22.7.05

Flúin inn úr hitanum

Sólin á Íslandi er sko fín í dag og raunar er svo hlýtt að ég er flúin inn enda að kafna úr hita.

En það var ekki bara ég sem þoldi ekki hitann. Við hjónin lánuðum dóttur okkar bílinn um helgina til að komast á skátamótið þar sem við vorum með bílinn hans Palla í pössun.

Ekki dugði hann nú samt betur en svo að þegar við fórum á rúntinn eftir að vera búin að sinna þeim erindum sem við þurftum þá sauð á bílnum. Við rétt komum honum inn í stæði á Ingólfstorgi, sem var svo sem fín staðsetning við hliðina á Ísbúð :-) Spókuðum okkur með í á Ingólfstorgi og röltum svo yfir á bekk á Austurvelli í þessu líka fína veðri. Þegar við vorum um það bil að fá nóg af sólinni þá hringdi síminn, sonurinn þurfti aðeins að láta skutla sér var kominn í tímaþröng eftir að sofa hálfan daginn.

Við brugðumst náttúrulega vel við og bíllinn orðinn kaldur og allt í sóma, skutluðum heim og allt í lagi þegar við leggjum svo aftur af stað fór hitamælirinn að dansa rikkdans fram og til baka en tókst samt að fara á þá staði sem áætlað er í þungri föstudagsumferð og fullt af rauðum ljósum. Á Kleppsveginum var bílnum nógboðið af þessu stússi og mælirinn rauk upp svo við þorðum ekki annað en að stoppa í næsta stæði og kæla gamla skrjóð niður.

Eftir smá stund lét hann eins og engill og við komumst heim með viðkomu í ríkinu þurftum vökvun í hitanum ;-)

Merkilegt annars með þennan bíl hann gengur víst alltaf eins og klukka hjá eigandanum en lætur öllum illum látum þegar aðrir grípa í hann. Við systkinin höfum flest lent í ævintýrum á þessum bíl nema Palli sem á hann í dag en þetta er gamli bíllinn hans Pabba og meira en lítið sérlundaður.

Allavega tókum við ákvörðun um að panta bílaleigubíl í næstu viku þegar okkar ástkæra Kia kemur af skátamótinu og fer í viðgerð eftir hurðarmálið fræga sem ég hef tjáð mig um hér í haust. En nú nýverið fékk ég loksins samþykkt fyrir viðgerð á kostnað tryggingarfélagsins.

Held ég leggi ekki í meiri sól í dag og þó kannski skrepp ég upp í Krika í kvöld

Engin ummæli: