9.11.04

Grímsvatnagosin eru bölvun trölladóttur

Eftirfarandi saga var hluti af frétt í Fréttablaðinu í gær. Mér fannst hún svo skemmtileg að ég ákvað að deila henni með ykkur. Hún sameinar tvö áhugamál mín þ.e. eldgos og þjóðsögur og þessa hafði ég ekki rekist á áður og les þó mikið af þjóðsögum. Það er Júlíana Magnúsdóttir þjóðfræðingur sem er sögumaður.

Það var maður að nafni Vestfjarða-Grímur sem vötnin heita eftir. Hann var skógargangsmaður eftir að hafa lent í vígaferlum á Vestfjörðum. Samkvæmt þjóðsögunni á þetta að hafa verið á þjóðveldisöld. Grímur fór þess vegna upp á hálendið og gerði sér skála við vötn sem núna eru kennd við hann. Þá var veiði í vötnunum og skógur í kringum þau. Eitt sinn þegar Grímur var við veiðar kom risi til hans og gerði sig líklegan til að stela aflanum. Grímur brást ókvæða við, enda skapmaður mikill, og lagði risann í gegn með spjóti sem særði hann til ólífis.

Dóttir risans gróf hann síðan en það gekk brösuglega hjá henni svo Grímur tók sig til og jarðaði risann fyrir hana. Þá vildi svo til að risinn gekk aftur eina nóttinar og ásótti Grím. Hann sá sitt óvænna og gróf risann upp daginn eftir og brenndi hann. Þetta harmaði dóttir risans svo mjög að hún lagði bölvun á Grímsvötn. Hún mældi svo fyrir að eldur brenndi skóginn öðru hvoru.

Þessi bölvun á að vera ástæðan fyrir Grímsvatnagosum. Þessi sami Grímur fór eftir þetta til Grímseyjar og á eyjan að vera nefnd eftir honum.

Að eldri manna sögn var Vatnajökull líka kallaður Klofajökull og það átti að hafa verið skarð í gegnum hann, í raun gönguleið frá Norð-austur landi og yfir á sandana kringum Kirkjubæjarklaustur.

Engin ummæli: