra þó en alveg magnað þar sem kokkar elduðu jafnóðum allan matinn þannig að allt var fersk og fínt. Svo var steikarhlaðborð og pitzaborð brauðborð og síðast en ekki síst magnað eftirrétta hlaðborð og íshorn að maður tali nú ekki um vínið. Þjónustan var frábær og allt perfekt.

Nema þar þurfti ég að takast á við eina fóbíu mína enn fuglafóbíuna það var lítill fugl sem hélt til að mestu uppá málverki nálægt borði mínu. Þeir sem mig þekkja vita að það getur lagt mig í gólfið að fugl flögri í kringum mig. En ég vann einn sigur þar tókst að halda andliti þrátt fyrir ótta og lét sem ekkert væri þó hjartað hamaðist.

Eitt er víst að ekki léttist maður í þessu ferðalagi þrátt fyrir mikið labb. Svo var farið í næsta sal þar sem var bar og skemmtistaður sem var með lifandi atriði á hverju kvöldi. Þetta kvöld var það töframaður sem tróð uppi. Hann tók gesti upp og Gugga lenti í því fyrir okkar hönd og stóð sig eins og hetja í blöðruatriði. Í lok sýningarinnar spurði hann hver ætti þessi fimm úr sem hann hélt á, þá hafði hann stolið úrum af öllum sem upp komu án þess að neinn tæki eftir því alveg magnaður.

Það voru sælir Vinjarar sem sofnuðu við Miðjarðarhafið þessa nótt.

Engin ummæli: