24.12.04

Hugleiðing um jólahefðirnar

Nú eru jólin alveg að sigla inn allt er tilbúið eða þannig. Desember hefur verið góður þetta árið hjá mér. Ekkert stress og bara tóm gleði við jólaundirbúninginn þó heilsan hafi verið að stríða mér ferlega þá var það bara eitthvað sem ég mátti búast við eftir annasaman nóvember.

Ég hef ekki alltaf getað sagt þetta þar sem ég kem úr alkóhólískri fjölskyldu þá var þetta oft á árum áður einn mesti kvíðamánuðurinn, maður var að lesa í allskyns hegðun og munstur sí og æ og naut sín engan veginn. Alltaf komu jólin þó ýmislegt gengi á og þau voru misgóð stundum slæm. Merkilegt hvað maður heldur lengi í slæmu minningarnar en gleymir hinu góða.

Fyrir nokkrum árum fór ég í fimm ára geðmeðferð þar sem ég tókst á við mikið þunglindi og kvíðaröskun sem hafði plagað mig lengi. Þar lærði ég að sleppa tökunum á slæmu minningunum og taka gleðina inn í hjarta mitt á ný. Frábær meðferð sem aðeins útvaldir sjúklingar fengu á þessum tíma og er eftir því sem ég veit best aflögð í dag. Nú þarf víst að lækna fólk í einum hvelli og skila arði. Hef aldrei skilið hvernig það gengur með sálarleg veikindi. Enda er ástandi í geðheilbrigðismálum eftir því.

Jæja en ég var heppinn fékk þessa meðferð og hún heldur enn tveimur og hálfu ári eftir að ég útskrifaðist. Ég lærði hvernig ég á að haga lífi mínu með tilliti til minna veikinda og gengur það bara nokkuð vel, þó ýmislegt mætti ég enn bæta í mínu fari en engin áramótaheit hér og nú. En af hverju fer ég að tala um þetta núna jú það eru að koma jól og mig hlakkar svo til í stað þess að vera full kvíða. Ég hef lært að þó ýmislegt breytist milli ára og þó vandi sé hér og þar þá er alveg hægt að njóta augnabliksins.

Jólahefðirnar eru með ýmsu móti en þegar um börn alkóhólista er að ræða þá eru þær oft haldreipið sem maður heldur fast í þó svo alkóhólisminn sé farin úr lífi manns þá halda þær áfram að vera mikilvægur öryggisventill. En svo breytist nútímafjölskyldan frá ári til árs og við þurfum að sýna aðlögunarhæfileika líka með jólahefðirnar.

Í ár hefur mín nánasta fjölskylda aðeins breyst. Dóttir mín Sigrún Ósk fór aftur að búa með barnsföður sínum honum Bjarna og er það bara frábært óska ég þeim bara gæfu og gengis í lífinu. Þau ætla að halda sín jól á sínu heimili með dætrum sínum og er það bara gott mál þó ég sakni þess ansi mikið að hafa þau ekki hjá mér, þetta er spurningin um að sleppa tökunum á börnunum sínum. Ég kíki bara í kaffi til þeirra seinna um kvöldið og fæ að knúsa þau.

Villi bróðir og Guðmundur mágur eru fluttir alfarnir til Suður-Afríku en með þeim hef ég átt ansi miklar jólahefðir og áramótahefðir síðustu árin en þá er bara að búa til nýjar hefðir. Til dæmis fór ég alltaf með þeim og áttum góða stund í kirkjugarðinum við hin ýmsu leiði. Palli bróðir fór með mér í það í gær ásamt Ödda og Ingimar Atla. Svo var nú vaninn að stinga sér á kaffihús í jólaösinni í 101 en það varð ekkert af því í ár. Átti í staðinn góða stund á kaffihúsi í Smáranum með fjölskyldunni og líka vinum nokkrum sinnum í desember.

Svo bættist einn fjölskyldumeðlimur við hann Frosti vinur hans Palla og bíð ég hann hér formlega opinberlega velkominn í fjölskylduna og hlakka mikið til að eyða góðum stundum með honum áfram eins og ég er búin að gera mest allt þetta ár. Hann ætlar að borða með okkur í kvöld og er meira en velkominn.

Það er sem ég segi bara að búa til nýjar hefðir þegar þær gömlu ganga ekki upp lengur. Og njóta jólahátíðarinnar í botn hvað svo sem hún hefur upp á að bjóða. Halda í góðu tilfinningarnar og sleppa tökunum á því sem hryggir mann og dregur niður. Það er hægt að stjórna eigin líðan mjög mikið með því að beina hugarfarinu inn á jákvæðar og uppbyggjandi slóðir.

Vá ég hef fengið skrifkast en eigi þið öll Gleðileg jól og takk fyrir að heimsækja síðuna mína. Gaman væri að fá comment öðru hverju, leiðbeiningar eru í bloggi frá 2. des sl.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Ása, María hér.
Takk fyrir góðan pistil. Ég vil óska ykkur Erni gleðilegra jóla og heillaríks nýs árs með þökkum fyrir það liðna.
Sjáumst á samlestri 3.jan.
Jólakveðja, María

Nafnlaus sagði...

Gott að lesa skrifin þín. Mig langar að óska þér og Erni gleðilegra jóla og þakka ykkur fyrir allar góðar stundir.
Kær kveðja
Edda V. hali

SOS.SA sagði...

Hae elsku besta systir

Takk fyrir ad vera tu og ad deila tessum tilfinningum med odrum. Ekki margir sem myndu vilja gera tad.

Svo segi eg nu bara Jola hvad? Hefdir, smedir, ledir. Nyjir tima tyda nyjar hefdir. Stundum verda hefdir lika ad skildum og ta eru taer ekki lengur skemmtilegar. Nu er timinn til ad bua til nyjar hefdir eda hefdarlaus jol og nyar.

Elska tig og sakna tin.
Tinn brodir - Villi
Og uppahalds magurinn tinn - Gudmundur