Síðustu daga hef ég verið að taka afleyðingum af vinnutörninni í lok skólans. Er búin að vera full af vöðvabólgu, vefjagigtin á hástigi og Mígreniköstin fleiri en ég get talið. Auðvitað vissi ég alveg að þessu mætti búast við en var að vona að ég fengi frið.
Fyrir nokkrum árum tók ég þá ákvörðun að láta ekki verki og vanheilsu stjórna lífi mínu og hefur það gengið nokkuð vel á köflum svo koma slæmu kaflarnir á milli og eru hreint helvíti en þá er bara að muna hver stjórnar. Ég er búin að vera að reyna að vera skynsöm og slaka á og hafa það notalegt enda ekkert stress í gangi á mínum bæ fyrir þessi jól.
En ég er einu sinni þannig gerð að ég er með ofvirkan heila og er alltaf að fá einhverjar hugdettur um að gera þetta og hitt. Skil ekki af hverju ég er ekki sköpuð með heila í stíl við líkamlega færni. Jú jú ég gæti verið duglegri við að hugsa um skrokkinn en jæja nú er ég komin í tóm leiðindi. Ég hef sem sagt verið önnum kafin undanfarna daga við að gera ekki neitt. Búin að skreyta hátt og lágt og þó ekki búin að setja upp jólatré enn. Sit og sauma út, föndra og ýmislegt smálegt.
Keypti fyrstu jólagjöfina í dag fyrir hann Jón vin minn sem bíður spenntur eftir að fá pakka frá mér en þar sem hann á enga fjölskyldu sem hann er í tengslum við þá ákváðum við í sumar að ég yrði bara fjölskyldan hans. Hann er yndislegur og mig hlakkar mikið til að fá pakka frá honum.
Ég hef enn ekki þorað að eiga við bakaraofninn eftir síðust uppákomu en hver veit hvað gerist næstu daga.
Jólasveinarnir hafa enn ekki sett neitt í skóinn minn en ég fer snemma að sofa og held í vonina. Í nótt er von á Þvörusleiki, kannski ég laumi einhverju gómsætu á sleif út í glugga.
14.12.04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli