12.11.04

Lenti á slysó

Í ýmsu er nú hægt að lenda. Í dag fékk ég langþráða iðnaðarmenn í heimsókn. Búið að laga lekann á baðinu, festa hurðar sem voru á leið að flýja að heiman og fleira.

Þar sem aðalkallinn var svo vingjarnlegur og duglegur fór ég að tala um bakaraofninn sem hefur ávallt verið ónothæfur til baksturs vegna þess hversu óþéttur hann er. Valur kíkti á hann og tók af honum hurðina m.a. til að skoða hann. Komst að þeirri niðurstöðu að líklega þyrfti bara að skipta um þéttikant á honum.

Ég svaka kát lofa að vera búin að þrífa ofninn næst þegar hann kemur og hóf þá vinnu strax af miklum fídonskrafti. En þegar ég ætlaði að smella hurðin af til að komast betur inn í hann small eitthvað járn úr klemmunni og á hægri þumalinn á mér. Þarna var ég svo föst með puttann inn í löminni á ofninum, blóðið fossaði og ég með hurðina í hinni hendinni. :-( Þetta var sko ekkert fyndið þá.

Sem betur fer voru aðrir heimilismeðlimir nærstaddir og tókst að losa puttann úr klemmunni en þá tók ekki betra við, stykki úr þumlinum lá laust. Ekki var um annað að ræða en skella sér á slysó. Þar sat ég svo á annan tíma á biðstofunni áður en ég komst að. Þakkaði mínum sæla fyrir að vera ekki stórslösuð en verð alltaf fúl á slysó yfir að yfirvöld skuli ekki manna deildina betur til að stytta biðtíma.

Jæja læknirinn hló að sögunni og saumaði stykkið á 5 spor. En sagðist ekki vera bjartsýnn á að þetta greri, bjóst við að drep kæmi jafnvel í þetta þar sem lítið blóðflæði væri þarna. Fékk svo plástur og boð um að koma aftur eftir 12 daga. Já Bakaraofnar eru stórhættulegir það er hægt að slasa sig á fleiri máta en brenna sig á þeim.

Engin ummæli: