17.12.04

Óvænt prik

Það kom að því sem ég hélt aldrei ætti eftir að gerast, Davíð Oddson fær prik hjá mér fyrir framgöngu sína í máli Bobby Fishers. Batnandi mönnum er best að lifa en honum tókst nú að klúðra viðtalinu við blaðamenn þegar hann fór að tala um alla vitleysingjana á Íslandi. Jæja en eitt prik.

Í dag fór ég á Litlu Jólin í Vin og átti þar góða stund með vinum mínum Jóna Hrönn kom og las upp fyrir okkur jólavísur undir borðhaldi og svo kom hljómsveit og spilaði jólamúsík. Hátíðlega og notaleg stund ekki síst fyrir þær sakir að ein fyrrverandi fastagestur Vinjar bauð upp á matinn komplett Hangikjet með öllu hugsanlegu meðlæti og eftirrétt rausnarlegt það. Sá vinur vill ekki láta nafns síns getið en hefur náð sér vel af þunglyndi sem hrjáði hann í mörg ár og er kominn í góðar álnir. Vildi tjá þakklæti sitt með þessum hætti. Frábært takk fyrir mig.

Í kvöld fór ég svo með mínum heittelskaða á skólaslit í Fjölmennt. Þar var mikil músík og fínerí að hætti hússins, mikil uppskeruhátíð. Það sem bar aftur á móti skugga á var að stjórnvöld hafa enn ekki gefið svar við áframhaldandi fjárveitingu fyrir þennan mikilvæga skóla. Öllum þingmönnum og ráðherrum var boðið í kvöld en ekki einn einasti mætti. Fussum svei segi ég bara við þá herra og frúr sem eru ekki að standa sig í stykkinu..............

Ég var næstum búin að skrifa hér mikla skammarræðu og nöldur en ákvað að hemja skassið og muna jólaskapið. Skrifa örugglega um þetta og fleira neikvætt sem ég hef verið að pæla í eftir jól. Bannað að draga eitthvað neikvætt upp ef hægt er að komast hjá því. Það er vika til jóla og tvær vikur til áramóta og 17 dagar í að Halaleikhópurinn fer á fullt í Kirsuberjagarðinn <:-)

Engin ummæli: